Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Jestem polski

Ég er í hinum fjölmenna hópi manna sem ber djúpa virðingu fyrir margvíslegu handverki og iðnum. Ég ber líka virðingu fyrir eiginleikum á borð við iðjusemi, stundvísi, dugnað og orðheldni. Þess vegna hrökk ég dálítið í kút fyrir nokkrum árum, þegar ég var að ræða ýmis mál við félaga minn sem þá stóð í húsbyggingum. Sá er afar fær í öllu sem að höndunum snýr og mikill dugnaðarforkur. Hann hafði verið með Íslendinga í vinnu hjá sér við hina stóru húsbyggingu sína. Hann bjó úti á landi, en við töluðum oft saman í síma um sameiginleg hugðarefni, en eftir að hann fór að byggja húsið hafði ég tekið eftir að hann var yfirleitt mjög áhyggjufullur og stressaður. Ég hafði velt því fyrir mér svona undir niðri hvort hann myndi missa heilsuna af því að byggja þetta hús. Iðnaðarmenn sviku hann oft um að mæta á tilsettum tíma og þeir unnu illa þegar þeir mættu. Dag nokkurn þegar við vorum að ræða málin tók ég eftir að það var allt annar tónn í mínum manni. Miklu léttara yfir honum. Ég áttaði mig á að hættan á hjartaáfalli eða öðrum ófögnuði virtist horfin. Ég spurði hvernig gengi með húsbygginguna. Það gekk þá svona ljómandi vel. Hann var kominn með Pólverja í vinnu. Þeir mæta á réttum tíma, vanda sig, og vinna vel, sagði hann. Ég held að þeir vinni eins og Íslendingar gerðu í gamla daga, kannski í kringum árið 1900, bætti hann við.

-                             -                           -

Um daginn þurfti ég að snúast svolítið en þá vildi svo illa til að bíllinn minn hafði bilað. Ég ákvað að taka strætisvagn og þurfti að kaupa strætómiða. Miðana keypti ég í verslun í miðbænum. Þarna voru afgreiðslukarl og afgreiðslukona en hvorugt kunni íslensku að gagni. Karlinn kunni ekkert og sýndi mér fálæti þegar ég spurði um strætisvagnamiða. Konan brosti, tók undir kveðju mína á íslensku og afgreiddi fljótt og vel. Hún var að læra málið sagði hún, en kunni samt sorglega lítið ennþá, fannst henni. Ég hvatti hana til að halda íslenskunáminu áfram, þó að ég hafi hugsað það sem ég hugsa nú stundum við svona tækifæri, að það gætu fundist hagnýtari tungumál í veröldinni fyrir útlendinga að læra.

Þegar í vagninn kom, þýddi lítið að tala við strætisvagnastjórann, því að hann kunni ekki að tala á máli okkar. Sem betur fór hafði ég nú kynnt mér leiðina sem ég þurfti að fara fyrirfram, svo þetta bjargaðist. Það var glaðasólskin þennan dag, og á leiðinni heim seinna um daginn, ákvað ég að fara snemma úr vagninum og ganga heim. Þá mætti ég glaðlegri stúlku þarna í sólskininu sem var að bera út póst. Hún var svo glaðleg að ég var búinn að heilsa áður en ég vissi af. Hún heilsaði brosandi á móti, á ensku. Og bætti svo við, English please, I don’t speak Icelandic. Þessi glaða stúlka var nýkomin til landsins og nýbyrjuð að bera út póst, en var ekki enn búin að læra á hverfið. Hún sagðist vera pólsk. Þá sagði ég jestem polski og fékk breitt bros að launum. Þetta eru einu orðin sem ég kann að segja á pólsku. Þegar Íslendingur segir þessi orð eru það yfirleitt augljós ósannindi. Orðin merkja ég er pólverji.

Ég lærði að segja þetta fyrir nokkrum árum þegar ég vann á skrifstofu þar sem ræstingafyrirtæki sá um þrif. Hjá fyrirtækinu unnu einkum pólskar konur við þrifin. Fáir samverkamenn mínir virtu þær viðlits. Ein þeirra kenndi mér að segja þetta, og ég sagði þetta stundum við þær, til að gleðja þær og sýna þeim samstöðu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu