Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Dagdraumur Austurvallar

Þegar ég tek mig til og geng heim frá vinnu þá kemur það fyrir að hugurinn leitar yfir í dagdrauma.

Einn af þeim kemur yfirleitt reglulega upp í huga minn þegar ég ákveð að ganga framhjá alþingishúsinu og yfir Austurvöll.

Þegar ég hraða mér yfir gangstétt Austurvallar og er að koma að styttu Jóns Sigurðssonar þá stendur þar hópur af ferðamönnum. Einn þeirra fer í veg fyrir mig, bendir á alþingishúsið og spyr:

„Excuse me, sir. What building is this?“

Ég stoppa og set upp spekingslegan svip að hætti vitringa áður en svarið kemur:

„Althingi, the icelandic parliament building: You will never find a more wretched hive of scum and villainy.“

Útúrdúr: allar góðar fantasíur innihalda að minnsta kosti eina Star Wars tilvísun, það er bara beisík.

Og svo í framhaldi eiga sér stað samræður sem er best að hafa á íslensku í stað ísl-ensku með tilheyrandi enskum málfræðivillum og vandræðagangi í orðavali.

Ferðamennirnir hvá við og spyrja hvað ég meini með þessum orðum.

Ég útskýri fyrir þeim hvernig alþingi hefur beitt sér gegn því að Íslendingar fái sína fyrstu, alíslensku stjórnarskrá í stað gömlu yfirstéttarstjórnarskránnar sem kóngurinn gaf okkur í sængurgjöf. Ég renni svo yfir ýmislegt í kjölfarið: herferð ríkisstjórnarinnar gegn heilbrigðiskerfinu svo hægt sé að réttlæta einkavinavæðingu þess, hvernig auðmenn hafa verið settir í forgang til skattalækkunar meðan skatturinn er hækkaður á matvæli og aðrar nauðsynjar, kvótakerfið og hvernig fámennur hópur kvótagreifa hafa orðið forríkir á því að eyðileggja lífsviðurværi heilu samfélagana með framsali kvóta og hafa svo náð að gráta út lækkun á veiðigjöldum meðan fyrirtæki þeirra sýna tugmilljarðahagnað ár eftir ár.

Margt fleira segir maður til viðbótar og sérstaklega um spillinguna sem er jafnnátengt alþingi og breinnisteinsfnykur helvíti en niðurstaðan er alltaf sú sama. Ferðamennirnir furða sig á því hversu rotið og ógeðslegt alþingi er.

En svo verður einum litið að dyrum alþingi þar sem dyrnar hafa opnast og út kemur kona sem gengur þungum skrefum líkt og hún eigi von á því að ganga aldrei inn þar aftur.

Ferðamaðurinn spyr í forvitni hvort þetta sé einhver einfari siðvæðingar sem fái ekki neinu framngengt á þingi til betrumbóta.

„Neinei, þetta er hún Hanna Birna. Hún reyndi að steypa formanni flokksins síns af stóli, fékk samt að vera innanríkisráðherra og lak svo upplýsingum til fjölmiðla um svartan hælisleitanda í pirringkasti yfir boðuðum mótmælum. Alþingismenn sögðu margir að það væru bara eðlileg vinnubrögð og við ættum m.a. rétt á því að vita allt um bólfarir hælisleitanda og flóttamanna því það varðaði hagsmuni ríkisins. Svo ákvað hún að segja af sér þegar aðstoðarmaður hennar var dæmdur fyrir hennar ábyrgð og umboðsmaður alþingis hafði skammað hana duglega. Aðstoðarmaðurinn er samt í ágætum málum ólíkt svarta hælisleitandanum sem var hent út úr landi án afsökunar frá þingi og ríkisstjórn.“

„Jahá...en hver er þetta sem kemur þarna út á eftir?“

„Þetta er hann Guðlaugur Þór. Hann fékk margra ára laun sem þingmaður og ráðherra í formi„styrkja“ frá bönkum og fjársterkum aðilum. Hann þurfti aldrei að segja af sér og er núna varaformaður fjárlaganefndar vegna þess að hann er svo naskur á því að hvernig sé best að finna almannafé til að bæta hag hinna ríku.“

„En þessi reiðilega kona sem kemur með honum?“

„Æ, það er hún Vigdís Hauksdóttir. Hún er ein valdamesta kona landsins og er þekkt fyrir að fara fram með offorsi gegn staðreyndum og skynsemi. Svo ef henni mislíkar eitthvað þá beitir hún valdi sínu sem formaður fjárlaganefndar til að refsa stofnunum og innviðum samfélagsins sem eru ekki henni að skapi. Hún lét t.d. skera niður fjármagn til ríkisfjölmiðilsins í hefndarskyni fyrir fréttaflutning af vandræðalegum uppákomum stjórnmálaflokksins sem hún tilheyrir. Svo kennir hún fyrri ríkisstjórn um allt sem hún sjálf gerir.“

Eftir þeim gengur svo út maður úr þinghúsinu sem glottir yfirlætislega. Ég verð fyrri til og tilkynni þeim:

„Þetta er svo hann Brynjar Níelsson. Hann er svona talsmaður djöfulsins sem sér um að verja allt ógeð sem gert er hér á landi og réttlæta það í þágu ríkisstjórnarflokkana. Hann hefur líka reynslu af því enda var hann formaður karlaklúbbs sem gengur aðallega út á það að aðstoða bankstera við fjársvik og auðmenn við skattsvik og kætast svo saman í koníaki yfir kennitöluflakki mánaðarins. Eftirlætsigaurarnir þaðan verða svo þingmenn eða jafnvel skipaðir dómarar út á það eitt að hafa verið veiði- eða briddsfélagar Dabba Kóngs.“

„Dabbi kóngur?“

„Já, hann var svona Pútín Íslendinga. Hann seldi vinum sínum banka, skellti okkur í Íraksstrið svo hægt væri að halda sex flugvélum hér á landi, viðhélt hér ógnarstjórnun gegn þeim sem voru honum ekki að skapi, reyndi að drepa alla frjálsa fjölmiðlun fyrir utan flokksblaðið sem hann ritstýrir nú með einstakri biturð, setti landið á hausinn með dólgafrjálshyggju sinni og meðvirkni með fjármálaglæponum. Svo lét hann líka tæma Seðlabankann að innan eftir að hafa gert sjálfan sig að Seðlabankastjóra.  Við það verk naut hann dyggs stuðnings kjölturakka síns hans Geirs sem var svo verðlaunaður með sendiherrastöðu eftir að hafa verið dæmdur fyrir brot í starfi. Nú hefur maður heyrt að hann ætli að reyna að gera sjálfan sig að forseta ef ske kynni að lýðræðis- og umbótaöfl kæmust til valda í gegnum kosningakerfið okkar sem byggist á mismunun og ójafnræði.“

Það slær þögn á ferðamannahópinn og einhverjir hvíslast svo í hálfhljóðum meðan flóttalegur maður hraðar sér út úr þinghúsinu. Óviss um hvort ég eigi að halda áfram eða ekki, ætla ég að gera mig tilbúinn til að kveðja enda er ég byrjaður að verða sakbitinn yfir þessu niðurrifi mínu á glansímynd Íslands. Þetta gæti nú haft áhrif á komur ferðamanna frá siðuðum samfélögum og hvað yrði þá um stöðugleikann og hagvöxtinn ef við verndum ekki sætu, krúttlegu ímyndarhönnunina okkar með því að segja ekki frá hvað sé í gangi hér.

Ferðamennirnir vilja þó vita meir og spyrja út í þennan mann sem hraðar sér svona flóttalega. Ég píri augun, sé að þetta er menntamálaráðherrann og ákveð að halda áfram upplýsingu.

„Þetta er hann Illugi sem er menntamálaráðherra. Áður fyrr þá einkavinavæddi hann hitaveitu suður með sjó í hendur bankstera sem réðu hann í þakkarskyni til sjóðsstarfa sem hann sinnti meðfram þingstörfum fram að Hruninu okkar. Þá tók hann sér frí þar til flokksfélagar hans á einni lögmannsstofu sögðu að hann hefði ekki brotið nein lög. Síðan þá hefur hann dandalast fyrir leigusalann sinn í útlöndum við almannatengsl fyrir fyrirtæki leigusalans og reitt sig á fjárhagslegan stuðning þaðan milli þess sem hann ræðst gegn menntun í landinu. Ef þið viljið kynna ykkur menntamálaráðherratíð hans í hnotskurn þá má sjá minnisvarða um hana við Hótel Sögu. Spyrjið bara einhvern hvar má finna Holu íslenskra fræða.“

Maður er varla búinn að sleppa orðinu þegar sjálfur fjármálaráðherrann stormar geðvonskulega út úr þinghúsinu og hreytir einhverju í átt að öryrkja og gamalmenni með mótmælaspjald sem ætla að segja eitthvað við hann.

„Já, þarna sjáið þið einn aðalgaurinn. Þetta er hann Bjarni Ben sem fæddist með silfurskeið í munni og gullskóflu í rassi enda kominn af valdaætt sem hefur mergsogið íslenskt samfélag í gegnum spillingu. Hann hefur líka verið ættarsómi í gegnum störf sín s.s hefur hann aðstoðað við að tæma bótasjóð tryggingafyrirtækis svo að fjölskyldubankinn færi ekki á hausinn vegna gjaldfellinga skulda bankans sem var haldið leyndu. Hann og pabbi hansseldu svo hlutabréfin sín kortér í Hrun með þá vitneskju í farteskinu að bankinn væri tæknilega gjaldþrota en varaði samt ekki almenning við líkt og skyldur hans sem þingmanns gera ráð fyrir. Ekki nóg með það heldur var hann á sama tíma að lauma út fyrir landsteinana sínu fé til skattaskjóla, fljúga með einkaflugvélum bankamanna og annað í þeim dúr. Þessi árangur skilaði honum formannsstól flokksins síns sem heldur ekki vatni yfir aðdáun sinni á því hversu djöfulsins snillingur hann er í vafasömum viðskiptavafningum. Þessvegna varð hann fjármálaráðherra, það þarf einhver að tryggja að ríkissjóður verði tæmdur og ríkiseigur verði færðar til flokksfélaga.“

Geðvonska Bjarna hverfur þó aðeins þegar verður vart við mikið lófatak og blístur. Við ferðamennirnir verðum varir við smáhóp fólks sem bugtar og beygir sig fyrir Bjarna. Ég útskýri fyrir þeim að þetta séu ekki stuðningsmenn Bjarna heldur gagnrýnislausir, meðvirkir fjölmiðlamenn sem óttist það að missa vinnuna á fjölmiðlum auðmanna og kvótagreifa ef þeir verndi ekki formanninn þeirra. Ég segi þeim svo að stuðningsmenn stjórnarinnar séu annarsstaðar að veitast að gjaldkera jafnaðarmannaflokksins á Íslandi fyrir að hafa framið þann ófyrirgefanlega glæp að segja af sér.

Allt í einu sést lúxusjeppi af dýrust gerð keyra á ofsahraða til hliðar við alþingishúsið og út um alþingisgarðinn hlaupa átta menn á spretthlaupi. Sjö þeirra umkringja einn þeirra sem heldur jakkafataklæddur á Mountain Dew og kökuboxi. Þegar þeir koma upp að minibusinum er komið fleygir sá sér inn um dyr jeppans sem reykspólar svo á brott framhjá fréttamönnum Ríkisútvarpsins sem eru svo hraktir á brott af verndurunum sjö með ókvæðisorðum og fjárlagabarefli.

Við ferðamennirnir horfum forviða á aðfararnir og ég læt út úr mér það að þetta sé óvenjulegt.

„Já, við höfum aldrei séð annað eins“, segja ferðamennirnir.

„Ég átti nú ekki við það. Það er bara óvenjulegt að sjá forsætisráðherrann. Hann mætir yfirleitt ekki í vinnuna og svo er þetta það nálægasta sem hann hefur komið fréttamönnum ríkisfjölmiðilsins síðan það uppgötvaðist að hann og konan hans hafa verið að sýsla með peninga í skattaskjóli. Svo kom líka í ljós að hún er einn kröfuhafi föllnu bankanna og hann sagði aldrei frá því meðan hann var að semja við kröfuhafa. Ekki nóg með það þá var hann eini maðurinn sem kom nálægt samningum við kröfuhafa sem var undanþegin reglum um innherjasvik, svona „get out of jail free card“ sem hann fékk. Svo er pabbi hans líka að fela peninga í skattaskjólum.“

„Ha, og er hann enn forsætisráðherra?“

„Já, hann er það og verður það líklegast áfram til loka kjörtímabilsins, þökk sé alþingi. Sagan á bak við hann er að fyrst yfirtók hann stjórnmálaflokk sem var breytt yfir í trúfélag, spilaði á reiði kjósenda eftir Hrun með stórum loforðum svo flokkurinn vann stóran kosningasigur, hefur gengið á bak flestra loforða nema þeirra sem beindust að auðmönnum og hefur barist harkalega gegn siðvæðingu samfélagsins. svo tókst honum líka að komast upp með að ljúga um að vera með doktorsgráðu frá Oxford og er skráður til heimilis á eyðibýli. Það væri eiginlega  hægt að halda fyrirlestur um feril hans en því miður er margt svo lygilegt þar að lygasögur Munchausen yrðu trúanlegri...enda maðurinn varla fær um að segja satt orð.“

Á hópinn slær svo þögn um stund allt þar til að ég yppi öxlum:

„Þetta er Ísland.“

Að lokum kveðjumst við og ég held áfram för dagdraumsins í þungum þönkum yfir því að ég hefði nú gleymt því að minnast á manninn í grænu jakkafötunum sem var að gubba á gæsir við hlið þinghúsins. Maður nær nú víst ekki að uppfræða ferðamenn um allt það sem er í gangi hér.

Endalok þessa dagdraums breytist svo eftir skapi mínu hverju sinni. Stundum heldur bara lífið áfram, stundum nær almenningur að hrekja hústökufólk hagsmunaafla úr þinghúsi okkur allra, stundum verður þetta að fiðrildi sem veldur því að fjölþjóðalið ræðst inn í landið til að bjarga okkur frá ríkisstjórninni og stundum verður þetta að samvinnu allra þjóða heims um að sprengja skerið í loft upp til að koma í veg fyrir að þetta samfélag leggist í enn einn víkinginn.

En sama hvernig þessi dagdraumur endar þá er niðurstaðan alltaf sú sama: ríkisstjórnin fer frá.

Ísland þarfnast þess.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu