Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Grátkórsherferð banksteranna

Síðustu árin þá hefur maður hætt að kippa sér upp við upp fréttir af ódæðisverkum bankamanna.

Maður hefur stundum spurt sig hvort ástæðan sé sú að þetta sé eins og að uppgötva fjöldagrafir á hverjum degi þar sem maður verður bara dofinn fyrir rest eða hvort það sé vegna þess að lífið hefur einfaldlega haldið áfram vegna þeirrar fullvissu að loksins nær réttarríkið til yfirstéttarinnar ólíkt því sem áður var.

Einu lífsmörkin sem maður sýnir og ég skammast mín ekkert fyrir að segja það, er þegar fréttir berast að harðsvíraðir bankamenn eru dæmdir í fangelsi fyrir ódæðisverk sín og maður kætist aðeins um stund meðan dagsins amstur bíður manns.

Svo heldur lífið áfram meðan maður sér útundan sér fréttir um að einhverjir þeirra hafi verið gómaðir, einhverjir þeirra hafi náð að sleppa,  einhverjir séu farnir að afplána dóma og hver veit nema einhverjir þeirra komi út sem betri menn eftir að hafa greitt skuld sína við samfélagð sem þeir settu á hausinn.

 Þannig er það bara, maður nennir ekki að vera reiður út í þá lengur heldur tekur þessu með ró og fullvissu um að við höfum náð að stíga í átt til réttláts samfélags.

Maður nennir því ekki að æsa sig yfir því að fregnir af einhverjum umkvörtunum bankafanga á Kvíabryggju berist undir nafnleynd til umboðsmanns alþingis enda er það þeirra réttur.

Aftur á móti verður maður reiður þegar þeir hámarka einhverskonar vorkunnarherferð með því að mæta undir nafni í drottningarviðtal á 365 miðlum þar sem þeir grenja og gráta undan því að hafa þurft að sæta dómi fyrir þau illvirki sem þeir frömdu með fullri meðvitund og af yfirlögðu ráði.

Þeir séu svo ofsóttir og kerfið vont við þá.

Þetta kemur í kjölfar herferðar bankstera þar sem blásnar eru upp fregnir af skósveini þeirra segja að verið sé að ofsækja þá eins og stúlkurnar á Kleppsárreykjum, lögmaður til leigu með fyrrum dómaratitil sem hann fékk gefins frá vinum sínum skrifar harmgrein, bankster líkir málum gegn bankamönnum við Guðmundar- og Geirfinnsmálin o.fl. í þeim dúr.

Afsakið meðan ég bregð mér frá, fnæsi af reiði og æli svo yfir samúðarfullar forystugreinar Fréttablaðsins um hvað heimurinn er vondur við bankamenn.

Svona nokkuð ýfir nefnilega upp sárin sem eru að gróa og gerir fólk reitt.

Og þá er ég ekki bara að tala um samanburðinn við Guðmund- og Geirfinnsmálin eða stúlkurnar á Kleppsárreykjum sem er svo fáránlegur samanburðar að það hálfa væri nóg.

Reyndar snarbilaður þegar maður ber saman aðstæður stúlknana og sakborninga í þeim málum við aðstæðurKvíabryggjuvælukjóanna sem hafa aðgang að símum, tölvum, stunda krossfit, stofna fyrirtæki þaðan, sinna viðskiptum, hafa almannatengla og lögmenn í vinnu við að væla og fá svo að funda með sakborningum í öðrum málum líkt og honum Jóni Ásgeiri.

Maður setur reyndar þann fund talsvert í tengsl við fréttir, umfjallanir, greinaskrif og svo sjónvarpsviðtöl 365 miðla núna síðustu daga og vikur enda hafa þeir miðlar og fjölmiðlar tengdir Birni Inga Hrafnssyni verið mjög svo grátandi af samúð með Kaupþingsmönnum sem voru mjög gjafmildir á lán til bæði Jóns og Björns.

Jájá, ég veit, ég á að hætta að samsæriskenningast og bara fá mér snakk í staðinn.

En já, þetta ýfir upp reiði og sár.

Maður sjálfur man eftir því að hafa misst vinnuna út af þessum mönnum og öðrum hrunvöldum í nær ár, tapað smá fé út af þessum mönnum og öðrum hrunvöldum, lent í fjárhagserfiðleikum út af þessum mönnum og öðrum hrunvöldum, þurft að auka við skuldir sínar út af þessum mönnum og öðrum hrunvöldum og jafnvel séð tvisvar sinnum fram á að eiga hugsanlega ekki fyrir mat og reikningum í atvinnuleysinu.

Og ég er einn af þeim sem slapp bara bærilega undan þessu ólíkt mörgum fjölskyldum sem misstu vinnu, heimili og endanlega trú á samfélaginu.

Þessi sár og minningarnar tengd þeim ná því aldrei að gróa meðan svona harmakveinsherferðir og framkölluð fjölmiðlameðvirkni sem almannatenglar hanna standa yfir.

Enda segir maður fyrir sitt leyti gagnvart banksterunum, lögmönnunum, endurskoðendunum, embættismönnunum, stjórnmálamönnunum, Viðskiptaráði og Sjálfstæðisflokknum þeirra:

„Never forgive, never forget!“

Enda á Hrunið að vera lexía sem við eigum að læra af en ekki eitthvað sem við eigum að láta blekkjast aftur af.

Við höfum bara ekki efni á því.

En jafnvel þó maður geti persónulega ekki fyrirgefið neinu þessu fólki þá getur maður samt unað þvi að sitja af sér sinn dóm og taka svo við að lifa sínu lífi meðan það gerir það heiðarlega og helst með iðrun vegna illverka sinna.

Aftur á móti tryggir þetta lið algjöra fyrirlitningu manns um aldur og ævi með þessum grátkórum sínum og harmakveini af Kvíabryggjunni sem ofbýður flestu fólki með sómakennd.

Slíkt sýnir nefnilega engan vott af auðmýkt, iðrun eða samkennd gagnvart þeim sem áttu og eiga jafnvel enn um sárt að binda vegna Hrunsins og afleiðinga þess.

Það tryggir líka kirfilega í sessi hjá almenningi ákveðna skoðun sem verður nær vonlaust fyrir þá að breyta.

Þeir geta nefnilega keypt sér grátkóra, þeir geta keypt sér almannatengla, þeir geta keypt sér fyrrum dómara úr hirð Davíðs og Moggann með, þeir geta keypt sér lögmenn, þeir geta keypt sér fjölmiðla, þeir geta keypt sér fólk fyrir næsta partý en þeir geta ekki keypt það aftur sem þeir afsöluðu sér sjálfir með græðgi, óheiðarleika og öllu því siðleysi sem fylgdi Kaupthinking:

Sæmd og virðingu.

Það eignast þeir aldrei aftur meðan þjóðin lifir.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni