Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Glúrin smjörklípa Framsóknar

Það verður að segjast að smjörklípa Framsóknarflokksins til afvegaleiðingar umræðu frá skálkaskjóli forsætisráðherrahjónanna og aflandsfeluleikjum þeirra er nokkuð glúrin.

Að aflétta leynd af gögnum um endurreisn bankakerfisins er auðvitað eitthvað sem flestir geta keypt að ætti að vera eðlilegt að gera og í sem flestum öðrum tilfellum sem Framsókn ljáir ekki máls á.

Fjölmiðlamenn munu auk þess taka þessu sumir hverjir fegins hendi m.a. vegna þess að fyrir suma þeirra er óþægilegt að fjalla um aflandsfélög og skattaskjól vegna eignarhalds og yfirstjórnar á fjölmiðlunum sem heldur þétt með blágrænni hendi utan um lífsviðurværi þeirra.

Það verður líka auðvelt að leysa þetta mál upp í hávært argaþras milli stjórnar og stjórnarandstæðinga þannig að fólk gleymi skálkaskjólunum, Borgunarmálinu, leigusalamáli Illuga, hefndaraðgerðum ríkisstjórnarinnar gegn RÚV, lekamálinu, söluferli einkavinavæðingu heilbrigðiskerfisins og almennri helför stjórnarflokkana gegn því.

Að etja fólki saman hefur nefnilega alltaf virkað svo vel sem taktík hjá þessum flokkum.

Sjáið bara flugvallarmálið sem gott dæmi.

Svo er þetta glúrið að einu öðru leyti fyrir Framsókn.

Þeim sárlega vantar nýtt IceSave til að geta þanið sig með í næstu kosningum í stað þess að athyglin beinist að illum verkum vanhæfrar aflandsstjórnar.

Hið klassíska við og þeir.

Hvað er því betra en að veifa eitthvað um endurreisn bankanna til að berja á „vondu vinstristjórninni“ jafnvel þó það sé moldviðri?

Það dugar nefnilega að öskra sem hæst í slíkum málum og með sem flestum smjörklipum til að drekkja öllum málflutningi annara og sérstaklega þeirra sem benda nú á það að það hafi ýmislegt ljótt verið aðhafst, svikið og logið til um þessi ár sem fyrsta hreina Wintris-stjórn Sigmundar Davíð ríkti.

Þetta myndi líka fylkja helstu þjóðernisöfgamönnum landsins á bak við Framsókn ef landráðabrigslin komast á flug og ef það dugar ekki til þá getur alltaf Framsókn spilað út múslimaógnartrompinu til að skila sér 15-20% fylgi.

En ef það væri raunverulegur áhugi á því að upplýsa og fá fram gagnsæi með endurreisn bankanna þá þarf að þekkja upphafið.

Svokallað alþingi hefur nefnilega ekki þrátt fyrir eigin samþykkt ráðist í rannsókn á einkavinavæðingu bankanna sem er líklegast eitt stærsta spillingarmál þessarar aldar á Íslandi.

Sú rannsókn verður að fara fram og einnig rannsókn á öllum störfum einkavinavæðingarnefndar frá upphafi.

En það eitt dugar ekki til heldur þurfum við að opna fyrir gagnsæi og jafnvel afnámi bankaleyndar þegar kemur að fjármálum allra þingmanna, ráðherra, kjörinna fulltrúa og allra flokka(svæðisfélög meðtölin) frá aldamótum og fá þannig aðgengileg öll skuggaleg skálkaskjól stjórnmálamanna upp á yfirborðið.

Það væri svo líka vel þegið ef við fengum allt upp á yfirborðið með Íraksstríðið og fangaflug CIA yfir Ísland.

Og svo sem síðasta dæmið um leynd sem þarf að aflétta þá væri það nú algjör nauðsyn að almenningur fengi nú að heyra símtalið þegar Davíð Oddson og Geir H. Haarde samþykktu að aðstoða Kaupþing við að ræna Seðlabankann að innan.

Viið borguðum nú það símtal dýrum dómum svo það ætti að vera sjálfsagt að fá að heyra það.

Eða er það kannski ekki nægilega gott innlegg inn í kosningabaráttu?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu