Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Flokksþing eða ekki flokksþing Framsóknar

Það eru frekar spes þessar fregnir af flokksþingsmálum Framsóknar og hvort slíkt þing eigi að fara fram fyrir kosningar sem er búið að lofa að verði nú í haust.

Þær ályktanir sem maður getur dregið af þessum fregnum er að þingflokkur og miðstjórn Framsóknar haldi það raunverulega að það verði engar kosningar í haust eða telji að þær geti ekki farið fram nema allir aðrir samþykki skilyrði þeirra. Fregnirnar af yfirlýsingum formannsins sem segir að engar kosningar verði án hans vilja, forsætisráðherra sem segir að þær verði að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem engin veit hver eru, orð sjávarútvegsráðherra um að hundsa beri gefin loforð í kjölfar Panama-skjala og sleppa kosningum o.fl. slíkar yfirlýsingar í bland við þögn margra þingmanna og ráðherra, benda til þess að firran sé orðin sé ansi mikil í fjósinu.

Það er líka hægt að draga þá ályktun í kjölfarið að flokkstarfið sé í molum fyrst flokkurinn getur ekki komið sér saman um að framkvæma formfast flokksþing og koma sér saman um stefnumál komandi kosninga. Það er nefnilega orðið þó nokkuð síðan að forsætisráðherra og fjármálaráðherra tilkynntu komandi kosningar í beinni útsendingu fyrir framan innlenda og erlenda fjölmiðla sem höfðu komið til landsins vegna skattaundanskotsfélaga íslenskra ráðherra. Í stað þess er verið að væflast með þetta í óvissu og skipulagsleysi til viðbótar við yfirlýsingar út og suður um kosningar eða ekki kosningar ólíkt Pírötum, Sjálfstæðisflokki, Vinstri Græn og hugsanlega Viðreisn sem hafa farið á fullt í kosningaundirbúning.

Önnur ályktun sem maður dregur hinsvegar af þessu er að þingflokkurinn og miðstjórnin sé svo meðvirk með flokksformanninum að hún sjái ekki að hann er stóri fíllinn sem gleypti nokkur kíló af englaryki og er að eyðileggja allt í stofunni. Hinn möguleikinn í meðvirkninni er að þingflokkurinn og miðstjórnin sé orðin það samdauna með brjálaða fílnum að þau telji betra og friðvænna fyrir sig persónulega að taka þátt í eyðileggingunni heldur en að stöðva hann af áður en hann eyðileggur burðarveggina endanlega.

Allavega mun þessi ákvarðanafælni varðandi flokksþing, furðuyfirlýsingar og formannsútskipti skila Framsókn verulega vanbúnum fyrir kosningar og frambjóðendur munu eyða talsverðu púðri í stöðugri vörn fyrir aflandsfélög og bull formannsins sem fer með hæstu hæðum þessa daganna. Afraksturinn verður enn meira afhroð í kosningum en ella. Það yrði reyndar stórkostleg afmælisgjöf til handa þessum 100 ára gamla flokki sem hefur síðustu áratugi stimplað sig inn sem sérhagsmunaflokk þar sem lukkuriddarar í leit að völdum og skjótfengnum gróða í gegnum ríkisspenann geta komið sér auðveldlega áfram. Maður efast þó um að þeir eigi eins mikinn séns nú í ljósi þess að flokkurinn er í molum eftir valdatíð Sigmundar Davíðs.

Það verður samt ekki hægt að kenna Sigmundi einum um þau örlög ef Framsóknarmaddaman gefur upp öndina á 100 ára afmælinu sínu.

Framsóknarmenn munu allir sem einn bera ábyrgð á því.

Aðgerðarleysið og meðvirknin er þeirra.

En þeim mun takast að koma jarðarfararkostnaðinum yfir á okkur hin.

Reynslan af Framsókn hefur sannað það.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu