Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Hægrið og hræsnin

„Hví sér þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? Eða hvernig fær þú sagt við bróður þinn: Lát mig draga flísina úr auga þér? Og þó er bjálki í auga sjálfs þín. HRÆSNARI, drag fyrst bjálkann úr auga þér, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.“

Matteus 7:3-5

Nei, þú villtist ekki inn á páskahugvekju Agnesar Sigurðardóttur. Þetta er ekki trúarleg vangavelta hjá mér. Málið er bara að þetta er besta útskýringin á því hvað orðið hræsnari þýðir og það er full ástæða til að fara aðeins yfir það vegna þess að margir eru álíka færir um að nota þetta orð og geit er um að nota saumavél.

Hvað þýðir orðið hræsni ekki?

Í hinni annars ágætu bók Tribe: On Homecoming and Belonging (2016) segir kvikmyndagerðarmaðurinn Sebastian Junger að það hafi verið hræsni á tímum Íraksstríðsins að setja límmiða á bílinn sinn með orðunum “No Blood for Oil”; að þeir sem noti olíu geti ekki mótmælt því að stríð séu háð til þess að öðlast yfirráð yfir olíulindum. 

Þetta er ekki rétt notkun á orðinu hræsni.

Greta Thunberg hefur verið vænd um hræsni fyrir að skamma ráðamenn þjóða fyrir aðgerðaleysi gegn loftslagshamförum og fara svo heim í flugvél (þó svo að hún hafi reyndar ferðast til New York í seglskútu). Hið sama hefur reyndar verið sagt árum saman við umhverfisverndarsinna: Hvernig getur þú kallað eftir betri umgengni við náttúruna þegar þú notar bensínbíl / kaupir hollensk epli / notar svitalyktar-eyði með örplasti?  

Þetta er ekki rétt notkun á orðinu hræsni.

Þegar Michael Moore gaf út myndina Capitalism: A Love-Story og hvatti til þess að kapítalismanum yrði skipt út fyrir raunverulegt lýðræðisskipulag var hann kallaður hræsnari vegna þess að hann hefur auðgast á útgáfu heimildarmynda sinna. Sama ásökun var lögð fram gegn grínistanum Russell Brand þegar hann harmaði ójöfnuð kapítalismans í bókinni sinni Revolution, og gegn hljómsveitinni Rage Against the Machine fyrir að gefa anarkó-kommúníska byltingartónlist sína í gegnum alþjóðlega stórfyrirtækið Epic Records. 

Þetta er ekki rétt notkun á orðinu hræsni.

En þú?!

Hræsnari er sú manneskja sem vænir aðra manneskju um einhverja misgjörð þrátt fyrir að vera sek um sömu misgjörð eða eitthvað þaðan af verra. Flest af ofangreindum dæmum litast af vissum misskilningi varðandi eðli pólitískrar róttækni. Hún snýst ekki fyrst og fremst um að ásaka einn eða neinn um eitt eða neitt. Stundum þarf að benda á sökudólga en oftast er verið að benda á kerfisbundna hnökra sem þurfi að lagfæra í þágu réttlætis og lýðræðis. Þess vegna er það í besta falli heimskulegt og í versta falli óheiðarlegt að svara gagnrýni umbótasinna með viðkvæðinu „en þú?!“ eins og við séum á róluvelli. Þeir sem kalla ofantalda einstaklinga hræsnara eru í raun að segja „heldurðu að þú sért eitthvað betri en ég?“

Sú einstaklingshyggja sem kapítalisminn byggir á skilur ekkert siðferði sem er grundvallað á heildarhugsun eða mannlegri samvisku.

Þetta er vandinn við að reyna að koma á framfæri kröfum um réttlátari samfélög í veröld sem er gegnsýrð af gildismati kapítalismans. Sú einstaklingshyggja sem kapítalisminn byggir á skilur ekkert siðferði sem er grundvallað á heildarhugsun eða mannlegri samvisku. Hún skilur bara sigur og ósigur og því ályktar fólk sem svo að umhverfisverndarsinnar séu bara að reyna að stemma stigu við loftslagshamförum, ójöfnuði eða misrétti til þess að upphefja sjálfa sig. Til þess að „sigra“ aðra í keppninni um það hver sé hjartahreinastur.

Svona heftir kapítalisminn tilfinningaþroska okkar. Gerir okkur að ofvöxnum rollingum.

Rót vandans

Það að hernaðarandstæðingar mótmæli stríði sem háð er til að tryggja yfirráð yfir olíulindum þrátt fyrir að þeir eigi bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti þýðir ekki að þeir séu hræsnarar. Við kusum aldrei samfélagsskipanina sem gerir rafknúin ökutæki alltof dýr fyrir velflesta launþega (sérstaklega á tímum Íraksstríðsins), þar sem vegalengdirnar milli vinnu, heimilis og leik- og grunnskóla barna eru slíkar að erfitt/ógjörningur er oft að komast þar á milli í tæka tíð á hjóli eða með almenningssamgöngum. 

Burtséð frá því sem nýfrjálshyggjan kennir okkur þá hafa neytendur ekki valdið í þessum efnum og því er óheiðarlegt að gera að því skóna að andstæðingar stríðsins hafi valið það að keyra bensínbíla. Þetta á einnig við um umhverfismál. Auðvitað er jákvætt að fólk sé í auknum mæli að flokka rusl, forðast plastumbúðir og nýta betur matvælin sín. En það eru ekki heimilin heldur fyrirtækin sem framleiða óvistvænar pakkningar, bera ábyrgð á langstærstum hluta matarsóunarinnar og verðleggja vistvænni fararkosti langt yfir ráðstöfunartekjur hinnar almennu launamanneskju. 

Greta Thunberg bjó ekki heldur til þörfina á að fljúga heim frá New York. Hún bað aldrei um að fá að vera talsmanneskja ungu kynslóðarinnar varðandi þessa vá. Hún tók það að sér vegna þess að einhver þurfti að gera það.

„Sönn umhyggja snýst um meira en að kasta smápeningi til betlara. Hún snýst um að opna augun fyrir því að endurbyggja þurfi mannvirkið sem framleiðir betlara.“

- Martin Luther King jr.

Og það að sumir milljónamæringar eins og Michael Moore eða Russell Brand krefjist meiri jöfnuðar sýnir að þeir meta hugsjónir sínar ofar auðæfum sínum. Þeir eru bókstaflega að stinga upp á því að peningar séu teknir af þeim svo að aðrir fái að njóta meiri réttinda í samfélaginu. Þegar þeim er sagt að þeir geti bara gefið til góðgerðamála ef þeim er svona annt um þá sem minna mega sín þá er skammsýni einstaklingshyggjunnar enn að verki. Moore og Brand vilja ekki láta sér nægja að létta hlutskipti sumra með því að gefa úr eigin sjóðum. Þeir vilja að stjórnkerfið hætti að leiða af sér fátækt. Ráðast að rót vandans.

„Sönn umhyggja snýst um meira en að kasta smápeningi til betlara. Hún snýst um að opna augun fyrir því að endurbyggja þurfi mannvirkið sem framleiðir betlara.“

- Martin Luther King jr.

Það að vinna gegn eigin hagsmunum í þágu almennings er ekki hræsni. Það heitir að breyta rétt. Myndir Michaels Moore eru ekki fyrst og fremst ásakanir heldur hróp eftir réttlæti. Ef þær snerust um hvað Moore sjálfur sé æðisleg manneskja í samanburði við kapítalista og vopnasala þá hefðu þær aldrei náð neinni útbreiðslu. Þær snúast um það hvað við getum gert til að réttlætið nái fram að ganga. 

Þegar öllu er á botninn hvolft

Hvað er þá hræsni?

Tökum nokkur dæmi.

Hræsni er að titla sig lýðræðis- og frelsissinna á meðan maður stendur vörð um efnahagskerfi sem gerir suma að þrælum og aðra að guðum.

Hræsni er að setjast í dómarasæti yfir siðferði heimsbyggðarinnar á meðan barnaníð grasserar í alþjóðlegu trúfélagi manns.

Hræsni er að skreyta sig fjöðrum einstaklingsfrelsis á meðan maður er meðlimur í alþjóðlegum samtökum með tyrkneskum einræðisherra.

Hræsni er að gera vernd „stöðugleikans“ að slagorði sínu í áraraðir og stýra svo samfélaginu ofan í efnahagshrun.

Hræsni er að bjóða sig fram árum saman sem fulltrúi hernaðarandstæðinga og lyfta svo ekki litlafingri gegn heræfingum og plönum um að endurvirkja herstöðina á Miðnesheiði.

Hræsni er að fara mikinn um alþjóðlega íslamska hryðjuverkaógn á meðan maður slær met í vopnasölu til Sádí-Arabíu.

Hræsni er að kalla það frelsisskerðingu að fá ekki óheft leyfi til að krefjast þess að farið verði með útlendinga sem annars flokks þegna.

Hræsni er að kalla vinstri menn óraunsæja og tilfinningastýrða og stinga svo fingrum í eyrun og syngja la-la-la þegar vísindamenn segja okkur að við þurfum að breyta framleiðsluháttum okkar og neysluvenjum.

Hræsni er að vera ósamkvæmur sjálfum sér. Það er tegund af blekkingu. Auðvalds-, hernaðar- og yfirburðasinnum og hlýnunarafneiturum er hollast að forðast það orð ef þeir vilja ekki benda þremur fingrum í eigin átt.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni