Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Að létta álagi af kennurum og foreldrum

Viðbrögð margra sveitarfélaga við kjarabaráttu kennara fyrr í vetur var að auglýsa sérstaka aðgerða- eða starfshópa sem gera ættu úttektir á skólakerfum einstakra sveitarfélaga og leita leiða til að auka ánægju kennara í starfi. Mjög snar þáttur í því er að minnka álag á kennara.

Það er kaldhæðni örlaganna að á sama tíma berist frétt um það að Hjallaskólarnir ætli að minnka álag á barnafjölskyldur með því að selja tilbúinn kvöldmat sem fylgt getur börnunum heim.

Hátíðarnar nú sönnuðu enn einu sinni hve afkáralega mikil áhersla er á ástundun og iðni í samfélaginu okkar. Það er algjörlega fráleitt að jóla- og áramótafrí séu eins stutt og raun bar vitni. Það er líka óskaplega sorglegt að fjöldi barna skyldi hýrast í skólunum nær allar hátíðarnir með frístundastarfsfólkinu. Börnin áttu auðvitað að vera heima með foreldrum sínum. Íslenskt atvinnulíf hefði engu tapað á því. Það græða allir á því að fólk fái að hvílast að njóta samvista við sína nánustu.

Eins er ömurlegt til þess að hugsa að fjöldi barna skuli búa við stöðugt álag. Skóladagurinn er mun lengri en hann var áður, tómstundir og íþróttaiðkun tekur sinn toll og loks bætist heimanám ofan á. 

Það væri einkar gáfulegt að við lærðum sem þjóð að slaka betur á. Ég er sannfærður um að með því mætti ekki aðeins bæta geðheilsu þjóðarinnar (en kvíði barna er til dæmis óhugnanlega mikill) heldur myndum við bæði afkasta meira og vinna betur þegar öllu er á botninn hvolft.

Að því sögðu er ég ekki nema mátulega hrifinn af því að nú eigi að fara í eitthvað átak við að létta álagi af okkur kennurum. Og ekki heldur því að einkareknir skólar fari að selja vel stæðu fólki kvöldmat.

Byrjum á kennurunum.

Skólastarf er álagsstarf. Það hefur verið það lengi og mun vera það áfram. Eitt af markmiðum allrar skólaþróunar ætti að vera að minnka álag. Það má þó ekki vera markmiðið í sjálfu sér. Til þess er menntakerfið alltof margslunginn verknaður. Minnkun álags má ekki vera á kostnað annarra mikilvægra þátta. Þvert á móti ætti það að vera hliðarafurð að því að hlúð sé að einhverjum öðrum mikilvægum verðmætum. Dæmi um vel heppnaða leið til að minnka álag er að ala nemendur upp til raunverulegrar ábyrgðar á námi sínu. Ef þeim er kennt í áföngum að bera ábyrgð og njóta um leið frelsis er afar mikilvægu markmiði náð. Ef það er vel gert getur það aukið starfsánægju allra og álag getur minnkað. Það er samt viðbúið að slíkt geti einmitt aukið álag tímabundið. Hið sama á við um teymisstarf. Það er algjörlega óefað að alvöru teymisvinna minnkar álag til lengri tíma. Jafn öruggt er að það eykur álagið tímabundið, meðan teymin eru að verða til og læra vinnubrögðin.

Miðstýrðar leiðir til að minnka álag eru dæmdar til að skauta fram hjá báðum ofangreindum leiðum. Svona breytingar verða ekki nema að frumkvæði kennaranna sjálfra, þótt stjórnendur geti bæði hvatt til þeirra og stutt þær. Svona breytingar, og ótal aðrar, spretta úr umhverfi þar sem kennarar eru frjóir og skapandi fagmenn. Ég vil leyfa mér að bæta við að þeir njóti líka nægrar hvíldar til að geta skapað sér rými til breytinga. Eitt það besta sem við gætum gert er að gefa kennurum sem það kjósa andrými til að hugsa meira og lesa meira.

Mig grunar að hætta sé á að hér verði farin fullkomlega röng leið. Í stað þess að leyfa kennurum að njóta frelsis og ábyrgðar til að skapa sér aðstæður til breytinga verður opnuð smuga fyrir germ-sóttkveikjurnar til að þvinga fram þær breytingar sem ýmsir hafa viljað sjá eiga sér stað hér ansi lengi. Álagi verði létt af kennurum með því að svipta þá ábyrgð og fela miðstýringarvaldinu stærra hlutverk í skipulagi náms. Ekkert gott getur komið af því. Jafnvel þótt það tækist „vel“ samsvaraði það því að saga burt fjallstinda til að hvolfa þeim ofan í dalina.

Því miður myndu margir kennarar láta það yfir sig ganga. Bæði vegna þess að þeir njóta þegar mjög takmarkaðs frelsis í starfi en líka vegna þess að þeir eru einfaldlega undir of miklu álagi og því í raun og veru ekki í neinni aðstöðu til að sinna starfi sínu eins vel og þeir ættu að gera.

Þau sveitarfélög sem í mestum vanda eru munu svo gulltryggja sér „ánægju“ kennara með því að minnka bindna viðveru. Það er frábært ef það verður til þess að kennarar fái að hugsa meira og lesa meira. En það er allt eins líklegt að álag minnki ekki neitt og vinnan flytjist bara á milli staða – og það mun ekki virka hvetjandi á teymiskennslu. 

Þá að Hjallaskólunum.

Síðustu ár hafa reynst Hjallaskólunum erfið, eins og raunar flestum skólum. Í sumum tilfellum hefur „einkaframtakið“ hér meira að segja þurft að gefast upp á verkefnum sem augljóslega eru dæmd til að skila ekki hagnaði. Fyrir ári var tilkynnt að stefnan hefði verið rekin með nærri 200 milljóna tapi árið á undan eftir mörg góð ár þar á undan.

Það segir sína sögu að nú stendur yfir undirbúningur stofnunar skóla fyrir börn með einhverfu. Fólkið sem að verkefninu stendur ætlar sér að reka skólann án hagnaðar. Fyrir áratug eða svo ætlaði Hjallastefnan að þjónusta þennan hóp sem almenna skólakerfið hefur átt í verulegum vandræðum með að sinna. Innan Hjallastefnunnar er afbragðsgott starfsfólk með mikla reynslu af slíku starfi en það tók ekki mörg ár fyrir stefnuna að loka deild fyrir einhverfa sem sett hafði verið á laggirnar. 

Það að reka góðan skóla fyrir einhverf börn er vandasamt og dýrt. Að mörgu leyti er það prófsteinn á það hvernig menntakerfi við rekum. Það getur hver sem er rekið skóla fyrir börn vel stæðra foreldra sem hafa efni á dýrum tómstundum og íþróttum – og heimsendum kvöldmat. Ef það á að vera hlutverk einkarekstursins í skólakerfinu okkar að týna feitu bitana úr kjötsúpunni og skilja hitt eftir handa almenna kerfinu – þá er það stórpólitískt álitamál.

Ég persónulega er mjög efins um að þessir matarpakkar til Hjallaskólaforeldra séu endilega merki um hreyfanleika og nýsköpun í menntakerfinu. Það er vissulega álag á barnafjölskyldum – en fólkið sem borðar tvisvar í viku á Gló er alls ekki sá hópur sem ég persónulega hef mestar áhyggjur af.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni