Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Bjarni og Glitnistoppanir sem seldu í Sjóði 9 og fólkið sem tapaði

Bjarni Bene­dikts­son hef­ur gert lít­ið úr þeirri stað­reynd að hann seldi hlut­deild­ar­skír­teini í Sjóði 9 í að­drag­anda banka­hruns­ins. Stund­in leit­aði til fólks sem tap­aði á Sjóði 9 og á öðr­um við­skipt­um í að­drag­anda hruns­ins og heyrði sög­ur þeirra. Auk Bjarna seldu marg­ir Glitnistopp­ar all­ar eign­ir sín­ar í Sjóði 9 rétt fyr­ir hrun.

Hversu réttmætt er það mat Bjarna Benediktssonar að „allir skynsamir fjárfestar“ hafi verið að íhuga að selja hlutdeildarskírteini sín í Sjóði 9 um það leyti sem hann gerði það í byrjun októbermánaðar árið 2008? Bjarni lét þessi orð falla í viðtali við breska blaðið The Guardian í byrjun október síðastliðinn þegar hann var spurður út í sölu sína á 50 milljóna króna hlut í Sjóði 9 í aðdraganda bankahrunsins á Íslandi fyrir umfjöllun blaðsins, Stundarinnar og Reykjavík Media um viðskipti hans í Sjóði 9. „Allir skynsamir fjárfestar hefðu verið að íhuga að selja á þessum tíma.“ Bjarni hefur allt frá þessu gert lítið úr sölu sinni á hlutdeildarskírteinunum í Sjóði 9 og talað þannig eins og allir eða flestir hefðu mátt vita að íslenska bankakerfið væri að hrynja. 

Þetta var hins vegar alls ekki raunin. Hvorki með tilliti til Sjóðs 9 eða annarra fjárfestinga fólks á Íslandi á þessum tíma, hvort sem um var að ræða í peningamarkaðssjóðum Glitnis, Landsbankans eða Kaupþings eða þá í hlutabréfum viðkomandi fjármálafyrirtækja.  Eitt af því fyrsta sem einn ættingi minn sagði við mig þegar ég sagði honum frá því að Bjarni Benediktsson hefði selt eignir sínar í Sjóði 9 fyrir bankahrunið 2008 var: „Nú, var það? Ég tapaði fullt af peningum á Sjóði 9.“ 

Ekki mikið tekið úr sjóðum Glitnis

Bjarni hefur samt reynt að láta líta út fyrir að öllum hefði mátt og átt að vera ljóst hversu alvarleg staða bankakerfisins var. „Öllum Íslendingum var ljóst að það var eitthvað mjög alvarlegt að gerast í bankakerfinu og ég bjó ekki yfir neinum trúnaðarupplýsingum,“ sagði Bjarni nú í október í viðtali við Vísi.

Á það skal meðal annars bent að framkvæmdastjóri eignastýringar Glitnis í hruninu 2008, Eggert Þór Kristófersson, sagði meðal annars í viðtali við RÚV þann 1. október 2008 að ekki hefði verið mikið um það að fólk hefði innleyst fjármuni sína úr peningarmarkaðssjóðunum á þessum tíma. Þetta bendir til að sú almenna vitneskja almennings um stöðu bankakerfisins, sem Bjarni vísar til, hafi hreint ekki verið svo útbreidd á þessum tíma. Sjálfur hafði Bjarni hins vegar meðal annars verið viðstaddur á fámennum neyðarfundi í Stoðum nokkrum dögum áður en hann seldi í Sjóði 9, en stór hluti af eignum sjóðsins reyndust vera kröfur á Stoðir.

Skýring Bjarna um almenna vitneskju fólks á stöðu bankakerfisins á þessum tíma virðist því vera eftiráskýring.

„Allir skynsamir fjárfestar hefðu verið að íhuga að selja á þessum tíma.“ 

„Venjulega fólkið“ sem tapaði

Fjölmargt fólk, „venjulegt fólk“, tapaði háum fjárhæðum við fall íslensku bankanna af því það seldi ekki eignir sínar í aðdraganda þess. Í einhverjum tilfellum var fólki ráðið frá því af starfsmönnum þeirra fjármálafyrirtækja sem það skipti við, meðal annars eins og í tilfelli konunnar sem átti nokkurra milljóna króna hlutabréfaeign í FL Group, stærsta hluthafa Glitnis, og sem rætt er við hér í greininni. Eins og konan segir: „En það var ekki fyrr en í september 2008 sem ég fór að hugsa um hvort eitthvað óeðlilegt væri á seyði, hvort ég ætti að ná í þessa aura, og hringdi í bankann.  Elskan mín, ekki hafa neinar áhyggjur, þetta fer upp von bráðar.  Og  svo fór sem fór.“ 

Þessi kona átti ekki hlutabréf upp á hundruð milljóna eða tugi milljóna í FL Group heldur voru þetta nokkrar milljónir sem hún hafði safnað saman í gegnum árin með sparifé sínu. Þetta voru samt himinháar fjárhæðir fyrir hana og hafði hún hugsað upphæðina sem eins konar lífeyrissjóð til framtíðar.

Alveg óvíst með endurheimtur

Bjarni Benediktsson segir að hann hafi ekki búið yfir neinum innherjaupplýsingum á þessum tíma, að viðskipti hans hafi staðist lög og að eftirlitsaðilar hafi farið í gegnum viðskipti með hlutdeildarskírteini í Sjóði 9 og enginn hafi verið ákærður vegna þeirra. Þó þetta kunni að vera rétt hjá Bjarna – enda hefur Stundin aldrei sagt að hann hafi framið lögbrot – þá voru hann og og ættingjar hans samt hluti þeirra tiltölulega fáu einstaklinga og aðila sem náðu að selja eignir sínar sem voru bundnar í bönkunum og þannig að verja sig gegn því tapi sem margir aðrir urðu fyrir í aðdraganda bankahrunsins.

„Ég tapaði svo þessum peningum. Eftir það varð ég svo veikur.“

Aðrir urðu hins vegar eftir, vegna þess að þeir höfðu ekki talið skýr merki um að Sjóði 9 væri alvarlega ógnað. „Ég tapaði svo þessum peningum. Eftir það varð ég svo veikur út af því að ég tapaði öllum þessum peningum,“ segir Ingjaldur Arnþórsson.

Eins og Guðjón Sigurðsson, formaður MND-félagsins, segir þá var það þannig í aðdraganda hrunsins og fyrst eftir það að alveg óvíst var hversu miklar endurheimturnar yrðu á hlutdeildarskírteinum í Sjóði 9. „Á þeirri stundu var alveg óvíst hverjar endurheimtur yrðu í þessum fjandans sjóði,“ segir Guðjón. 

Svo fór á endanum, í lok október árið 2008, að eigendur hlutdeildarskírteina í Sjóði 9 fengu greitt út rúmlega 85 prósent af innistæðum sínum. Tapið varð því á endanum tæp 15 prósent en þetta kom fram í fréttatilkynningu frá Glitni í lok október árið 2008.„Útgreiðsluhlutfall sjóðsins er 85,12% sem er allt laust fé sjóðsins sem og það endurgjald sem hann fékk fyrir verðbréfasafn sitt. Þetta hlutfall miðast við síðasta skráða viðskiptagengi í Sjóði 9, þann 6. október sl. Upphæðin verður lögð inn á innlánsreikninga sjóðfélaga.“

Þeir sem höfðu haft vit á því að selja í Sjóði 9 fyrir 6. október 2008, daginn sem neyðarlögin voru samþykkt, vörðu sig hins vegar gegn þessu tæplega 15 prósenta endanlega tapi, rétt eins og þeir sem höfðu vit á því að selja hlutabréf sín í bönkunum í aðdraganda hrunsins vörðu sig gegn tapinu sem af hruninu hlaust.  

Seldi í Sjóði 9Birkir Kristinsson, starfsmaður eignastýringardeildar Glitnis og fjárfestir, var einn þeirra sem seldi í Sjóði 9 rétt fyrir bankahrunið. Sjálfur sýslaði hann með fé fyrir fólk sem átti innistæður í Sjóði 9.

Glitnistopparnir sem seldu

Eins og fram kom í Kjarnanum fyrr í vikunni, þegar miðillinn fjallaði um upplýsingar í Glitnisgögnunum sem Stundin má ekki fjalla um út af lögbanni sem sett var á fjölmiðilinn, þá seldu fjölmargir af æðstu stjórnendum Glitnis hlutdeildarskírteini sín í Sjóði 9 í aðdraganda bankahrunsins árið 2008. Stundin telur að lögbannið sem Sýslumaðurinn í Reykjavík setti á Stundina nái ekki til umfjöllunar annarra fjölmiðla um umrædd Glitnisgögn og þess vegna fjallar Stundin um grein Kjarnans. 

Einn þeirra sem seldiJóhannes Baldursson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis, var einn sem seldi í Sjóði 9 í aðdraganda bankahrunsins.

Í frétt Kjarnans er fjallað um hvernig starfsmenn Glitnis, þeir Jóhannes Baldursson, Birkir Kristinsson, Eiríkur S. Jóhannson og Jóhann Ómarsson hafi allir selt eignir í Sjóði 9 dagana 24. til 26. september árið 2008. Um var að ræða viðskipti sem námu allt frá 1 milljón króna og upp í tæplega 100 milljónir í tilfelli Jóhanns Ómarssonar, sem var fyrrverandi forstöðumaður einkabankaþjónustu Glitnis, en fjölmargir viðskiptavinir þeirrar deildar bankans töpuðu háum fjárhæðum á Sjóði 9 í bankahruninu. 

Á þessum tíma var Bjarni Benediktsson bæði stjórnmálamaður og þingmaður flokksins sem leiddi ríkisstjórn Íslands, sem og fjárfestir og prókúruhafi eins stærsta lántakanda Glitnis, N1 og tengdra félaga. Bjarni átti auk þess í miklum samskiptum við starfsmenn Glitnis á þessum tíma eins og Glitnisgögnin sýna fram á og Stundin hefur reifað.  

Fundur mikilvægurSlitastjórn Glitnis gerði talsvert með fund Davíðs Oddssonar og Þorsteins Más Baldvinssonar, stjórnarformanns Glitnis, þann 25. september 2008 en vitneskja um hann kann að hafa ýtt á starfsmenn Glitnis að selja í Sjóði 9.

Erfið sönnunarstaða

Svo fór á endanum að slitastjórn Glitnis höfðaði engin riftunarmál gegn fyrrverandi starfsmönnum bankans út af þessum viðskiptum með hlutdeildarskírteini í Sjóði 9. Ein af ástæðunum var sú að sönnunarstaða í málunum var mjög erfið, samkvæmt skýrslu KPMG, þar sem sýna þurfti fram á að starfsmennirnir hafi búið yfir upplýsingum sem ekki voru aðgengilegar öðrum eigendum hlutdeildarskírteina á umræddu tímabili. Hið sama hefði átt við um Bjarna Benediktsson.

Þá rannsakaði Fjármálaeftirlitið viðskipti með Sjóð 9 í aðdraganda bankahrunsins eftir hrunið og sendi kæru vegna þeirra til embættis sérstaks saksóknara. Saksóknaraembættið lét rannsóknina hins vegar niður falla. Þegar litið er til þess að ákæruvaldið aðhafðist ekkert gegn fyrrverandi starfsmönnum Glitnis, sem seldu fyrir háar fjárhæðir í Sjóði 9 eftir fundahöld Þorsteins Más Baldvinssonar og Davíðs Oddssonar um slæma stöðu Glitnis, þá verður að teljast afar ólíklegt að viðskipti Bjarna Benediktssonar í Sjóði 9 hafi verið litin alvarlegum augum.

Staðreyndin er hins vegar sú að þessir starfsmenn Glitnis seldu eignir sínar í Sjóði 9 og Bjarni Benediktsson líka á meðan fjölmargir einstaklingar sem ekki störfuðu í stjórnmálum eða í bankakerfinu brunnu inni með þessar eignir og töpuðu oft og tíðum háum fjárhæðum vegna þess.

Athugasemd ritstjórnar: Sýslumaðurinn í Reykjavík lagði lögbann á umfjöllun Stundarinnar 16. október síðastliðinn. Yfirstandandi er dómsmál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem þrotabú Glitnis fer fram á að lögbannið verði staðfest. Brot á lögbanni varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Til að fylgja lögum hefur Stundin því afmáð hluta umfjöllunarinnar sem túlka mætti sem brot á lögbanninu. Eftir stendur þannig sú umfjöllun sem aðrar heimildir eru fyrir en þau gögn sem lögbannið tekur til sem og endursögn af þegar birtri umfjöllun annarra fjölmiðla. 

Hér má nálgast PDF af umfjölluninni úr prentútgáfu Stundarinnar.

 


Guðmundur Gunnarsson:

Pabbinn sem tapaði ævisparnaðinum

„Lífeyrissjóður föður míns var fólginn í sölu á því fyrirtæki sem hann hafði byggt upp og setti það allt í eignastýringu Landsbankans. Hann spurði mig nokkru fyrir hrun hvort hann ætti að færa peninga sína og ég sagði honum að við mæltum alltaf með því að þegar fólk væri komið yfir sextugt að það færði sparnað sinn á örugga staði því þá hefði það ekki svigrúm til þess að vinna inn niðursveiflur. Hann talaði við spekinga Landsbankans nokkru fyrir hrun og þeir sögðust sjá um þetta, engin viðvörun eða tilfærslur komu og svo fór að hann tapaði hverri einustu krónu af sínum lífeyrissjóði. Þúsundir Íslendinga töpuðu eignum sínum á meðan aðrir höfðu innherjaupplýsingar og björguðu sér. Allt fram á síðustu stundu voru fjármálaráðgjafar bankanna og fjárfestingarsjóðanna að fá fólk til þess að leggja fram fjármuni í vonlaus dæmi. „Seldu húsið þitt og láttu okkur sjá um peningana þína, við skulum láta þá vinna fyrir þig og lána þér fyrir draumaíbúðinni.“ 


Vilborg Davíðsdóttir:

Peningamarkaðssjóðirnir áttu að búa til peninga

„Ári fyrir hrun ákváðum við maðurinn minn heitinn að leggja varasjóðinn okkar inn á þessa peningamarkaðssjóði Glitnis og Landsbankans sem sífellt var verið að dásama sem nánast peningaprentvélar, svo mikil væri ávöxtunin. Svo skemmtum við okkur við að metast um hvort hefði grætt meira þann daginn miðað við tölurnar sem birtust á heimabankanum, ég með mína milljón í Sjóði 9 hjá Glitni eða hann með sína hjá samsvarandi sjóði í Landsbankanum. Ég man að tengdamamma hafði orð á því stuttu fyrir hrun að kannski færu bankarnir á hausinn og þá gætum við tapað þessu fé. Við hristum bara hausinn yfir áhyggjum gömlu konunnar, höfðum ekki hugmyndaflug í að það gæti gerst sem síðan varð. Þessar þrjár vikur sem við biðum eftir því að vita hvort eða hversu mikið yrði eftir af sparifénu voru heldur óþægilegar. En verra var vitanlega að sjá verðtryggt húsnæðislánið frá Landsbankanum rjúka upp í framhaldinu.“


57 ára gömul kona sem býr í ­Reykjavík en vill ekki láta nafns síns getið:

Hverjir seldu þessa daga?

„Eðlilega staldrar maður við, þegar Bjarni Benediktsson kemur með skýringar á sölu eigin hlutabréfa í Glitni og tilfærslu fé úr sjóði 9 það nánast litla … korter … sem opið var fyrir viðskipti þar hrundagana í október. Ætla ekki að gera lítið úr fjármálalæsi Bjarna en, mín tilfinning er að hann sé nánast skyggn. 

Það er dapurlegt að hugsa um alla þá sem töpuðu peningum þessa daga. Margir hverjir, ja eins og ég, áttu hlutabréf í Glitni og keyptu árlega fyrir arðinn til þess að freista þess að eiga varasjóð til efri áranna.  Ekki munum við útivinnandi mæður sem höfum, eðlilega, verið fjarri vinnumarkaði x langan tíma á starfsævinni njóta þess úr lífeyrisjóðakerfum landsins. 

En það var ekki fyrr en í september 2008 sem ég fór að hugsa um hvort eitthvað óeðlilegt væri á seyði, hvort ég ætti að ná í þessa aura, og hringdi í bankann. Elskan mín, ekki hafa neinar áhyggjur, þetta fer upp von bráðar.  Og svo fór sem fór.  

Það sem mig langar verulega mikið til að vita núna er, hverjir það voru til dæmis sem seldu bréf í bankanum þessa mánuði fyrir hrun og hverjir það voru sem færðu fé úr sjóði 9 annað þetta ... kortér … sem opið var fyrir viðskiptin.“ 


Hólmfríður Tómasdóttir:

Dreymdi aldrei Sjóð 9

„Ég átti peninga í Sjóði 9 í bankahruninu. Ég man ekki nákvæmlega hver sagði mér að setja þá þangað en ég hlýt að hafa fengið ráðgjöf um það frá einhverjum, kannski bankanum. Ég var sjálf ekki svo mikið inni í þessu. Sem betur fer þá dreymdi mig hins vegar draum sem gerði það að verkum að ég seldi þau hlutabréf sem ég átti í bönkunum. Þetta var nú samt bara eitthvert lítilræði. Mig dreymdi að ég væri að falla fram af bjargi og eftir þennan draum seldi ég hlutabréfin. Mig dreymdi hins vegar engan draum um Sjóð 9. Það var alltaf talað um þetta eins og þetta væri svo ægilega sniðugt. Á þessum árum þá man ég eftir því að maðurinn minn sat í stólnum sínum, hlustaði á útvarpið og þuldi fyrir munni sér: „Það er eitthvað mikið að í þessu landi. Það er ekki hægt að búa til peninga úr engu.““


Guðjón Sigurðsson, formaður MND félagsins á Íslandi:

Sjóður 9 var hin eina sanna lausn

„Þetta situr í mér ennþá þótt okkar félag hafi ekki tapað neinu að lokum. Bæði var að við áttum ekki mikla peninga og svo beitti ég mér af hörku við arftaka Glitnis. Á þeirri stundu var alveg óvíst hverjar endurheimtur yrðu í þessum fjandans sjóði.

Við höfðum í gegnum tíðina verið með of marga reikninga í gangi og óþarflega marga að mati endurskoðanda. Líknarsjóður, styrktarsjóður, framkvæmdasjóður og marga fleiri. Við töluðum við Glitni, sem tók á móti okkur með eina sanna lausn. Loka þessum bankabókum flestum og leggja allt inn á Sjóð 9. Það væri örugg ávöxtun, miklu betri en bækur og nánast eins laus og liðugur og bankabók. Sem betur fer áttum við ekki mikið af aurum, en það sem mér fannst ljótast var að láta svíkja það fé sem Íslendingar treystu okkur fyrir. Mörg líknarfélög töpuðu miklum peningum með því að láta glepjast inn í Sjóð 9 og aðra svipaða sjóði.“ 


Ingjaldur Arnþórsson:

Varð veikur út af tapinu á Sjóði 9

„Ég fjárfesti í Sjóði 9 að ráðleggingum bankans á Akureyri því ég hafði ágætis tekjur á þessu tímabili. Mér fannst allir vera að græða á þessum sjóðum. Bankinn sagði mér að Sjóður 9 væri langbestur og hann hækkaði líka upp úr öllu valdi og ég féll algjörlega fyrir þessu. Ég greiddi mánaðarlega í þetta af mínum launum. Auðvitað get ég ekkert skotist undan ábyrgð á þessu, þetta var algjörlega á mína ábyrgð. Ég tapaði svo þessum peningum. Eftir það varð ég svo veikur út af því að ég tapaði öllum þessum peningum. Mér brá svo mikið að ég fór bara í algjört „blackout“. Ég veit enn þann dag í dag ekki hvað ég tapaði miklu. Þetta voru 4 til 6 milljónir. Einhver myndi kannski segja að þetta væru bara vasapeningar en þetta var það ekki fyrir mig, venjulegan launþega. Ég fékk bréf í póstinum eftir bankahrunið þar sem ég fékk bara þær upplýsingar að allir þessir peningar hefðu tapast.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Viðskipti Bjarna Benediktssonar

Öll hneykslismálin sem Bjarni stóð af sér
Greining

Öll hneykslis­mál­in sem Bjarni stóð af sér

Bjarni Bene­dikts­son, formað­ur Sjálf­stæð­is­flokks­ins og fyrr­ver­andi fjár­mála­ráð­herra, tengd­ist ýms­um hneykslis­mál­um sem komu upp á Ís­landi í kjöl­far efna­hags­hruns­ins ár­ið 2008. Hann stóð þau öll af sér og var fyr­ir vik­ið oft kennd­ur við efn­ið teflon vegna þess að hann náði alltaf að hrista af sér erf­ið mál á með­an aðr­ir stjórn­mála­menn gátu það ekki.
Selur bankann sem fjölskyldan átti
Úttekt

Sel­ur bank­ann sem fjöl­skyld­an átti

Bjarni Bene­dikts­son upp­lýsti ekki um að­komu sína að fjár­fest­ing­um Eng­ey­inga á með­an hann sat á þingi í að­drag­anda hruns. Fjöl­skylda hans átti ráð­andi hlut í Ís­lands­banka sem lán­aði fé­lög­um þeirra tugi millj­arða króna og einnig Bjarna per­sónu­lega. Nú mæl­ir hann fyr­ir sölu rík­is­ins á hlut í bank­an­um. For­sag­an skað­ar traust, að mati sam­taka gegn spill­ingu.
Atburðarásin í aðdraganda hruns: Hvað vissum við og hvað vissu þeir?
Rannsókn

At­burða­rás­in í að­drag­anda hruns: Hvað viss­um við og hvað vissu þeir?

Þeg­ar erf­ið­leik­ar komu upp hjá Glitni og stór­um hlut­höf­um, fyrst í fe­brú­ar 2008 og svo í sept­em­ber, skipt­ist Bjarni Bene­dikts­son á upp­lýs­ing­um við stjórn­end­ur Glitn­is og sat fundi um stöðu bank­anna með­an hann sjálf­ur, fað­ir hans og föð­ur­bróð­ir komu gríð­ar­leg­um fjár­mun­um í var. Hér er far­ið yf­ir at­burða­rás­ina í máli og mynd­um.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu