Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Sýning Steingríms Eyfjörðs í Listasafni Reykjanesbæjar

Sýning Steingríms Eyfjörðs í Listasafni Reykjanesbæjar

Í gær gerði ég loksins verk úr því að skreppa til Keflavíkur til að skoða sýningu Steingríms Eyfjörðs í Listasafni Reykjanesbæjar. Steingrímur er gamall vinur minn og hún Helga Þórsdóttir sem þar stýrir listasafninu er gömul og góð vinkona. Það hefði því ekki farið vel á að skrópa. Sýningin reyndist, eins og ég átti von á, mjög fín. Og það var eins gott að ég dreif mig, vegna þess að í dag er síðasti sýningardagur. Sýningin er opin til kl. fimm.

Sýningin heitir Tegundagreining og er samsafn nýrra, nýlegra og gamalla verka. Þeim er raðað upp eftir andlegum skyldleika eða eftir tegundum, sem sagt. Myndin hér fyrir ofan sýnir eitt verkið úr röðinni eða í flokkinum Guðs eigið land. Mér finnst þetta verk, sem heitir The Wild Bunch, sem kannski mætti útleggja sem villta gengið á íslensku, vera umhugsunarvert. Fígúrurnar í þessu villta gengi eru hver með sínu lagi, manni dettur í hug að þær séu mjög misþroska. Einmitt þannig er fólk gjarnan í „villtum gengjum“, hugsum bara til kvikmyndar Stanleys Kubricks, Clockwork Orange, og vesalings piltanna í genginu þar. Allir misþroska, vanræktir og ómögulegir. Annar flokkur verka á sýningunni er flokkurinn Arfurinn. Meðal verka í þessum flokki eru Ekki gleyma Benedikt Gröndal og Fýkur yfir hæðir. Fyrra verkið er líkan af húsi Benedikts Blöndals sem stóð við Vesturgötuna og stóð lengi í skugganum af stórhýsi sem plantað hafði verið fyrir húsið, á stað þar sem kartöflugarður Benedikts var líklega áður, en hefur nú verið flutt á skárri stað við Fischersund, þar sem sólin nær að skína. Fýkur yfir hæðir er einskonar hugleiðing um minningar og mæður og æsku. Margir fleiri myndaflokkar eru sýndir á þessari stóru sýningu, en um þetta gildir eins og um alla myndlist: Sjón er sögu ríkari.

Mér fannst gaman að skoða sýninguna og var dauðfeginn að hafa loksins drifið mig. Annars hefði ég nefnilega getað misst af sýningunni. Það hefði sannarlega ekki verið nógu gott, því ég fylgdist með sýningunni verða til, í alls kyns samtölum við listamanninn meðan á undirbúningi sýningarinnar stóð. Og ég fylgdist ekki síður með katalógnum fallega verða til. Ég skil ekkert í því hvað það dróst hjá mér að fara að skoða sýninguna. Svona er að missa af opnun! Þá getur allt dregist úr hömlu. Kannski óx mér í augum að renna þetta á bílnum eftir endilangri Reykjanesbrautinni. Hafi svo verið var það algerlega ástæðulaust. Það var bara þægilegt að aka þetta. Svolítil rigning. Lítil umferð. Og gaman að koma til Keflavíkur. Það voru ekki margir gestir á sýningunni þegar ég kom, en samt ein ágæt kunningjakona mín frá fornu fari og vinkona hennar. Svo var þarna annað fólk sem ég þekkti ekki. Ég tók bara eina ljósmynd á sýningunni, og hún fylgir hér, bara tekin á símann. Sýningunni fylgir bráðfallegur katalógur sem hægt er að kaupa í afgreiðslunni. 

                                         ~                         ~                          ~

Leiðrétting -  23. ágúst 2021.

            Eins og margir vita getur verið vandasamt að túlka listaverk. Enda er túlkun listaverka ferli sem stundum stendur yfir lengi. Fólk fer í skóla til að læra að lesa og skilja listaverk. Það er því kannski svolítið glannalegt að ætla sér að túlka listaverk í miklum flýti, eins og ég gerði þegar ég skrifaði þessa stuttu grein hér fyrir ofan. Greininni var auðvitað fyrst og fremst ætlað að auglýsa skemmtilega sýningu, sem nú er búið að loka. Ég rétt náði að auglýsa sýninguna áður en henni var lokað, kannski varð það til þess að einhverjir fleiri sæju hana, en ella hefðu gert.

            Ég hef aðhyllst frekar frjálslega nálgun við slíkt. Hún er þessi: Ég reyni að hugsa til enda þær hugsanir, sem kvikna hjá mér þegar ég sé eða heyri eða les listaverk. Verkin standa fyrir sínu, en það er erfiðara að ráða í hvað listamennirnir voru að hugsa, þegar þeir settu verkin saman. Stundum þegar maður skoðar listaverk er langt um liðið síðan verkið var búið til og listamaðurinn ekki lengur á svæðinu. Hann getur þá ekki lengur varið verkið fyrir misskilningi þeirra sem þess njóta. Því að vissulega er hægt að rangtúlka listaverk. En stundum er listamaðurinn einmitt á svæðinu, og getur leiðbeint manni, þegar maður fer að tala um verkið, án þess að hafa lagst í neinar sérstakar pælingar um það. Listamaðurinn segir þá kannski: „ég var nú ekki að hugsa þetta, þegar ég bjó verkið til, heldur þetta....“ og svo fylgir útskýring listamannsins á því sem hann var að hugsa, á eftir.

            Einmitt þetta þurfti nú endilega að koma fyrir mig. Einmitt þetta, þegar ég lagði út verkið The Wild Bunch (2001) eftir Steingrím Eyfjörð í greininni hér fyrir ofan. Mig langaði að tjá mig eitthvað aðeins um verkin á sýningunni, en hafði ekki haft tíma til að pæla sérstaklega í því verki sem vakti sérstaka athygli mína. Núna þegar ég hef hugsað um þetta, sé ég að Steingrímur hefur ekki verið að hugsa neitt í dúr við það sem ég sagði í greinarstúfnum hér fyrir ofan. Penslarnir sem eru samgrónir fígúrunum eru lykillinn að þessu. Fígúrurnar eru listamenn, ekki óknyttapiltar. Ég fór inn á heimasíðu Steingríms, http://this.is/endless/ og þar er sérstakur kafli um þetta verk. Listamennirnir sem hann hafði í huga voru bandarískir, þeir Ad Reinhardt, Jackson Pollock, Willem de Kooning og Phillip Guston. Hann var líka að hugsa um áhrif þessara, og annarra listamanna, hér uppi á Íslandi, og hvernig íslenskir listamenn fara stundum að búa til verk sem verða svo eins og hinir frægu útlendu listamenn hefðu búið þau til, en ekki Íslendingarnir sjálfir.

            Ég hefði átt að átta mig á þessu. Penslarnir sögðu sína sögu.

                                   ~                         ~                          ~

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu