Barn talið óhult hjá föður þrátt fyrir sögu um barnaníð

Rannsókn á meintum kynferðisbrotum föður gegn barni var felld niður án læknisskoðunar og Barnahússviðtals, en í kjölfarið komu fram yfirlýsingar frá konum sem segja manninn hafa misnotað þær í æsku. Dómstólar telja að „það þjóni hagsmunum barnsins að það njóti meiri og samfelldari umgengni við föður“. „Ég þarf annaðhvort að gerast „tálmunarmóðir“ og vera meðhöndluð sem slík af kerfinu, eða að senda dóttur mína í aðstæður þar sem ég veit að hún er ekki örugg, af því ég trúi henni og trúi öðrum sem hafa sagt frá kynferðisbrotum hans,“ segir móðirin.

johannpall@stundin.is

„Ég vona að frásögn mín geti orðið til þess að hjálpa litlu frænku minni, aftra því að hún verði skilin eftir ein með þessum manni.“

Þetta segir ung kona sem nýlega lagði fram yfirlýsingu í Héraðsdómi Reykjavíkur um kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir af hendi hálfbróður síns þegar hann var táningur og hún fimm ára gömul.

Móðir konunnar hefur undirritað yfirlýsingu sem styður frásögnina. „Með þessu er ég bara að gera það litla sem ég get til að hindra að maður sem ég veit að misnotaði dóttur mína þegar hún var lítil stúlka haldi áfram slíkri hegðun,“ segir hún í samtali við Stundina. 

Þá hefur þriðja konan, sem einnig tengist manninum fjölskylduböndum, lagt yfirlýsingu fyrir dóm þar sem hún segir hann hafa brotið gegn sér þegar hún var barn og hann á framhaldsskólaaldri.

Ástæðan fyrir því að frásagnirnar eru nú lagðar fram, mörgum árum eftir að meint brot áttu sér stað, er sú að maðurinn stendur í forsjárdeilu við barnsmóður sína og hefur sætt rannsókn vegna gruns um kynferðisbrot gegn barnungri dóttur þeirra. 

Lögregla lauk rannsókn kynferðisbrotamálsins án þess að rætt væri við barnið í Barnahúsi eða læknisskoðun framkvæmd. Hafa tvö dómsstig nú úrskurðað um að maðurinn skuli fá að umgangast stúlkuna án eftirlits meðan forsjármálið er leitt til lykta. Barnsins vegna er fjallað með almennum hætti um málið hér á eftir, án ítarlegra lýsinga og án þess að nein nöfn komi fram.

Hafnaði ásökunum um kynferðisbrot

Barnsmóðir mannsins leitaði til barnaverndarnefndar og lögreglu síðasta haust og greindi frá hegðunarbreytingum og frásögnum stúlkunnar sem henni fannst benda sterklega til kynferðislegrar misnotkunar. Þá upplýsti hún um að maðurinn fengi ítrekað holdris þegar hann væri með barnið, hegðaði sér undarlega í kringum það og sýndi kynfærum þess óeðlilegan áhuga.

Maðurinn var handtekinn og yfirheyrður af lögreglu auk þess sem leitað var í tölvum hans þar sem ekkert saknæmt fannst. Sagðist hann alltaf hafa átt auðvelt með að fá lítils háttar holdris, hann fengi það jafnvel við það eitt að stúlkan hoppaði í fangið á honum, en það væri ekki kynferðislegs eðlis. Hann bæri engar kynferðislegar hvatir til stúlkunnar og ásakanir um kynferðisbrot ættu ekki við rök að styðjast.

Læknisskoðun ómöguleg vegna „ósamvinnuþýði stúlkunnar“

Meira en mánuður leið milli þess að málið var tilkynnt til barnaverndarnefndar og stúlkan var send í læknisskoðun í Barnahúsi. Samkvæmt gögnum málsins var það „skortur á sérfræðingum sem framkvæma þess háttar skoðanir“ sem olli töfunum. Þegar framkvæma átti skoðunina hrökk stúlkan í baklás, harðneitaði að klæða sig úr fötunum og fór að gráta. „Ekki tókst að framkvæma læknisskoðun vegna ósamvinnuþýði stúlkunnar í skoðuninni,“ segir í niðurstöðu könnunar barnaverndarnefndar sem lokaði málinu skömmu síðar.

Móðir féllst á það með starfsmönnum Barnahúss að það væri óþarflega mikið inngrip að svæfa stúlkuna svo læknisskoðun gæti farið fram. Síðar komst hún að því að afstaða lögreglu hafði verið önnur: lögreglufulltrúi hjá kynferðisbrotadeild hafði, samkvæmt lögregludagbók, lagt áherslu á það í samskiptum sínum við barnaverndarstarfsmann að barnið yrði svæft og læknisskoðun framkvæmd. 

Í dagbók lögreglu er haft eftir barnaverndarstarfsmanni að málið sé „orðið leiðinlegt umgengnismál og að móðir neitaði að afhenda barnið til föður á meðan rannsókn lögreglu stendur yfir“. Lögreglan lauk rannsókninni þann 21. febrúar 2019 og barnavernd lokaði málinu 15. mars. 

Skráðu þig inn til að lesa

Þú færð 4 greinar fríar í mánuði. Þú hefur síðan val um að styrkja óháða blaðamennsku með áskrift á hagstæðu verði, frá aðeins 1.990 krónum á mánuði. Leiðbeiningar má nálgast á stundin.is/leidbeiningar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt á Stundinni

Vigdís gagnrýnir styrk til Báru vegna „Klausturgate“

Vigdís gagnrýnir styrk til Báru vegna „Klausturgate“

Þegar silkihúfan kom að sunnan

Illugi Jökulsson

Þegar silkihúfan kom að sunnan

Svart álit erlendra sérfræðinga: „Staðan á bráðamóttökunni er krónísk katastrófa“

Svart álit erlendra sérfræðinga: „Staðan á bráðamóttökunni er krónísk katastrófa“

Ratcliffe beitir sér gegn frumvarpi Katrínar um eignarhald á jörðum

Ratcliffe beitir sér gegn frumvarpi Katrínar um eignarhald á jörðum

Sonur minn er klámfíkill

Sonur minn er klámfíkill

Duldir möguleikar melgresis

Duldir möguleikar melgresis

Vigdís kvartar til Vinnueftirlitsins undan Helgu Björgu

Vigdís kvartar til Vinnueftirlitsins undan Helgu Björgu

Assange hafður í glerbúri í réttarhöldunum: Glæpurinn er blaðamennska

Assange hafður í glerbúri í réttarhöldunum: Glæpurinn er blaðamennska

Prestur seldi hús á 15 milljónum meira  en hann keypti það á af Þjóðkirkjunni

Prestur seldi hús á 15 milljónum meira en hann keypti það á af Þjóðkirkjunni

Aðgerðir Eflingar njóta verulegs stuðnings

Aðgerðir Eflingar njóta verulegs stuðnings

Vara­formaður Íslensku þjóð­fylk­ing­ar­innar rekur óskráðan fjöl­miðil

Vara­formaður Íslensku þjóð­fylk­ing­ar­innar rekur óskráðan fjöl­miðil

Stöð 2 með drulluna upp á bak

Valkyrja

Stöð 2 með drulluna upp á bak