Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Þarf nýtt listasafn Íslands?

Þarf nýtt listasafn Íslands?

Ég fór um daginn á listasafn Íslands. Það sem dró mig þangað var löngun til að sjá Picassoverkið sem er til sýnis þar og portrett-sýninguna. Það var virkilega ánægjulegt að sjá styttuna af Jaqueline, síðustu eiginkonu málarans, í sérrými með flottri umgjörð. Sagan í kringum hana er verulega heillandi, dramatísk og sorgleg. Sýningarstjórinn á hrós skilið fyrir útfærsluna.

Svo er portrett-sýningin í sama sal verulega skemmtileg. Það er ágætis húmor í uppsetningunni, hvernig alþýðlegar og alþjóðlegar myndir blandast saman, listamenn að mála aðra listamenn, alþýðufólk og rembingslega valdamenn.

Ég spjallaði við einn af starfsmönnum safnsins, aðallega af því að ég var að hanga þarna og bíða eftir konunni minni, og nefndi að mér þætti sýningin vel heppnuð. Það glaðnaði yfir starfsmanninum.

„Það er gaman að þú segir það . . . flest fólk er yfirleitt bara að skamma okkur.“

„Nú,“ segi ég pínu forvitinn og hugsa: Hver í andskotanum skammar afgreiðslufólk í minjagripabúð á listasafni?

„Já, það er eiginlega af því að safnið er auglýst á rangan máta. Túristar lesa um safnið í bæklingum og koma til að sjá klassísk íslensk málverk en í staðinn fyrir eru miklu nútímalegri verk.“

„Já, það er synd að það sé hvergi hægt að sjá þessi klassísku málverk,“ segi ég. Það er að mestu leiti satt. Í listasafni Reykjavíkur eru varanlegar sýningar af verkum Erró og Kjarval, og svo er að vísu hægt að heimsækja íbúðina hans Ásgríms Jónssonar í Þingholtunum en vilji maður sjá þróun íslenskrar myndlistar veltur það algerlega á heppni. Safnið á um 10,500 listaverk. Það er enginn leið að sýna það allt. Margt af þessu verður alltaf í geymslu og sumt af þessu er í útláni á ýmsum sýningum (eins og Jaqueline með borðann sinn eftir Picasso sem var á stöðugu flakki um heiminn eftir að Vigdís gaf listasafninu verkið). En það er nokkuð ljóst að í núverandi mynd uppfyllir Listasafn Íslands ekki hlutverk sitt sem „national gallery“ eða einhvers konar þjóðlistasafn. Finnur Jónsson, Nína Tryggvadóttir, Guðmunda Andrésdóttir og Gunnlaugur Scheving eiga ekki heima inn á róterandi skammtímasýningum annað hvert ár eða á þjóðminjasafninu. Verk þeirra ættu heima á varanlegri sýningu þar sem skólakrakkar geta komið í hópum, túristar sem vilja kynnast íslenskri menningu geta tekið myndir og venjulegt fólk sem veit ekki hvað það á að gera þennan sunnudag.

 

P.S.

Það er að losna flott húsnæði í miðbæ Reykjavíkur. 

P.P.S.

Listasafn Íslands er með pínu úrelt fyrirkomulag hvað varðar myndatöku. Flest listasöfn í heiminum banna ekki myndatöku, heldur myndatöku með flassi. Það er enginn ástæða til að banna fólki að taka myndir með símum eða kamerum svo lengi sem að ljósin valda verkunum engan skaða, það gerir bara gott fyrir safnið og almenning að það dreifist um internetið hvað sé til sýnis.

Og svo 1200 kall frekar blóðugt miðaverð. Það mætti íhuga að setja upp svipaða reglu og í mörgum Evrópulöndum, að hafa frítt inn einu sinni í mánuði, fyrsta eða seinasta sunnudag mánaðarins. Er ekki þrátt fyrir allt tilgangur þessara safna að gera list aðgengilega fyrir almenning og hvetja hann til að koma?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni