Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Fréttir

„Komi nefndin með tillögur um grundvallarbreytingar, þá verða þær einfaldlega stöðvaðar“

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins greina blaðakonunni Agnesi Bragadóttur frá því í nafnlausum viðtölum að þeir hafi engar áhyggjur af nefndinni um framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku í sjávarútvegi. Grundvallarbreytingar verði hvort sem er stöðvaðar á Alþingi.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætla að koma í veg fyrir hvers kyns grundvallarbreytingar á gjaldtöku í sjávarútvegi, óháð því hver niðurstaða þverpólitískrar nefndar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verður. Þeir greina frá þessu undir nafnleynd í viðtali við blaðakonuna Agnesi Bragadóttur í Morgunblaðinu.

„Menn eru ekkert að stressa sig á þessu, því komi nefndin með tillögur um grundvallarbreytingar, þá verða þær einfaldlega stöðvaðar í þinginu. Þetta er nú ekki ýkja flókið,“ er haft eftir ónafngreindum þingmanni Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í fréttinni sem birtist í Morgunblaðinu í gær.  

Eins og Stundin greindi frá í fyrra hefur Sjálfstæðisflokkurinn þegið meira en 20 milljónir frá handhöfum kvóta á tímabilinu 2013 til 2015. Um er að ræða 28 prósent af öllum styrkjum lögaðila til flokksins. Á sama tímabili voru veiðigjöld styrkveitendanna lækkuð auk þess sem reynt var að úthluta þeim tugmilljarða makrílkvóta.

Í síðustu viku gekk Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úr röðum Viðreisnar, frá skipan nefndar til að móta tillögur um hvernig tryggja megi sanngjarna gjaldtöku fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni.

Nefndin er skipuð samkvæmt tilnefningum allra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi og mun skila tillögum til ráðherra í formi lagafrumvarps ekki seinna en 1. desember næstkomandi.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins, mun gegna formennsku í nefndinni. Eins og Stundin fjallaði um í síðustu viku hefur Þorsteinn, á tímabilinu 1996 til 2012, ítrekað varað við gjaldtöku í sjávarútvegi og meðal annars talað gegn því að tekið sé upp veiðileyfagjald eða auðlindaskattur á sjávarútvegsfyrirtæki. Þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar lagði fram frumvarp til laga um veiðigjöld í mars 2012, fullyrti Þorsteinn að ef lögin yrðu að veruleika myndu flest útgerðarfyrirtæki á Íslandi leggja upp laupana.  Þá hefur hann lagst gegn uppboði aflaheimilda, en uppboðsleið í sjávarútvegi var á meðal helstu kosningaloforða Viðreisnar í aðdraganda síðustu þingkosninga. 

Að því er fram kemur í frétt Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins óánægðir með að Viðreisn eigi tvo fulltrúa í nefndinni en aðrir flokkar aðeins einn. Hins vegar hafa þingmennirnir litlar áhyggjur, enda telja þeir ólíklegt að neitt komi út úr starfi nefndarinnar sem byggjandi verði á. 

Eftirfarandi er haft eftir þingmanni Sjálfstæðisflokksins: „Ef þessi svokallaða þverpólitíska nefnd skilar frumvarpi sem felur í sér byltingarkenndar breytingartillögur sem grafa undan góðu sjávarútvegskerfi okkar, þá verður það frumvarp einfaldlega stöðvað á Alþingi og þar munu Sjálfstæðisflokkur og örugglega Framsóknarflokkur og fleiri ná saman. Við látum ekki eyðileggja gott kerfi, þótt við séum vissulega opnir fyrir einhverjum breytingum, svo sem á reglum um framsal og veiðiskyldu.“

„Þá verður það frumvarp einfaldlega stöðvað á Alþingi og þar munu Sjálfstæðisflokkur og örugglega Framsóknarflokkur og fleiri ná saman“

Fram kemur að fleiri þingmenn flokksins séu á sama máli og hafi efasemdir um að nokkuð raunhæft komi út úr störfum nefndarinnar. Þess vegna hafi þeir litlar áhyggjur af því hvernig hún er mönnuð. „Komi nefndin með tillögur um grundvallarbreytingar, þá verða þær einfaldlega stöðvaðar í þinginu,“ fullyrðir ónafngreindur þingmaður Sjálfstæðisflokksins úr Reykjavík. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins úr Reykjavíkurkjördæmunum eru þau Guðlaugur Þórðarson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Birgir Ármannsson, Brynjar Níelsson, Sigríður Á. Andersen og Hildur Sverrisdóttir. 

Þingmenn úr hinum stjórnarflokkunum hafa talað á þá leið að þeir bindi miklar vonir við störf hinnar þverpólitísku nefndar um framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku í sjávarútvegi. Þannig hefur t.d. Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, lagst gegn uppboði viðbótarkvóta á þeirri forsendu að slíkt kunni að trufla vinnu nefndarinnar. „Ég óttast að þessi inngrip í þetta aflahlutdeildarkerfi gæti haft neikvæð áhrif á þá vinnu sem er að fara í gang í þessum töluðu orðum og ég bind svo miklar væntingar við,“ sagði hún í umræðum á Alþingi þann 3. maí. „Ég trúi því að sú vinna skili niðurstöðum sem hafi langtímahagsmuni í huga. Ég nýt þess að vera fulltrúi Viðreisnar í nefndinni. Ég hlakka til vinnunnar. Ég mun í anda Viðreisnar halda þar á lofti sjónarmiðum um útboðsleiðina.“ 

„Ég trúi því að sú vinna skili niðurstöðum
sem hafi langtímahagsmuni í huga“

Frétt Agnesar Bragadóttur og ummæli þingmanna Sjálfstæðisflokksins báru á góma í Silfrinu í morgun. Karl Pétur Jónsson, aðstoðarmaður Þorsteins Víglundssonar félagsmálaráðherra, sagðist ekki hafa neinar áhyggjur af þeim upplýsingum sem þar komu fram. 

Fréttamaðurinn Kristinn Hrafnsson sagði hins vegar að ummæli þingmannanna hefðu afhjúpað skipun nefndarinnar sem sýndargjörning. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, hefur tekið sama pól í hæðina. „Það kemur ekki til greina að auka gjaldtöku fyirr afnot af fiskveiðiauðlindinni. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins munu stöðva það og segjast treysta á Framsóknarflokkinn og „fleiri“ til að tryggja þá niðurstöðu. Þeir hafa engar áhyggjur af málinu. Skipun nefndarinnar er því leiksýning og aldrei hefur staðið til að auka gjaldtöku af fiskveiðiauðlindinni,“ skrifaði hann á Facebook í gær.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Viðtal

Þöggunin tók á sig nýjar myndir eftir stjórnarslitin

Viðtal

„Ég treysti Íslendingum ekki lengur“

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“