Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Íslenska mannafatanefndin

Íslenska mannafatanefndin

Það fer í taugarnar á mér hvað fólk getur verið smekklaust. Sumir foreldrar klæða ungabörn í bangsabúninga, aðrir foreldrar gegnumsýra sína af steríótýpum með því að klæða stráka í ofurhetjubúninga og stelpur í prinsessukjóla.

 

Þess vegna legg ég til íslenska mannafatanefnd. Ekki bara til að vernda börnin heldur til að passa upp á að þjóðleg klæðahefð verði ekki fyrir of miklum erlendum áhrifum. Og klæði sig bara ekki of skrítið. Fólk eins og til dæmis Jón Gnarr sem fór í drag og Jedi-búning þegar hann var borgarstjóri. Það var skrítið og asnalegt. Mannafatanefnd gæti komið í veg fyrir slíkt. Hún myndi skikka alla til að vera í gallabuxum og lopapeysu.
 

Finnst þér þetta asnaleg nefnd? Mér finnst hún bara býsna rökrétt framlenging á mannanafnanefnd. Nefnd sem hefur komið í veg fyrir að börn fái að heita í höfuðið á ömmum eða öfum af því það eru erlend nöfn (ojj). Nefnd sem kemur í veg fyrir að fullorðið fólk eins og Jón Gnarr fái að hafa í vegabréfi sínu og bankakorti sínu það nafn sem hann kýs. Nefnd sem fer eftir lögum sem meina fólki jafnvel um ferðafrelsi ef það heitir ekki réttu nafni.
Ég velti fyrir mér hvað okkur myndi finnast ef Þýskaland myndi ekki gefa lítilli stúlku vegabréf af því hún héti Heiðrún? Eða ef íslenskir foreldrar í Bretlandi ákvæðu að skíra barnið sitt Snædísi og fengu ekki leyfi til þess.

Mér finnst merkilegt að við höfðum 20 ár af frjálshyggjumönnum við völd án þess að þetta yrði lagað. En það var reyndar heldur ekkert gert í skrítnum guðlastslögum eða ströngustu meiðyrðalöggjöf í heimi. Ég er nánast farinn að ímynda mér að þetta hafi alls ekki verið frjálslynt fólk við völd fyrir hrun.

En jæja. Sjálfstæðismenn geta enn fengið einhverjar frjálslyndisrósir í hnappagatið með því að styðja Bjarta Framtíð í að leggja niður mannanafnalögin og Pírata í að leggja niður guðlastslögin. Er ekki hægt að gera þetta á hálftíma? Er einhver að fara að kjósa gegn slíkri tillögu? Hvað er málið, þurfum við að bíða eftir því að mannréttindadómstóll, Sameinuðu þjóðirnar eða Evrópusambandið bjargi okkur frá þessari vitleysu?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni