Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Stórfengleg frásögn án landamæra

Stórfengleg frásögn án landamæra

Uns yfir lýkur eftir Alinu Margolis-Edelman er ógleymanlegt verk um minningar ungmennis í gettóinu í Varsjá í Póllandi í síðari heimstyrjöldinni. Það er líkt og lesandinn gangi með vasaljós í annarri hendi en jafnframt leiddur af barnshönd Alinu um eyðileggingu stríðs, dauða, hungurs og miskunnarleysis. Hönd hennar er hlý og í augum hennar er von og ljósið slokknar ekki.

Sjónarhorn Alínu ræður för. Hún segir sögur af fólki, fjölskyldu, vinum, ókunnugum og varpar ljósi á persónur sem hefðu örugglega látið gott af sér leiða í heiminum en voru sviptar lífinu af nasistum, sem höfðu smíðað alræðiskerfi tortímingar, kerfi sem útilokar og flokkar fólk, ekki bara út margskonar mismunun heldur einnig duttlungum. Alina tilheyrir þeim lægst settu í kerfinu, þeim sem á að útrýma af yfirborði jarðar.

Barnalæknir heimsins

Alina er fædd 1922 og lærði til læknis strax eftir síðari heimstyrjöldina á 20. öld. Hún helgaði líf sitt velferð barna óháð landamærum; flóttabörnum, götubörnum og fórnarlömbum ofbeldis og hamfara. Hún starfaði í nafni mannúðar því hún þekkti það á eigin skinni að vera barn án alls öryggis, barn sem hernámsliðið vildi helst drepa með köldu blóði, barn án réttinda. Á legsteini hennar er letrað: Barnalæknir heimsins.

Alina sagði sögur úr stríðinu og rifjaði upp minningar alla tíð en það var ekki fyrr en árið 1994 sem hún birti þær í bók, þá svo meitlaðar og hnitmiðaðar, allt á sínum stað hjá sagnaþulinum. Markus Meckl háskólakennari á Akureyri rakst á þessa bók af tilviljun þegar hann vann að doktorsritgerð um minningar úr Varsjárgettóinu, bókin hafði þá aðeins komið út á pólsku og frönsku. Hann hafði samband við Alinu og í samvinnu við hana var verkið þýtt á þýsku og íslensku. Markus skrifar „Endurminningar Alinu skáru sig úr þeim fjölda bóka sem um þetta efni fjölluðu. Alina segir enga hetjusögu um gettóið. Hún segir frá til að bjarga hversdagslegum atvikum úr veröld gettósins frá gleymsku.“ (203).

Bókin spannar minningar frá því skömmu fyrir stríð uns yfir lýkur eða með orðum Alinu í lokin:

Og lífið gengur sinn vanagang eins og hjá hverjum öðrum. Að því er virðist.

Þetta er magnað orðalag, því Alina veit af biturri reynslu að óvinveitt öfl geta eyðilagt vanagang lífsins, sérstaklega ef fólk verður værukært.

Bók Alinu er engu lík, jafnvel þótt margt hafi verið skrifað um þessi grimmdarverk í Varsjá og nágrenni. Alina skapar í frásögn sinni hlýju og væntumþykju gagnvart söguhetjunum og löngun með lesanda til að vinna að mannréttindamálum og berjast gegn því að fólki sé skipað í bása og flokkað, í þessu tilviki í „aríska“ hópinn, gyðinga, Pólverja og Þjóðverja. Bókin stendur með lífinu en lýsir inn í glæpi illskunnar. Hún er klædd svartri kápu dauðans en textinn er vitnisburður stúlku sem bjargast þótt hún vegi salt milli lífs og dauða. Hún leggur sig margoft í hættu og notar öll tækifæri til að hjálpa öðrum, oft munar ekki nema hársbreidd að illa fari og í eitt sinn stendur hún fyrir framan aftökusveit, en kúlurnar lenda á veggnum, því einhver hafði notað aleiguna til að múta byssumönnunum.

Þau höfðu bara einn galla

Bókin er safn af smásögum sem er raðað í perlufesti í réttri tímaröð og eru um  leið minningar einnar persónu og finna má hetjusögur þótt höfundurinn klæði þær ekki í þann búning. Móðir Alinu er læknir og vinnur ótrúleg afrek, tvær ungar konur, Inka og Marysia, starfa alla daga í felum við að liðsinna fjölskyldum og einstaklingum, til að fela þær, finna þeim ný vegabréf og koma þeim fyrir hjá fjölskyldum. Alina fær hjá þeim vegabréf látinnar pólskrar stúlku og skiptir þar með um nafn og fær fósturfjölskyldu sem hún kallaði tileygðu fjölskylduna sem var afbragð að öllu leyti nema einu. „Þetta var gott, heiðvirkt og hugrakkt fólk, og miklir föðurlandsvinir. Þau höfðu bara einn galla:

Þau lögðu fæð á gyðinga.  

Bókin er fjársjóður sagna um saklaust fólk sem fékk ekki að lifa sökum illsku, heimsku, grimmdar og alls þess sem vinnur gegn lífinu. Alina var gyðingur en hvorki hún, bróðir hennar né foreldrar voru guðræknir, þau voru bara stimpluð af annarlegum innrásarher sem var kominn til Póllands til að drepa, útrýma, og setja sjálfan sig á stall sem ekki var til.

Þessi grimmd er ekki óskiljanleg því hún er til, og hefur Hannah Arendt heimspekingur t.a.m. gert henni skil. Illskan er raunveruleg og niðurlægjandi þáttur í mannkynssögunni. Sturluð illska og einnig útsmogin og skipulögð illska dauðans.

Hjúkrun í Varsjárgettóinu

Hver einasta saga bókarinnar höfðaði til mín, ég las á hverju kvöldi brot úr bókinni og stundum dreymdi mig þætti úr bókinni með þeim breytingum sem verða í veröld draumsins. Persónur bókarinnar sem fengu ekki að lifa munu sennilega leita inn í drauma mína áfram en mér eru núna tvær sérlega hugleiknar, Fredzia og Klara.

Alina skrifar um persónur sem unnu afrek en hafa aldrei verið nefndar á nafn fyrr því þeim var útrýmt af innrásarhernum. Ekki orð fyrr en Alina skrifar, hún skrifar til að veita þeim stað í tilverunni, hún skrifar t.d. um Fredziu. Til minningar um Fredziu Kielbik, tólf ára, sem hún kallar hjúkrunarkonu í Varsjárgettóinu. „Á hverri nóttu nuddaði Fredzia sextíu, hundrað eða tvö hundruð bök og meðan á því stóð færði hún rúmin til og stjakaði við beinagrindunum svo hún kæmist að öllum sjúklingunum.“ (103). Ævi hennar lauk þegar hún fór með sjúklingum sínum, 12 ára, í flutningavagnana. Hún hlúði að sínu fólki til síðustu stundar.

Enginn hafði skrifað um hana áður eða minnst hennar.

Bókin gæti verið ógnvekjandi ævintýri en í þessu ævintýri lesum við eigin frásögn aðalsöguhetjunnar, hún er ekki aðeins prinsessa og öskubuska eða gæsastúlka heldur einnig flóttastúlkan. Alina sem var ævina á enda bundin örlögum sínum. Fyrirskipun var gefin út um að eyða gettóinu í Varsjá og það brann, fólkið var brennt til bana. Alina skrifar „Ég upplifði mig í fyrsta sinn sem gyðing. Og ég fann að ég yrði alltaf, uns yfir lýkur, bundin þeim sem þarna brunnu lifandi, þeim sem voru kæfð og drepin með gasi, þeim sem höfðu barist og látið lífið, þeim sem ekki lifðu af. Þeim sem ég deildi ekki örlögum með.“ (128). Hún skuldbatt sig síðan til að veita börnum og öðrum á þjáðum svæðum aðhlynningu óháð landamærum. Hvar væri hún núna ef hún fengi að ráða? Ef til vill  á grísku eyjunni Lesbos þar sem flóttabörn þjást í óbærilega þröngum og slæmum flóttamannbúðum. Aðstæðum þarf hefur verið lýst sem helvíti á jörðu fyrir börn. 

Sagan sem faldi sig í bókinni

Persóna í bókinni leitaði á hug minn og varð mér minnisstæð eftir lesturinn og mig langaði núna til að minnast hennar í þessu skrifum en þá mundi ekkert eftir hvar hana væri að finna í bókinni og þurfti að leita og lesa til að finna á hana á ný. Ég leitaði og leitaði og skrifaði inn á milli því hver saga á skilið minningu. Á tímabili óttaðist ég að saga hennar hefði þurrkast út. Hvað hét hún, hvers vegna hafði hún ástríðu fyrir bókum?

Svo fann ég kaflann um hana Klöru. Ég þarf ekki að segja ykkur frá útliti hennar nema hvað nef hennar var framstætt og brotið um miðbikið. Klara var öðruvísi en aðrir. Hún var ávallt með bók í hönd. „Á hverjum degi fékk hún lánaða bók á skólabókasafninu í frímínútunum og þegar hún hélt heim úr skólanum gekk hún um göturnar og las.“

Ég ætla ekki að segja ykkur á hvaða blaðsíðu þetta stendur í bókinni. Þið verðið að leggja það á ykkur sjálf að lesa og finna. Klara las allar bækur á þeim bókasöfnun sem hún fékk aðgang að, en stundum var hún útilokuð og stundum fékk hún bókasafnskort með einhverju móti. Hún las jafnvel Marcel Proust sem og aðra höfunda sem fundust á söfnum. Hún varð að lesa, kannski var það eina leiðin fyrir hana til að lifa dagana af.

Alina missti sjónar af Klöru en hitti hana aftur áður en yfir lauk og minntist hennar í eigin bók þeim sökum. Hún kom auga á Klöru upp við húsvegg í gettóinu. „Í hnipri upp við húsvegginn hélt hún fast utan um bók.“ Hún skalf af kulda og Alina gaf henni hlýju yfirhöfnina sína og breiddi yfir hana og fór að ná í heitt vatn handa henni. Ég myndi vilja skrifa meira hér og segja ykkur hvaða bók Klara var að lesa en þið verðið að komast að því sjálf sem lesendur.

Stúlkan sem linnulaust las bækur varð söguhetja í bók sem hún fékk ekki að lesa.

Á brýnt erindi við okkur núna

Uns yfir lýkur er bók sem á erindi við okkur öll og það er auðvelt að tengja hana við tilhneigingar í tíðarandanum í dag, t.d. hvernig við komum fram við flóttafólk, börn á flótta, hvernig stjórnmál geta þróast og hvernig völd geta verið misnotuð, hvernig Kúrdar eru ofsóttir af Tyrkjum og Palestínumenn af Ísraelsríki og svo alltof oft framvegis. Við verðum að kunna að lesa í tíðarandann, bregðast við án landamæra og mótmæla mannréttindabrotum af krafti.

Alina tók þátt í uppreisninni í Varsjárgettóinu 1943 og í uppreisninni í Varsjá 1944. Alina hlúði að flóttafólki þar sem neyðin var mest, í Vietnam, El Salvador, Tsjad, Afganistan, Bosníu og Hersegóvínu. Ég tel að þessi bók geti breytt afstöðu lesenda til mikilvægra þátta lífsins. Takk fyrir Alina fyrir skrifin og aðrir aðstendur bókarinnar sem kom út sem Lærdómsrit HÍB árið 2015.

Uns yfir lýkur. 216 bls. Alina Margolis-Edelman. Jón Bjarni Atlason þýddi. Markus Meckl ritar inngang. Hið íslenska bókmenntafélag 2015.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu