Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Við viljum byltingu

Við viljum byltingu

Fyrir þá sem ekki vita heiti ég  Símon Vestarr og er Hjaltason. Ég er í öðru sæti á lista Sósíalistaflokks Íslands í syðra Reykjavíkurkjördæmi. Ég hvet ykkur öll til að setja x við J í kosningunum þann 25. september næstkomandi og ég skal segja ykkur hvers vegna.

Með því að greiða sósíalismanum atkvæði erum við að senda skilaboð. Við erum að lýsa því yfir að við viljum byltingu. Já, alvöru byltingu. Við viljum ekki að Jóakim Aðalönd fái að ráða öllu um framtíð okkar þar sem hann setur ólympíumet í klinksundi og þarf ekki að lifa á vinnuafli sínu. Við viljum að gildi okkar, hagsmunir og álit skipti einhverju máli þegar stjórnvöld taka ákvarðanir. Við viljum hafa kærleikann að leiðarljósi, ekki metorðagirnd eða gróðafíkn örfárra einstaklinga. Við viljum almennilegar aðgerðir til að jafna kjörin, útvega öllum húsnæði og afkomuöryggi og gera öllum kleift að láta ljós sitt skína í samfélaginu án þess að vera með nagandi áhyggjur af því að ná endum saman.

Hver er ég?

Ég er Breiðholtsstrákur sem var alinn upp við gildi trésmiðsins frá Galíleu, sem sagði að hinir síðustu yrðu fyrstir og fyrstir síðastir og að allt sem við gerðum einum af minnstu bræðrum hans hefðum við gert honum. Mamma og pabbi sögðu mér líka frá fordæmi postulanna, sem lögðu saman eigur sínar „og sérhverjum var úthlutað eftir því sem hann hafði þörf til.“ Ég tilheyri ekki neinni trúardeild í dag en þessi samhjálparhugsjón er enn flúruð á hjartað í mér.

„Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“

Allir sem hafa kynnst afkomuótta, í bernsku eða á fullorðinsárum, vita að hann lamar allt framtak, spillir heilsunni og þrengir sjóndeildarhringinn. Í samfélagi okkar er engin ástæða til að láta fólk ganga í gegnum slíkt. Engin gild ástæða fyrir því að sumir sanki að sér auðæfum á meðan aðrir basla við að ná endum saman. Við sem þekkjum þá upplifun að telja klinkið og þrauka erum fólkið sem á að stjórna þessu landi. Við þurfum ekki að láta auðkýfinga segja okkur að kröfur okkar um mannsæmandi lífsgæði séu óraunhæfar á meðan tölurnar yfir andvirði fjárfestinga þeirra líta út eins og útlensk símanúmer. Þeir skilja ekki mikilvægi afkomuöryggis. En við skiljum það.

Við skiljum jafnframt mikilvægi þess að hafa af þeim völdin. Eignastéttin stendur ekki bara í vegi fyrir jöfnun kjara heldur ótal öðrum hugðarefnum almennings. Hvers vegna ætli heimsbyggðin sé ekki enn farin að leggja sitt af mörkum til að stemma stigu við loftslagsbreytingum? Er það vegna þess að almenningur vill ekki mótaðgerðir? Nei. Það er vegna þess að mótaðgerðir koma niður á hagnaði stórfyrirtækja. Hvers vegna skyldi hluti ríkisins í Íslandsbanka hafa verið seldur? Var það vegna þess að almenningur vildi koma honum í hendur einkaaðila? Nei. Rúmlega þrír fjórðu voru á móti því. En fjárfestarnir og vogunarsjóðirnir vildu söluna og það eru þeir, ekki launafólk eins og ég og þú, sem Bjarni Benediktsson vinnur fyrir. Hvers vegna erum við ekki komin lengra á veg með plön um vinnustaðalýðræði? Er það vegna þess að hinn almenni launþegi vill ekki fá að koma að ákvarðanatöku í vinnunni? Nei. Það er vegna þess að ef starfsfólkið fer að stýra vinnustöðunum í sameiningu kemur í ljós að goggunarröðin er ónáttúruleg og eigendurnir óþarfir.

Við getum vart ímyndað okkur hverju við myndum áorka í opnu samfélagi þar sem lýðræðið væri ekki einskorðað við að kjósa drottnara á fjögurra ára fresti heldur næði inn á efnahagslega sviðið líka. En við þurfum ekki heldur að ímynda okkur það. Við getum gert það að veruleika. Byltingin er komin í gang. Því fleiri sem leggja hönd á plóg, því fljótari verðum við að koma fræjunum í jörðu og tryggja góða uppskeru. Margir halda að þeir séu einir um að vilja réttlátara samfélag – að hugsjónir þeirra séu krúttlegar en „óraunhæfar“. Það er það sem kapítalisminn – fullkomlega stjórnlaus og náttúruætandi samfélagsskipan – hefur gert okkur. Maður í sjónvarpinu með hvítagullshúðaða fálkabindisnælu segir okkur að flestir Íslendingar séu „raunsæir“ og vilji áframhaldandi arðrán, ójöfnuð og valdasamþjöppun og við koðnum niður. Hættum að hlusta á hann. Stöndum upp.

Við ætlum að senda skýr skilaboð þann 25. september. Ekki bara til mannsins með bindisnæluna eða til Jóakims Aðalandar. Sendum skilaboðin fyrst og fremst hvert til annars. Þessi skilaboð:

Þú ert ekki eina manneskjan sem vill breytingar.

Við viljum þær líka.

Og saman erum við miklu fleiri og miklu sterkari en vogunarsjóðaprinsarnir sem skeina sér á tíuþúsund köllum og nota kampavín sem klósetthreinsi.

Að setja x við J er eina vitið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni