Yfir hundrað frásagnir af áreitni í íslenska vísindasamfélaginu: „Ég fraus af hræðslu“

Hér birtast 106 sögur kvenna af kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldin innan vísindasamfélagsins.

ritstjorn@stundin.is

1. Ungur rannsakandi á leið með eldri akademískum starfsmanni út á land að safna gögnum. Í símtali segir akademíski eldri karlinn konunni að hann hafi verið velta því fyrir sér hvernig væri að ríða henni. Hún víkur samtalinu að öðru eins og konum er kennt að gera. Hún fer síðan til yfirmannsins og kvartar enda séu þau á leið út á land. Niðurstaðan var að taka verkefnið af ungu konunni og fá eldri konu til að fara með karlinum í verkefnið. Lærdómur ungu konunnar var að halda kjafti þegar samstarfsmenn áreita hana. Töpuð tækifæri. Konur þurfa bara að vera duglegri og það allt. 

2. Felldi nemanda um daginn fyrir að skila mörgum vikum eftir skilafrest og lét hann vita í t-pósti. Hann hringdi í mig froðufellandi og sagði mér að ég væri enginn lífskennari fyrir hann og að ég hefði ekki átt að útskýra fyrir honum af hverju hann féll heldur bara fella hann orðalaust. 

3. Ég tók að mér kennslu í forföllum í nokkrar vikur við ónefndan framhaldsskóla. Ég var ungur háskólanemi og hafði ekki kennt áður. Lagði mikla vinnu i fyrirlestrana en komst svo að því eftirá að strákahópurinn kortlagði og var með einhvers konar veðmál um það i hvaða fötum ég myndi mæta næst.

4. Eitt sem mér hefur fundist vera voðalega tabú að ræða er framkoma karlkyns háskólanemenda við kvenkyns kennara. Ég veit ekki hvað ég hef oft orðið fyrir hrútskýringum af hálfu jafnvel nemenda á fyrsta ári, mér verið „bent á“ að ég hafi rangt fyrir mér um merkingu einhverra hugtaka, að ég noti ekki réttar kennsluaðferðir, prófunaraðferðir o.s.frv. o.s.frv. og sagt að einhver karl geri þetta svo miklu betur. Og svo eru það nafnlausu athugasemdirnar í kennslukönnununum. Þær sem ég hef fengið eru ekki eins slæmar og sumt sem ég hef heyrt af, en mér hefur verið sagt að ég tali asnalega, ég tjái mig asnalega og að ég sé ekki hæf til að stunda kennslu á háskólastigi (ég er með doktorsgráðu frá virtum bandarískum háskóla, takk).

5. Ég var ungur lektor a tímabundnum samning við virtan erlenda háskóla. Gestakennari spurði hvort ég gæti hjálpað sér. Auðvitað sagði ég. Þá lét hann mig fá blaðabunka sem hann vildi að ég ljósritaði. Ég kom mér undan því verki.

6. Ekki hef ég tölu á því hversu oft ég var látin skrifa fundargerðir og minnisblöð mitt fyrsta ár innan akademíunnar og get fullyrt ađ aldrei lenti maðurinn minn í slíku. Það endađi með því ađ ég hætti að mæta með tölvur ef ég vissi ađ ég yrði eina konan á fundinum.

7. Sem betur fer get ég fullyrt ađ ég hef ekki orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi mínu innan akademíunnar, hvorki af af hálfu samstarfsfélaga né nemenda (spurning hvort sú staðreynd ađ maðurinn minn starfar innan sömu litlu menntastofnunar sé hluti af fælingarmættinum) - en hrútskýringarnar hefur maður ófáar fengið - og stundum tvær á verði einnar - frá aðilum sem jafnvel hafa minni reynslu og menntun en ég. Kunnuglegt?

8. Flutti fyrirlestur um BS verkefni mitt við lok BS-námsins fyrir ansi mörgum árum þar sem viðstaddir voru m.a. kennarar við og framhaldsnemendur við deildina. Fékk að heyra það frá karlkyns MS-nemum að ég hefði vísvitandi klætt mig ögrandi við fyrirlesturinn svo þeir gætu ekki einbeitt sér að því sem ég var að segja og myndu þar af leiðandi ekki spyrja mig erfiðra spurninga. Gerði stutt nemendaverkefni við háskóla í Svíþjóð fyrir doktorsnámið þar sem leiðbeinandinn sem var virtur prófessor gerði sér far um að „rekast“ utan í mig á öllum tímum, þannig að hann kom við brjóst og kynfæri, en alltaf „óvart“. Strauk mér svo um lærin ef við vorum tvö ein. Flýtti mér frá þessum stað um leið og ég gat. Sagði nokkrum frá þessu en viðbrögðin voru alltaf að ég hefði bara misskilið þetta.

9. Við ónefnda menntastofnun bar svo til eitt árið ađ nokkrum ungum karlkyns nemendum þótti viðeigandi ađ bera sorgarbönd í tilefni kvennafrídagsins. Okkur samstarfskonu minni var stórlega misboðið og lögðum við fram kvörtun til stjórnendur téðrar stofnunar. Málið var afgreitt á þann hátt (hjá karlkyns yfirstjórnendum) ađ þetta hafi nú bara veriđ saklaust grín og blessaðir drengirnir ekki meint neitt með þessu. Aðalpúðrið fór í ađ „róa“ okkur þessa húmorslausu femínista.

10. Ég var einu sinni beðin að koma því á framfæri við sviðsforseta að kollegi (við aðra deild) hefði verið að senda klámfengið efni á sitt deildarfólk, þar á meðal doktorsnema sem upplifðu það sem áreitni en treystu sér ekki til að kvarta. Nokkrum vikum seinna hitti ég sviðsforseta og spurði hvers vegna engin svör hefðu borist. Kom þá í ljós að honum fannst þetta bara dæmi um „vondan húmor“.

11. Persónulega hef ég ekki orðið fyrir þessari áreitni við háskóla á Íslandi, en í vettvangsnámi mínu voru þó nokkur tilvik (eins og að vera boðið gefins jólatré fyrir kynferðislegan „greiða“). Við erlenda skóla hefur þessi áreitni hins vegar átt sér stað, s.s. með augnaráði sem var hiklaust vegið yfir líkama minn í allra viðurvist eða að menn sendu mér skilaboð um að hitta sig eftir miðnætti. Þau skilaboð komu tvisvar frá mönnum sem voru í talsverðri valdastöðu innan akademíunnar. Þegar ég leitaði ráða hjá öðrum fræðikonum á mínum vettvangi, sögðu þær að þetta væri mjög algengt og leiðin sem þær notuðu var að bjóðast til að hitta þá á opinberum stöðum um næsta eða þarnæsta hábjarta dag.

12. Öll skiptin sem allnokkrir samstarfsmenn hafa drafað ofan í brjóstaskoruna á mér eftir að hafa fengið sér aðeins of mikið neðan í því og sagt við mig: ‘Þú ert alltaf svo sæt’ og klappað mér a) á bakið, b) á rassinn, eða c) á lærin eða d) strokið á mér kinnina.

13. Karlmaður sem ég veit fyrir víst að er vanhæfur í starfi sínu byrjar að útskýra fyrir mér -ungu konunni- hvernig ég á að koma mér á framfæri í starfinu, hvert ég á að senda greinar og um hvað ég á að skrifa, á meðan hann starir á brjóstin á mér.

14. Karlmenn hvísla hvor að öðrum „það hlýtur bara að vera eitthvað að heima hjá henni“ með undrunarsvip þegar samstarfskona missir sig gersamlega á kennarafundi yfir ójöfnuði í álagi karla og kvenna innan deildarinnar. Þeir fatta í alvöru ekki að álagið er ólíkt og sumir vita ekki einu sinni að þetta er álagsstarf. Það mun ekkert breytast á meðan ekki er tekið á því.

15. Fyrir allmörgum árum síðan vann ég á rannsóknarstofnun, ég var þá með meistarapróf og deildi skrifstofu með yndælum ungum manni sem hafði nýlokið BA prófi. Saman unnum við, ég og ungi maðurinn að rannsókn á kynbundnum launamun. Það væri ekki í frásögur færandi, nema vegna þess að á meðan á þeirri vinnu stóð uppgötvaði ég að ungi maðurinn var með talsvert hærri laun en ég! Yfirmaður okkar útskýrði að munurinn lægi í því að ungi maðurinn hefði verið í svo góðri samningsstöðu.

16. Öll skiptin sem ég hef verið kölluð stelpa (hint: ég er með grátt hár og komin á breytingarskeiðið).

17. Þegar það var gefið til kynna að ég hefði fengið starfið mitt vegna þess að ég hefði svo góð sambönd.

18. Þegar ég fæ í kennslumati að ég eigi að vera oftar í bleiku peysunni eða mæta í þrengri fötum næst.

19. Ég var nýkomin til starfa innan vísindanna á Íslandi. Yfirmaður minn, giftur maður, var mjög almennilegur sem mér þótti frábært. Ég um þrítugt, hann um sextugt. Eftir nokkurn tíma í starfi kallaði hann mig inn á skrifstofu sína, sagðist elska mig og vildi meira. Mér brá, afþakkaði pent. Reyndi að láta sem ekkert hafi gerst. Samskiptin á milli okkar urðu stirð og svo heyrði ég af því að hann talaði illa um mig við aðra, kallaði mig t.d. „dýrið“ í eyru vinkonu minnar. Af ýmsum ástæðum hélt ég þó starfi mínu áfram en olli þetta mér mikilli vanlíðan í lengri tíma. Loksins, nokkrum árum síðar, lét hann af störfum – þvílíkur léttir. Enginn veit af þessu utan örfáar konur, enda erfitt að sjá hvort það hvað hefði verið hægt að gera í málinu á þessum tíma

20. Ég stýrði sumarskóla með erlendum kollega. Hann kom iðulega með athugasemdir um útlit kvenna (sérstaklega brjóst og fótleggi), hvort sem það voru samstarfskonur, nemendur, eða aðrar. Eitt sumarið sagði hann mér frá því að hann hefði sofið hjá einum nemandanum (!) og bætti því við, svona til skemmtunar, að þau hefðu verið að tala um mig og að hún hefði haldið ég væri XX ára, sem bætti ca. áratug við aldur minn. Ég reiddist heiftarlega, ekki af því mér væri ekki sama þótt einhver héldi mig eldri en ég var, heldur af því að þessu var svo augljóslega ætlað að gera mig meðvitaða og óörugga um útlit mitt. Seinna kærði annar nemandi á sumarskólanum hann fyrir káf í ferðalagi á vegum skólans. Hann varð steini lostinn og sagðist ekki vera „þannig maður“. Hann er enn virtur og vinsæll í faginu og enn að kenna. Það var brugðist við kærunni á sínum tíma, en ég er enn hugsi yfir því hvað við höfðum öll, fram að því, liðið honum. Þar með talið tal um að karlar væru nú svo einfaldar sálir að þeir réðu bara ekki við sig þegar ungar konur með falleg brjóst eða bera leggi birtust.

21. Ég hef verið í háskólasamfélaginu í 10 ár og hef ekki lent í eða orðið vör við kynferðislega áreitni. En ég hef margoft lent í því að betur er hlustað á samstarfsmenn mína af karlkyni heldur en mig eða samstarfskonur. Það á við bæði innan háskólans og í samskiptum út fyrir skólann. Ég hef jafnvel staðið mig að því að sjá til þess að karlmaður beri fram mál sem mér finnst mikilvægt að nái fram að ganga, til að auka líkur á að það verði að veruleika. Ég sat í nefnd innan háskólans í nokkur ár, sem hafði mikilvægt hlutverk. Þar stjórnuðu tveir karlmenn umræðunni (hvorugur var þó formaður), áttu síðasta orðið og réðu iðulega niðurstöðu máls, enda var á þá hlustað. Þetta lagaðist mikið þegar kona tók við að formennsku í nefndinni. Tveir karlmenn töldu sig samt sem áður eiga tilkall til að ráða niðurstöðum en komust ekki upp með það lengur. það tók mig smástund að átta mig á því að nú ætti ég rödd og það væri hlustað. Þannig geta konur breytt menningunni. Ég horfi líka undrandi á unga karlkyns samstarfsmenn fara á fleygiferð upp framgangsstigann á meðan það tekur ungu konurnar mun lengri tíma. Átta mig samt ekki alveg á ástæðunni. Þarna gætu reyndari konur etv komið tli aðstoðar.

22. Ég hef starfað við háskóla á Íslandi í 24 ár og það eru 37 ár síðan ég hóf háskólanám. Á þessum tíma hefur tíðarandinn sem betur fer breyst mjög til batnaðar og ungar konur í dag myndu aldrei láta bjóða sér ýmislegt sem viðgengst fyrr á árum. En sumt hefur ekki breyst og þess vegna er vitundarvakning eins og þessi hér svo mikilvæg. Nokkur dæmi úr fortíðinni: Einn dómnefndarmaður hélt því fram í dómnefndaráliti um mig við íslenskan háskóla að ég hefði ekki skrifað doktorsritgerðina mína við virtan bandarískan háskóla sjálf (þetta myndi ekki gerast í dag!) og sami aðili tortryggði í mörg ár færni mína til að kenna ákveðið námskeið á námsbrautarfundum og víðar (þrátt fyrir mikla ánægju nemenda í kennslukönnunum með námskeiðið). Ég hef lent í því í samtali sem átti sér stað undir fjögur augu þar sem tekist var á um fræðilegt viðfangsefni að ég var skyndilega spurð hvort við ættum ekki að koma aðeins afsíðis, og fleira mætti nefna. Maður áttar sig á því núna að þetta var valdbeiting. Reynt var að gera lítið úr manni og maður sviptur öryggistilfinningu og sjálfsvirðingu. Ég tek það samt fram að fyrir hvern svona svartan sauð voru margfallt fleiri karlkyns samstarfsmenn sem stóðu með mér og bökkuðu mig upp. Langflestir karlar sem ég hef kynnst á ferli mínum eru frábærir.

23. Það er ekki úr vegi að nefna það hér á þessum vettvangi og á þessum árstíma að skv rannsóknum hér sem annars staðar koma konur verr út úr kennslukönnunum. Líka í námskeiðum þar sem meirihluti nemenda eru konur.

24. Ég gæti sagt margar sögur af ýmsu smálegu og stærra sem drifið hefur á daga mína síðan ég hóf háskólanám um aldamótin síðustu. Almennt séð finnst mér hins vegar eins og sagan hafi hafist þá, um aldamótin, en sé enn í gangi, nú hátt í tveimur áratugum síðar. Ég hef breyst úr stúdent, í BA, MA, doktorsnema, nýdoktor, kennara, kollega, rannsakanda, á meðan annað hefur lítið breyst. Mér hefur raunar vegnað vel í akademíunni, og oftast liðið vel líka. En ég er líka þrjósk og með þykkan skráp. Ég hef andskotast áfram. En fyrir mér er sagan engu síður spunnin óslitnum þræði. Stundum hárfínum en stundum grófum og groddalegum. Þessi þráður er ekki og verður ekki rauður þráður í mínum ferli, en er fremur einskonar seigfljótandi undiralda sem ég áttaði mig alls ekki á í fyrstu en varð mér smám saman ljós. Og þannig er það enn. Stundum eru skilaboðin augljós, öðrum stundum loðin. Stundum beinast þau gegn mér persónulega, öðrum stundum gegn konum almennt. Hvoru tveggja brjálar mig. Stundum beinast þau raunar hvorki gegn mér né öðrum konum, heldur beinlínis frjamhjá okkur; hverfast um sjálf sig eins og sjálfumglaður hundur um rófuna á sér, eltast og bítast um að hampa og 'referera' vart spönn frá rassi – oft framhjá konum, líkt og við séum ekki bara eitthvað síðri, heldur bara hreinlega ekki til. Það sturlar mig.

25. Ég stóð fyrir námskeiði þar sem nemendum var kennt á nýtt forrit fyrir tæki sem er í eigu námsbrautarinnar minnar. Tveir karlar komu að utan til að kenna og sýndu okkur fjölmargar myndir af notkun tækisins þar sem aðeins karlar komu við sögu. Einn kvenkyns nemandinn spurði þá: 'eru engar konur að vinna með svona tæki?' Kennarinn svaraði, 'nei, þið verðið bara að vera duglegri að koma ykkur á framfæri.' Svo þegar kom að því sýna nemendum sjálft tækið - sem ég hef unnið með í mörg ár - tók ég það fram og ætlaði að búa mig undir að sýna hvernig það virkaði. Nei, þá kallaði kennarinn í karlkyns þátttakanda í námskeiðinu og bað hann um að sýna nemendum á tækið! Ég fór eitthvað að malda í móinn - tuða að mér fannst - um að ég væri sú sem hefði notað tækið mest af öllum þarna inni en það var eins og ég væri ósýnileg.

26. Karlkyns nemandi sem var hjá mér í tveimur námskeiðum á sama tíma, öðru sem ég kenndi ein og hinu sem ég kenndi til hálfs á móti karlkyns kennara, sýndi mikinn yfirgang í tímum hjá mér. Hann greip stöðugt fram í fyrir mér og fór gjarnan út í einræður um ógnina sem stafaði af femínistum (sem var nokkuð langt frá viðfangsefnum námskeiðanna) og hafði almennt truflandi áhrif á kennslu, bæði fyrir mig og fyrir aðra nemendur. Svo var hann endalaust að kvarta (fyrir framan allan hópinn) yfir því hvað kennslan hjá mér væri ómöguleg. Ég þurfti stöðugt að vera í viðbragðsstöðu til að þagga niður í honum, sem var auðvitað óþolandi. Eftir að ég hafði snúið mér bæði til nánustu yfirmanna og svo á endanum til æðri yfirstjórnar háskólans, nemandinn hafði verið tekinn á teppið og áminntur án þess að hann breytti svo hegðun sinni, þá fór þetta þannig að ég neitaði að hafa hann í tímum hjá mér, enda fannst mér varla hægt að sinna kennslu með hann á staðnum. Þá var misserið u.þ.b. hálfnað. Hann fékk hins vegar að vera skráður áfram í námskeiðin og taka próf og að mæta í tímana sem hinn kennarinn (karlinn) kenndi, enda var hann hinn kurteisasti í tímum hjá honum. Þegar niðurstöður úr kennslukönnun komu fékk ég haug af skömmum frá öðrum nemendum fyrir að hafa ekki haft nógu góð tök á þessum vandræðanemanda. Ég hef greinilega klikkað á því að ná með einhverjum móðurlegum töfraaðferðum að gera þennan mann (sem var um þrítugt) ljúfan og kurteisan. (Always blame the woman!) Þess má auðvitað geta að hinir nemendurnir sýndu alltaf algjöra silent bystander-hegðun meðan maðurinn var að rífa kjaft við mig og sýndi mér fádæma dónaskap.

27. Ég hef oft upplifað innan akademíunnar að framlag karla hafi sjálfkrafa forskot á framlag kvenna. Ég hef verið heppin og ekki orðið fyrir ofbeldi eða kynferðislegri áreitni af hálfu karlkyns kollega en karlnemendur hafa hins vegar farið yfir strikið gagnvart mér.

28. Líkt og margar hér hugsaði ég fyrst með mér „Hmmm ... ég man ekki eftir neinu svona atviki úr vísindasamfélaginu, bara úr menntaskóla þegar eðlisfræðikennarinn sýndi kvenfyrirlitningu reglulega og kom svo illa fram við mig þegar ég reyndi að standa upp í hárinu á honum að ég kom grátandi heim úr skólanum lengi vel“ Ojæja. En svo rifjaðist það upp eitt af öðru. Líklega er þetta stærsta málið: Ég var doktorsnemi við erlendan háskóla. Til þess að fjármagna námið réði ég mig í 50% starf við verkefni hjá X, yfirmanni deildarinnar sem ég starfaði við. Á móti mínum 50% var strákur í annarri 50% stöðu. Fyrsta hálfa árið gekk þetta vel og ég vann sjálfstætt bæði við verkefnið og að rannsóknaráætlun fyrir doktorsverkefnið mitt. Næsta hálfa ár var síðan algjört helvíti. X stefndi að því að landa mjög stórum styrk (talið í milljónum evra) fyrir verkefnið og til þess að geta þetta varð ég að standa og sitja eins og hann vildi og vera einkaritari hans við undirbúning styrkumsóknarinnar. Strákurinn þurfti ekkert að breyta sínum verkefnum en ég átti helst ekki að fara í frí (ekki einu sinni á lögbundnum frídögum) og vinnuloturnar voru allt upp í 18 tíma þar sem hann var kurteis þegar annað fólk var nálægt en öskraði á mig yfir minnstu smámunum þegar færri voru nærri. Ég reyndi að ræða við hann en ekkert gekk. Næst ræddi ég stöðuna við leiðbeinandann minn Y og aðra samstarfsfélaga á deildinni Z en þau sögðust lítið geta gert gegn yfirmanni sínum. Eftir langa umhugsun ákvað ég að hætta í doktorsnáminu og segja upp starfinu. Ég samdi uppsagnarbréf sem fylgdi öllum kurteisisvenjum en gerði þó ljóst hver ástæða uppsagnarinnar væri. Y og Z lögðu mjög hart að mér að gera frekar starfslokasamning heldur en að skrifa uppsagnarbréf. Ég ræddi við starfsmannadeildina og komst að því að fyrir mig væri uppsagnarbréf miklu betri kostur. Ritari deildarinnar bað um að fá að lesa uppsagnarbréfið og ráðlagði mér að taka út lokasetninguna - líklegt væri að annars yrði ég kærð fyrir meiðyrði, það hefði gerst áður með kvenkyns starfsmann, leiðbeinandinn hefði unnið málið (enginn þorði að standa móti yfirmanninum þótt allir vissu hið rétta í málinu) og deildin væri rétt nýbúin að sleikja sárin eftir það uppþot. Aftur lagðist ég undir feld og ákvað að fyrst ég væri að fara þá væri óþarfi að rífa upp deildarsár þeirra sem eftir væru og skilaði bréfinu inn án síðustu setningarinnar. Næstu daga dúkkuðu upp sífellt fleiri sorgarsögur um kvenmenn sem höfðu orðið að hætta störfum við deildina vegna X og allir voru kvíðnir fyrir mína hönd um hvernig viðbrögð hans yrðu við uppsagnarbréfinu. X boðaði mig á fund. Ég mætti á tilsettum tíma en þegar ég kom lét hann í það skína hvað hann væri upptekinn og mikilvægur og lét mig setjast meðan hann hringdi einhver símtöl. Svo ég sat eins og illa gerður hlutur og reyndi bara að láta eins og ekkert væri. Hann var eins og eldfjall rétt áður en það gýs en tókst svona sæmilega að gjósa ekki á mig, m.a. með því að kalla inn til sín nýdoktor A sem ég þekkti lítið sem ekkert (en vissi þó að hann, giftur maðurinn, hélt við) til að vera á fundinum líka. Sem betur fer hafði ég undirbúið fullt af spurningum tengdar fundarboðinu og þótt hann sneri út úr þeim öllum þá tókst A alla vega að koma því þannig fyrir að ég fékk einhver svör. Inn á milli kom hann með mjög undarlegar kröfur um alls konar skriflegar yfirlýsingar - vildi m.a. fá skriflegt hvenær ég ætlaði að vera á staðnum meðan á uppsagnarfrestinum stæði (fram að því hafði aldrei verið fylgst með því áður og ég alltaf mætt samviskusamlega og unnið vel, þetta hljómaði eins og hann ætlaði að hanka mig á því að hafa ekki mætt, svona hálfgerð hótun) og gerði mér ljóst að ég myndi héðan í frá ekki vinna að doktorsverkefninu mínu og krafðist þess að ég afsalaði mér verkefninu því það væri þá EIGN hans og Y (sem var og er algjört rugl, ég hafði fengið hugmyndina að verkefninu alveg sjálf og unnið mjög sjálfstætt að rannsóknaráætluninni) og í lokin klykkti hann út með því að ef starfsmannadeildin spyrði hann útúr (það getur gerst þegar uppsagnir verða) þá myndi það hafa afleiðingar, sér í lagi umsagnar-bréfið um vinnuna mína og þar með á framtíðarferil minn innan háskólasamfélagsins. Ekki veit ég hvernig en ég hélt bara andlitinu og kláraði fundinn. Andrúmsloftið var ekki gott þegar X var á staðnum og hann var með stöðugan yfirgang við mig - svo mikinn að þau sem voru með mér á skrifstofu (eldra og reyndara fólk en ég) urðu miður sín og fóru líka að gráta. Karlmaður var ráðinn í stöðuna þegar ég fór.

29. Ég var hluta úr náminu mínu við erlendan háskóla og hann var leiðbeinandinn minn. Hann tók vel á móti mér og var með eindæmum gestrisinn, en smám saman fór ég að fá skrítna tilfinningu fyrir honum. Hann var ítrekað að reyna að fá mig eitthvað með sér ein, og þegar ég vildi það ekki reiddist hann. Steininn tók úr þegar ég áttaði mig á því, sem betur fer fyrir brottför, að ferð sem ég hélt að hópur tengdur skólanum væri að fara í væri í raun bara ég og hann. Ég sagði frá öllu um leið og ég kom heim, en stöðu hans (og minnar) vegna þótti ekki ráðlegt að aðhafast neitt. Hann hélt áfram að senda mér tölvupósta og myndir af sér löngu eftir að ég kom heim. Seinna gerði ég upp mín mál, en hann er enn prófessor við virtan háskóla og heldur áfram að taka að sér nemendur.

30. Ég er búin að vera að lesa sögurnar í þessum hópi alveg bara „ji, en gasalegt, mikið er ég heppin að hafa aldrei lent í neinu, bara heyrt af ýmsu frá samstarfskonum.“ Síðan mundi ég eftir íslenska kolleganum sem var sífellt að reyna við mig á vinnustaðadjammi. Ég var um þrítugt, hann um fimmtugt. Viðreynslunar ágerðust þegar leið á kvöldið og náðu hámarki þegar hann æpti „you are the object of my desire“ til mín yfir smekkfullan og háværan bar, aftur og aftur og svo hátt að ég heyrði í honum inn á klósett. Linnti ekki látum þar til að hann var fjarlægður af staðnum. Og ég var búin að gleyma þessu. Hversu lýsandi er það?

31. Ég skrifaði sjálf hér að ég hefði aldrei lent í neinu. Steingleymdi því þegar ég sat á kaffistofunni með fjórum körlum sem voru að hreykja sér af klámnotkun og fannst bara fyndið þegar ég hellti mér yfir þá, gekk út og skellti á eftir mér.

32. Karlkyns nemandi með ríflega uppblásna sjálfsmynd og sauðölvaður þetta kvöld kleip mig skyndilega þéttingsfast í rassinn á árshátíð nemendafélagsins þar sem við kennarar skiptumst á að mæta. Ég sagði honum rækilega til syndanna þegar þetta gerðist en aðhafðist ekki frekar.

33. Ég hef verið í háskólasamfélaginu í 10 ár og hef ekki lent í eða orðið vör við kynferðislega áreitni. En ég hef margoft lent í því að betur er hlustað á samstarfsmenn mína af karlkyni heldur en mig eða samstarfskonur. Það á við bæði innan háskólans og í samskiptum út fyrir skólann. Ég hef jafnvel staðið mig að því að sjá til þess að karlmaður beri fram mál sem mér finnst mikilvægt að nái fram að ganga, til að auka líkur á að það verði að veruleika. Ég sat í nefnd innan háskólans í nokkur ár, sem hafði mikilvægt hlutverk. Þar stjórnuðu tveir karlmenn umræðunni (hvorugur var þó formaður), áttu síðasta orðið og réðu iðulega niðurstöðu máls, enda var á þá hlustað. Þetta lagaðist mikið þegar kona tók við að formennsku í nefndinni. Tveir karlmenn töldu sig samt sem áður eiga tilkall til að ráða niðurstöðum en komust ekki upp með það lengur. það tók mig smástund að átta mig á því að nú ætti ég rödd og það væri hlustað. Þannig geta konur breytt menningunni. Ég horfi líka undrandi á unga karlkyns samstarfsmenn fara á fleygiferð upp framgangsstigann á meðan það tekur ungu konurnar mun lengri tíma. Átta mig samt ekki alveg á ástæðunni. Þarna gætu reyndari konur etv komið tli aðstoðar.

34. Fyrir nokkru kom til mín nemandi í grunnnámi til að ræða samkennara minn, sem henni fannst vera að „nálgast það fara yfir mörk“ hjá sér. Hún tók fram að „ekkert hafi gerst“ annað en að hann hafi beðið hana að hitta sig á kaffihúsi, svo heima hjá sér, faðmað, tekið niður símanúmer hjá henni og viljað hitta hana aftur næsta dag. Henni fannst þetta svo óþægilegt þegar hún var heima hjá honum, að hún hafði sent skilaboð á vin sinn til að láta vita hvar hún væri og hjá hverjum ef eitthvað myndi gerast. Allt var þetta eftir að hún bað um endurgjöf á verkefni svo hún gæti gert betur í næsta. Hún lagði áherslu á að hann hefði ekki beitt sig neinu ofbeldi, en vildi vita hvort þetta væri eitthvað sem hljómaði kunnuglega í mín eyru. Ég þvertók fyrir það, en tilkynnti deildarforseta um samtalið. Svipurinn á honum sagði mér allt sem ég þurfti að vita. Maðurinn hafði verið ávíttur fyrir brot gegn nemanda áður, en það var talið einkamál og enginn í deildinni látinn vita. Ég skrifaði skýrslu og málið fór til fagráðs. Deildarforseta og sviðsforseta til hróss þá sögðu báðir að þeir myndu ekki hafa manninn í vinnu áfram, en hann sagði upp og fór af landi áður en til kom. Engu að síður situr í mér að ég dró úr nemandanum með því að segja að þetta væri ekki endurtekið brot - og mér var sagt að þetta væri trúnaðarmál sem ég mætti ekki ræða. Með leyfi nemandans gerði ég það engu að síður.

35. Sest niður og fer að rifja upp atvik úr fortíðinni þar sem ég hef upplifað og orðið fyrir spörkum feðraveldisins. Það er skrýtið hvað þau tilvik eru orðin geymd (en ekki gleymd) og hvað maður hefur ýtt þessu djúpt niður í meðvitundina og þarf að hafa fyrir því að rifja upp og koma í orð, hvort sem um er að ræða atvik úr æskunni, unglingsárunum eða frá fullorðinsárunum, í vinnu, á heimili, skóla, úti í almannarýminu ... Þannig hef ég brynjað mig gegn ofbeldinu, reynt að láta mér líða betur, reynt að fá þetta ekki á heilann - með því að halda þessu vel innilokuðu í kimum huga og líkama (af því maður man slíkt best með líkamanum - þið vitið; þessi óþægindi í maganum og hörundinu þegar maður er snertur gegn vilja sínum, augngoturnar sem afklæða, athugasemdirnar sem stinga og allt það). Þegar upp er staðið og sögurnar troðast fram í dagsljósið sé ég að þetta er efni í heila bók. Gangi ykkur og okkur vel - baráttukveðjur!

36. Ég hef verið mjög hugsi yfir þeim sögum sem ég hef lesið og líka mínum eigin sögum sem ég var sumum búin að gleyma enda hef ég oftast brugðist við með því að ýta svona atvikum frá mér og halda áfram. Kannski ekki annað hægt. En krafturinn er í fjöldanum og því deili ég hérna samantekt af minni reynslu síðustu 20 ár. Í starfi mínu sem vísindamaður hef ég upplifað fleiri dæmi en ég mun reyna að telja upp um kynjamisrétti þar sem mín menntun, þekking og reynsla er metin minni er karlkyns kollega. Þessi mismunun hefur komið frá almenningi, nemendum og (minnst) frá öðrum vísindamönnum. Ég hef upplifað kynbundið áreiti t.d. óviðeigandi athugasemdir varðandi útlit mitt, kynferði og kynhegðun oftar en ég treysti mér að telja upp. Þetta áreiti hefur aðallega verið frá öðrum innan akademíu sem unnu á sama leveli og ég á þeim tíma t.d. samnemendum eða samstarfsmönnum en líka frá nemendum og stundum frá starfsmönnum í stoðþjónustu. Í bara eitt skipti frá karlmanni sem hafði einhver yfirráð yfir mínum störfum/námi. Ég hef upplifað viðvarandi kynferðislegan áhuga í því mæli að það hafði truflandi áhrif á nám/störf/samstarf þrátt fyrir að hafa gefið mitt áhugaleysi til kynna. Í eitt skipti hef ég orðið fyrir árás með kossum og þukli við mín störf sem vísindamaður en viðkomandi var starfsmaður fyrirtækis sem ég var í samstarfi við (ekki sjálfur í rannsóknum). Ég hef upplifað hundsun og jaðarsetningu innan vísindaheimsins og þá jafnvel tilfelli þar sem hefur verið gengist við því að það væri vegna þess að það væri „óþægilegt“ fyrir viðkomandi að vinna með mér vegna kynferðis.

37. Þegar ég byrjaði í grunnnámi við háskóla fyrir ekki svo mörgum árum síðan sat ég erindi þar sem nemendum var kennt á fjarnámskerfi sem við notuðum í náminu. Kennslan var í höndum karlmanns sem nýtti hvert tækifæri til að segja groddalega brandara sem beindust gegn konum og hló dátt að eigin gríni. Útskýrði í lokin að ef við fylgdum hans leiðbeiningum yrði ekkert vesen á kerfinu heldur myndi það „haga sér eins og vel öguð eiginkona.“ Mér var verulega misboðið en hafði enga hugmynd um hvert ég gæti beint kvörtun og svo dagaði óánægjan upp innra með sjálfri mér -eða ekki. Hún er þar enn, enda fékk hún aldrei farveg burt. Ef þetta er ekki ögunartækni, það að setja konur svo rækilega á sinn stað fyrstu vikuna þeirra innan háskólasamfélagsins, þá veit ég ekki hvað er það.

38. Ég er nú bara rétt skriðin inn í akademíuna – er enn í doktorsnámi. En þar áður starfaði ég í menntakerfinu um árabil. Þar upplifði kona þetta vanalega (!) - hrútskýringar og frammígrip á deildarfundum og svo einstaka káf og óþægilegar athugasemdir þegar áfengi hafði verið haft um hönd. En ákvað að deila þremur örsögum hér – þó þetta eigi ekki við um háskólaumhverfið. 1. Ég fékk mikilvæga verkefnastjórastöðu innan skólans. Eftir það þurfti ég oft að stjórna fundum, stýra teymisvinnu og kynna og vinna með alls kyns tillögur. Ég fékk oft að heyra það að ákveðnir karlmenn væru ekki sáttir við það að ég skyldi gegna þessari stöðu. Stundum fékk ég að heyra það að yfirmaðurinn hefði valið mig í þessa stöðu því ég væri svo meðfærileg og þannig gæti hann óbeint stjórnað í gegnum mig. Ég veit að einn kollegi minn kallaði mig „gullstelpu“ yfirmannsins – þegar ég heyrði ekki til. 2. Ég byrjaði ung að kenna í framhaldsskóla, nýútskrifuð úr BA námi. Í kennaragleðskap við upphaf skólaársins fékk ég að heyra það frá eldri karlkennara (sem sagði þetta hátt og skýrt yfir hóp af öðrum körlum, sem ég þekkti lítið sem ekkert) að ég skyldi ekki gera mér neinar vonir um að karlkyns nemendur mínir hlustuðu á mig, þar sem ég væri svona ung og sæt. Ég man að ég flissaði vandræðalega og gekk svo í burtu, fannst þessi athugasemd ömurleg og tek ennþá sveig framhjá þessum manni! 3. Samstarfsmaður minn (sem ég þekkti lítið) sá sig einu sinni knúinn til að gera athugasemdir við peysu sem ég var í. Honum þótti hún greinilega ekki nógu klæðileg eða flott og ráðlagði mér (í fúlustu alvöru) að ég ætti alltaf að hafa manninn minn með mér þegar ég færi að kaupa föt.

39. Var áreitt kynferðislega á árshátíð starfsfólks. Ég brást illa við og skammaði viðkomandi á staðnum. Sendi síðan rektor skólans tölvupóst um málið sem hann svaraði eingöngu með því að vitna í lagagrein og aðhafðist ekkert. Ég þurfti því sjálf að tilkynna viðkomandi að málið yrði kært ef ég yrði vör við eitthvað svona aftur. Fékk reyndar afsökunarbeiðni sem ég hef tekið gilda.

40. Þetta atvik átti sér stað þegar verið var að fagna afmæli stofnunar. Við höfðum öll farið saman út að borða og sumir héldu áfram á bar fyrir nokkra drykki enn. Þar sem við sitjum öll saman, nokkur hópur, segir yfirmaður stofnunarinnar að ég eigi að koma með sér á barinn, hann ætli að bjóða mér í glas. Ég fylgi hlýðin og er bara kát eftir skemmtilegan dag. Hann fer svo að spyrja mig út í fyrirætlanir mínar á vinnustaðnum, svona ung stelpa, hver væri mín framtíðarsýn. Þarna renna á mig tvær grímur enda áttaði ég mig á því að þetta væri ekki viðeigandi vettvangur fyrir svona umræðu. Ég hleyp í gríngírinn og svara, bæði í gríni og alvöru, að ég telji mig bara vera góða í mínu starfi og ætli mér bara langt. Hann átti greinilega ekki von á svona framhleypni og segir halfsnúðugur við mig að ég sé nú ekkert sérstök. Lengi vel eftir þetta skynjaði ég andúð hans gagnvart mér.

41. Nemandi kom til mín eftir að hafa lokið námi og sagði mér frá karlkynskennara sem hafði boðið henni að ræða við sig á skrifstofunni sinni undir fjögur augu. Þegar þangað var komið fór hann að bjóða henni nudd og tala um hvað hann væri hrifinn af henni. Hún færðist undan í flæmingi en hann hélt áfram. Þegar hún varð enn ákveðnari og hafnaði honum afdráttarlaust gerði hann henni ljóst að ef hún myndi þýðast hann fengi hún betri einkunn. Þegar samtalið var komið á þennan stað neitaði hún staðfastlega og forðaði sér út. Hún sagði sig úr námskeiðinu samdægurs, sem og nokkrir karlkyns samnemendur sem hún sagði þessa sögu stuttu eftir að atvikið átti sér stað. Þegar ég heyrði söguna tilkynnti ég atvikið til stofnunarinnar, en fékk aldrei nein viðbrögð. Kennarinn er enn við störf.

42.Ofbeldi sem felur í sér lítillækkandi tal og vantrú á konur kemur hér fyrir aftur og aftur svo ég ætla að bæta einni sögu við: Ég sat í nokkur ár í stjórn ákveðinnar stofnunar og þar stóð til að ráða nýjan stjórnanda. Staðan var auglýst og hefðbundið ferli fór af stað. Svo þrengdist hringurinn eins og gerist. Þetta var mikil vinna og vandað til verka. Á endanum var kona ráðin í starfið, hún hafði einfaldlega komið best út. Rétt áður en gengið var frá ráðningunni sendi einn af karlmönnunum sem sótti um bréf til 10 karlmanna í háskólanum mínum (engrar konu); samkennara, deildarformanns, sviðsforseta, rektors, fjármálastjóra osfrv. (hann hafði greinilega flett heimasíðunni og valið þá valdsmannslegustu) og bað þá að mæla með sér við mig - sem sagt að þeir beittu sínu karlmannlega valdi til að ég breytti um skoðun. NB. Ég var ekki fulltrúi míns háskóla í þessari stjórn og minn skóli hafði alls ekkert með þetta ferli að gera. Nokkrum dögum seinna hringdi þessi maður í mig og til skiptis “vina-mínaði” mig og reyndi að skelfa í afar löngu og óþægilegu símtali. Það þarf vart að taka það fram að þessi framkoma breytti engu um ráðninguna en annarri eins kvenfyrirlitningu hef ég aldrei kynnst.

43. Úr kennslukönnun: „Kennarinn truflar kennslu með of síðu ljósi hári sem dettur fyrir andlitið.“

44. Saga úr einkageiranum. Kona var í góðu starfi og elskaði vinnuna sína, karlkyns yfirmaður hennar sem var nærri 3 áratugum eldri byrjaði að áreita konuna kynferðislega á mjög grófan hátt eftir að þau höfðu unnið saman í 1,5 ár. Konan vissi að ef að hún myndi láta vita þyrfti hún að hætta því maðurinn var hátt settur í fyrirtækinu. Hún vildi ekki þurfa að hætta í vinnunni sinni, hún vissi að hún gæti þolað ýmislegt og vildi vera sterk. Hún lét sig því þola ástandið í von um að hann yrði þreyttur á því að fá endalaust neitun og ekki komast lengra en að hann komst líkamlega. Í stað þess að lagast, versnaði áreitnin og að lokum brotnaði konan niður og sagði samstarfsfélaga frá ástandinu. Málið var tekið fyrir stjórn félagsins og lögfræðingar og vinnustaðasálfræðingur voru kölluð til. Konan var brotin í þúsund mola, áhyggjufull að þetta myndi brennimerkja hana og þ.a.l. hindra hana í að fá góða vinnu (týpísk fyrstu viðbrögð þolenda). Eftir erfiðar og kaldranalegar viðræður við stjórn var hún búin að ákveða að fara að fara til lögreglunnar og kæra en stjórn fréttir það og býður upp á samning í stað þess að konan þegi yfir ástæðunni fyrir því að hún hætti. Hún samþykkir að lokum samninginn því hann gefur henni nokkra mánuði til að jafna sig og fá hjálp frá sálfræðingum. Hinn möguleikinn var að vera í molum, óvinnuhæf vegna áfallastreituröskunnar (sem er ekki gott fyrir fjölskylduna því hún var fyrirvinnan) og reyna að berjast í réttarkerfi sem er meingallað fyrir þolendur kynferðisáreitni. Á engun tímapunkti fann konan fyrir neinni samúð frá stjórn félagsins og enginn úr stjórn reyndi að hafa samband við hana til að athuga með hennar líðan eftir að hún hætti þrátt fyrir að vita um alvarleika brotanna. Ef konan ákveður að kæra eða segja frá er hún skaðabótaskyld samkvæmt samningnum sem hún skrifaði undir. Hún heldur enn í lykilsönnunargögn og ef svo fer að maðurinn brjóti samninginn þá mun hún ekki hika við að fara til lögreglunnar og kæra.

45. Ég var með leiðbeinanda í meistaranámi í Bandaríkjunum sem var alltaf á grensunni með þetta að vera vinalegur og aðeins of vinalegur. Þið vitið líklega hvað ég á við. Aðeins of nálægt að tala við mann, létt-daðrandi athugasemdir, en aldrei með þukl. Hvorki mér né samnemendum mínum (konum) leið sérstaklega vel með honum ef við vorum einar. Þegar ég var um það bil hálfnuð í náminu sendi hann mér svo tölvupóst og bauð mér í dinner og bíó. Ég sló þessu boði á dreif, þetta var frekar kasúal orðað en það hringdi einhverjum bjöllum. Ég vonaði bara að það myndi ekki koma upp aftur. Þessi maður var jú leiðbeinandinn minn og alveg einn um það að sjá til þess hvort ég útskrifaðist eða ekki. ... Ég fæ ennþá velgju að hugsa um þetta. Velti því fyrir mér hvort hann hafi gengið lengra við einhverjar aðrar. Úff.

46. Fyrir nokkrum árum hafði ég umsjón með námskeiði og var með tvo aðstoðarkennara, sem báðar voru konur. Þegar kennslumatið kom - fengum við ekki að sjá það. Ástæðan sagði yfirmaður mér vera sú að það væri svo mikið af athugasemdum um útlit okkar og líkamsburði - og hann gaf í skyn jafnvel klámfengnar athugasemdir. Ég var ósátt við að fá ekki að sjá kennslumatið og taka á málinu sjálf. Ég var ósátt við að „málið var leyst“ með því að loka á aðgang kennara að kennslumatinu. Verð ennþá reið þegar ég hugsa um þetta.

47. Tvennt. Eitt sinn vatt sér upp að mér karlkynsnemandi á bar og setur höndina á lærið á mér. Ég fjarlægi höndina á honum og gef honum skýrt til kynna að þetta sé ekki við hæfi. Hitt - sem var öllu óþægilegra var þegar erlendur kollegi minn sendir mér klámfengin skilaboð í gegnum Fésbók. Ég segi honum að hann hafi gengið of langt og að hann ætti skammast. Ég læt stjórnanda rannsóknaverkefnsins vita að ég vilji ekki vinna með þessum manni. Það „eina“ sem hægt var að gera var að gæta þess að við værum ekki á sama hótelgangi þegar við vorum á vinnufundum. Ég sagði innlendum karlkynskollega frá þessu, sem þekkir kauða, og svarið sem ég fékk var „æ - var hann ekki bara fullur“.

48. Ég fékk einu sinni (fyrir mörgum árum síðan líklega u.þ.b 20 árum) þá athugasemd að ég væri í svo stuttum pilsum að ekki væri unnt að einbeita sér að kennslunni hjá mér. Ég kenni aðallega konum og veit ekki hvort athugasemdin kom frá konu eða karli enda fá nemendur að koma með nafnlausar athugasemdir í kennslukönnunum. Ég ræddi þetta við brautarformann (konu) sem taldi að ég ætti bara að hafa húmor fyrir þessu. Á þessum árum gekk ég oft í leggings eða þykkum sokkabuxum og pilsum niður á mið læri eða svo. En það sem gerðist þrátt fyrir að ég reyndi að nota húmorinn var að ég steinhætti að ganga í stuttum pilsum, af því ég vildi ekki fá fleiri svona athugasemdir, og var þó alveg þokkalega upplýst um kynjamisrétti.

49. Í nemendahóp mínum eitt haustið birtist maður sem braut á mér kynferðislega þegar ég var á unglingsaldri. Ekki átta ég mig á því hvort hann hafi munað eftir þessu atviki fyrir hartnær þremur áratugum síðan (og efast um að honum finnist hann hafa gert nokkurn skapaðan hlut af sér) en þess má geta að daginn eftir umrætt atvik gortaði hann sig af afreki sínu fyrir framan hóp af fólki og ég var stimpluð lauslát í kjölfarið (og ekki möguleiki fyrir mig að kæra). Það er erfitt að lýsa þeirri líðan að hafa slíkan einstakling í sínum nemendahópi - þó vissi ég að viðkomandi hafði átt ömurlega ævi (mikil neysla áfengis og fíkniefna) og ég tók þann pól í hæðina að virða það við hann að hann væri þó að reyna að bæta sig og sitt líf. Ekki sagði ég neinum frá þessu innan stofnunarinnar, sem eftirá að hyggja var kannski ekki alveg rétt, en ég burðaðist með þetta ein og sér. Í lok námskeiðsins sendir hann mér tölvupóst og þakkar mér fyrir góða kennslu og gagnlegt námskeið. Að sumu leyti fannst mér það ákveðinn sigur - en mikið djöfull var þetta erfitt!

50. Ég hef oft tekið eftir að vera ekki tekin jafnalvarlega og karlkyns jafnaldrar mínir af sumum eldri körlum þó það sé auðvitað ekki algilt og margir karlar hafa verið faglegir og styðjandi. Og ég hef upplifað frekar alvarlega áreitni. Varðandi fyrra atriðið get ég nefnt að þegar ég vann í ákveðnu verkefni með karlmanni sem var staddur á svipuðum stað á ferlinum kom stundum í ljós að aðrir karlmenn höfðu haft beint samband við hann án þess að ég væri höfð með (t.d. sem viðtakandi í tölvupósti) en hins vegar kom aldrei fyrir að ég væri ein beðin um að svara fyrir okkur bæði. Mér fannst ég vera kerfisbundið útilokuð bara vegna þess að ég er kona. Margir karlar hafa sagt eitt og annað óviðeigandi við mig eftir 1-2 glös á ráðstefnum, og eitt sinn snerti einn yfir sextugu mig á lærið, sem mér fannst ógeðslegt og bara glatað af hans hálfu. En ekkert jafnast á við einn prófessor. Það byrjaði með því að hann veitti mér athygli og virtist hafa áhuga á því sem ég var að rannsaka, sótti í félagsskap minn á ráðstefnu erlendis og síðan vildi hann fara reglulega í hádegismat með mér þegar heim var komið. Ég varð upp með mér og hélt að þetta snérist um eitthvað faglegt en reyndar tók ég eftir því að hann gaf mjög lítið út á beinar spurningar mínar um efnið. En ég ýtti áhyggjunum yfir því að ekki væri allt með felldu frá mér því hann var svo virtur og stórt nafn. Síðan fóru að koma athugasemdir um útlit mitt og líkama, rassinn, brjóstin, fótleggina – einu sinni fyrir framan kollega okkar – og ég hef aldrei upplifað þvílíka skömm. Ég vissi ekki hvernig ég átti að bregðast við, ég missti eiginlega bara máttinn og var svo skúffuð að virðulegur prófessor sem var auk þess giftur faðir léti svona og sagði auðvitað ekkert. Síðan fór hann að reyna að fá mig til að hitta sig á kvöldin yfir vínglasi en ég náði alltaf að koma með einhverja afsökun. Á meðan þessu stóð lét hann mig reglulega vita í hvaða mats- og valnefndum hann sat, bara svo ég vissi nú hvað hann gæti haft mikið vald yfir ferlinum mínum. Til dæmis sagði hann að það væri eingöngu honum að þakka að x hefði verið ráðinn en ekki y í hina og þessa stöðuna. Ég vissi ekki hvað ég átti að gera og fannst ég vera komin út í eitthvað fen sem ég kæmist ekki upp úr og það var allt mér að kenna því ég stoppaði þetta ekki í fæðingu þegar það var enn tækifæri. Mig langaði bara að stunda mína vinnu og hafði engan áhuga á að dekstra þennan kall en hvað ef hann myndi vinna gegn mér? Ég vildi forðast ágreining og hummaði allt fram af mér en eftir því sem vikurnar liðu fór ástandið alltaf að vera meira þrúgandi. Hann varð pirraðri yfir að ég skyldi ekki þjónkast hann og fór að pressa meira á mig, en alltaf var ég með einhverja afsökun. Þegar við hittumst í hádeginu (því ég þorði ekki að segja nei við því) lét hann dæluna ganga um líkama minn og margra annarra kvenna í sama fagi ásamt því að tala niðrandi um samkynhneigða kollega okkar. Þarna var ég búin að átta mig á að hann hafði aldrei haft snefil af áhuga á rannsóknunum sem ég var að vinna í og myndi aldrei líta á mig sem neitt annað en einhvern sem hann gæti reynt að ná valdi yfir og síst af öllu vitsmunaveru. Á þessum tímapunkti varð hann enn pirraðri og þá byrjaði hann að reyna að niðurlægja mig fyrir framan samstarfsfólk og brjóta mig niður. Það birtist m.a. í því að hann reyndi að snúa út úr hverju sem ég sagði og reyna að gera það kynferðislegt, sama hversu ósexí málið var. (Ég sá hann líka stunda þetta við aðra á ráðstefnu á svipuðum tíma, þá fór hann að koma með kynferðislegar tengingar í spurningu á eftir fyrirlestri sem ungur kvenkyns doktorsnemi var með og hún byrjaði bara að skjálfa og næstum grét fyrir framan alla.) Á endanum, þegar hann var búinn að eyðileggja líf mitt í marga mánuði, sendi ég honum tölvupóst og sagði honum að gjöra svo vel að láta mig í friði. Þá þóttist hann ekkert vita og sagði að þetta væri allt bara vitleysa og ranghugmyndir í mér. Eftir það hefur hann að mestu sniðgengið mig persónulega og faglega. Til dæmis sá ég ritdóm sem hann skrifaði um greinasafn þar sem ég var með grein sem ég vann mjög mikið í og er stolt af. Hann fjallaði um allar greinarnar nema auðvitað mína. Ég veit að hann hefur áreitt fleiri konur og allir vita hvernig hann er en hann hefur hingað til komist áfram þrátt fyrir það. Ætli hann láti ekki fleiri en mig vita í hversu mörgum og háum nefndum hann er.

51. Ég var að klára framhaldsnám mitt og kynntist manni úr háskólasamfélaginu. Mér fannst eitthvað til þess koma hvaða störfum hann hafði gegnt, bæði tengt því sem ég var að fást við en einnig því sem ég hafði hug á, svo sem bókaskrifum. Það var á heimili hans, klukkan tvö á þriðjudegi sem hann braut á mér. Hann var eldri, stærri og þyngri en það var einnig eitthvað í augunum hans sem ógnaði mér. Eftir árangurslausa tilraun til að setja mörk gaf ég eftir, fraus og reyndi að flýja í huganum. Þegar ég bar nokkru síðar upp á hann skömmina komu setningar eins og: „ég hélt þú værir svona fimmtíu sinnum nei, svo já stelpa“ og „ég vissi að ég þyrfti að vera svona ágengur, annars myndi ég aldrei fá þig“.

52. Ég hef áhyggjur af kynferðislegri áreitni kennara gagnvart nemendum. Nemendur (stúlkur) þora einfaldlega ekki að segja frá, sönnunarbyrðin er erfið og þeir eru háðir kennurum t.d. með mat á verkefnum. Ég hef upplifað að þurfa að taka á svona máli en það var ekki stúlkan sem varð fyrir áreitninni sem sagði frá heldur karlkyns samnemendur hennar sem bentu á að framkoma kennarans væri ekki eðlileg í tímum. Þegar ég talaði við stúlkuna komu í ljós ljótir hlutir, hún var niðurbrotin og þorði ekki lengur að mæta í skólann. Hún þorði ekki að segja frá, vissi ekki hvort henni yrði trúað og að þessu yrði kannski snúið upp á hana, væri henni að kenna. Kennarinn hafði áreitt hana í tímum, í frímínútum og með endalausum skilaboðum. Ég lofaði henni að hún þyrfti aldrei aftur að hitta þennan kennara og gat komið því til leiðar með aðstoð yfirmanna minna. Ég hef oft hugsað um hvað hefði verið gert ef kennarinn hefði verið fastráðinn (sem þessi var ekki). Hvað getum við gert til að auðvelda nemendum að segja frá?

53. Þetta atvik gerðist á árshátíð háskóla fyrir nokkrum árum. Ég var þá að vinna á rannsóknarmiðstöð innan skólans og forstöðumaður annarrar rannsóknamiðstöðvar bauð mér upp í dans. Fyrstu sporin fór dansinn siðasamlega fram en svo fann ég vinstri þumall herrans fór á stað í leit að hægra brjóstinu á mér. Ég brást ókvæða við og spurði hreint út „ertu að reyna að káfa á brjóstunum á mér?!“ sem hann hváði yfir „af hverju spyrðu að því?“. Ég sannfærði manninn um að konur væru nú ekki tilfinningalausar í brjóstunum og við gerðum okkur alveg grein fyrir því hvenær reynt væri að káfa á þeim! Hans svar við því var „þið systur eruð ferlegar!“. Já systir mín hafði sem sagt líka lent í honum þegar hún vann á rannsóknastofnuninni sem hann veitti forstöðu.

54. Ég var í doktorsnámi erlendis, kona á fimmtugsaldri. Það var sumarönn og fáir nemendur á heimavístinni, ég var ein í 5 herbergja íbúð og á neðri hæðinni var erlendur karlmaður á mínum aldri, í annarri íbúð. Fáir aðrir virtust vera í byggingunni. Við tókum tal saman nokkru sinnum og hann þrýsti mjög á mig að koma í heimsókn, sem ég gerði eitt sinn enda virtist hann vera hinn vænsti maður. Hann hafði eldað mat og við spjölluðum, brátt fór hann að verða persónulegur og klámfengin í tali. Mér tókst með herkjum að koma mér í burtu en varð að lofa að koma aftur næsta kvöld. Sem ég auðvitað gerði ekki. Næst þegar ég rakst á hann á förnum vegi hellti hann sér yfir mig, hafði mörg ljót orð og sagði ég hefði svikið sig og ég skyldi koma þetta kvöld annars hefði ég verra af. Þegar þarna var komið sögu var ég orðin meira en hrædd, ég var skelfingu lostinn, harðlæsti íbúðinni og þorði ekki að fara í mötuneytið á daginn og alls ekki út á kvöldin. Reyndi að skjótast út þegar ég vissi að hann væri farinn í tíma. Mér tókst að forðast hann það sem eftir lifði dvalarinnar en mest var ég svekkt út í sjálfa mig fyrir þá heimsku að hafa þegið heimboðið sem hefði vissulega getað farið illa. Ekki síður var ég hissa á sjálfri mér, að ég réði ekki betur við aðstæður sem þessar, stöndug kona sem ég taldi mig vera. Ég skammaðist mín fyrir hvoru tveggja og sagði ekki frá þessu.

55. Kynferðislegri áreitni hef ég ekki lent í en karlkyns nemendur hafa bloggað niðurlægjandi athugasemdir um mig, einn karlkyns nemandi í grunnnámi og móðir hans heimtuðu afsökunarbeiðni frá mér því þeim þótti ég ekki hafa komið rétt fram við unga manninn, sem vildi hærri einkunn á prófi. Tveir valdamiklir einstaklingar í stjórnsýslu háskólans neyddu mig til að biðjast afsökunar á fundi með námsmanninum og móður hans. Annar herrann hafði séð um um að plata mig á fundinn með símtali daginn áður. Ég var öll af vilja gerð að settla óánægju en fundurinn breyttist í martröð fyrir mig þegar ég þurfti að hlusta á móður nemandans, sem var reyndur grunnskólakennari, messa yfir mér um hvernig kennsluhættir væru réttir og vísaði í reynslu sína af því að kenna litlum börnum. Hún var hatursfull, talaði niður til mín fyrir framan syni sínum, sem hún þurfti að vernda fyrir þessum óhæfa kennara, og háu herrarnir bara fylgdust með. Svo heimtuðu herrarnir báðir að ég bæði afsökunar á kennsluháttum mínum, verkefnum sem ég léti nemendur vinna og á því að hafa úskýrt fyrir nemandanum að hann gæti ekki fengið hærri einkunn og hvers vegna. Herrarnir sögðu að ef ég bæðist ekki afsökunar nú þegar þá gæti þessi fundur og mál ekki tekið enda og málið myndi næst fara fyrir háskólaráð sem væri mjög alvarlegt fyrir mig. Þetta voru mjög niðurlægjandi aðstæður og mikil hótun sem fólst í því sem var sagt. Maður skyldi halda að ég hafi brotið verulega á nemandanum eða gert eitthvað meiri háttar af mér, en svo var alls ekki, og mínir kollegar voru sammála mér í því. Ég baðst afsökunar á endanum, trúði varla mínum eyrum, það gerði ég til þess að losna úr þessum mjög óþægilegu aðstæðum, það var greinilega engin önnur leið, öll horfðu á mig og biðu eftir afsökunarbeiðninni, sem ég neitaði fyrst. Þegar ég gekk frá þessum fundi var ég algjörlega niðurbrotin, gekk á háskólasvæðinu í átt að skrifstofu minni grátandi, gat ekki hamið mig, og þegar ég sagði frá þessu í minni deild, þótt svo ég gæti varla talað, þá voru engin ráð um hvernig ætti að höndla svona mál. Mér var síðar bent á að spyrja viðkomandi herra hvort þeir hefðu komið svona fram við karlkennara. Annar herrann kom nokkrum dögum síðar á skrifstofu mína að biðjast afsökunar á þessu "ambushi" en réttlætti það með því að þessi mæðgin væru mjög erfið og þetta hefði verið eina leiðin til að stoppa þau af. Ég hef aldrei verið sátt við þessa framkomu þessara háu herra í stjórnsýslunni og tel að hér hafi verið brotið á mér, allir í deildinni minni voru sammála því, en það var ekkert sem nokkur maður taldi sig geta gert, engin ráð, engar leiðir, engin vernd, enginn formlegur stuðningur. Ég hafði þá verið í fullu starfi hjá skólanum sennilega í 4 ár. Ég lenti í svipuðu máli nýlega en karlmenn komu ekki að því máli, eingöngu konur, og ég tel það megi rekja til óskýrrar stjórnsýslu og úrræðaleysis, klaufaskapar og þekkingarleysis, en valdbeiting var það, ekki spurning. Ég hef síðustu ár beðið rektor um að stofna stöðu „umboðsmanns kennara“, sem mér þykir ekki veita af,en ekkert hefur orðið af því, veit ekki hvort af því verður nokkurn tímann.

56. Bara eitt sem virkar smálegt en sýnir ákveðið viðhorf. Þegar ég var yngri, nýlega útskrifuð og mjög ástríðufull gagnvart starfi mínu kom það fyrir að mér hitnaði í hamsi þegar ég reyndi að „ærskýra“ fyrir „hrútum“ sem virtust ekki skilja eða vilja skilja það sem ég var að segja. Þegar ég var farin að hækka róminn þá kom í ljós að viðkomandi ætlaði ekki að rökræða við mig (enda var það ekki hægt) heldur klykkti út með „þú ert svo helv. sexý þegar þú verður svona æst“ .... þetta sló mig lengi vel út af laginu, var ekki alltaf orðað svona en merkilega líkt. Nú passa ég mig á að missa mig ekki í svona tilgangsleysi …

57. Ég er hrygg yfir þeim fjölmörgu sögum sem hér koma fram. Ég er engin undantekning. Það sorglega er að það er af nógu að taka. Ég deili þessum upplýsingum í þeirri von að þessi vitundarvakning muni koma jákvæðum breytingum af stað. Einn kennara minna í BA náminu taldi sér ekki fært að veita mér umsögn vegna umsóknar um framhaldsnám í Bandaríkjunum þrátt fyrir ljómandi frammistöðu í námi, v.þ.a. að hann taldi að ég væri fötluð kona sem ekki myndi þola það álag sem fylgdi framhaldsnámi. Það er skemmst frá því að segja að ég komst inn í framhaldsnám þar sem aðeins 1% umsækjenda fá inni og aðeins 3:4 nemenda ná að útskrifast þaðan með Ph.D. Ég hreinlega blómstraði í náminu og útskrifaðist með Ph.D. -jafnvel þótt ég væri kona sem hefði slasast í bílslysi. Þegar ég var að vinna doktorsrannsóknina mína á bandarískum spítala fannst einum kollega mínum tilefni til þess að ræða við mig prívat um útlit mitt. Hann sagði að ég yrði að vera meðvituð um hversu mikil áhrif ég hefði á karlmennina á spítalanum, þ.e. að ég væri alltof kynæsandi. Hann sagði að það væri ekkert athugavert við klæðaburð minn eða hegðun. Ég væri faglega klædd og elegant í framkomu. En hinsvegar yrði ég að vera meðvituð um að ég liti svo kynæsandi út frá náttúrunnar hendi að ég hefði ósjálfrátt kynferðislega örvandi áhrif á alla blóðheita karlmenn í návist minni. Ég benti honum á að kynferðislegur æsingur karlmanna væri þeirra eigið vandamál, ekki mitt. Í háskólakennslu í Bandaríkjunum og hér á Íslandi hef ég ítrekað orðið fyrir áreitni af hálfu karlkyns nemenda og kollega sem hafa sagt óviðeigandi kynferðislega hluti við mig, snert mig án míns leyfis og þrátt fyrir að ég hafi bannað þeim það, boðið mér á stefnumót og setið fyrir mér á háskólasvæðinu.

58. Hæ, ég hef kennt aðferðafræði víða í íslenskum háskólum og get sagt að með aldri minnkar skeptíkin á það að ég aksjúllí kunni fagið. Gæti sagt margar sögur um kynjaðar efasemdir og trít úr kennslustofunni (sæta mín sem ávarp td) en ég byrjaði sumsé að kenna 27 ára. En mig langar að deila áreitninni. 1) Ég er í BA námi og mæti prófessor sem er að detta í eftirlaun á árshátíð nemenda. Heilsa honum kumpánlega enda frábær kennari og ég átti engan veginn von á honum þarna. Hann tekur utan um mig og reynir að komast í sleik. Ég forða mér. 2) Ég er að kenna á excel og tíminn er búinn. Tveir nemendur eru eftir í stofunni. Annar talar um hvað hann sé þreyttur í hendinni eftir tímann. Horfir svo á mig, gerir rúnkhreyfingu með téðri hendi og segir „það er ekki einsog maður sé ekki í æfingu!“. Ég leiddi þetta hjá mér en þetta hrærði mikið í mér svo ég leitaði til kvk kollega og komst að því að ég ætti bara að díla við þetta. Engin ráð samt. Svo stuttu síðar elti viðkomandi mig á djamminu. Þá gerði ég díl við kk kollega um að verja mig ef til þess kæmi svo ég þyrfti þess ekki, nokkuð viss um að staða mín væri veikari en hans. Mér tókst að hrista hann af mér. Áfram hélt önnin og ég dílaði með því að útskýra fyrir honum á léttu nótunum að húmor væri fín lína og betra að sleppa kynlífi alveg í því samhengi. 3) Ég hleyp í skarðið fyrir annan kennara (mikilvægt því þetta komst til skila til nemenda þannig að ég var „bara redding“). Eldri maður er í nemendahópnum sem ver svona 5 vikum í að efast um allt sem ég segi og halda örerindi um stöff sem hann samt skildi ekki. Ég tæklaði hann með þolinmæðinni og hafði sosum lent nokkrum sinnum í svona en svo kom hann með kynferðislegar athugasemdir um mig við sessunautinn. Það var djö erfitt að leiða hjá sér. En lifi byltingin!

59. Eins og margar kannski, hugsaði ég fyrst hversu heppin ég er að hafa aldrei lent í neinu „slæmu“ en þegar maður fer að hugsa um síðustu tuttugu ár, þá rifjast upp ýmis og mörg dæmi þar sem hlustað var minna á mig en karlkyns samstarfsfélaga, sagt að vera ekki svona æst og að sýna skynsemi, upplifa fleiri manns vera ægilega hrifna af hugmynd karlkyns samstarfsmanns sem í raun var einungis endursögn á því sem „stelpan“ var búin að vera að segja í langan tíma o.s.frv. Eitt hefur komið sérstaklega upp í hugann en það var þegar ég var nýbyrjuð í starfi sem lektor við háskóla erlendis og var tenure-track, þannig að allir sem voru með æviráðningu ákváðu hvort ég fengi slíka sex árum seinna. Þar var algengt að flestir byðu manni í kaffi eða lunch fyrstu önnina, en einn karlkyns dósentinn vildi að við færum og fengjum okkur bjór um kvöld. Það var svo sem allt í lagi, en mér fannst óþægilet þegar hann fór að tala um náin smáatriði varðandi fyrrverandi hjónaband sitt og í framhaldinu að við gætum farið að hjóla saman eftir ánni og fleira í slíkum dúr. Þegar ég minntist á þetta við samstarfsfólk mitt sem var búið að vera aðeins lengur en ég, kom þetta ekki á óvart, og við tókum eftir því að hann var á hverjum tíma alltaf spenntastur fyrir nýjustu stúlkunni sem var ráðin (þannig að ég féll í vinsældum eftir 2 ár). Það hélt samt áfram allan tímann að hann bað alltaf regulega yngri kollega, karla og konur, að snæða með sér hádegismat -- og þar valdi hann alltaf mat fyrir okkur konurnar og áttum við að velja salat, en karlarnir máttu auðvitað velja af matseðli (og hann var ekki að borga fyrir okkur). Einnig skrifaði hann mér reglulega að biðja mig um að finna netföng fyrir fyrirlesara sem voru að koma með erindi, sem að auðvitað tekur mig nákvæmlega sama tímann og hann. Það var í rauninni ekki fyrr en ég fór að lesa meira hér og annars staðar síðustu daga að ég fór virkilega að hugsa um hvað þetta hefði ekki verið við hæfi --þetta var eitt af því sem var bara afskrifað sem að X er bara svo skrítinn.... en auðvitað var ein ástæðan fyrir því að maður leyfði honum að vera „skrítinn“ sú að hann var að fara að kjósa um æviráðningu okkar einhverjum árum síðar.

60. Þegar ég var í doktorsnámi settist einn prófessorinn í deildinni við hliðina á mér á föstudagshittingi deildarinnar á lokal pöbbinum og byrjaði ad strjúka læri. Úff, átti svo ekki von á þessu. Fékk svo að vita hjá samnemendum að þetta væri algengt og maðurinn væri creep. Ég fór aldrei aftur á föstudags hitting og hef forðast slíkar samkundur síðan.

61. Ég var stödd í vinnupartýi þar sem einn gesta var gamall prófessor. Ég var spariklædd í pilsi sem náði niður fyrir hné! Svo vildi til að þar sem ég sat hafði pilsið runnið einhvern veginn þegar ég krosslagði fætur þannig að sást í annað hnéð. Prófessorinn hellti sig yfir mig og skammaði mig fyrir að vera svona afhjúpandi og ,,kveikja" í honum. Hann var í alvöru reiður, þetta var ekkert grín. Ég varð auðvitað miður mín. Þetta var maður sem þekkti mig ekki neitt en leyfði sér að hafa særandi athugasemdir um klæðaburð minn. Ég hef ekki getað litið manninn sömu augum síðan. Eins er með manninn sem þarf alltaf að heilsa öllum konum með kossi um leið og hann gantast með að hann „verði“ bara að nota tækifærið.

62. Fyrir 10 árum síðan bauðst mér að fara í mjög spennandi vinnuferð til lands í afríku. Allt var greitt fyrir mig og þegar ég ákvað að stökkva með litlum fyrirvara í þessa ferð þá hvarflaði ekki að mér að ég gæti orðið föst í miðjum frumskógi með dönskum perra í valdastöðu yfir mér, yfirmanni verkefnisins. Fyrsta kvöldið eftir nokkra bjóra á leið heim á gistiheimilið þá rassskellir hann mig þegar hann eltir mig upp tröppur. Mér var ótrúlega misboðið en þorði ekki að segja neitt, þetta var jú fyrsti dagurinn í draumaferðinni minni og ég vildi ekki vera leiðinleg. Ég hafði oft verið áreitt (sem er galið þegar maður rifjar upp öll tilfellin) en aldrei í svona aðstæðum, föst með nýjum vinnufélögum í fjarlægu landi. Við vorum saman í herbergi þessa nótt en þó var veggur á milli okkar. Ég svaf ekki vel en hann gerði þó ekkert meir þá nótt. Næstu vikurnar erum við 4 manns á ferðinni á mjög afskekktum stöðum, ég var eina konan, og við yfirmaðurinn erum sett saman í herbergi. Þegar ég kem að honum kviknöktum á vappi í herberginu þá er mér nóg boðið. Ég fer og bið um sérherbergi sem ég og fæ. Allir urðu rosa hissa á þessu uppátæki en ég stóð á mínu. Etir þetta byrjaði andlega ofbeldið. Ekkert sem ég gerði var nógu gott, hann öskraði í eitt skiptið á mig hvort ég væri raunverulega líffræðingur fyrst ég vissi ekki nákvæmlega hvaða tegund af sjaldgæfu dýri þetta var. Hann fór líka mjög illa með dýrin sem við vorum að vinna með, sem fór sérstaklega fyrir brjóstið á mér. Hann skipti yfir á frönsku sem allir skildu nema ég, hann hefði getað talað bæði ensku og dönsku en ákvað að útiloka mig með þessu. Ég sat í marga daga í bíl þar sem ég skildi ekki eitt orð og enginn talaði við mig. En ég útilokaði hann líka, hélt mig nærri hinum mönnunum sem ég treysti betur og gerði bara það sem ég nauðsynlega þurfti að gera. Þessi lífsreynsla situr enn í mér, 10 árum síðar og ég fæ ennþá hroll þegar ég hugsa um þennan mann. Ég hef oft reynt að „photoshoppa“ hann úr minningum mínum úr þessari annars mögnuðu ferð en það er samt betra að skila skömminni og ég geri það hér með.

63. I'm from another country, doing a PhD in Iceland. A lot of my previous work took me offshore, working on boats and also going on scientific expeditions. There was always sexual harassment in these areas and no way of speaking up about it. In particular, postgraduate female students were vulnerable because we never felt like we belonged, we had no power and didn't want to make waves. I think for many of us denial was a survival mechanism. Excusing the behaviour rather than admitting that you're being degraded and there is nothing you can do about it. Especially when you're trapped on a ship with these men for the next 3 months! For me it has always been such a relief to speak to other women and realize that they also felt uncomfortable or targeted, and that I wasn't imagining it! Sometimes a man just makes you feel uncomfortable so that you start avoiding him or try not to act too friendly, and you don't really feel like you can do anything about it. But when other women agree that they have had a similar experience, at least there is power in that. We have been told for too long not to trust our intuition. 

64. Eftirfarandi reynslusaga snýr ekki að kynbundnu ofbeldi heldur valdaójafnvægi og duldum fordómum í garð kvenna. Þegar ég var lausráðinn starfsmaður við deildina og hafði nýhafið störf ákvað deildin að fara út að borða til að kveðja annan starfsmann. Ég hélt að þetta yrði kjörið tækifæri til að kynnast nýjum vinnufélögum og gera sér glaðan dag. Raunin varð önnur. Fyrri hluta kvöldsins eyddi ég í mjög hörð skoðanaskipti við einn eldri karlmann sem virtist finna fræðigrein minni allt til foráttu. Hann varð að lokum svo reiður (eða ég geri ráð fyrir því) að hann fór af vettvangi án þess að greiða fyrir mat eða drykk. Ég hélt að ég væri sloppin en þá byrjar næsti maður, einnig mér mikið eldri, að segja mér frá öllu því sem hann teldi að mínum rannsóknum. Ég eyddi restinni af kvöldinu í að svara árásum frá honum. Þetta fékk á mig og mér fannst ég vera mjög óvelkomin í þessari nýju deild minni. Ég lét þó stuttu síðar aðra vinnufélaga vita og fékk frá þeim stuðning sem mér þótti vænt um. Þetta eru ekkert vondir menn og ég stórefast satt að segja um að þeir geri sér grein fyrir að framkoma þeirra hafi verið undarleg eða óviðeigandi, því vissulega tökumst við oft á í akademíunni. Það sem skildi þarna að eðlileg og óeðlileg skoðanaskipti fólst í valdaójafnvæginu og aðstæðunum. Báðir þessir menn eru fyrrverandi kennarar mínir. Þeir virtust ekki sjá kollega heldur litla stelpu. Kannski væri jafnvel gott fyrir þá að lesa þennan texta. Ég ber engan sérstakan kala til þeirra en ég verð að viðurkenna að þegar ég fékk margra milljóna króna styrk til þess að halda þessum undarlegu rannsóknum mínum áfram þá hugsaði ég til þessara manna.

65. Fyrir nokkrum árum fór ég í vinnu-partý með fleirum úr sama rannsóknarhópi og ég við erlendan háskóla. Þetta var ekki skipulögð samkoma á vegum vinnustaðarins, heldur bara nokkrir vinnufélagar að hittast. Í þetta skipti var manni boðið sem er ekki úr mínu "labbi" en var nýr við háskólann og hafði verið í samstarfi við samstarfsfólk mitt og var að einhverju leiti kunnugur fleirum úr hópnum, svo honum var boðið að mæta. Boðið sjálft var mjög óeftirminnilegt, bara rólegt kvöld þar sem fólk ræddi ýmis mál yfir bjór, og þessi ókunnugi maður sagði ekki mikið og virkaði almennt fínn náungi. Þegar ég kom heim voru tvö ný skilaboð á sameginlegum þræði sem hafði verið opnaður um þetta tiltekna boð til þess að deila upplýsingum um staðsetningu, tímasetningu og fleira. Fyrri skilaboðin voru á erlendu tungumáli (tungumáli þessa ókunnuga manns), og þau seinni voru á ensku og í þeim stóð að hann hefði ætlað að senda stamstarfsmanni mínum (samlanda hans) þessi skilaboð en óvart gert reply-all. Ekkert meira. Ég hugsaði ekkert út í þetta og datt ekki í hug að fara með fyrri skilaboðin í google-translate eða eitthvað álíka af því að ég reiknaði með að þau kæmu mér ekki við. Daginn eftir kemur samstarfsmaður minn, sem átti víst að fá þessi skilaboð, og segir mér hvað í þeim stóð. Hann hafði þá fengið, óumbeðið, "umsögn" og hálfgerða einkunn um allar konurnar sem mættu í þetta boð. Samstarfsmaður minn var alveg miður sín yfir þessu, og á sama tíma reiður yfir því að þessi einstaklingur, sem þekkti hann ekki, reiknaði með því að sér þætti við hæfi að fá svona skilaboð, líklega bara af því að þeir væru frá sama landi. Eins og að við værum „hans stelpur“ og að hann ætti að vera ánægður með að öðrum mönnum þætti mikið til útlits okkar koma. Hann settist niður með okkur öllum, einni í einu, til þess að útskýra að hann hefði ekki sagt eða gert neitt til að láta þennan mann halda að hann hefði áhuga á að taka þátt í svona umræðu um okkur. Eftir að þekkja þennan samstarfsmann minn í nokkur ár hefði ég líka ekki trúað því uppá hann. En mér var frekar brugðið eftir þetta alltsaman, og hef verið fegin því að hafa ekki þurft að hitta þennan mann aftur. En ég hef líka hugsað, hversu mörg svona skilaboð lenda almennt ekki í „reply-all“? Og hvernig má það vera að þessum manni þyki þetta svo eðlilegt að hann geti reiknað með því að svo gott sem ókunnugir menn myndu vilja taka þátt í því með honum?

66. Karlkynskollegi minn og skólabróðir úr háskólanum heilsaði mér iðulega með orðunum: "Hvernig ertu í henni?". Ég var svo vön þessu og samdauna að ég raunverulega áttaði mig ekki á hversu óviðeigandi þetta var fyrr en annar kollegi, vinkona mín, varð vitni að þessu eitt sinn í boði og átti ekki orð.

67. Ég var nýútskrifuð úr meistaranámi í félagsvisindagrein sem er ekki beint þekkt fyrir að vera femínísk. Ég hafði tekið femíniskan vinkil bæði á BA og MA ritgerðina mín. Ég var nýráðin í stöðu innan HÍ (ekki akademíska) og hitt fyrrum kennara minn (fastráðinn og mikilsmetinn í gömlu deildinni minni) í boði á vegum vinnunnar. Hann vindur sér að mér og segir að það sé svo mikil synd að ég, svona efnilegur nemandi, sé svona mikill femínisti og gefur sterklega í skyn að femínistar séu verri rannsakendur heldur en aðrir sem „koma með opnum hug að rannsóknum sínum“. Þetta sat alveg svakalega í mér og gerir enn. Ég hafði mjög vel getað hugsað mér að halda afram í PhD í þessu fagi en þessi ummæli urðu til þess að mer fannst ég ekki velkomin i framhaldsnám í deildinni. Ég enda á að vera í 10 ár í ýmsum störfum áður en eg hóf doktorsnám núna nýlega. Og það innan annarra deildar og í öðru (tengdu) fagi þar sem ég veit að ég er ekki eini femínistinn. Það er ekki tilviljun að ég enda ekki í mínu upprunalega fagi!

68. Í ráðstefnugleði á fyrsta ári mínu í doktorsnámi kom prófessor til mín og vildi ræða við mig um erindið mitt (fyrsta skipti sem ég kynnti niðurstöður!) Hann segir mér að efni rannsóknarinnar sé ekki fyrir ,,stelpu” eins og mig. Hann hvíslaði að mér að ég ætti að rannsaka kynlíf karla á miðjum aldri, eða öllu heldur skort á því... alveg frábær byrjun á karríer, gert lítið úr mér sem rannsakanda og smættuð niður í kynferðislegt viðfang. Frábært.

69. Það er af ýmsu að taka og þessi saga birtist líka í öðrum faghópi... Á norrænni ráðstefnu var skipuleggjandinn (sem ég hafði aldrei hitt áður) svo líkamlega ágengur að aðrir fyrirlesarar breyttu sætaskipan þannig að ég væri skermuð frá honum. Um kvöldið voru svo kommentin frá viðkomandi þannig og umræðan yfirleitt að ég ákvað að fara úr ráðstefnukvöldverðinum (þar sem ég var eina konan). Skipuleggjandinn elti. Ég var að færast úr vanlíðan yfir í að verða logandi hrædd þegar dyravörður á veitingastaðnum steig inn í og lofaði að halda honum inni í 10 mín. svo ég gæti komið mér (ímyndið ykkur samtalið: « ég er lögfræðingur, þú getur ekkert haldið mér…»). Eða seminarið þar sem ég var eina konan og tveir ungir háskólamenn endurtóku allt sem ég sagði og töldu það góðar hugmyndir frá karlmönnunum sitt hvoru megin við mig. Virtur, eldri karlmaður á fræðasviðinu leiðrétti þá hins vegar nokkrum sinnum og endaði á að spyrja af hverju þeir rétt « feðruðu » allar hugmyndir nema þær sem kæmu frá konunni á staðnum… Þetta var ekki ómeðvitaðra en svo að þá snarhætti þetta ! Ég var orðin svo samdauna þessu og vön, að ég gnísti tönnum en leiðrétti ekki. Ég geri það hins vegar síðan :) Báðar þessar sögur enda „vel“ í einhverjum skilningi. En ég datt engu að síður út úr báðum þessum faghópum sem hafa síðan haldið áfram starfi.

70. Þegar ég var í grunnnámi í HÍ þá var birt um það frétt í svona óformlegum snepli sem nemendafélag í fagi sem ég var mikið að skemmta mér gaf út þar sem ég var nafngreind og gert grín að því að strákar sem ég hefði verið með í faginu væru nú orðnir kviðmágar. Ég vissi ekki einu sinni hvað það þýddi og þegar ég fékk skýringar á því hellti ég mér yfir manninn (sem var töluvert eldri en ég) sem hafði skrifað þetta. Hann baðst afsökunar en eftir stóð snepillinn sem allir höfðu lesið þar sem ég var drusluskömmuð og gert lítið úr mér. Það má reyndar segja fólki í faginu til hróss að mörgum fannst þetta fáránlegt og mótmæltu fyrir mína hönd. Það er búið að taka mig 4 daga að mana mig upp í að skrifa þetta, ég skammast mín enn og er reið þó þetta hafi gerst fyrir 15 árum síðan. Held ég hafi aldrei nefnt þetta við neinn síðan þetta gerðist.

71. Ég er svo heppin að vera að vinna í spennandi rannsóknarverkefni sem ég er búin að vera ásamt öðrum að reyna að koma á koppinn í nokkur ár. Vegna verkefnisins þarf ég að ferðast mikið og vera í burtu frá fjölskyldunni. Fyrsta spurningin sem ég fæ frá öllum er hvort það sé ekki erfitt að vera í burtu frá dóttur minni sem er 3 ára. Þá finnst mér ég þurfa að verja þessa ákvörðun mína og segja að þrátt fyrir þetta sé ég góð móðir. Margir (bæði karlar og konur) segja við mig að þau skilji ekki hvernig ég geti gert þetta, þetta gætu þau aldrei sjálf, það er skýrt að engin góð móðir gæti gert svona. Ég reyni að svara að ég hafi valið þetta sjálf, vitað hvað ég var að fara út í og maðurinn minn líka. Ég sé í raun ekkert meira í burtu en meðal sjómaður eða fólk (auðvitað mest karlar) sem ferðast mikið vegna vinnu. Ég sé ekki fyrir mér að karlmaður í sömu sporum fengi þessar spurningar svona mikið og fokk hvað ég er orðin leið á að þurfa að réttlæta þetta.

72. Ég var einu sinni að halda erindi á innlendri ráðstefnu og með mér voru þrír karlkyns fyrirlesarar og ein önnur kona. Sá sem steig síðastur í pontu var einnig fundarstjóri og í sínu erindi vísaði hann margoft í erindi hinna karlanna en sagðist því miður ekki muna neitt af því sem ég og kynsystir mín hefðum sagt í okkar erindum því við værum svo sætar og hann hefði því bara gleymt sér í því að stara á okkur og því ekki heyrt orð af því sem við sögðum ...

73. Ég er á fyrsta ári í doktorsnámi, að stíga mín fyrstu skref í akademíunni. Það er ótrúlega sárt að sjá hvað reyndari fræðikonur hafa þurft að þola í gegnum árin, og um leið svo hughreystandi og valdeflandi að sjá umræðuna opnast svona upp á gátt. Ég vildi þess vegna koma því á framfæri hvað ég er þakklát fyrir þennan hóp. Með því að stíga svona fram og standa saman takið þið svo stór skref í átt að bættu umhverfi fyrir okkur sem erum bara rétt að byrja. Það er miklu auðveldara að sætta sig ekki við það sem maður finnur greinilega að er rangt/óþægilegt/ósanngjarnt þegar fyrirmyndirnar eru svo skýrar og stuðningurinn svo sterkur. Það þarf nefnilega ekki langa dvöl í fræðasamfélaginu til þess að átta sig á því að óheilbrigðir valdastrúktúrar og ofbeldi, áreitni og mismunun í skugga þeirra grassera hérna. Svo ekki sé talað um hvað þetta er almennt kvenfjandsamlegt umhverfi („þú veist það verður erfitt að klára doktorsnámið ef þú verður ólétt“). Það er bara gert ráð fyrir þessum vinkli - og maður lærir hratt að passa sig á ákveðnum aðilum og „tækifærunum“ sem þeir gefa manni. Ein ömurleg birtingarmynd þess er að þurfa stanlaust að réttlæta stöðu sem aðstoðarkennari/rannsóknarmaður því það er dregið í efa að maður hafi landað einhverju á eigin verðleikum, þetta hljóti að vera því gömlu prófessorarnir hafi kynferðislegan áhuga á manni. Eins og það sé bara normið. Þetta er gríðarlega niðurlægjandi og letjandi viðhorf sem viðgengst ekki bara hjá körlum í akademíu, og ein birtingarmynd þess að færa skömmina sífellt yfir á konur. Einn ávinningur þess að reynsla kvenna flæði svona fram verður hins vegar vonandi að færa ábyrgðina yfir á karla. Að þeir átti sig á því að þeir komast ekki lengur upp með þetta kjaftæði. Þökk sé ykkur hef ég trú á því að það sé mögulegt. Takk!

74. Ég veit ekki hvort það skiptir máli en fyrsta alvöru sparkið sem ég man eftir að hafa fengið frá feðraveldinu í háskóla var þegar ég var í grunnnámi í Stokkhólmsháskóla fyrir u.þ.b. 30 árum. Sú reynsla situr enn í mér, ekki síst í ónotatilfinningunni sem kemur í magann þegar ég hugsa til baka. Ég vona að það skipti ekki máli hvort um er að ræða reynslu sem maður hefur orðið fyrir hérlendis eða erlendis - akademían er víðast hvar svipuð og Ísland og Svíþjóð eiga víst að vera sambærileg lönd, ekki satt? Ég var sem sagt rúmlega tvítug og ákvað að taka eitt aukaár í heimspeki og helmingurinn af því, eitt misseri, var í svokallaðri praktískri heimspeki (á sænsku praktisk filosofi) sem fjallaði mikið um siðfræði, pólitík og þau heimspekilegu álitamál sem fólk stendur frammi fyrir á degi hverjum. Afar viðeigandi kannski að verða fyrir þessu karlaveldissparki í slíku námi, hugsar maður eftir á til að sjá hið spaugilega í þessu. í bekknum voru bara strákar og svo ég ein, allt Svíar og ég eini útlendingurinn. Allir kennararnir voru karlmenn. Námskeiðinu sem um ræðir var skipt upp í lotur og við unnum oftast verkefnin í hópum en svo voru líka umræðutímar. Ein lotan var um klám. Ég fann strax að ég átti að vera einhvers konar talskona allra kvenna um efnið sem mér fannst bæði mjög erfitt og reyndar ómögulegt en gerði mitt besta. Það var ekki auðvelt að tjá sig þarna um klám og mína upplifun af því fyrir framan alla þessa drengi og kennarann en það voru yfirleitt kurteislegar umræður þannig að óþægindin voru ekki óyfirstíganleg, en samt ... Allavega, við áttum svo að vinna verkefni saman, mig minnir við værum 3 eða 4 í hópnum - ég og 3 strákar. Við fórum á vettvang, skoðuðum klámrit og -myndir, klámbúllur, fatafellustaði og reyndum að hafa uppá vændiskonum til að tala við. Þetta var mjög lærdómsríkt. Svo var að skrifa ritgerð eða skýrslu úr þessu öllu, speglað í fræðunum og út frá eigin upplifun. Ég gat ekki skrifað með „hinum“ strákunum, til þess var upplifun mín of ólík, svo ég fékk að skrifa mína eigin - skila séráliti. Svo kom að því að skila ritgerðinni og af því ég var í nokkru basli með að skrifa hana, fannst ég kannski vera of persónuleg („mér finnst ...“) til að þetta væri tækt sem fræðilegur texti, þurfti ég að fá ráð hjá kennaranum. Man ég hringdi í hann því ég náði ekki sambandi við hann í skólanum (var byrjuð í annarri lotu hjá öðrum kennara) og hann sagði mér bara að skjótast heim til sín - við byggjum í sama hverfi - og við gætum þá rætt þetta. Ég fékk strax ónotatilfinningu yfir að vera að fara heim til hans, hefði viljað ræða þetta innan veggja háskólans, en sagði já. Labbaði svo yfir í hans hluta hverfisins og hringdi bjöllunni á 3. hæð í blokkinni. Hann kom til dyra, í jogginggallanum og berfættur og yfir öxl hann gægðist ung, mjög ung (á aldri við mig) kona og strauk honum um axlirnar. Ég fraus. Hann bauð mér inn til samtals og sagðist hafa dottið í hug að það væri áhugaverðara að tala um klám þrjú saman en bara við tvö. Allar mínar viðvörunarbjöllur hringdu án afláts og ég stamaði því út úr mér að ritgerðin væri fullkláruð, ekkert í raun til að ræða, og tókst að rétta honum plaggið, sem var í rauðri möppu með glærri framhlið - svona með tveim götum, þið vitið, án þess að stíga inn fyrir þröskuldinn sem mér fannst að myndi vera mér ofviða. Myndin af þessu öllu er svo greypt í hugann að ég gæti lýst gólfteppinu, veðrinu, hvernig fötin okkar voru á litinn, hvaða hljóð heyrðust að utan. Hljóp svo út og heim. Ónotatilfinningin - í rauninni ógeðstilfinningin - var svo sterk af því þetta var svo erfitt verkefni og svo afhjúpandi að skrifa um reynsluna af klámrannsókninni að boðið um þriggja manna „samtal“ varð að algjörri innrás í líf mitt og persónu. Frétti síðar að þessi kennari væri þekktur fyrir að reyna við þá fáu kvenkyns nemendur sem rötuðu til hans. Að kenna um siðferðislegar hliðar kláms var sjálfsagt allt með ráðum gert - en kannski lá það líka í tíðarandanum? Þegar ég sagði vinum mínum og skólafélögum þetta vildu þeir ólmir að ég tilkynnti þetta en ég vildi bara „gleyma“ þessu sem fyrst. Síðar fékk ég ágæta einkunn úr þessu námskeiði og reynslan þaðan er eitt af því sem mest hefur gagnast mér síðan, sem kennari og leiðbeinandi.

75. Tilkynnti yfirmanni mínum, þriggja barna föður, að ég ætti von á mínu þriðja barni. Hann missti andlitið, hakan bókstaflega datt niður á bringu, og það fyrsta sem hann sagði var "hvað ætlarðu eiginlega að eignast mörg börn, 12 eða 10?!" Gleymi þessu aldrei því þessar tölur sem hann kastaði fram voru svo furðulegar (og 12 fyrst, tíu svo).

76. Í mínu fagi fer gagnaöflun mikið fram utanhúss og þá sérstaklega á sumrin. Í eitt skiptið vorum við, hópur kvenna og karla, að vinna úti á fáförnum stað. Við vorum dálítið dreifð en ég og kollega mín vorum saman fjær hópnum. Á vegslóða sem lá nálægt okkur, lúsaðist bíll frá fyrirtæki í nágrenninu. Við erum vön því að fólk sýni því áhuga sem við gerum svo þetta var ekkert sem vakti sérstaka athygli okkar. Það er að segja ekki fyrr en rúðu er rennt niður á bílnum og karlmannshaus öskrar einhverju að okkur sem endaði með „... helvítis tussurnar ykkar þarna!“. Við, sem höfðum verið önnum kafnar við gagnaöflun, með vindinn suðandi í eyrum og einstaka mávagarg, litum upp og á hvor aðra í forundran. Var verið að kalla okkur tussur?! Við ákváðum að fara í fyrirtækið, enda bíllinn rækilega merktur, og kvarta undan þessari framkomu. Þar fundum við fyrir karla sem hlustuðu á okkur og tóku undir að þetta væri ekki í lagi. Það tók hinsvegar svolítið frá afsökunarbeiðninni að aftan við karlana var stærðarinnar plakat af nakinni, ungri konu í afar ögrandi stellingu. Við gengum því út úr fyrirtækinu með hálfónýta afsökunarbeiðni og vorum engu nær afhverju við vorum helvítis tussur.

77. Ég hef ekki upplifað neitt neikvætt frá nemendum, hvorki í tímum né kennslumati, og flestir samstarfsmennirnir eru til fyrirmyndar. En þó hef ég orðið ítrekið vör við að vera mæld út frá toppi til táar af ákveðnum samstarfsmönnum (og hef séð þá gera það við aðrar konur líka), hef oft upplifað brjóstastörur og jafnvel fengið athugasemdir er lúta að brjóstum eða brjóstaskoru. Nú svo er það auðvitað þetta að tala fyrir einhverju góðu máli sem ekki fær hlustun, en um leið og merkilegur karl talar málið upp við annan merkilegan karl, þá verður málið skyndilega alveg frábært... því hann sagði það

78. Ég stundaði doktorsnám í tvö ár við bandarískan háskóla. Sem ung metnaðarfull kona með brennandi eldmóð mér í brjósti fannst mér ég vera á toppi tilverunnar að hefja doktorsnám í virtri deild. Fljótlega varð ég hins vegar vör við menningu í deildinni sem mér líkaði ekki. Sú menning fólst í því að upphefja ákveðinn professor innan deildarinnar sem um leið nýtti sér upphefðina til að skapa umhverfi sem byggðist á metingi og kvenfjandsamleika. Flestir nemendur hans á þeim tíma voru konur og þær kepptust um athygli hans. Svo virtist jafnframt sem að viðkomandi notfærði sér athyglina til að mynda ríg á milli einstakra nemanda. Á ráðstefnu man ég til að mynda eftir því að einn kvenkynsnemanda hans gortaði sig af því að hann sendi sér alltaf skilaboð fyrir svefninn. Enn annar nemandi spurði mig hvort ég væri ekki örugglega hrifin af leiðbeinanda mínum og væri dugleg að sýna það í verki. Ég vissi ekki hverju ég ætti að svara en hún bætti við að það væri mikilvægt að hafa í huga að viðkomandi gerði mikið upp á milli nemenda sinna og að ég þyrfti að vera á varðbergi gagnvart því. Strax í upphafi námsins vakti það athygli innan deildarinnar að ég væri ein erlendis í námi án eiginmannsins míns, þegar sú var raunin að flestir doktorsnemanna voru í einhvers konar fjarsamböndum. Leiðbeinandi minn meira að segja sagðist finnast fyrirkomulagið einkennilegt og að hann vonaði að eiginmaðurinn væri með augun hjá sér um leið og hann glotti. Í þessu umhverfi upplifði ég mig alltaf annars flokks og heyrði meira að segja einn professor segja í teiti að hann skildi ekki hvað heimskar ljóskur þættust eiga erindi í akademíuna um leið og hann gjóaði augunum til mín. Sjálfsmyndin fór því smám saman niður á við. Fyrrum fyrirmyndar nemandinn sá sjálfa sig sem heimska og óverðuga faginu. Ástandið náði hámarki í upphafi 4. annar minnar í doktorsnáminu þegar mér var nauðgað af starfsmanni í mínu nánasta starfsumhverfi sem síðan ofsótti mig gróflega í hálft ár áður en ég hrökklaðist burtu úr deildinni. Hann stóð í þeirri meiningu að við ættum í leynilegu ástarsambandi sem að ég vildi halda leyndu fyrir öllum þar sem ég væri gift. Að auki sagði hann að enginn tryði því að hann hefði nauðgað mér því allir vissu hvað ég væri mikil drusla. Það var mjög erfitt að mæta til vinnu hvern virkan dag og hafa áhyggjur af því hvernig lægi á viðkomandi. Heyra hann stynja þungan þegar hann gekk fram hjá skrifstofuhurðinni minni eða muldra eitthvað niðrandi um mig. Að lokum þurfti ég að aðlaga viðverumynstur mitt að viðveru hans, sérstaklega með tilliti til þess að vera ekki ein í byggingunni með honum síðla eftirmiðdegis eða að kvöldi til. Ég leitaði til skólasálfræðings til að fá aðstoð. Í upphafi hvers tíma var ég beðin um að meta á skalanunm 1-10 hversu líkleg ég væri til að fyrirfara mér áður en að næsta tíma kæmi. Þar var ég einnig hvött til að reyna að átta mig á skapi gerandans hvern dag fyrir sig og haga mínu atferli eftir því. Ekki hunsa hann alfarið, heldur vera kurteis og blíð til þess að ögra honum ekki. Jafnframt var mér var ráðlagt að segja ekki neinum frá og að það væri fásinna fyrir ungar konur að kæra kynferðisofbeldi þar sem að fara í slíkan málarekstur myndi gera úti um akademískan feril þolandans.  Eftir því sem málalyktir urðu örlítið augljósari fyrir öðrum í deildinni eftir röð atburða fór að síga á ógæfuhliðina fyrir mig innan deildarinnar. Þetta birtist meðal annars í því að annar leiðbeinanda minna hafði ekki samband við mig í nokkrar vikur eftir að sterkar vísbendingar komu fram um hvað væri á seyði. Þegar ég loksins heyrði frá viðkomandi þá boðaði hann mig á fund tveimur dögum áður en ég ætlaði að fara heim til Íslands í frí (með hans vitneskju) og sagði að ég væri doktorsnáminu ekki burðug og að ég ætti að ljúka náminu við háskólann eftir næsta akademíska ár með MA-gráðu. Fram að þessum fundi höfðu engin teikn verið á lofti eða skilaboð gefin þess eðlis að minn framgangur í náminu væri á einhvern hátt óviðunandi. Mér voru gefin þau skilyrði að ljúka við og verja svokallaða Qualifying paper (ritgerð til framgangs í bandarísku doktorsnámi) fyrir 1. nóvember það ár sem gaf mér þá tæpa fjóra mánuði til að velja viðfangsefni og skipuleggja vörnina. Nema hvað mín vinna yrði metin til MA-stigs, en ekki doktorsstigs, sem var ekki það sem ég lagði upp með til að byrja með -- enda hafði ég MA-gráðu frá HÍ þegar ég byrjaði í doktorsnáminu. Við tók ferli við svokallaðan umboðsmann nemenda innan háskólans. Þar snerist aðal þrætueplið um það að menn hefðu áhyggjur af að ég myndi ekki ná að verja þennan pappír á tilsettum tíma. Raunveruleikinn er hins vegar sá að af þeim sem hófu nám með mér á sama tíma í deildinni er aðeins einn nemandi búinn að verja slíkan pappír um einu og hálfu ári síðar, en þeir nemendur halda námi sínu áfram við góðan orðstír. Ég hrökklaðist burtu og við tók uppgjör sem einkenndist af skömm og niðurlægingu. Draugar þessarar atburðarrásar hrjá mig enn þann dag í dag þar sem núverandi leiðbeinandi hefur gefið í skyn að ég hafi skáldað upp atburðarásina vegna þess að meint ástarsamband mitt við leiðbeinanda minn hafi súrnað. Sá leiðbeinandi er kona.

79. Ég hef verið í rannsóknarsamstarfi við sænskan prófessor undanfarin 10 ár. Hann er einn af þeim sem á erfitt með að stilla sig inn á að konur geti verið jafningjar hans í rannsóknarstarfi. Samstarf okkar komst nokkrum sinnum í uppnám, - og er nú reyndar lokið, - vegna þess hvernig hann kaus endurtekið að tala við mig og aðra samstarfskonu eins og við værum börn eða í besta falli byrjendur í rannsóknum. Það voru ótrúlegustu grundvallaratriði sem honum datt í hug að efast um að við þekktum, skildum og gætum unnið með og kaus að útskýra fyrir okkur í smáatriðum í löngu máli. Þetta voru oft atriði sem við sjálfar höfum sérþekkingu á og höfum jafnvel kennt um í áraraðir. - Þessi ótrúlega framkoma opnaði augu mín fyrir sambærilegri framkomu hjá kollegum í hópi karla í öðrum háskólum, hér á landi og annars staðar. - Held að aukin meðvitund um persónulega reynslu og reynslu annarra kvenna sé mikilvæg til að spyrna við fótum og að uppræta niðurlægingu og ofbeldi.

80. Í fyrra sat ég fundi á einskonar "workshop" sem stóð í nokkra daga. Samstarfsmaður minn sagði mér eftir einn fundinn að um leið og að ég hafi farið út úr herberginu (var að fara á klóið) hafi annar samstarfsaðili hallað sér upp að honum og spurt hann hvort að ég væri í brjóstahaldara, hvort að þau væru alvöru, og ef svo væri, þá væru þau "very nice". Svo hefur það komið oftar en einu sinni fyrir mann, bæði hér heima og á ráðstefnum erlendis, að karlar hreinlega neiti að taka í höndina á manni vegna þess að maður er kona, og útskýra það stundum fyrir manni að þannig sé það ekki gert heima hjá þeim.

81. Hef verið ósköp lánsöm og sjaldan orðið fyrir kynferðilegri áreitni, þótt það hafi gerst. Ég er ágætlega brjóstgóð kona, var á ráðstefnu erlendis í hátíðarmatnum sit ég við hlið hjóna, hún virtur prófessor. Maðurinn hennar sleppir ekki augunum af brjóstunum á mér allt kvöldið. Mér var farið að líða verulega óþægilega, fór heim eins fljótt og ég gat. Fór aldrei aftur í viðkomandi blússu. Reyndi einu sinni og fann bara að óþægindin rifjuðust upp.

82. Ok ekki kynferðisleg áreitni en furðulegheit í framkomu sem mér finnst freistandi að skrifa á kyn mitt og aldur: Ég hitti hot shot úr mínum fræðaheimi á ráðstefnu erlendis nýlega. Lendi óvart við hliðina á honum í kokteilboði og kynni mig fyrir honum svona eins og maður gerir, networka þið vitið. Hann spyr um hvað doktorsrannsóknin mín fjallar og ég segi honum frá því ásamt frumniðurstöðum í stuttu máli. Hans viðbrögð voru að spyrja með þjósti: „Hvernig geturu sett fram þessar niðurstöður ef þú ert ekki með nein gögn til að styðja þær?“. Ég svaraði auðvitað að ég væri með mikið magn gagna til að styðja niðurstöður mínar, það er jú pointið í vísindastarfi. Ég var samt mjög hissa, af hverju í dauðanum voru fyrst viðbrögð hans að álykta að ég væri ekki með nein gögn? Hverskonar fræðimanneskja hélt hann eiginlega að ég væri og hvernig gat hann dregið svona djúpstæðar ályktarnir um vanhæfni mína út frá þessum 3 setningum sem ég hafði sagt við hann? Það er mér alveg stórkostlega til efs að viðbrögðin hefði verið sömu ef eg væri karlmaður því þeir eru jú skynsemisverur en það er aldrei að vita nema við konurnar séum bara að tala út frá einhverjum tilfinningum sem við höfum til efnisins....  Þegar ég hafði þulið auðmjúk upp öll gagnasöfnin sem ég er að notast við sagði hann "nú jæja" snéri sér svo að unga manninum hinum megin við sig og upphóf djúpar og langar samræður um sögu pyntinga og pyntingatóla (?!) sem er mjög langt frá rannsóknarefni okkar allra en hann mat samt greinilega áhugaverðara en sameiginlegir fletir á rannsóknum okkar (sem eru margir).

83. Á ráðstefnu erlendis hrútskýrði karlkyns fundarstjóri rannsóknarviðfangsefni mitt fyrir fundarmönnum áður en ég fékk að komast að (og tók þ.a.l. af mínum tíma sem ég hafði til framsögu). Í spurningum - sem beint var að mér að erindi loknu - tók hann ítrekað af mér orðið, þangaði til í mig fauk og ég þakkaði honum kaldhæðnislega fyrir að leyfa mér loksins að svara fyrir mitt eigið rannsóknarverkefni. Segið svo að hin breska passive-agressive samskiptaaðferð sé ekki stundum nauðsynleg! Þessi saga er keimlík fjölmiðlaumfjöllun um svipað dæmi sem náðist á myndband og sýnir að svona uppákomur virðast ansi algengar.

84. Fyrir mörgum árum var ég að stjórna rannsóknarverkefni úti á landi. Við vorum með nokkur verkefni í gangi á svæðinu, og bjuggum öll saman í heimavistarskóla. Í einu þessa verkefna var útlenskur fræðimaður. Hann var mjög óviðeigandi í tali og hegðun. T.d. gerði hann brjóstin á mér að umtalsefni eitt sinn þegar nokkur okkar voru að tala saman, og var gjarn á að nuddast "óvart" upp við konurnar sem voru að vinna þarna. Á meðan verkefninu stóð veiktist ég, lá í bælinu með hita í nokkra daga. Á 3ja degi vaknaði ég rétt fyrir hádegi, fann að mér leið betur og ákvað að fá mér að borða og fara í sturtu. Þegar ég kom í matsalinn þá áttaði ég mig á því að ég og þessi maður vorum ein í skólanum. Eina sturtan var sturtuklefinn við sundlaug skólans, og þar var ekki hægt að læsa að sér. Nærvera þessa manns var þá orðin svo óþægileg að ég gat ekki hugsan mér að vera ein í bygginguni með honum, nakin þar sem ég gat ekki læst að mér, og beið því til kvölds þegar aðrir komu í hús með að fara í sturtu. Það sem situr í mér eftir þetta er að engin okkar gerði neitt í því að benda á þessa ósæmilegu hegðun, vissara að rugga ekki bátnum, ekki vera með vesen. Í staðinn létum við, eða allavega ég, hann breyta minni hegðun, hvernig ég klæddi mig, hvernig ég nýtti sameiginlegt rými, jafnvel hvenær ég baðaði mig.

85. Hann var kennari, umsjónarmaður rannsóknastofanna og nemandi við stofnunina sem ég lærði við. Umhverfið er lítið og fáir stunda nám við skólann sem leiðir af sér að þeir sem vinna og nema við deildina vinna mikið saman.  Ofbeldið og áreitnin hófust með ýmsum athugasemdum í umræðum sem voru í gangi, bæði við mig persónulega og í hópi annarra. Eitt skiptið upp úr þurru sagði hann að ég liti nú út fyrir að vera „ríðanleg“, athugasemdin var algjörlega úr takti við samræðurnar sem voru í gangi. Eitt skipti tilkynnti hann mér að hann teldi konur ekki jafn hæfar og karlar í vísindum, hann sagði þetta eins og ekkert væri eðlilegra. Margar aðrar athugasemdir fylgdu á eftir af þessum toga sem myndu eflaust enda í ritgerð. Ahugasemdir þar sem hann var að úthúða konu sinni og að hann fengi aldrei að ríða hjá henni, að hann horfði alltaf á GOT til að fullnægja sjálfum sér því hann fengi aldrei neitt hjá konu sinni. En atvikið sem varð til þess að ég klippti á öll mín samskipti við hann, því mér var svo löngu orðið fullkomlega misboðið af hegðun hans og tali: Við fórum að sækja eitt og annað inn í birgðageymslu rannsóknastofanna sem vantaði fram á stofur fyrir ákveðna rannsókn sem verið var að vinna við. Hann fór að tala um hvað hann ætti erfitt núna, hvað það var langt síðan hann hefði fengið að ríða og hann bara þyrfti að fá það akkúrat núna! Hann hagaði sér eins og vitfirringur, gekk um gólfin og baðaði út höndum á meðan hann sagði þetta. Á þessu stigi málsins var ég hrædd um líkama minn og sál og kom mér út hið fyrsta, án flestra hluta sem ég kom að sækja inn í geymsluna.  Ég hætti að heilsa honum og forðaðist manninn eins og heitan eldinn. Maðurinn varð móðgaður og sakaði mig um einelti og útilokun, vann málið. Sálfræðingurinn (karlmaður) sem dæmdi í þessu sagði að það hefði engin áreitni eða ofbeldi átt sér stað, nema af minni hálfu. Afleiðingarnar af þessu eru áfallastreituröskun sem ég er enn að berjast við 5 árum eftir að ég sleit samskipti við hann.  Einn yfirmaður stofnunarinnar (karlmaður) hló að mér þegar ég sótti skýrsluna til hans og „dóm“ minn sem í henni var. Ég var boðuð á fund og krafin um afsökunarbeiðni og viðurkenndi brot mín, ýmislegt sem hann sjálfur hafði búið til og sagði öllum sem vildu heyra. Ég viðurkenndi ekki „brot mín“ enda var ekki um nein brot að ræða og engin afsökunarbeiðni kom frá mér.  Ég gleymi aldrei hvað ég var reið, hvað mér var misboðið, hvernig þetta fór með líf mitt, hvernig ég einangraði mig, hvernig samnemendur mínir útilokuðu mig og baktalið sem ég fékk að heyra utan frá mér og síðast en ekki síst hvernig ástríðan mín fyrir rannsóknum og vísindum var drepin niður. Í reiði minni tók ég samt þá ákvörðun að láta þennan mann, enn einn manninn sem áreitti mig í gegnum ævina, ekki stjórna lífi mínu. Ég kláraði Bachelor gráðuna mína með 9 í lokaeinkunn, meistaranám mitt þar sem verkefnið mitt kom í fréttirnar, viðtal, blaðagrein og að lokum bætti ég kennsluréttindum við. Mér er enn í dag misboðið, horfi með viðbjóð til þeirra karlmanna sem tóku þátt í þessum sirkus sem annar karlmaður bjó til, til að vernda sig og sína stöðu innan skólans sem ég stundaði nám við.

86. Vann á stofnun þar sem stór hluti þeirra sem við vorum að þjónusta voru kk-fræðimenn og voru þeir margir illa haldnir kvenblindu. Æði oft spurðu þeir sérstaklega eftir karlkyns samstarfsmönnum þegar þeir komu. Væru þeir aftur á móti ekki við, kom oftar en ekki í ljós að erindin voru þess eðlis að við konurnar á staðnum vorum fullfærar - og jafnvel mun hæfari í að greiða úr.

87. Þegar ég hafði skilað inn doktorsritgerðinni minni við virtan erlendan háskóla, vildi svo til að fræðimaður í faginu, frá annarri heimsálfu, var gestur háskólans og leiðbeinanda míns. Hann var með okkur í deildinni um tíma, og einhvern veginn atvikaðist það að hann vildi endilega bjóða mér út að borða. Ég þáði það, alveg hugsunarlaust, enda var það fremur algengt í þessum háskólabæ að erlendir gestir og stúdentar á staðnum blönduðu geði. Við áttum ágætis samtal yfir góðum mat, þó mér fyndist maðurinn hvorki sjarmerandi né skemmtilegur og fórum svo bara hvort í sína áttina, enda stóð aldrei neitt annað til. Hálfu ári seinna komst ég svo að því að hann var annar dómari doktorsritgerðar minnar. Í greinargerð með áliti hans á vinnunni minni spurði hann hvers vegna í ósköpunum ég væri að taka doktorspróf, kona á þessum aldri (ég var 50)! Ábendingar hans og athugasemdir voru hroðvirknislega unnar og þó ég þyrfti að svara þeim öllum, komst ég að mestu hjá því að taka tillit til þeirra við endanlega gerð. Ég varð rosalega reið þegar ég fékk staðfestingu á því hver maðurinn var, bæði vegna þess að mér fannst hann haga sér ósæmilega með því að eiga í persónulegum samskiptum við mig, vitandi að hann yrði dómari verka minna, en einnig fannst mér leiðbeinandi minn hafa valið illa, og í raun alls ekki gætt hagsmuna minna. Þetta hafði þó engin raunveruleg áhrif, þannig séð, nema ef til vill að efla sjálfs-efann, sem er leiðindafylgifiskur. Greinargerð hins dómarans var mjög jákvæð og gríðarlega vel unnin, með löngu bréfi til mín varðandi tillögur um útgáfu á ritgerðinni!

88. Ég var að kenna námskeið fyrir kollega og þegar ég var að hefja minn hluta stendur einn karlmaður upp og þrumar yfir hópinn að með fullri virðingu fyrir mér þá geti ég nú ekki kennt honum neitt. Ég var aðeins 28 ára og tiltölulega nýbyrjuð að kenna námskeið svo þetta sló mig eðlilega dálítið út af laginu. Hann hefði þó betur hlustað því síðar skilaði hann inn verkefni sem var ekki í neinu samræmi við kröfurnar sem ég gerði í námskeiðinu.

89. Í fyrsta starfinu mínu eftir háskóla: Valdamikill maður á vinnustaðnum skildi því miður aldrei mörk þess að vera vinalegur og vera óviðeigandi. Hann settist iðulega aðeins of nálægt. Snerti man einhvern veginn röngum megin við mörkin. Hóf umræður á einhverju sem var aðeins of persónulegt. Stóð fyrir aftan mig á meðan ég vann, beygði sig aðeins of nálægt og andaði á hálsinn á mér. Hann var tvöfalt eldri en ég. Þó ungur í stóra samhenginu. Um fertugt. Hávaxinn og þrekinn. Hélt sér við. Flokkast líklega víðast sem myndarlegur maður. Rólegur og ljúfur. Brosmildur. Giftur með börn. Góður við allar manneskjur, svo ég best sæi til. Fyrir utan þetta með mörkin. Sem hann virtist bara ekki skilja. Ég kunni ekki að díla við þetta - þrátt fyrir að hafa á þeim tíma viðamikla (klassíska) reynslu af áreiti úr fyrri táningsstúlkustörfum. Því það er einhvern veginn ekki það sama og að díla við fólk með völd. Ég hristi hann alltaf einhvern veginn af mér. „Ég ætla að stökkva og grípa mér kaffibolla. Læt þig vita þegar ég er búin að kíkja á þetta. Hehe“ Og að sjálfsögðu hélt ég öllu alltaf kammó, eins og allar konur sem vilja ekki rugga bátnum. Ég forðaðist dulið að vinna verkefni sem hann tók þátt í. Reyndi að standa alltaf upp þegar hann kom til mín, svo hann gæti ekki andað á hálsinn á mér. Reyndi að enda aldrei í lokuðu herbergi með honum. Ég stóð mig oft að því að hugsa: „Oh. Er heimurinn eftir háskóla svona?“ Samtímis og ég vonaði að þessi maður væri bara einn af fáu svörtu sauðunum. En svo gekk hann loks yfir einhver mörk sem gerðu mér ókleift að vinna með honum. Ég þurfti að ræða við hann vegna sameiginlegs verkefnis. Á leið minni til hans mætti ég honum á risastórum opnum gangvegi – þar sem þó engin var. Ég sagði við hann „Ah, [nafn]! Einmitt sá sem ég var að leita að! Ég ætlaði að ræða við þig um...“ Þá greip hann ákveðið utan um mjóbakið mitt, hrifsaði mig til sín, og hélt mér í þéttingsföstu taki upp við líkamann sinn, svo að klofið hans lá uppvið mitt og ég var pikkföst. Ég fraus, sagði ekkert, og fann hjartsláttinn aukast. Hann beið um stund, og sagði svo rólega, og brosandi, horfandi djúpt í augun mín, eins og staðan sem við vorum í gæti ekki verið sjálfsagðari: „Hvað segirðu, [nafn] mín?“ Ég stamaði einhverju út úr mér.  Einhverjum hálfparti af því sem ég vildi sagt hafa – á meðan ég gat lítið hugsað annað en: „Ég er föst. Hann er stærri og sterkari en ég. Ég skil ekki hvað hann er að gera? Ok ég þarf að koma honum í skilning um að ég vilji ekki vera hér. Hvað á ég að gera? Ef ég segi „Viltu sleppa mér?“ þá móðgast hann ábyggilega. Ég get ekki móðgað hann.  Hann hefur völd hér. Af hverju er hann að gera þetta?  Sér þetta ekki einhver? Ég vona að einhver hafi séð þetta!  Eða er þetta kannski bara eðlilegt?  Finnst öllum hér þetta vera eðlilegt? Er ég að túlka þetta of mikið?“ Eftir nokkrar mínútur af stami og gólfstörum af minni hálfu, pikkföst upp við hann, klof í klof, brjóst við brjóst, farin að svitna úr óþægindum, náði ég loksins að gera honum skýrt með mjaki og hreyfingum að ég vildi losna. Hann sleppti mér. Ég sagðist skyldu láta hann vita um næstu skref í verkefninu. Svo gekk ég beinustu leið inn á kvennaklósett og dvaldi þar um stund að hugsa hvað ég ætti að gera. Ég vildi að ég gæti sagt ungu-mér að það skipti eeeengu friggin máli þótt ég móðgi mann sem heldur mér gegn vilja mínum, með því að segja honum að sleppa mér.  Sama hvaða völd sá maður hefur. Ég vildi að ég gæti leiðrétt eftirfarandi þankagang hjá ungu-mér: „Ef ég segi frá þessu þá missi ég starfið mitt.“  „Ef ég segi frá þessu þá vill engin manneskja hér vinna með mér.“ „Ef ég segi frá þessu þá verður það ég sem verð dæmd, ekki hann.“ „Ef ég segi frá þessu þá mun þetta atvik og frásögn mín af því fylgja mér allan ferilinn minn.“ Það versta er líklega að ég er ekkert sannfærð um að unga-ég hefði haft fyllilega rangt fyrir sér. Ég sagði aldrei frá þessu. Ég passaði mig bara að fara aldrei aftur ein að hitta hann. Fann alltaf upp á einhverju til að aðrar manneskjur kæmu með mér.

90. Í mastersnáminu mínu gerðist samnemandi eltihrellir - hann elti mig um ganga skólans, hringdi og sendi skilaboð gegnum alla mögulega samskiptamiðla og spurði samnemendur um mig og um heimilisfangið mitt. Þetta ágerðist og með tímanum urðu skilaboðin sífellt kynferðislegri og myndbönd fóru að fylgja með (m.a. nektarmyndband). Ég óttaðist oft um öryggi mitt og að hann myndi finna hvar ég ætti heima og varð með tímanum meira og meira paranoiuð þegar ég var ein heima. Þar sem að þetta entist í meira en 2 ár (er ennþá ekki alveg hætt en þó orðið skárra) tók það mun meira á sálina en mig hefði grunað, þá sérstaklega þegar skilaboðin fóru að vera kynferðisleg. Þó svo að kynferðisparturinn hafi bara verið skriflegur hafði hann djúpstæðari áhrif á mig en nokkurt líkamlegt kynferðisofbeldi sem ég hef orðið fyrir. Það góða er samt hvað ég fékk mikla hjálp og stuðning úr öllum áttum. Samnemendur hjálpuðu til við að hrekja hann í burtu, og eftir að hafa gefið eltihrellinum nokkrar viðvaranir rak deildarstjórinn hann úr náminu, án þess þó að hafa fengið leyfi frá hærri yfirvöldum skólans til þess, og tók þannig áhættu í starfi til að tryggja mitt öryggi. Ég er svo þakklát fyrir það. Hinsvegar er annað mál hvernig lögreglan nálgaðist málið þegar ég kærði - þetta var jú bara ástfanginn maður sem var svolítið þrjóskur, sagði aðal rannsakandinn í málinu við mig.

91.„If I fail, I´ll send my friends to do something nasty to her“. Ég var nýtekin við starfi námsbrautarstjóra við háskóla í Englandi. Prófdæmingu BA verkefna var nýlokið þegar einn nemandinn bankar upp á hjá mér og segist þurfa að segja mér frá því sem hún hafði heyrt. Hún hafði heyrt til hans P, 3. árs nemanda, hóta því að ef hann félli myndi hann senda gengi að gera mér eitthvað illt! Og þetta var ekki léttvæg hótun, P var þekktur í skólanum og ekki af hinu góða. P átti erfitt uppdráttar, ekki sterkur nemandi og með slakt og óklárað verkefni. Ég fór á fund fyrrverandi námsbrautarstjóra, aðstoðardeildarforseta, deildarforseta og skrifstofustjóra að leita ráða. Nemendur og kennarar höfðu kvartað undan honum í þessi þrjú ár sem hann var í námi, hann hafði margsinnis sýnt ógnandi hegðun í vinnustofu, stelpur höfðu flúið grátandi undan honum og kennarar forðast hann. Ég var furðu lostin þegar kom í ljós að eftir hvert tilfelli hafði hann bara fengið smá klapp á bakið og tiltal yfirmannanna sem voru allir karlmenn. Engar skrár um fundi voru til, engar fundargerðir, honum hafði aldrei verið gert að ræða við neinn eða leita sér aðstoðar, og aldrei hafði honum verið gefin viðvörun um að honum yrði vikið úr skóla, - og við vissum samt að á tímabili þurfti hann að mæta fyrir rétt fyrir GBH (grievous bodily harm-kæru). Kerfið og kallarnir höfðu hundsað vandamálið í þrjú ár. Þeir höfðu sýnt óviðeigandi, ógnandi og truflandi hegðun umburðarlyndi, - og hreinlega ekki haft dug í sér til að takast á við aðstæður. Trúðu því að það að gantast smá við strákinn og gefa honum smá föðurlega leiðbeiningu myndi leysa málin. Sem auðvitað leysti ekki neitt, - en leiddi til þess að ég unga konan, langyngst af námsbrautarstjórunum og eina konan í slíku starfi við skólann mátti verða fyrir þessari ógnun, - eitthvað sem köllunum þótti heldur ekki neitt svo alvarlegt. Eina sem hægt var að gera, - var að gefa honum staðist. Þetta var og er ekki í eina skiptið sem ég hef orðið miklu reiðari kerfinu, - en gerandanum.

92. Bankahrunið árið 2008 hafði mikil áhrif á minn vinnustað þar sem öllum var fljótlega sagt upp og fólk var eingöngu verkefnaráðið eftir það. Semsagt mikill samdráttur og erfiðleikar. Það situr enn í mér, eftir öll þessi ár, þegar mér var sagt að erfiðlega gengi að greiða út laun og að ekki væri hægt að greiða öllum á sama tíma. Það væri sem betur fer búið að redda X, Y og Z enda væru þeir fyrirvinnur og mættu því alls ekki við launafalli. Hinum, þar á meðal mér, yrði greitt um leið og mögulegt væri. Þetta væri alveg hræðileg staða og ég sagðist skilja það. En um leið fannst mér ég ekki jafn mikils virði, enda ekki fyrirvinnan …

93. Þessi saga tengist fræðasamfélaginu ekki beint en þó óbeint að því leyti að hún gerist innan alþjóðlegs verkefnis sem ég var fengin í vegna minnar sérfræðiþekkingar. Ég var sem sagt ráðinn sem ráðgjafi í verkefni sem Ísland var að vinna að í þróunarríki ásamt tiltekinni alþjóðastofnun. Við vorum þrjú í íslenska teyminu, ég og tveir karlar. Þeir höfðu sérfræðiþekkingu á tilteknum sviðum sem tengdust verkefninu en ég átti að vera sú sem hafði yfirsýnina, hafði innsýn inn í þá þætti sem verkefnið fjallaði um auk þess að vera sú eina af okkur þremur sem hafði reynslu úr þróunarsamvinnu og þekkti til í viðkomandi landi. Íslenska teymið vann síðan með verkefnisstjóra sem alþjóðastofnunin var búin að ráða auk þess sem tengiliður þessarar alþjóðastofnunar var virkur þátttakandi í verkefinu sen og 1-2 staðbundnir ráðgjafar. Ég var yngst og eina konan.Viðfangsefnið sem var til umfjöllunar í verkefninu tengdist geira sem á flestum stöðum er frekar karlægur. Strax og við mættum á svæðið var ljóst að verkefnastjórinn taldi að íslenska teymið væri ekki nægjanlega sterkt og hann var dyggilega studdur af fulltrúa alþjóðastofnunarinnar. Við áttuðum okkur lengi vel ekki á því hvað væri vandamálið enda þekktu kapparnir lítið til okkar. „Eigum við ekki bara að byrja á verkefninu og sjá hvernig gengur“ lögðum við til, nokkuð brött með okkur eins og Íslendinga er siður. Smátt og smátt fór ég þó að átta mig á hvert vandamálið var í hugum þessara erlendu karla: „Ég“. Ég var sem sagt of reynslulaus og hafði of litla þekkingu til að ráða við verkefnið. Þetta var niðurstaða sem þeir komust að án þess að hafa nokkurntíman séð mig. Á sama tíma var sífellt vísað í íslensku karlana tvo sem „high level experts“. Verkefnastjórinn sótti það stíft að fá að setjast niður með mér til að „pin-point my weaknesses“ eins og hann orðaði það. Þegar ég stakk upp á við gætum kannski frekar byrjað á hinum endanum og kortlagt mína styrkleika og hvernig ég gæti verið gagnleg fyrir verkefnið þá hafði hann engan áhuga á því. Hann var með vin sinn á kantinum og vildi fá hann inn í verkefnið og ætlaði sér að sýna fram á að ég væri óhæf til verksins og fá hinn inn í staðinn. Ég væri síðan tilvalin í að vera til staðar fyrir alls konar snatt og ritarastörf (þetta var reyndar ekki sagt beint en lá í loftinu). Þegar ég loksins áttaði mig á hvað væri í gangi tók ég hressilega á móti og sýndi klærnar. Við tók atburðarrás sem var svo furðuleg að ég hristi enn hausinn þegar ég hugsa um þennan tíma. Ég sat á fundi þar sem var rætt um mig eins og ég væri ekki á staðnum og hvernig ætti að leysa „vandamálið“ varðandi þessa óhæfu konu. Á endanum fékk ég nóg og sagði mig frá verkefninu. Það var mér til happs, bæði á meðan á málinu stóð og í eftirmálanum, að mínir íslensku kollegar stóðu þétt við bakið á mér, bökkuðu allt upp sem ég sagði og einn þeirra barði meira að segja hressilega á borðið á fundinum furðulega, og sagði að ef ætti að bola mér burt úr verkefninu þá færi hann líka. Mér þótti gríðarlega vænt um þennan stuðning og hann hafði mikið um það að segja að áhrif þessarar annars frekar ömurlegu lífsreynslu urðu ekki eins neikvæð og ella. Þessi saga sýnir ágætlega hvað kvenfyrirlitning er djúpstæð um víða veröld, og hvernig í sumum tilfellum er búið að afgreiða okkur konurnar út af borðinu áður en við fáum nokkurt einasta tækifæri til að sýna hvað í okkur býr. En hún sýnir líka hversu mikilvægt er að þeir karlar sem ekki vilja taka þátt í þessum leik, sem virkilega vilja eiga í samskiptum viðkonur á jafningjagrunni, sýni stuðning sinn í verki þegar svona aðstæður koma upp. Íslensku karlarnir í þessu verkefni gerðu einmitt það og fyrir það verð ég ævinlega þakklát. Það lifir lengur í minningunni en þessir ömurlegu útlendu karlar sem héldu að þeir gætu útilokað mig úr verkefninu án nokkurrar móttstöðu.

94. Ég var í samstarfi við mjög virtan erlendan vísindamann. Hann var frá upphafi ýtinn á persónuleg samskipti langt umfram það sem mér fannst þægilegt. Dæmi um athugasemdir: „þú ert alltaf efst á mínum lista“, „ég geri hvað sem er fyrir þig“ sem viðbrögð við einfaldri beiðni um að lesa yfir og skila til baka skjali. Síðan fór hann að senda mér myndir af sér (alltaf úr fríinu) og óþægilega persónulegar upplýsingar um sig og sitt fjölskyldulíf afþví „það er svo auðvelt að tala við þig“. Ég náði á endanum að setja mörk en það endaði með því að ég var hundsuð í langan tíma. Í kjölfar þess sem ég hef lesið í þessum hópi finnst mér þessi samskipti lýsandi fyrir það sem konur í vísindum, og líklega alls staðar, þurfa að glíma við. Stöðugt að meta aðstæður, tipla á tánum, passa að vera hæfilega kurteisar, ekki móðga, ekki vera of vinalegar. Ég væri alveg til að í að fá tímann sem ég hef eytt í þetta gegnum árin til baka.

95. Á fyrstu ráðstefnunni sem ég tók þátt í erlendis í mínu námi var mér úthlutað leiðbeinanda frá Bretlandi en ráðstefnan var partur af undirbúningi fyrir meistararitgerð. Þessi leiðbeinandi gaf sér gjarnan á tal við mig eftir ráðstefnuhald og mér fannst gaman að ræða við hann um fagsvið okkar. Hann „addar“ mér á Facebook og sendir mér um hæl skilaboð þar sem hann segist hafa orðið fyrir vonbrigðum, sé í raun hissa á að sjá á Facebook að sé trúlofuð. Mér fannst þetta nokkuð skrýtið. Hann var tíu árum eldri en ég og ég hafði ekki talað um mín persónulegu mál við einn né neinn þarna úti – en mér datt samt ekkert annað í hug en að afsaka þetta: ég hefði kannski átt að koma þessu að í samræðum okkur um fagsviðið? Við áttum samt í ágætum samskiptum eftir þetta og mér fannst mjög gefandi að tala við hann um möguleikana sem hann stakk upp á eftir nám, framhaldsnám við skólann hans og fleira og fleira.  Ári síðar heyrir hann af mér í Bretlandi og vill endilega hittast og bjóða mér um leið í þriggja daga ferðalag til annarrar borgar þar sem við gætum gist hjá vini hans. Ég var nýkomin til landsins og langaði til að skoða í kringum mig með heimamanni. Á ferðalaginu eigum við góðar samræður um fagsviðið eins og áður. Þegar við komum á áfangastað kemur í ljós að við munum sofa í hjónarúmi en hann var búinn að lofa mér tveimur herbergjum: „Ekkert annað laust.“ Ég verð súr en hugsa sem svo að hann hljóti að vita af viðbrögðum mínum að við séum að fara að sofa á sitthvorum kantinum – en allt kemur fyrir ekki og hann leitar á mig um nóttina. Ég útskýri fyrir honum að ég vilji þetta ekki og lýg í leiðinni að þótt flosnað hafi upp úr gamla sambandinu þá sé það samt ekki „alveg búið“ (afsakanir, afsakanir). Hann dregur sig í hlé en daginn eftir eys hann yfir mig gjöfum: ef ég lít á trefil í búð er hann búinn að kaupa hann og krefst síðan mikils þakklætis í staðinn. Hann pantar borð á veitingastað og sýnir mér svo reikninginn til að ég átti mig á hvað þetta hafi kostað en þó má ég ekki borga. Mér finnst tíminn líða mjög hægt og ég get ekki beðið eftir að þessu ferðalagi ljúki.  Aðra nótt erum við á nýjum áfangastað og sofum í tveimur sófum en undir morguninn vakna ég við að hann skríður upp í minn tveggja sæta sófa sem er ekki einu sinni nógu stór fyrir mig. Nú er ferðalagið að vera búið og hann segist verða að gera eina tilraun enn. Ég gefst algjörlega upp á honum og fer fram og loka mig af, nánast þangað til hann þarf að leggja af stað í rútuna heim til sín. Um leið rennur upp fyrir mér að allt sem við höfum rætt um sé ekki að fara að gerast: mögulegt framhaldsnám við skólann þar sem hann vinnur og tækifæri fyrir mig sem fræðimenn þar í borg. Ég einfaldlega get ekki verið í svona samskiptum við hann. Ég velti fyrir mér aftur og aftur: Hvað gerði ég rangt? Ég hefði kannski ekki átt að tala „svona mikið“ við hann um fagsviðið til að byrja með? Brosa minna og láta mig hverfa fyrr upp á hótel? Auðvitað má sjá þennan mann einfaldlega sem karakter sem á í vandræðum með samskipti. Hins vegar hófust þessi samskipti á því að hann sem  háskólakennari átti að leiðbeina mér sem nemenda en á sjálfri ráðstefnunni virðist hann hafa séð þá leiðbeinslu sem tækifæri á einhverju öðru. Eftir að hafa unnið núna í mörg ár með ungu fólki eða við kennslu finnst mér svo augljóst að nemandi eigi aldrei að þurfa að eiga hættu á svona samskiptum og kennari eigi aldrei að nýta sér stöðu sína á þennan hátt – en það er samt gert í háskóla. Því miður finnst mér of stór hluti af minni háskólagöngu hafa snúist upp í svona mál og er þar efniviður í fleiri sögur. 

96. Eftir fáeinar vikur í starfi hjá HÍ, var ég eðli málsins samkvæmt að setja mig inn í þau verkefni og verklag sem féll í minn hlut að sinna í starfsumhverfinu.  Þurfti að bera undir þáverandi formann grunnnámsnefndar tiltekna beiðni frá nemanda um mat á námskeiði  úr erlendum háskóla. Fékk svar sem mér fannst ónákvæmt og sagði „ég er að hugsa hvort... komst ekki lengra með setninguna, maðurinn hreytti út úr sér og sparaði ekki raddstyrkinn: „þið (starfsfólk í stjórnsýslu) eruð ekki hér til að hugsa, heldur til að taka við pappírum“.

97. Ég byrjaði seint í háskólanámi og var þá í lítilli deild þar sem konur réðu húsum. Nemendahópurinn var líka konur að stórum hluta og ég man ekki eftir öðru en hvað þetta var skemmtilegt. Í MA-námi tók ég einn kúrs hjá manni sem hafði líka kennt mér í menntaskóla og mér hafði þótt mjög skemmtilegur kennari. Nú brá svo við að mér fannst hann ekki eins skemmtilegur og mér leið ekki vel í tímum hjá honum. Það voru fáir nemendur í þessum hóp en við vorum þrjár konur á mínum aldri, um og yfir fertugt.  Ég var dálítinn tíma að átta mig á því hvað væri í gangi en ræddi svo við stöllur mínar sem voru einmitt með sömu tilfinningu. Í tímanum voru ungir menn sem kennaranum fannst rosalega klárir og skemmtilegir en við „kerlingarnar“ upplifðum algjört fálæti. Þetta var samt þannig að það var erfitt að setja puttann á það en mér leið mjög illa í þessu námskeiði. Ég fann líka fyrir því í MA-náminu að ungir karlkyns samnemendur gerðu ráð fyrir því að ég hefði ekki skilning á helstu hugtökum fræðigreinarinnar sökum aldurs og kyns.  Sem betur fer eru þetta alvarlegustu sögurnar hér úr háskólasamfélaginu en ég upplifði miklu alvarlegri kynjaójöfnuð, með öllu tilheyrandi, á almennum vinnumarkaði frá því að ég réði mig stolt í byggingarvinnu 15 ára, og var látin þrífa klósettin og sjá um kaffið mér til mikillar gremju, og einnig á skrifstofunni þar sem konurnar þurftu að stimpla sig inn en ekki karlarnir og yfirmaður minn sem sagði allar sögurnar af dýraníði ... og ... og ... og …

98. Sagt við mig í upphafi námsbrautarfundar fyrir nokkrum árum. Við vorum tvær konur á staðnum (í karlafagi) og fjölmargir karlar. Ég jafnframt yngst: „Sækið þið konurnar svo ekki kaffi handa okkur?“ Sett fram sem „grín“ en mikið ofboðslega er ég orðin þreytt á svona lítið fyndnu gríni.

99. Maðurinn sem var post-doc þar sem ég var í doktorsnámi og var þekktur hjá stelpunum fyrir að halda höndunum ekki fyrir sjálfan sig þegar hann var kominn í glas. Sami maður sem fann hjá sér þörf að segja mér hversu glæsileg ég væri væri ef hálsmálið á bolnum var ekki alveg upp í háls eða pilsið ekki niður að hnjám. Aðrir karlkyns samstarfsmenn sem höfðu orð á því að ég væri nú ekkert að fela á mér brjóstin. Ég fann mig knúna til að breyta því hvernig ég klæddi mig. Prófessorinn sem spurði mig hvort ég ætti kærasta og/eða væri farin að huga að barneignum þegar var möguleiki á að ég vildi fara til hans í meistaranám. Ég fór ekki þangað. Leiðbeinandinn í doktorsnáminu sem lýsti yfir vonbrigðum við mig þegar hann fattaði (eftir að ég var búin að vera þar í meira en ár) að ég væri nú svolítið eldri en ég liti út fyrir að vera, því það væri líklegra að ég færi að taka upp á einhverju veseni eins og að vilja eignast börn. Sagði við mig í annað skipti að það færi allt í fokk í verkefninu ef ég yrði ólétt. Í einhverri meðvirkni kappkostaði ég að sannfæra hann um að ég væri ekki að plana barneignir, þar sem ég bjó ein erlendis. Náði seinna á fundi (í formi brandara, því ekki þorði ég að tækla þetta öðruvísi) að tilkynna honum, prófessornum mínum og hinum (kvenkyns) leiðbeinandanum mínum að ég kynni ekki að meta svona komment og þetta væri faktískt ólöglegt að spyrja mig út í þetta, en ég ætlaði ekki að gera neitt meira úr því. Þau urðu öll mjög vandræðaleg en þettaa var ekki nefnt aftur. Þetta er svo fyrir utan þegar var svo litið á að ég væri einkaritari leiðbeinandans míns og átti alltaf að vita hvar hann var eða hvað hann væri að gera. Beðin (í gríni?) um að sækja kaffi og þvo kaffibolla. Þegar gestir ákváðu að hunsa mig en heilsuðu karlmönnunum. Allar hrútskýringarnar. Talið um að ég væri svo fyrirferðarmikil af því ég lét skoðanir mínar í ljós.

100. Þegar ég hugsa um kynferðislega áreitni innan akademíunnar þá finnst mér hún vera eins fjarri erótík og hugsast getur. Þetta er alltaf hrein tilraun til þess að sýna vald sitt með því að niðurlægja viðkomandi. Eitt af dæmum um þetta í mínu starfi er samtal við eldri kollega sem hefur löngum haft eitthvað gegn því að ég var ráðin, líklega af því honum fannst að það hefði frekar átt að ráða fyrrum karlnemanda hans. Í samtalinu klappar hann á hné mér og segir "við skulum vera góðir við þig þegar þú ferð á breytingaskeiðið." Þegar haldin var afmælisráðstefna fyrir þennan mann nokkrum árum áður var ég sú eina úr kennaraliðinu sem var ekki boðið að halda erindi þar.

101. Eftir stóran viðburð í háskólanum er veisla. Ég þarf að skreppa úr veislunni á skrifstofuna með eitthvað dót og þá eltir mig samstarfsmaður úr annarri deild, c.a. 20 árum eldri en ég. Þegar upp á skriftofuna er komið, sem var mannlaus, vill hann knús til að halda upp á vel heppnaðan viðburð. Hann stígur ákveðið fram, hálf króar mig af og reynir að kyssa mig beint á munninn. Náði einhvernveginn að forða mér úr klónum og hörfa frá honum. Hef reynt að forðast hann síðan en þarf stundum að vinna með honum. Maðurinn er giftur og hvers manns hugljúfi í háskólasamfélaginu. 

102. Einn daginn var ég á leið í kennslu og sá kvknemanda sitja með karlkynskennara í matsalnum í háskólanum. Ég kippti mér ekki upp við það en gekk aftur í gegnum matsalinn um klukkutíma seinna og voru þau enn að tala saman. Það liðu um tveir tímar og ég átti aftur leið hjá og sá þau sátu enn saman, en stúlkan virtist vera hálf vandræðaleg.  Nemandi var í leiðsögn hjá mér og næst þegar hún kom á fund til mín þá spurði ég hana um atvikið. Ég vissi að þessi kennari átti til með að króa af yngri konur og sérstaklega ungar einstæðar mæður. Þá greinir hún frá því að hann átti það til í að taka fyrir ungar "sætar" konur í BA námi, og þá að þær kæmust ekki í burtu. Hann hafði oft stoppað hana á göngunum og talað við hana eða króað hana af í matsalnum og þá oft klukkutímum saman, eins og ég hafði séð. Hún sagði að hann hefði sagt henni að það væri gott fyrir hana að hafa hann sem leiðbeinandi í BA verkefninu þar sem hún gæti þá fengið góða einkunn. Þegar hún sagði honum að hún væri komin með leiðbeinanda þá byrjaði hann að tala um MA námið og lagði áherslu á að hún leitaði til hans sem mögulegs leiðbeinanda. Ég sagði henni að þessi hegðun væri ekki viðeigandi. Hún bætti þá við að hann hefði hringt heim til hennar þegar hún var lasin og hafði ekki mætt í tíma. Hann sagðist þá bara vilja vita að hvort að það væri allt í lagi með hana. Henni fannst þetta óþægilegt.

103. Þegar ég lít yfir farinn veg innan akademíunnar, bæði í hlutverki nemanda, kennara og stjórnsýslara koma fram í hugann ótal dæmi um kynbundna niðurlæginu. Þrjár sögur rífa samt mest í. 1) Þegar ég í uppburðarleysi mínu bar mögulegt ritgerðarefni mitt í MA námi í hugvísindum (eldfimt og afar pólitískt) undir karlkyns kennarann og hann sagði: Ekkert vera að spá í þetta efni, hann XX ætlar að rannsaka þetta í XX háskóla (í flottum útlöndum). Núna mörgum árum seinna hafa engar fréttir borist af þeirri rannsókn. 2) Þegar ég horfði á karlkyns kennara hreinlega leiða undir embættismann huggulega kvenkyns nemendur í námsheimsókn í hjarta Evrópusambandsins. 3) Þegar karlkynsnemandi minn í námskeiði ljósritaði á sér rass og typpi í mótmælaskyni við óviðunandi einkunn og umsögn (þetta síðasta er náttúrulega bara fyndið).

104. Sú áreitni sem ég hef orðið fyrir í akademíunni hefur fyrst og fremst verið af hálfu nemenda. Ég hef jú setið fundi með karlkyns kollegum sem virðast ekki heyra í mér tala, það hefur verið gengið framhjá mér við ráðningar og karlmenn eigna sér gjarna hugmyndirnar mínar en áreitnin og hótanirnar hafa komið frá nemendum í mun meiri mæli en samstarfsmönnum. Nokkrir karlkyns nemendur sem tóku hjá mér námskeið sögðu samnemendum sínum að þeir gætu alveg eins sleppt því að mæta í tíma hjá mér því þeir gætu ekki einbeitt sér að neinu öðru en að horfa á mig og þyrftu svo alltaf að fara afsíðis og fróa sér. Mér fannst alltaf mjög óþægilegt að hafa þá í kennslustundum. Þeir ræddu þetta líka við bróður minn sem var nemandi við aðra deild í sama skóla. Ég fer oft yfir verkefni á borð við ritgerðir í word þannig að nafnið mitt kemur fram við allar athugasemdir sem ég skrifa. Einu sinni bar það svo til að ég þurfi að fá lánaða tölvu þegar mín bilaði og því birtust athugasemdirnar undir karlmannsnafni. Ég útskýrði þetta fyrir nemendum í næsta tíma og leit svo á að málið væri afgreitt. Við lok námskeiðsins, ég man ekki hvort það var í kennslumati eða með öðrum hætti, var kvartað og orð haft á því að ég hefði verið áberandi slakasti kennarinn í námskeiðinu en karlinn sem fór þarna yfir eitt verkefni hafi verið langbestur, skilað bestu yfirferðinni og viðkomandi vildi endilega sjá meira af honum í framtíðinni. Ég hóf störf sem aðstoðarkennari í háskóla þegar ég var 24 ára, fyrst um sinn fólst mitt starf aðallega í einkunnagjöf og svo fékk ég flóknari verkefni eftir því sem reynslan jókst eins og gengur og gerist. Á fyrstu önninni sem ég var aðstoðarkennari króaði nemandi mig af á árshátíð deildarinnar til að ræða einkunnagjöf. Hann sagðist hafa velt því mikið fyrir sér hvernig hann gæti fengið hærri einkunnir í námskeiðinu og komist að þeirri niðurstöðu að best væri fyrir hann að berja samkennara minn (sem var karlmaður á fimmtugsaldri) og ríða mér. Kannski sagði hann nauðga, ég man það ekki en ég man að það var þannig sem ég skildi þetta. Hann baðst afsökunar á „óviðeigandi framkomu“ nokkrum dögum síðar og þó ég hafi slegið þessu öllu upp í grín þá hef ég aldrei jafnað mig almennilega á þessu atviki. Það eru líklega um 9 ár síðan en maginn í mér hringsnýst í hvert skipti sem ég sé hann, sem er frekar oft því við vinnum í sömu byggingu. Fyrir nokkrum dögum síðan mætti ég í tíma í námskeiði þar sem ég flutti fyrirlestur á önninni. Tilefnið var að meta framsögur nemenda. Einn nemandi lét mig fá viðveruskráningarblaðið og þegar ég rétti það næsta manni benti hann mér á að þetta væri sko viðvistarskráningin og ég ætti að skrifa nafnið mitt á blaðið. Ég sagði honum að ég væri kennari í námskeiðinu og þyrfti þess vegna ekki að skrifa á viðverulistann. Hann þrætti við mig um það, samt man ég alveg eftir honum úr tímanum sem ég kenndi og man að hann var virkur í þeim tíma og við töluðum heilmikið saman þá.

105. Ég veit ekki hvor þessi saga á við hér en fyrir örfáum árum var ég á skemmtun sem haldin var á háskólasvæði HÍ. Ég sat við borð með kunningjum mínum þegar ég finn að einhver kemur við öxlina á mér. Þar var kominn karlmaður sem ég þekki bara sem starfsmann HÍ. Hann spyr mig hvort ég geti hjálpað sér við að fara með myndavélina sem hann var með yfir í skrifstofuna sína í öðru húsi. Hann sýndi mér vélina til að leggja áherslu á mál sitt og ég sá að þetta var vél sem er einfaldlega hægt að stinga í vasann. Mér brá og sagði hissa: NEI og snéri mér aftur að kunningjum mínum. Ég veit enn ekki hvað hann átti í raun við en efast um að myndavélin hafi verið málið. Mér fannst þetta óþægilegt atvik og það sat í mér: mér fannst hann líta á mig sem vergjarna og einfalda. 

106. Þegar ég var að byrja í háskólanámi, aðeins 19 ára gömul, var ég í lítilli deild sem kenndi erlent tungumál. Það komu gestalektorar að utan og voru í 2-4 ár og fóru svo og nýir komu í staðinn. Það var mikið félagslíf í þessari litlu deild og hittust nemendur og kennarar oft utan kennslustunda og var stundum áfengi haft um hönd. Einn erlendi lektorinn (kk) varð alltaf mjög ástleitinn á slíkum samkomum, reyndi að króa mig af og kyssa mig, en mér tókst að leiða það hjá og þóttist vera svo saklaus að ég tæki ekki eftir því. Svo fór þessi lektor og nýr kom í staðinn (líka kk). Hann talaði oft við mig í kaffihléum og sagðist vera einmana. Ég vorkenndi honum og þegar hann bauð mér í bíó sá ég ekkert athugavert við það. Og ekki heldur þegar hann bauð mér í kaffi á eftir. En þá gerðist hann mjög grófur og fór að kyssa mig og strjúka mér um brjóstin og vildi að ég kæmi með sér inn í svefnherbergi. Ég fraus af hræðslu, þorði ekki að segja neitt, en tókst að losa mig og hlaupa út. Ég kaus að reyna að gleyma þessu og hélt áfram að umgangast lektorinn en gætti þess ætíð að vera aldrei ein með honum. Það sem mér þótti verst var að hann taldi þetta allt í lagi og hafði fengið þær upplýsingar hjá lektornum sem var nýfarinn heim að það væri fínt að reyna við allar stelpurnar í náminu því þær væru allar til í tuskið.  

« Til baka
Næsta frásögn »

  

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt á Stundinni

Snapað og sníkt á lyfjamarkaðnum

Lára Guðrún

Snapað og sníkt á lyfjamarkaðnum

·
Lögreglan kannast ekki við fjögur sjálfsmorð á einum degi

Lögreglan kannast ekki við fjögur sjálfsmorð á einum degi

·
Leiðtogar Póllands og nýnasistar marséruðu saman um götur Varsjár

Leiðtogar Póllands og nýnasistar marséruðu saman um götur Varsjár

·
Andlitið undir hinum tveimur

Símon Vestarr

Andlitið undir hinum tveimur

·
Jón Steinar vill að Katrín reki Má úr Seðlabankanum

Jón Steinar vill að Katrín reki Má úr Seðlabankanum

·
Hvernig Glitnisgögnin opinbera bisnessmanninn Bjarna Benediktsson

Hvernig Glitnisgögnin opinbera bisnessmanninn Bjarna Benediktsson

·
Afþakka að vera notaður sem skotfæri í stríði gegn femínisma

Atli Már Ástvaldsson

Afþakka að vera notaður sem skotfæri í stríði gegn femínisma

·
Minni stöðugleiki fyrir fjölskyldur hér en í nágrannalöndum

Guðmundur Gunnarsson

Minni stöðugleiki fyrir fjölskyldur hér en í nágrannalöndum

·
Trölli er víða

Freyr Rögnvaldsson

Trölli er víða

·
Algjör lúxus að vera vegan í dag

Algjör lúxus að vera vegan í dag

·
Dauðinn er bara hinn endinn á fæðingunni

Dauðinn er bara hinn endinn á fæðingunni

·
Klukkan ellefu, þann ellefta ellefta 1918

Stefán Snævarr

Klukkan ellefu, þann ellefta ellefta 1918

·