Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Hippakommúna eða dauði?

Oft þarf óskammfeilna lýðskrumara til að gera útlínur sannleikans greinilegri með blekkingum sínum. Blessunarlega eigum við Íslendingar slík eintök sem eru ekkert feimin við að opna munninn. Eitt slíkt var einu sinni forsætisráðherra og fann sér síðar nýjan markað fyrir froðu sína; kjósendur sem eru gramir út í samfélagið fyrir að hafa þroskast upp úr svarthvítri  pungamenningu fortíðarinnar.

Hvað sagði hann í þetta skiptið?

Að við gætum ekki brugðist við loftslagshamförum með því að reyna að lifa eins og í sænskri hippakommúnu. Að við þurfum að leyfa vísindunum að leysa loftslagsvandann — að „byggja á staðreyndum, samhengi og lausnum sem raunverulega virka.“ Þessi síðari málsgrein er reyndar alveg sönn en hafa ber í huga að hún kemur út úr manninum sem sagði: „Stjórnmálin hafa virkað. Framsóknarflokkurinn hefur virkað.“ Margir hafa ólíkar hugmyndir en þessi maður um það hvað „virkar.“

Hinn punkturinn hans — eins vandræðalega og hann bregst sem brandaratilraun — er enn betri. Ekki vegna þess að hann hafi eitthvað fyrir sér. Það hefur hann ekki, frekar en fyrri daginn. En hann bendir á viðhorf sem hefur gert meira til að halda aftur af almennilegum aðgerðum gagnvart loftslagsvánni en þrjóskustu hlýnunarafneitendur; hina rammíslensku aðgerðatregðu. Hún er svo algeng að við erum með málshætti henni til höfuðs:

Aftans bíður óframs sök.

Á morgun segir sá lati.

Þegar okkur er sagt að við stöndum frammi fyrir mikilli hættu bregðumst við oft við með: Hvaaaa er etta? Derekki svona mikið mál …

Í kjölfarið fylgir argumentum ad absurdum eins og þessi hippakommúnu-gullmoli Panama-kóngsins.

„Við þurfum breytta neysluhætti!“

„Ó, eigum við kannski bara að vera eins og Svíar í sveittri sameignarkompu?“

Svipað og þegar foreldri biður ungling að setja diskinn í vaskinn eftir matinn og hann segir:

„Hva, á ég bara að gera allt hérna?“

Í fyrsta lagi ber að árétta að, nei, við þurfum ekki að lifa meinlætalífi til að leysa loftslagsvandann af því að margar hendur vinna létt verk. Það eru fyrst og fremst stóru framleiðslu- og útflutnings/innflutnings-fyrirtækin sem eiga að bera hitann og þungann af breytingunum (eignafólk sem Sigmundur Davíð myndi aldrei lyfta litla fingri gegn). Í öðru lagi er bara til eitt vitrænt svar við þessari ögrun: Já.

Ef við erum spurð hvort við séum reiðubúin að taka upp lifnaðarhætti sænskra hippa til þess að komast hjá því að mannkynið farist ...

... rétt upp hönd sem velur aldauða fram yfir neyslubreytingar.

Við Íslendingar eigum það til að gera skurðgoð úr yfirvegun. Það er hálfvitaskapur að panikka í hvert skipti sem við stöndum frammi fyrir áskorun en það er enn þá heimskulegra að láta eins og ekkert sé þegar maður starir í opið geðið á raunverulegri ógn. Drepum tíma og sjáum hvað gerist þegar minniháttar hlutir liggja undir en í guðanna bænum göngum beint til verks þegar við megum engan tíma missa.

Það er í lagi að verða æstur yfir þessu. Við þurfum ekki að setja upp einhverja grímu og láta eins og við finnum ekki fyrir óttanum við ósköpin sem eru handan við hornið. Förum að fordæmi Grétu, sænsku gersemarinnar, og leyfum okkur að láta tilfinningarnar í ljós. Látum ráðamenn ekki komast upp með að míga framan í okkur og kalla það rigningu. Sérstaklega ekki bersýnilega óheiðarlegt pakk eins og SDG.

Æ, hvað er ég annars að gera í þessum pistli? Við ættum kannski að hætta alveg að veita siðferðislega gjaldþrota tækifærissinnum eins og Simma D svona mikla athygli. Ef maður sest hjá mér í strætó með álhatt á höfði og segir mér að ríkisendurskoðun steli hugsunum mínum þá lít ég í hina áttina.

Athugasemdir Sigmundar Davíðs verðskulda sömu viðbrögð frá mér. Frá okkur öllum.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu