Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Gölluð framkvæmd kosninga hafði áhrif á úrslitin

            Í 120. gr. kosningalaga segir m.a.: „Ef þeir gallar eru á framboði eða kosningu þingmanns sem ætla má að hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar úrskurðar Alþingi kosningu hans ógilda og einnig án þess ef þingmaðurinn sjálfur, umboðsmenn hans eða meðmælendur hafa vísvitandi átt sök á misfellunum, enda séu þær verulegar.“

            Til þessa ákvæðis vitnaði Birgir Ármannsson, formaður kjörbréfanefndar í Kastljósþætti í gærkvöldi. Birgir sagði að það væri ekki ástæða til að ætla að gallar á kosningunum í Norðvesturkjördæmi hefðu haft áhrif á niðurstöðuna. Orðrétt: „...en kosningalögin gera ekki ráð fyrir að gallar leiði sjálfkrafa til ógildingar. Það sem þarf til að koma er það að það megi ætla, að gallinn sem verið er að skoða, að hann hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Og þrátt fyrir að við teljum að það séu gallar, þá höfum við ekki séð að þeir gallar sem þarna er um að ræða hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Þannig að við teljum að það sé einfaldlega ekki lagaskilyrði til þess að ógilda kosninguna.“ Síðar í viðtalinu sagði Birgir: „...og við lítum svo á að það hafi ekki komið fram neinar vísbendingar, ekkert sem bendir til þess að það hafi verið átt neitt við gögnin.“ Og Birgir hnykkti á þessu með að ítreka: „...ekkert sem uppfyllir skilyrðið um að það að það megi ætla að gallinn hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.“ Og svo kom þetta: „Þannig að við segjum: það er þarna vissulega galli. En samhengið milli gallans og úrslita kosninganna, það hefur ekki komið fram.“

                                                ~         ~         ~

Málflutningur Birgis hlýtur að teljast sérkennilegur, þegar staðreyndir málsins eru hafðar í huga. Rétt er að lýsa þessum staðreyndum í fáeinum orðum:

            Að morgni sunnudagsins 26. september kynnti formaður kjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi niðurstöður kosninganna. Ekki er vitað hvort framkvæmd kosninganna í Norðvesturkjördæmi var gallalaus fram að þessari stundu. (*) Hins vegar er augljóst að framkvæmd kosninganna einkenndist af miklum göllum strax eftir að niðurstöður kosninganna höfðu verið kynntar fyrir alþjóð.  

            Þegar atkvæðatalningu er lokið og niðurstöður hafa fengist í kosningum ber kjörstjórn að innsigla kjörgögn strax og ganga tryggilega frá þeim, en þetta lét yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi ógert, að sögn samkvæmt gamalli hefð. Yfirkjörstjórn lét ekki heldur læsa öllum dyrum að talningarsalnum þar sem atkvæðabunkarnir lágu á borðum, og voru dyr úr honum inn í starfsmannarými hótelsins og eldhús tildæmis skildar eftir ólæstar, og jafnvel einnig útidyr út í port við hótelið (en ekki virðist á hreinu hvenær þeim dyrum var læst). Svo fór talningarfólk og kjörstjórnarfólk úr salnum til að hvíla sig. Ýmsar mannaferðir voru um salinn eftir að talningu lauk. En undir hádegi kom formaður kjörstjórnar á talningarstað og var einsamall á talningarstað með hinum óinnsigluðu kjörgögnum í um það bil hálftíma (en á meðan virðist hótelstarfsfólk hafa farið öðru hvoru inn og út úr salnum). Um þetta leyti hringdi formaður landskjörstjórnar í Reykjavík í formann kjörstjórnarinnar í Borgarnesi og fræddi hann á því að mjög litlu munaði á atkvæðatölum, þannig að ef fáein atkvæði hefðu mistalist í Norðvesturkjördæmi gæti það til dæmis haft áhrif á úrslitin í Suðurkjördæmi.

            Í framhaldi af þessu fór formaður kjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi að huga að atkvæðunum. Þá for að drífa að fleiri kjörstjórnarmenn á staðinn. Atkvæðaseðlum hafði verið raðað í bunka, og í hverjum bunka áttu að vera atkvæði fyrir einn tiltekinn flokk og ekki aðra. En þegar farið var að skoða þessa atkvæðabunka við seinni talninguna kom í ljós að í þessum bunkum voru allt öðruvísi atkvæði en höfðu talist vera í þeim örfáum klukkustundum áður. Þegar upp var staðið höfðu bókstaflega allar tölur breyst. Á töflunni hér fyrir neðan er yfirlit yfir tölurnar og breytingarnar sem urðu á þeim:

Meðal eftirtektarverðra breytinga má nefna að atkvæðum sem Viðreisn fékk í sinn hlut fækkaði um níu á milli talninga. Þá fjölgaði atkvæðum Sjálfstæðisflokksins um 10. Athyglisverðustu breytingarnar voru samt kannski þær að auðum seðlum fækkaði um tólf og ógildum fjölgaði um ellefu milli talninga.

            Þessar breytingar á fjölda þeirra atkvæða sem stjórnmálaflokkarnir fengu í Norðvesturkjördæmi höfðu verulegar afleiðingar á niðurstöður kosninganna á landsvísu, enda ollu þær því að í fimm kjördæmum af sex urðu breytingar á því hvaða frambjóðendur töldust kosnir á þing.

            Í framhaldi af þessu og eftir að kosningin hafði verið kærð fór sérstök þingnefnd, undirbúningskjörbréfanefnd, að rannsaka málið og komst að því að seinni talning átti það sameiginlegt með fyrri talningunni, að þegar gögnin voru skoðuð nánar komu gallar og villur í ljós.  Þingnefndin lét reyndar ekki telja öll atkvæði upp á nýtt, enda töldust kjörgögn spillt eftir hina ólöglegu vörslu þeirra eftir fyrri talninguna, og þar með hefur þingnefndinni líklega þótt óþarft að telja aftur.

                                                ~         ~         ~

            Hvað má svo segja um þessa atburðarás, sem hér hefur verið lýst í grófum dráttum?

            Eitt er það, að hefði kjörstjórn í Norðvesturkjördæmi látið ógert að telja atkvæðin á nýjan leik hefði líklega aldrei leikið neinn vafi á því að fyrri tölur væru réttar. Þar með er auðvitað ekki sagt að fyrri tölur hafi verið réttar. En þær hefðu líklega verið teknar gildar og líklega engum dottið í hug að efast um þær.  

            Þá blasir við, að hvað sem fyrri talningu líður, þá áttu sér stað aðgerðir á talningarstað eftir að fyrri talningu lauk, nefnilega ýmislegt vafstur kjörstjórnar á staðnum og svo seinni talning. Þessum aðgerðum má lýsa svo í stuttu máli að þær hafi falið í sér galla á framkvæmd kosninganna. Og eftir að öll þessi gallaða framkvæmd hafði átti sér stað breyttust niðurstöður kosninganna í fimm kjördæmum af sex í landinu. 

            Enn fremur er augljóst að niðurstöður fyrri talningar eru einar og sér eindregin vísbending um að gallar á framkvæmd kosninganna eftir að fyrri talningu lauk hafi breytt niðurstöðum kosninganna. Niðurstöður fyrri talningar blasa við okkur í töflunni hér að ofan, og hin gallaða framkvæmd sem átti sér stað í framhaldinu gaf af sér síðari tölur, öðruvísi tölur, sem blasa líka við í töflunni. 

            Þá þarf að halda því til haga að niðurstöður kosninganna í Norðvesturkjördæmi eru í rauninni óþekktar. Þó að niðurstöður fyrri talningar bendi eindregið til þess að gallar á vörslu kjörgagna eftir að fyrri talning fór fram, eða gallar á sjálfri seinni talningunni, hafi haft áhrif á niðurstöðuna, er ekki loku fyrir það skotið að fyrri talning hafi líka verið gölluð. (Hér er engin traustsyfirlýsing um fyrri tölur gefin.) Loks þarf að hafa í huga að ekkert af því sem hér er sagt felur í sér að svindl hafi í raun og veru átt sér stað í Borgarnesi. Svindl er ekki það sama og fúsk. En það er ekki hægt að horfa fram hjá því að hefði ekki verið gripið til þeirrar gölluðu aðgerðar sem seinni talning var, hefðu fyrri tölur ekkert breyst, og niðurstöður kosninganna þar með ekki breyst. Niðurstöður kosninganna breyttust hins vegar augljóslega við þessa gölluðu framkvæmd, hvort sem þær breyttust til hins betra eða hins verra, eða í rétta átt eða ranga. Um það verður auðvitað aldrei neitt vitað.

            Í sem stystu máli: úrslit kosninganna breyttust við gallaða framkvæmd kosninganna á talningarstað. Breytingin átti sér stað eftir að fyrri endanlegu tölurnar voru kynntar. Fyrri endanlegu tölurnar eru  eindregin vísbending um að gallar í framkvæmdinni hafi valdið breytingunum. 

            Úr því að svona sterk vísbending liggur fyrir um að gallar á kosningunum hafi haft áhrif á niðurstöðuna, ber auðvitað að ógilda þær.

                                                ~         ~         ~

*) Leiðrétting, 25. nóvember. Grein þessi var skrifuð í miklum flýti kvöldið 24. nóvember, í tilefni af væntanlegri umfjöllun Alþingis um málið daginn eftir, í dag, 24. nóvember. Því miður varð greinarhöfundi það á að skrifa eftirfarandi setningu í fyrri hluta greinarinnar: „Ekki er vitað hvort framkvæmd kosninganna í Norðvesturkjördæmi var gallalaus fram að þessari stundu.“ En þetta er ósatt. Margvíslegir gallar voru á framkvæmd fyrri talningar, þar á meðal þessir: 1) Talning hófst áður en kjörstaðir lokuðu. Það er brot á kosningalögum. 2) Talning hófst án þess að umboðsmenn allra framboða væru á staðnum. Það mun líka vera brot á kosningalögum. 3) Á talningastað voru blýantar og strokleður, en slíkt mun vera óheimilt, skv. reglugerð.  4) Skipt var um aðferð við flokkun og talningu atkvæða í miðjum klíðum, án þess að öllu talningafólki eða kjörstjórnarfólki væri kunnugt um þá breytingu. 5) Þá munu hafa fundist misfellur á meðferð atkvæða við rannsókn undirbúningskjörbréfanefndar. Þessir gallar eru allir veigamiklir og það var því vond yfirsjón hjá greinarhöfundi að láta að því liggja að framkvæmdin kunni að hafa verið gallalaus fram að því að seinni talning var tilkynnt.

                                                ~         ~         ~

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu