Fréttir

Sigríður á ráðstefnu með þjóðernispopúlistum um hvernig megi „endurvekja traust til stjórnvalda og lýðræðislega ábyrgð“

Fréttavefurinn Politico hæðist að því að íslenska dómsmálaráðherranum hafi verið boðið að flytja fyrirlestur á ráðstefnu Evrópusamtaka íhalds- og umbótasinna sem fram fer í Brussel þann 22. mars næstkomandi.

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra er á meðal ræðumanna á ráðstefnu Evrópusamtaka íhalds- og umbótasinna sem fram fer í Brussel þann 22. mars næstkomandi undir yfirskriftinni „Framtíð Evrópu֧“. Þar mun hún stíga á stokk ásamt fulltrúum hægriflokka og þjóðernispopúlista víðsvegar að úr Evrópu. Í lýsingu á atburðinum kemur fram að ráðstefnan feli í sér tækifæri til samtals um íhaldssama sýn á hvernig endurvekja megi „traust til stjórnvalda og lýðræðislega ábyrgð í Evrópu“.

Fréttavefurinn Politico hæðist að veru Sigríðar Andersen á ráðstefnunni og bendir á að hún er meðal þeirra fjölmörgu ræðumanna sem eiga sér umdeildan feril og hneykslismál að baki. Eitthvað virðast þó staðreyndirnar hafa skolast til, því Politico fullyrðir að Sigríður sé „næstum því fyrrverandi dómsmálaráðherra eftir að hafa rétt svo varist vantrauststillögu í kjölfar þess að hún náðaði barnaníðing með leynilegum hætti“. 

Þarna er væntanlega vísað til tveggja aðskildra mála, annars vegar þess að dómsmálaráðuneytið hélt því leyndu, í trássi við ákvæði upplýsingalaga, að faðir forsætisráðherra hefði skrifað undir meðmæli fyrir barnaníðinginn Hjalta Sigurjón Hauksson þegar hann sótti um uppreist æru og hins vegar þess að dómsmálaráðherra braut stjórnsýslulög við skipun Landsréttardómara og varðist vantrausti á Alþingi vegna málsins í síðustu viku. 

Á meðal ræðumanna á ráðstefnunni er Angel Dzhambazki, búlgarskur Evrópuþingmaður og þjóðernissinni sem hefur sætt harðri gagnrýni fyrir ummæli um samkynhneigða, múslima og Roma-fólk. Árið 2016 kvartaði sænsk Evrópuþingkona undan hatursoræðu hans í garð minnihlutahópa og hvatti íhaldsmannaþinghópinn á Evrópuþinginu til að grípa til ráðstafana vegna málsins. Svo virðist þó sem hann njóti enn virðingar hjá Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna í Evrópu. 

Annar ræðumaður á ráðstefnunni er Victor Ponta, fyrrverandi forsætisráðherra Rúmeníu sem hefur sætt rannsókn vegna gruns um skattalagabrot og misbeitingu valds en verið hreinsaður af grun um peningaþvætti og fjársvik. Af norrænum gestum má nefna Evrópuþingmanninn Anders Primdahl Vistisen úr Danska þjóðarflokknum og Samuli Virtanen, varautanríkisráðherra Finnlands sem var ávíttur af lögreglu í fyrra fyrir að fela sig í bílskotti þegar hann átti leynifund með forsætisráðherra Finnlands. Nokkrir af ræðumönnum koma úr þingmannahópi stjórnarflokksins í Póllandi, Laga og réttlætis. Einn þeirra er Ryzsard Czarnecki sem nýlega var rekinn úr stóli varaforseta hjá Evrópuþinginu eftir að hafa kallað kollega sinn á þinginu „shmaltsovnik“ sem er skammaryrði yfir Pólverja sem notfærðu sér veika stöðu gyðinga þegar landið var hernumið af nasistum eða unnu með hernámsliðinu. 

Sjálfstæðisflokkurinn er einn af fáum hægriflokkum í Vestur-Evrópu sem tilheyra Evrópusamtökum íhalds- og umbótasinna, en þar eru meðal annars stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn sem þekktir eru fyrir þjóðernisofstæki, alræðistilburði og harða afstöðu gegn réttindum minnihlutahópa.

Á meðal systurflokka Sjálfstæðisflokksins í samtökunum eru Lög og réttlæti, sem hefur beitt sér af mikilli hörku gegn rétti kvenna til fóstureyðinga, og flokkur Erdogans í Tyrklandi, Réttlætis- og framfaraflokkurinn, sem hefur sætt harðri gagnrýni fyrir alræðistilburði, mannréttindabrot og kúgun. 

Eins og Stundin hefur áður fjallað ítarlega um hefur Sjálfstæðisflokkurinn hert stefnu sína í útlendingamálum í tíð Sigríðar Andersen sem dómsmálaráðherra. Í því samhengi ætti ef til vill ekki að koma sérstaklega á óvart að hún taki þátt í viðburði með þjóðernispopúlistum frá öðrum Evrópuríkjum. Sigríður Andersen hefur sætt gagnrýni fyrir lögbrot við skipun dómara. Systurflokkar Sjálfstæðisflokksins í Póllandi og Tyrklandi hafa hins vegar gengið miklu harðar fram gagnvart dómsvaldinu. Þannig hefur til dæmis flokkur Erdogans staðið fyrir pólitískum hreinsunum þar sem dómarar í þúsundatali voru handteknir eða þeim vikið frá störfum. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Nýtur trausts innan lögreglunnar þrátt fyrir nauðgunarkærur

Fréttir

Hent út af heimili sínu eftir að hún steig fram

Ríka Ísland

Ríka Ísland

Leiðari

Hvers virði eru völdin?

Greining

Miðflokkurinn er stærsta popúlíska hreyfing Íslands

Fréttir

Greiðsluþakið hækkað þrátt fyrir loforð um lækkun

Mest lesið í vikunni

Úttekt

Laun íslenskra bæjarstjóra hærri en í erlendum stórborgum

Fréttir

Nýtur trausts innan lögreglunnar þrátt fyrir nauðgunarkærur

Fréttir

Hent út af heimili sínu eftir að hún steig fram

Fréttir

Sósíalistar vilja afnema greiðslur slökkviliðsins til borgarstjóra

Fréttir

Bróðir Hauks handtekinn fyrir að flagga tyrkneska fánanum á Stjórnarráðshúsinu

Fréttir

Vildi ekki verða „húsþræll“ í vinstri- og miðjusamstarfi en myndaði atkvæðablokk með Sjálfstæðisflokknum