Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Semjið við skólastjóra strax!

Fyrir þónokkrum árum var ákveðið að Ísland þyrfti að horfast í augu við þá staðreynd að skólakerfi landsins var, eins og skólakerfi mjög margra landa, að verða úrelt. Ákveðið var að grípa til róttækra aðgerða að erlendri fyrirmynd. Styrkja átti faglegan grunn kennara með lengra kennaranámi, ný námskrá tryggði sveigjanleika til að hægt væri að skapa skólana upp á nýtt og unnið var markvisst að því að rífa upp faglega umræðu um skólastarf.

Síðan þá hefur svotil allt farið í handaskolum. Lengra kennaranám átti að styðja með hærri launum. Það var ekki gert og ásókn í námið hrundi. Farið var í æfingar með kjarasamninga sem enduðu þannig að kennarar eru klofnir, trúa ekki á forystuna sína og allt þróunarstarf er í stórhættu. Síðan fengum við menntamálaráðherra sem virðist hreinlega ekki hafa hugmynd um hvert verið er að stefna og hefur með markvissum aðgerðum snarhægt á öllum umbótum með því að skipta út Aðalnámskrá fyrir pólitískt stefnurit sitt. Ef ráðherrann hefði verið skipstjóri á Titanic hefði hann brugðist við fréttum af leka með því að skipa fólki að fjölmenna með moppur niður í lest skipsins.

Í dag er svo komið að það reynir á öryggisventlana. Sem eru skólastjórar. Þeir eru með faglegt starf skólanna í gjörgæslu þessar vikur og mánuði. Og þeim er ekki beint gert auðvelt fyrir. Fyrir utan hundakúnstirnar sem þeir eru látnir sýna fyrir ráðherrann hefur miðstýringarvald sveitarfélaga sturtað á skólastjóra holskeflu verkefna sem lúta að hagræðingu og handahófskenndu fálmi með kjarasamninga.

Það er erfitt að vera skólastjóri. Þeir sjá um skítverkin fyrir aðra og enda sem persónulegir ábyrgðarmenn þegar skólakerfið er skaddað af skammsýni og skorti á hugrekki. 

Á sama tíma eru þeir í kjarabaráttu. Þeirri baráttu miðar ekkert. Þeir hafa hvorki verkfallsrétt né önnur vopn sem bíta. Þeirra eina traust er á faglegan metnað sveitarfélaga. Sem um þessar mundir þýðir að þeir eiga engan séns.

Ég vil, sem kennari, nota tækifærið og lýsa yfir stuðningi við skólastjóra og kröfur þeirra um góð laun. Þeir eiga það ekki skilið að vera í þeirri stöðu sem þeir eru nú. Og skólakerfið á betra skilið en svo að gott fólk sé hrakið úr störfum – sem sjaldan hafa verið mikilvægari.

Við kennarar ætlumst til að skólastjórar standi vörð um okkur. Við eigum líka að standa upp til varnar fyrir þá.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni