Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Forced Entertainment hljóta Ibsen-verðlaunin

Forced Entertainment-leikhópurinn var stofnaður 1984 af leikstjóranum Tim Etchell og félögum í Bretlandi, og hefur síðan þá haft gríðarleg áhrif á frásagnartækni í samtímasviðslistum. Þau vinna með texta á oft mínímalískan en áhrifaríkan máta þar sem andstæður eru paraðar saman og ekkert verður eftir nema sagan sem er sögð (eða ekki sögð). Á þriggja áratuga ferli þeirra hafa þó sýningarnar verið alls konar, og svo fjölbreyttar að það verður ekki alveg rakið hér.

Síðasta sýning sem ég sá með hópnum var Notebook sem byggði á skáldsögu Agotu Kristof, (ekki Agatha Christie). Þetta var einföld saga um tvíburabræður sem alast upp í Ungverjalandi á tímum seinni heimsstyrjaldar og það er afar lýsandi fyrir núverandi stíl hópsins, að bókin var fullkomlega endursögð án nokkurrar breytingar á nánast mónótónískan en afar dáleiðandi máta. Það er lítið mál að kynna sér verk hópsins á netinu, oft er hægt að horfa margra klukkutíma efni ókeypis þegar þau streyma leiksýningar í beinni.

Það kom manni ekki á óvart að alþjóðlegu Íbsen verðlaunin skyldu falla í þeirra skaut. Upphæðin er upp á tvær og hálfa milljón norskar krónur, en verðlaunin eru veitt á tveggja ára fresti á afmælisdegi leikskáldsins.

Síðan 2009 hafa Peter Handke, Heiner Goebbels, Jon Fosse, Ariane Mnouchkine og Peter Brooke unnið verðlaunin. (Það sést á þessum lista að með þessum verðlaunum er verið að verðlauna ævi-verk því þetta eru allt risavaxin nöfn í leikhúsheiminum sem ekki hafa verið neitt ótrúlega virk síðastliðin ár).

Innlendu Íbsenverðlaunin eru einnig athyglisverð, þau eru ekki eins stór en verðlauna það besta sem gerist í norsku leikhúsi. (Og það er oft býsna gott).

Í ár fékk Mette Edvardsen norsku verðlaunin, en hún kom til Íslands í nóvember að sýna á Reykjavík Dance Festival. Nokkrir íslenskir listamenn (ég þar með talinn) voru nógu heppin að fá að fara á vinnustofuna hennar og kynnast starfsaðferðum dansarans. Það verður að segjast eins og er að með því að fá hana til landsins hafi Ásgerður Gunnarsdóttir og Alexander Roberts, stjórnendur hátíðarinnar valið býsna vel. (Og hátíðin er auðvitað flott og allt það la, la, ég er auðvitað bara að velta öllum viðkomandi upp úr lofi, mér sjálfum þar með talið . . . ætti ég ekki líka að henda inn að miðasala hafi runnið til flóttamannahjálpar í leiðinni?)

Mette vann 150 þúsund norskar krónur fyrir verkið „We to be“, en einnig voru tilnefndar sviðslistakonurnar Kathrine Nedrejord fyrir „Brent jord“ og Tyra Tønnesen fyrir „Påfuglen.“

 

Og svo má ég til með að linka inn á grein sem ég skrifaði á Reykvélina fyrir löngu síðan um Ibsen-verðlaunin.

 

P.S.
Hvað finnst ykkur um Utøya minnismerkið? Linkur hér. Mér finnst þetta svolítið flott pæling fyrir landslagsverk.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni