Þessi grein birtist fyrir rúmlega 7 mánuðum.

Öll hneykslismálin sem Bjarni stóð af sér

Bjarni Bene­dikts­son, formað­ur Sjálf­stæð­is­flokks­ins og fyrr­ver­andi fjár­mála­ráð­herra, tengd­ist ýms­um hneykslis­mál­um sem komu upp á Ís­landi í kjöl­far efna­hags­hruns­ins ár­ið 2008. Hann stóð þau öll af sér og var fyr­ir vik­ið oft kennd­ur við efn­ið teflon vegna þess að hann náði alltaf að hrista af sér erf­ið mál á með­an aðr­ir stjórn­mála­menn gátu það ekki.

Öll hneykslismálin sem Bjarni stóð af sér
Níu mál sem standa upp úr Þegar horft er yfir stjórnmálaferil Bjarna Benediktssonar, fyrrverandi fjármálaráðherra, eru níu mál sem standa upp úr þar sem hann sætti mikilli gagnrýni. Málin er misalvarleg og aðkoma hans að þeim var í sumum tilfellum alveg ljós en í öðrum óljósari. Mynd: Davíð Þór Guðlaugsson

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og nú fyrrverandi fjármálaráðherra, hefur frá efnahagshruninu árið 2008 staðið af sér allmörg hneykslismál sem komið hafa upp. Nokkur þessara mála hafa snúist um fortíð hans í íslensku viðskiptalífi á árunum 2003, þegar hann var kjörinn á þing, og fram að efnahagshruninu árið 2008 samhliða því að hann var starfandi stjórnmálamaður.

Bjarni náði hins vegar alltaf að hrista þessi mál af sér, sama hversu óþægileg og erfið þau voru fyrir hann og leiddu þau ekki til þess að hann þurfti að hætta í stjórnmálum. Fyrir vikið var hann gjarnan kenndur við efnið teflon vegna þess að ekkert virtist festast við hann með svipuðum hætti og hjá ýmsum öðrum stjórnmálamönnum sem sögðu af sér eða þurftu að láta af störfum vegna sams konar mála. 

Hér er yfirlit yfir nokkur af þessum málum sem komið hafa upp á pólitískum ferli Bjarna eftir hrunið 2008. 

„Ég neita því heldur ekki að mér finnst á vissan hátt óheppilegt að vera mjög virkur þátttakandi í viðskiptalífinu eftir að bankarnir komust í hendur ríkisins.“
Bjarni Benediktsson,
í desember 2008

1. Störf Bjarna í viðskiptalífinu samhliða stjórnmálum

Eftir efnahagshrunið árið 2008 ákvað Bjarni að hætta afskiptum af íslensku viðskiptalífi. Frá árinu 2003 til 2008 hafði hann jafnhliða verið kjörinn fulltrúi og stjórnandi í viðskiptalífinu. Á tímabilinu var hann meðal annars formaður allsherjarnefndar Alþingis.

Hann hafði verið einn af helstu stjórnendum viðskiptaveldis þar sem faðir hans, Benedikt Sveinsson, og föðurbróðir, Einar Sveinsson, voru helstu fjárfestarnir. Fyrirtækin áttu hlutabréf í Íslandsbanka, síðar Glitni, olíufélaginu N1, Icelandair, Bílanausti og fleiri félögum. Bjarni hafði verið stjórnarformaður olíufélagsins N1, móðurfélags þess BNT ehf., og setið í stjórnum annarra félaga.

Þegar Bjarni sagði sig frá störfum í viðskiptalífinu gerði hann það með þeim rökum að þar sem íslenska bankakerfið væri að stóru leyti komið undir íslenska ríkið væri ekki heppilegt að hann hefði áfram aðkomu að stjórnum þessara fyrirtækja vegna skulda þeirra í bankakerfinu. „Ég neita því heldur ekki að mér finnst á vissan hátt óheppilegt að vera mjög virkur þátttakandi í viðskiptalífinu eftir að bankarnir komust í hendur ríkisins. Það getur möguleika leitt til einhverrar tortryggni sem gæti bitnað á hagsmunum félaganna. Mér finnst það ekki góð staða,“ sagði hann.

Þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út 2010 kom svo í ljós að fyrirtækjasamstæðan sem Bjarni stýrði ásamt öðrum var meðal stærstu skuldaranna í íslensku bankakerfi. Samkvæmt úttektum sem á endanum voru gerðar á afskriftum þessara fyrirtækja í bankakerfinu þá námu þær um 130 milljörðum króna. Þá kom enn frekar í ljós síðar að Bjarni var miklu beinni þátttakandi í daglegum rekstri og ákvarðanatöku þessarar fyrirtækjasamstæðu en áður hafði legið fyrir. 

Upphaf Vafningsmáls BjarnaGreint var frá aðkomu Bjarna Benediktssonar að viðskiptum Vafnings í desember árið 2009. Á þessum tíma lá ekki fyrir hvaða snúningar með hlutabréf í Glitni voru undirliggjandi á bak við þessi viðskipti.

2. Vafningsmálið

Rúmu ári eftir hrunið kom í ljós að Bjarni hafði tekið þátt í flókinni fléttu viðskiptagjörninga sem snerist um endurfjármögnun á hlutabréfum fjölskyldufyrirtækis hans í Glitni í febrúar árið 2008. Málið var nefnt eftir eignarhaldsfélaginu Vafningi ehf. sem notað var í viðskiptunum og stofnað sérstaklega til þess. 

Fyrirtæki í eigu föður Bjarna og föðurbróður, sem og Milestone, stóð frammi fyrir því að missa hlutabréf sín í Glitni banka í veðkalli frá bandaríska fjárfestingarbankanum Morgan Stanley eftir að hlutabréfin höfðu hrunið í verði þegar harðna tók á dalnum í íslensku fjármálalífi. Úr varð að Glitnir ákvað að lána nýju félagi þeirra 10 milljarða króna til að taka yfir fjármögnun hlutabréfanna frá Morgan Stanley til að forða því að bandaríski bankinn tæki þau til sín og þyrfti að selja þau. Nánast má fullyrða að enginn hefði viljað kaupa þessi hlutabréf á markaði og hefði þetta getað leitt til verðfalls á hlutabréfum í bankanum. Í fjölmiðlum kom fram að Bjarni hafði skrifað undir veðskjöl í þessum viðskiptum fyrir hönd föður síns og föðurbróður. 

„Hér er enn og aftur um innihaldslausar pólitískar árásir í minn garð að ræða.“
Bjarni Benediktsson,
um Vafningsmálið

Tveir starfsmann Glitnis voru ákærðir fyrir umboðssvik í Vafningsmálinu og var Bjarni einn þeirra sem var vitni í dómsmálinu og gaf hann meðal annars skýrslu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Starfsmennirnir voru sýknaðir í málinu.

Bjarni bar því alltaf við að hann hafi í reynd verið eins konar sendiboði í málinu. „Eins og ég hef margítrekað sagt hafði ég enga aðra aðkomu að málinu en þá að aðstoða hluthafa við að verða við kröfum bankans um tryggingar. Hér er enn og aftur um innihaldslausar pólitískar árásir í minn garð að ræða. 

En eftir því sem frekari púsl komu fram um aðkomu Bjarna að fjárfestingum föður síns og fjölskyldu á árunum fyrir hrunið komu fram þá lá ljóst fyrir að Bjarni var meiri þátttakandi í viðskiptum fjölskyldunnar en hann vildi vera láta og stýrði meðal annars fjárfestingum föður síns hjá einkabankaþjónustu Glitnis. Í einum tölvupósti sem Stundin, fyrirrennari Heimildarinnar, greindi frá var Bjarni til dæmis að gefa fyrirmæli um rekstur einkahlutafélagsins Hafsilfurs sem faðir hans átti, líkt og hann sjálfur væri eigandi félagsins: „Samkvæmt samtali sendi ég nánari skýringar. Málið snýst um Hafsilfur. Erindið er að Hafsilfur fái að losa 417 milljónir af veðsettum peningum og setji í staðinn hlutabréf í Mætti til tryggingar.

Hafsilfur er sama eignarhaldsfélag föður Bjarna og tók þátt í viðskiptum Vafnings og sama félag og keypti hlutabréf í Íslandsbanka af íslenska ríkinu rúmum áratug síðar. 

Arðbær viðskiptiViðskipti Einars Sveinssonar fjárfestis með hlutabréf í Borgun vour afar arðbær. Einar sést hér með Benedikt Einarssyni syni sínum sem stundar fjárfestingar með honum.

3. Borgunarmálið

Árið 2014 áttu sér stað viðskipti sem nafn Bjarna Benediktssonar, þáverandi fjármálaráðherra, var tengt við vegna þess að ættingjar hans komu að þeim í gegnum fyrirtæki sitt, P 126 ehf. Þetta voru Einar Sveinsson, föðurbróðir hans, og sonur hans, Benedikt Einarsson.

Viðskiptin voru kaup Eign­ar­halds­fé­lagsins Borg­unar, á tæplega 31,2 pró­sent hlut Lands­bank­ans í greiðslumiðlunarfyrirtækinu Borgun á tæp­lega 2,2 millj­arða króna. Landsbankinn var á þessum tíma, líkt og nú, ríkisbanki. Á sex árum tvö­faldaði eignarhaldsfélagið Borgun þá fjár­fest­ingu með arðgreiðslum og sölu á hlutabréfunum. 

Bjarni neitaði því alltaf að hafa með nokkrum hætti komið að viðskiptunum og sagði kenningar þar um vera áróður. „Þetta er ekkert nema áróður þetta Borgunarmál, það er engin innistæða fyrir öllum stóru orðunum. Ég verð bara að fá að verja mig fyrst menn ætla að taka það hérna upp og nota það gegn mér. Þetta er ómerkilegt.“

Aðkoma Bjarna að þessu máli var aldrei sönnuð en hann þurfti samt að svara fyrir það vegna þess að ættingjar hans tóku þátt í viðskiptum með þessa óbeinu ríkiseign á vakt hans í fjármálaráðuneytinu. Föðurbróðir Bjarna hagnaðist vel á viðskiptunum með eignarhlutinn í Borgun.

Landsbankinn reyndi svo að höfða mál gegn Eignarhaldsfélaginu Borgun vegna viðskiptanna á þeim forsendum að kaupendurnir hafi blekkt bankann. Niðurstaða úr dómsmáli vegna þess í mars nú í ár var hins vegar sú að bankinn var talinn hafa sýnt af sér vanrækslu og tapaði hann málinu.

Í PanamaskjölunumNafn Bjarna og föður hans, Benedikts Sveinssonar, kom fram í Panamaskjölunum vegna eignarhalds á félögum í skattaskjólum. Öfugt við Sigmund Davíð Gunnlaugsson missti Bjarni ekki ráðherraembætti sitt í kjölfar þessa.

4. Panamaskjölin

Árið 2016 kom nafn Bjarna upp í Panamaskjölunum svokölluðu, stórum gagnaleka frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca í Panama. Nöfn tveggja annarra þáverandi ráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Ólafar Nordal, voru einnig í skjölunum þar sem þau voru eigendur félaga í skattaskjóli. 

Bjarni átti hlut fyrirtæki í skattaskjólinu á Seychelles-eyjum, Falson & Co., sem stofnað var í gegnum Mossack Fonseca árið 2006 til að stunda fasteignaviðskipti í Dubai. Bjarni gerði lítið úr aðkomu sinni að þessu fyrirtæki og sagði meðal annars að hann hafi haldið að það væri staðsett í Lúxemborg en ekki á Seychelles-eyjum. „Fyrir tíu árum keypti ég fyrir tæpar 40 m.kr. þriðjungshlut í eignarhaldsfélagi sem Landsbankinn í Lúxemborg hafði stofnað fyrir viðskiptafélaga minn um kaup á fasteign í Dubai.“ Hann sagði einnig að hann og viðskiptafélagar hans hefðu aldrei tekið við fasteigninni. „Eini tilgangur félagsins var að halda utan um eignina í Dubai en svo fór að við tókum aldrei við henni,“ sagði hann.

Í tölvupóstum sem komu fram ári síðar, í Glitnisgögnunum svokölluðu kom fram að Bjarni hafði fylgst vel með áætluðum hagnaði af fasteignaviðskiptum Falson meðan hann átti í félaginu. Búist var við 50 til 60 milljóna króna hagnaði af viðskiptunum. „Þetta er aðeins lakara en maður var að vona en samt í fínu lagi,“ sagði hann í tölvupósti til viðskiptafélaga síns í desember árið 2007.

Í Panamaskjölunum kom einnig fram að faðir Bjarna hafði stofnað og átt félag í skattaskjólinu Tortólu. 

Öfugt við Sigmund Davíð stóð Bjarni þetta mál, Panamaskjölin, af sér sem ráðherra. Hann þurfti ekki að segja af sér og slapp tiltölulega þægilega frá því jafnvel þó um hafi verið að ræða alþjóðlegt hneykslismál sem snerti stjórnmálamenn víða um heim. 

„Það var áfall fyrir mig að frétta af því og ég hefði ekki getað gert það sjálfur, að skrifa undir slíkt bréf en ég get aldrei varið þá gjörð“
Bjarni Benediktsson,
um uppreist æru málið

5. Uppreist æru-málið

Sumarið 2017 kom upp mál sem kennt er við uppreist æru sem snýst um það hvernig dæmdir barnaníðingar eins og Róbert Downey, áður Róbert Árni Hreiðarsson, fengu uppreist æru sinnar í september 2016. Í lok ágúst sama ár kom í ljós að annar dæmdur barnaníðingur, Hjalti Sigurjón Hauksson, hafði fengið uppreist æru og að faðir Bjarna Benediktssonar hafði skrifað meðmælabréf fyrir hann. Áður hafði verið kallað eftir gögnum um veitingu uppreist æru úr dómsmálaráðuneytinu en ráðuneytið, sem á þessum tíma var stýrt af Sigríði Andersen, hafnaði þeim beiðnum. Málið var svo kært til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem sagði að birta ætti gögnin.

Á þessum tíma var Sjálfstæðisflokkurinn nýlega búinn að mynda þriggja flokka ríkisstjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð og var Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. Í ljós kom að Sigríður Andersen hafði greint Bjarna Benediktssyni frá aðild föður hans að máli Hjalta um sumarið 2017 en ekki öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Sökum þess ákvað Björt framtíð að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu um miðjan september vegna „alvarlegs trúnaðarbrests“ og boðað var til nýrra kosninga. 

Bjarni varði sig gagnrýni í málinu með þeim hætti að hann hafi ekki mátt segja frá sem hann vissi því að um hafi verið að ræða trúnaðarupplýsingar. „Það kom í ljós að faðir minn hafði verið umsagnaraðili eins þessa máls. Það var áfall fyrir mig að frétta af því og ég hefði ekki getað gert það sjálfur, að skrifa undir slíkt bréf en ég get aldrei varið þá gjörð [...] Ég tók þá ákvörðun að þetta mál myndi ég meðhöndla með þeim hætti sem dómsmálaráðuneytið var þegar búið að ákveða, sem trúnaðarmál og það þyrfti því það sama að ganga yfir þetta mál.“

6. Glitnisgögnin og Sjóður 9

Um haustið 2017, skömmu fyrir kosningar til Alþingis, var greint frá því í Stundinni að Bjarni hefði selt hlutdeildarskírteini sem hann átti í Sjóði 9 hjá Glitni í byrjun október árið 2008, sama dag og neyðarlögin voru sett. Einnig var greint frá því að Bjarni hefði selt hlutabréf sín í bankanum í skrefum í aðdraganda bankahrunsins og byrjaði hann á því eftir að hafa komið að Vafningsviðskiptunum svokölluðu í febrúar. Sömu sögu var að segja um eignir föður Bjarna og föðurbróður hans, Einars Sveinssonar, í Sjóði 9 og einnig í Glitni sjálfum. Bjarni og fjölskylda hans forðaði sér því hjá því að tapa peningum á hruninu með þessu. 

Bjarni hafði á þessum tíma setið fundi um stöðu Glitnis og íslenska bankakerfisins á grundvelli starfa sinna sem þingmaður og bjó því yfir upplýsingum sem aðrir bjuggu ekki yfir. Þegar Bjarni var spurður um þessi viðskipti sín sagði hann að miðað við fyrirliggjandi, opinberar upplýsingar hafi verið skynsamlegt að selja hlutabréfin á þessum tíma. „Allir skynsamir fjárfestar hefðu verið að íhuga að selja á þessum tíma.“

Svo var hins vegar ekki og töpuðu fjölmargir einstaklingar og fyrirtæki á Sjóði 9 og sömuleiðis hlutabréfum í Glitni í hruninu. Einn þeirra, Ingjaldur Arnþórsson, sagði við Stundina árið 2017 að hann hafi ekki grunað hversu slæm staðan væri og að fé hans í Sjóði 9 væri í hættu. „Ég tapaði svo þessum peningum. Eftir það varð ég svo veikur út af því að ég tapaði öllum þessum peningum.“

Rúmum þremur vikum eftir þessa umfjöllun um viðskipti Bjarna Benediktssonar og fjölskyldu hans voru kosningar til Alþingis. Sjálfstæðisflokkur Bjarna var stærsti flokkurinn í kosningunum og myndaði í kjölfarið ríkisstjórn með Vinstri grænum og Framsóknarflokki sem verið hefur við völd hér á landi síðan. 

Hvorki uppreist æru málið né Sjóðs 9-málið höfðu því teljandi áhrif á árangur Bjarna og Sjálfstæðisflokksins í kosningunum 2017. 

Ekkert á forsíðuLögbanninu á Stundina, annan af fyrirrennurum Heimildarinnar, var mótmælt með því að forsíða blaðsins var svört.

7. Lögbannsmálið

Á milli þess sem umfjöllunin um Bjarna og fjölskyldu hans var birt og kosningar til Alþingis fóru fram setti sýslumaðurinn í Reykjavík lögbann á frekari umfjöllun Stundarinnar um Glitnisgögnin. Þetta þýddi að bannað var að fjalla með frekari hætti um gögnin í aðdraganda kosninganna. 

Bjarni sjálfur sór þess dýran eið að hafa ekki með nokkrum hætti komið að því að þetta lögbann var sett á umfjöllunina um gögnin. „Ég skal ekkert segja neitt um það. Mér finnst það vera önnur umræða. Það sem mér finnst skipta máli hér er og við erum að ræða, er þetta lögbann. Ég bað ekki um þetta lögbann, mér finnst það í raun og veru út í hött að það sé verið að skrúfa fyrir fréttaflutning úr þessum gögnum hvað mig sjálfan snertir.“

Lögbannið vakti verulega athygli í fjölmiðlum hér á landi og var einnig fjallað um það erlendis. Málið var sett í samhengi við það að stjórnvöld hafi með því verið að kæfa niður umfjöllun um valdamikinn stjórnmálamann, Bjarna Benediktsson, sem gegndi embætti forsætisráðherra á þeim tíma. Sýslumaðurinn í Reykjavík hafnaði öllum slíkum kenningum. Sjálfur lýsti Bjarni því ítrekað að lögbannið kæmi á óheppilegum tíma og að hann væri ekki sáttur við það og honum fannst ekki gott að þurfa að svara fyrir það. „Mér finnst vont að vera að svara fyr­ir þetta í dag en ekki að tala um stjórn­mál­in og framtíðina.“

Sökum lögbannsins var ekki fjallað meira um Glitnisgögnin í rúmt ár eftir setningu þess. Lögbanninu var svo á endanum hafnað endanlega af dómstólum tæpu einu og hálfu ári síðar í mars 2019 þegar Hæstiréttur Íslands staðfesti niðurstöður Landsréttar og Héraðsdóms Reykjavíkur þar um. 

„Rétt við­brögð hefðu verið að yfir­­­gefa lista­safnið strax þegar ég átt­aði mig á að fjöld­inn rúm­að­ist ekki innan tak­­mark­ana.“
Bjarni Benediktsson,
um málið í Ásmundarsal jólin 2020

8. Málið í Ásmundarsal

Um jólin árið 2020, í miðjum Covid-faraldri, var Bjarni Benediktsson gestur í samkvæmi í Ásmundarsal í miðbæ Reykjavíkur. Samkvæmt þágildandi Covid-reglum hefði salurinn átt að vera lokaður til að koma í veg fyrir útbreiðslu faraldursins en hann var það ekki. Alltof margir gestir voru auk þess á staðnum og afar fáir með grímur fyrir vitum sínum. Því var um að ræða brot á sóttvarnarlögum en sambærileg mál höfðu ratað ítrekað í fjölmiðla í öðrum löndum þar sem ráðamenn virtu ekki Covid-reglur. Meðal dæma um þetta eru Boris Johnson, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, og Erna Solberg, þáverandi forsætisráðherra Noregs. 

Lögreglan sendi tilkynningu um samkvæmið til fjölmiðla að morgni aðfangadags 2020 og kom fljótlega í ljós að Bjarni væri „hæstvirti ráðherrann“ sem vísað var til. Bjarni sendi þá frá sér orðsendingu á Facebook þar sem hann baðst afsökunar: „Þegar við komum inn og upp í sal­inn í gær­­kvöldi hefði mér átt að verða ljóst að þar voru fleiri en reglur gera ráð fyr­­ir. Eins og lesa má í fréttum kom lög­­reglan og leysti sam­kom­una upp. Og rétt­i­­lega. Þarna hafði of margt fólk safn­­ast sam­­an. Ég hafði verið í hús­inu í um fimmtán mín­útur og á þeim tíma fjölg­aði gest­un­­um. Rétt við­brögð hefðu verið að yfir­­­gefa lista­safnið strax þegar ég átt­aði mig á að fjöld­inn rúm­að­ist ekki innan tak­­mark­ana. Það gerði ég ekki og ég biðst inn­i­­lega afsök­unar á þeim mis­­tök­­um.“

Þrátt fyrir afsökunarbeiðnina þá braust út mikil reiði hjá mörgum vegna málsins og kölluðu einhverjir eftir afsögn Bjarna vegna þess. Málið í Ásmundarsal hafði hins vegar ekki frekari eftirmála fyrir Bjarna. 

„Ég vil byrja á að segja að ég hef algjörlega hreina samvisku í þessu máli.“
Bjarni Benediktsson,
þegar hann tilkynnti um afsögn sína

9. Salan á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka 

Í apríl 2022 kom í ljós að faðir Bjarna, Benedikt Sveinsson, hafði tekið þátt í útboði íslenska ríkisins á hlutabréfum þess í Íslandsbanka í mars sama ár. Íslenska ríkið seldi þá 22,5 prósenta hlut í Íslandsbanka til 209 fjárfesta. Benedikt keypti hlutabréf í bankanum fyrir 55 milljónir króna með afslætti í gegnum félag sitt Hafsilfur. Salan á hlutabréfunum var á forræði íslenska ríkisins og fjármálaráðuneytisins sem heldur á eignum ríkisins.

Bjarni Benediktsson svaraði því til í kjölfarið að hann hafi ekki með neinum hætti komið að viðskiptum föður síns með hlutabréfin í Íslandsbanka. „Nei, ég kem með engum hætti að fjárfestingum Hafsilfurs ehf. eða annarra fjárfestingafélaga.“ Bjarni sagðist enn fremur ekki hafa vitað af þessum kaupum hans fyrr en greint var frá þeim í fjölmiðlum og að hann hafi beðið sína nánustu að taka ekki þátt í almenna útboðinu á bréfum Íslandsbanka sem haldið var 2021. „Ég talaði við mitt fólk fyrir almenna útboðið á bankanum í fyrra og bað þau um að taka ekki þátt í því. Ég tók sjálfur ekki þátt þá eins fram hefur komið og mæltist með því að aðrir í fjölskyldunni gerðu það líka. Það hvarflaði ekki að mér að það myndi gerast í þetta skiptið.“

Ríkisendurskoðun skrifaði í kjölfarið gagnrýna skýrslu um útboðið og var hún birt síðla árs í fyrra. Umboðsmaður Alþingis vann svo álit um hæfi Bjarna til að koma að sölunni á hlutabréfunum í Íslandsbanka og komst að þeirri niðurstöðu að hann hafi verið vanhæfur til að koma að því að selja föður sínum hlutabréf í bankanum.

Í kjölfarið sagði Bjarni af sér og lét meðal annars frá sér eftirfarandi á Facebook„Mér er brugðið og ég er miður mín eftir að hafa séð álit umboðsmanns Alþingis. Ég vil byrja á að segja að ég hef algjörlega hreina samvisku í þessu máli. [...] Ég vil taka af allan vafa um að ég tel mikilvægt að virða álit Umboðsmanns Alþingis, sem er sérstakur trúnaðarmaður þingsins, þótt ég hafi á því þessar skoðanir. Álit hans er að mig hafi brostið hæfi í málinu. Ég virði þá niðurstöðu. Ég tel, í ljósi þessarar niðurstöðu, að mér sé í reynd ókleift að starfa áfram sem fjármála- og efnahagsráðherra að frekari undirbúningi sölu á eignarhlutum ríkisins.“

Kjósa
126
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Sigmundur Guðmundsson skrifaði
    *************************************************************************
    Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra seldi föður sínum hlut
    í ríkisbanka.

    Í nágrannalöndunum væri stjórnmálaferli hans þess vegna lokið.

    Þar vilja stjórnmálaflokkarnir ekki hafa slíka menn í forsvari.
    *************************************************************************
    6
  • FSK
    Fríða S. Kristinsdóttir skrifaði
    Skýr og frábær greining. 🌷
    9
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Afsögn Bjarna Ben

Katrín svarar því ekki hvort hún hafi hvatt Bjarna til að sitja áfram í ríkisstjórn
FréttirAfsögn Bjarna Ben

Katrín svar­ar því ekki hvort hún hafi hvatt Bjarna til að sitja áfram í rík­is­stjórn

For­sæt­is­ráð­herra tel­ur langt í land með að hægt verði að ræða frek­ari banka­sölu, ólíkt frá­far­andi fjár­mála­ráð­herra sem til­tók það sem sér­stakt verk­efni nýs fjár­mála­ráð­herra, á blaða­manna­fundi formanna stjórn­ar­flokk­anna í morg­un. Stjórn­ar­flokk­arn­ir sömdu um vopna­hlé eft­ir skær­u­sum­ar á Þing­völl­um í gær.
„Ég ætti í reynd ekki annan valkost en að sitja áfram við ríkisstjórnarborðið“
FréttirAfsögn Bjarna Ben

„Ég ætti í reynd ekki ann­an val­kost en að sitja áfram við rík­is­stjórn­ar­borð­ið“

Bjarni Bene­dikts­son frá­far­andi fjár­mála­ráð­herra tel­ur að hann hafi ekki getað ann­að en að sitja áfram við rík­is­stjórn­ar­borð­ið, þrátt fyr­ir að hafa sagt af sér embætti fjár­mála­ráð­herra. Með því að taka sæti ut­an­rík­is­ráð­herra seg­ist hann vilja auka póli­tísk­an stöð­ug­leika, sem sé for­senda þess efna­hags­lega.
Að selja banka í góðri trú og armslengd
GreiningAfsögn Bjarna Ben

Að selja banka í góðri trú og arms­lengd

Álit um­boðs­manns Al­þing­is, sem sagði Bjarna Bene­dikts­son van­hæf­an til að selja föð­ur sín­um hlut í Ís­lands­banka, ef­ast ekki um stað­hæf­ing­ar Bjarna um „hreina sam­visku“ eða góða trú. Það snýr að því að Bjarni hafi ekki gætt að hæfi sínu með því að leyfa sér að taka áhættu um hvort hann væri að selja föð­ur sín­um hlut í banka eða ekki þeg­ar hann kvitt­aði und­ir söl­una.
Armslengd frá stjórnarkreppu
GreiningAfsögn Bjarna Ben

Arms­lengd frá stjórn­ar­kreppu

Af­sögn Bjarna Bene­dikts­son­ar hef­ur leitt af sér glund­roða inn­an rík­is­stjórn­ar Ís­lands. Nú eru for­menn­irn­ir í kappi við tím­ann við að finna ein­hverja lausn. Sú lausn þarf að taka mið af þeim raun­veru­leika að Bjarni vill hætta í stjórn­mál­um. Hann er bú­inn með sín níu líf á því sviði, en er þó op­inn fyr­ir að stiga burt á ann­an hátt til að lág­marka skað­ann fyr­ir rík­is­stjórn­ar­sam­starf­ið og Sjálf­stæð­is­flokk­inn.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár