Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Gestrisni á sér sín eðlilegu takmörk

Það er býsna almennt viðhorf í landinu að þjóðin eigi að bjóða nýbúa og gesti velkomna til landsins.  Þetta er gott viðhorf.  Það er frábært þegar fólk utan úr heimi vill leggja okkur lið við að byggja hér upp gott samfélag.  Við eigum að fagna því.  Það er raunar ekki svo skrítið, að fólk vilji koma til Íslands til að búa hér um lengri eða skemmri tíma, enda er almennt talið gott að búa á Íslandi, í samanburði við mörg önnur lönd.  Það er líka beinlínis vont að búa víða í heiminum, sér í lagi í löndum þar sem harðstjórn tíðkast og fátækt er mikil.  Það er því ekki skrítið að duglegt fólk vilji flytja til landsins, þó að veðurfar sé kannski ekki aðlaðandi hér, og mannlífið kannski líka heldur fábreytt.  Það er því ekki að undra, að innflytjendur eru oft duglegt og efnilegt fólk, og mig grunar að einmitt það eigi ekki hvað síst við í þessu harðbýla landi sem við byggjum.  Við eigum því að fagna innflytjendum sem vilja taka þátt í því með okkur að byggja landið okkar.

En gestrisni á sín eðlilegu takmörk.  Það er ekki sjálfsagt mál að taka upp erlent tungumál hér á landi í stað íslenskunnar.  Vissulega eru Íslendingar upp til hópa mjög áhugasamir um að æfa sig í ensku, en síður áhugasamir um íslenskuna sína.  Þess vegna kvarta margir innflytjendur yfir því, að þeir fái engan frið til að æfa sig í íslensku vegna hins almenna og mikla áhuga á ensku sem hér er.  Þrátt fyrir það er engin ástæða til að láta það eftir almennu enskuáhugafólki í landinu, að afleggja íslenskuna.   Raunar held ég að það sé vandfundinn Íslendingur sem í rauninni vill afleggja íslenskuna, þó að ansi margir þeirra láti svo asnalega sem raun ber vitni, þegar þeir hitta innflytjendur að máli.  Enskukunnátta flestra sem ég þekki er þannig, að þeir virðast talsvert verr gefnir, þegar þeir tala enskuna sína, sem þeir kunna oft illa, heldur en íslenskuna, sem flestir kunningja minna og vina kunna vel að tala.

Það er furðulegt að landsmenn almennt skuli umbera það að fyrirtækin í landinu ráða fólk sem hefur ekki minnstu kunnáttu í íslensku til að sinna ýmsum samskiptum við almenning.  Það tungumál sem látið er koma í stað íslenskunnar er einföld og oft broguð enska.  Vissulega er sú einfalda enska sem erlent farandverkafólk, sem sinnir svo mörgum störfum hér á landi, talar í íslensku stað alveg sambærileg við hina einföldu og broguðu ensku sem Íslendingar kunna.  Þannig má segja að skel hæfi kjafti. 

En það er auðvitað miklu heppilegra að Íslendingar haldi áfram að tala málið sem þeir kunna. Það tungumál heitir auðvitað íslenska, og hefur dugað þjóðinni lengi.  Það er ekki nema eðlileg krafa að fólk sem vinnur við ýmis konar samskipti við almenning hér á landi, og vinnur til dæmis við afgreiðslu í búðum, akstur almenningsfarartækja, uppeldi á smábörnum og við ýmislegt fleira, hafi lágmarks tök á íslensku máli.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu