Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Sammála Margréti drottningu!

Í samtalsbók sem kom út í Danmörku á dögunum; Dýpstu ræturnar ræðir Margrét Þórhildur Danadrottning við blaðamann Berlinske Tidende, Thomas Larsen, og lýsir meðal annars afstöðu sinni til innflytjendamála og aðlögunar innflytjenda að dönsku samfélagi. Sjá hér og hér. 

Ég hef ekki lesið bókina en hef í morgun verið að glugga í umfjöllun um hana og mér sýnist af þeirri yfirferð að ég sé í grundvallaratriðum sammála drottningunni. Hún telur að Danir hafi vanmetið þá áskorun sem felst í að skapa eiginlegt fjölmenningarsamfélag, þar sem ólíkir hópar sameinast um ákveðin grunngildi, skyldur og réttindi, en hafi þess í stað gert ráð fyrir því að aðlögun innflytjenda myndi eiga sér stað sjálfkrafa með tímanum - án samræðu eða sérstakra aðgerða. Tíminn hafi leitt í ljós að slíkt gerist ekki heldur hafi Danmörk orðið e.k regnhlíf yfir mörg örsamfélög sem eiga á stundum fátt sameiginlegt og hafa lítil,jafnvel fjandsamleg, samskipti sín á milli. Þetta er auðvitað ekki ný saga og svipuð þróun hefur orðið í öðrum Evrópulöndum, með á köflum skelfilegum afleiðingum. 

Drottningin orðar það á þá leið að það sé ekki náttúrlögmál að innflytjendur verði danskir af því að búa í Danmörku. Þetta rímar við skilaboð sem ég hef verið að túra með og hvetja okkur á Íslandi til að nýta tækifærið sem felst í því að innflytjendasamfélagið okkar er rétt að slíta barnsskónum (í orðsins fyllstu merkingu, yfirgnæfandi meirihluti svokallaðrar 2. kynslóðar er enn á barnsaldri) og snúa fókusnum við. Hætta að setja ábyrgð á fjölmenningarverkefninu alfarið á innflytjendur (þeir eiga bara að aðlagast og haga sér!) sem eru ekki í aðstöðu til að standa undir henni án samræðu og stuðnings - einsog drottningin hefur komst að eftir langa mæðu.

Þvert á móti verður móttökusamfélagið, hvort sem það er Danmörk, Ísland eða hvaða land annað sem er, að axla sinn hluta ábyrgðarinnar, skilgreina sameiginleg gildi í gegnum samræðu og samvinnu, sammælast um kröfur sem ekki verður gerð málamiðlun um og tryggja aðgengi innflytjenda að upplýsingum og björgum til að geta staðið undir kröfunum sem til þeirra eru gerðar og farnast vel. Samfélag er nefnilega einmitt það - SAMfélag. Og til að samfélagi farnist vel og standi undir nafni þarf að ríkja traust og gagnkvæm virðing og skilningur manna á milli. 

Ég hef stundum sagt að það sé bara þrennt sem þurfi til að greiða fyrir vel heppnuðu fjölmenningarsamfélagi á Íslandi; tíma, fé og fyrirhöfn. Einog staðan er í dag erum við ekki að sinna neinum þessara þátta nógu vel. En það er næsta víst að ef við herðum okkur mun það borga sig margfalt til framtíðar. Það er nefnilega ekki heldur náttúrulögmál að fjölmenningarsamfélög séu mislukkuð - það veltur að öllu leyti á því hvernig fólk í samfélagi hagar sér. Þróun samfélagsins veltur á okkur - ég og þú og þú og þú berum ábyrgðina ......

Saga fjölmenningar á Íslandi hófst, tja um tuttugu árum síðar á Íslandi en í Danmörku. Ef við tökum okkur saman í andlitinu, lærum af reynslu Dana og annarra og förum að huga betur að þessu núna mætti komast hjá því að Guðni forseti skrifi samtalsbók um galla fjölmenningarsamfélagsins eftir tuttugu ár.

 Meira hér - upptaka af erindi sem ég flutti um nánast sama málefni á ráðstefnunni Fræði og fjölmenning sem haldin var í Háskóla Íslands í febrúar síðastliðinn. 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni