Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Hin lækkuðu veiðigjöld og kostnaður ríkissjóðs

Hin lækkuðu veiðigjöld og kostnaður ríkissjóðs

Nú hafa þær fregnir borist að heildarveiðigjöldin fyrir síðasta fiskveiðiár verða 40% minni en áætlað var fyrir þetta ár.

Þau verða 4,8 milljarðar. í stað nær átta milljarða.

Það er umtalsverð lækkun frá upphafi kjörtímabils Sjálfstæðisflokks og Framsóknar þegar veiðigjöldin fyrir afnot sjávarútvegsfyrirtækja af sameiginlegri auðlind landsmanna voru 12,8 milljarðar.

Samt hafa fyrirtækin mörg hver verið að sýna stórhagnað ár hvert nema þegar kemur að veiðigjöldum en þá hefur verið leyfilegt með tilstuðningi ríkisstjórnarinnar að nýta ýmsar bókhaldsbrellur til að minnka þau.

En setjum þessi veiðigjöld aðeins í samhengi við þann kostnað sem samfélagið ber af sjávarútvegnum.

Fyrst skulum við byrja á tveimur verulega fjársveltum stofnunum sem sinna bráðnauðsynlegri þjónustu við sjávarútveginn.

Hafrannsóknastofnun sem gekk í gegnum sameiningu um daginn, er ætlað á fjárlögum að fá frá ríkinu 1.853,7 milljarð og skaffa sér sértekjur að öðru leyti með því að leigja út skip o.sv.frv. Sú stofnun sinnir mikilvægum rannsóknum á auðlindinni en er svo illa stödd að öðru rannsóknaskipi þess var lagt í fyrra og nær varla að sinna skyldum sínum vegna fjárskorts. Að þessu viðbættu þá er stofnunin víst á leiðinni á hrakhóla þar sem velferðarráðuneytið er víst að fara að henda stofnuninni út úr sérhæfðu húsnæði við Skúlagötuna með tilheyrandi kostnaði.

Landhelgisgæslan er önnur fjársvelt stofnun sem hefur þurft að binda skip sín reglulega við bryggju eða leigja út t.d. til Miðjarðarhafsins til að fá utanaðkomandi tekjur. Landhelgisgæslunni er ætlað á fjárlögum 3.591,9 milljarður sem ætlað er til eftirlits með landhelgi og auðlind okkar allra auk þess að sinna björgunarverkefnum á landi sem og sjó.

Sameiginlegur kostnaður bara við þessar tvær stofnanir eru 5.445,6 milljarður sem veiðigjöldin duga ekki einu sinni fyrir.

Þetta eru samt ekki það eina sem ríkissjóður greiðir vegna sjávarútvegsins.

Fiskistofa sér um útreikning á kvóta, úthlutun aflaheimilda og eftirlit með ýmsu er tengist sameiginlegri auðlind okkar auk þess að reka t.d. sameiginleg tölvukerfi og þjónustu fyrir sjávarútvegsráðuneytið, Fiskistofu og Hafró. Þeirri stofnun er ætlað 814,7 milljónir og eitthvað af því er að fjúka í að standsetja húsnæði vegna óvinsælla gripaflutninga til Akureyri sem hefur skilað starfseminni í uppnámi.

Næst ber að telja fram þá ákvörðun fjármálaráðherra að ríkisstyrkja launakostnað útgerðarinnar um 500 milljónir vegna kjarasamninga þrátt fyrir að það hafi ekki verið samþykkt af alþingi. Útgerðin vildi ekki semja þrátt fyrir að ganga í gegnum brjálaðan uppgang og létu sjómenn vera samningslausa í fimm ár. Reyndar er það verulega skrítið að ríkisstjórnin skuli ekki hafa keyrt í gegn lög um gerðardóm líkt og gert er í hvert sinn sem launafólk reynir að sækja rétt sinn en útskýring má örugglega finna í rausnarlegum framlögum í prófkjörs- og kosningasjóði ríkisstjórnarflokkana.

Þessu tengt þá má nú minnast á það að sá hluti sjávarútvegsins sem snýr að fiskvinnslu er einnig ríkisstyrktur um einhverjar upphæðir þegar fiskvinnslan sendir fólk í frí beint á atvinnuleysisbætur yfir sumarmánuðina í stað þess að borga þeim orlofslaun líkt og önnur fyrirtæki gera þegar kemur að sumarfríium eða rólegum tíma. Það kallast víst atvinnuleysi vegna aflabrests sem „skemmtilega“ oft hittir á sumarleyfistímann sem er í lok kvótaársins.

Svo er það kostnaður vegna ýmisra rannsóknasjóða, alþjóðanefnda, Verðlagsstofu skiptaverðs o.fl. sem er tengt sjávarútveginum upp á 239,3 milljónir. Þá er ótalinn kostnaður samfélagsins fyrir höfnum, vitum og ýmsu fleiru sem sjávarútvegurinn nýtur góðs.

Bara þetta sem er hér tölulega upptalið er kostnaður upp á tæpa sjö milljarða og þá á ríkissjóður eftir að greiða fyrir talsvert til viðbótar.

Það er því augljóst að veiðigjöldin duga alls ekki fyrir kostnaði ríkissjóðs né skilja eftir hagnað af leyfisveitingu fyrir notkun útgerðarmanna á sameiginlegri fiskveiðiauðlind allra landsmanna. Ef engu hefði verið breytt í upphafi kjörtímabilsins þá hefðu veiðigjöldin verið í plús fyrir þjóðina alla.

Þann afgang hefði verið hægt að nýta til þjóðnauðsynlegra verkefna á borð við nýjan Landspítala í stað þess að láta örfáa einstaklinga sem sumir hverjir notast við aflandsfélög í skattsvikaskjólum, græða enn meir á notkun fiskveiðiauðlindarinnar.

Nóg borgum við fyrir þá.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu