Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Ábyrgð okkar á Amazonskógunum

Ábyrgð okkar á Amazonskógunum

Regnskógarnir í Brasilíu brenna, lungu jarðar, þaðan sem súrefnið streymir. Eldurinn er svo viðamikill að hann sést úr geimnum. Getum við staðið hjá og beðið eftir misvitrum forsetum eða duttlungafullum hagsmunasamtökum?

Enginn mun bjarga heiminum. Hann þarf ekki á því að halda. Hann mun bjarga sér sjálfur. Enginn mun bjarga jörðinni. Hún þarf ekki á því að halda. Hún getur bjargað sér sjálf. Enginn mun bjarga heimkynnum okkar - nema við sjálf. Við þurfum að gera það með þeim hætti sem okkur finnst erfiðast eða með breyttum lífsháttum og - stíl. Jafnvel það er ekki nóg því við þurfum að verja lífríkið og regnskógana fyrir óhæfum leiðtogum, græðgi, skeytingarleysi og röngum ákvörðunum.

35% fleiri eldar brenna nú í Amazon í Brasilíu en árin á undan. Eldar í regnskógum eru ekki náttúrulegt ferli, þeir eru sjaldgæfir. Þessir eldar eru yfirleitt kveiktir af fólki, flestir þeirra eru kveiktir af bændum sem búa akra undir sojabauna- og kornræktun. Eldarnir byrja á landi þar sem þegar er búið að eyða regnskógum fyrir sojabaunarækt – og berast svo þaðan í regnskóginn. Þessi eyðilegging er fyrst og fremst af mannavöldum og ekki er skeytt um heimkynni dýra.

Vinfengi milli fólks og náttúru

Kærleikurinn til jarðar vegur þyngst, ristir dýpst og skiptir mestu fyrir næstu kynslóðir – ekki græðgin. Virðingin til jarðar ræður velferð framtíðar. Vinfengi milli fólks og náttúru er lærdómsferli næstu ára. Sú þjóð, það samfélag, fyrirtæki og sú manneskja sem tekur og þiggur nóg af auðlindum jarðar ætti að una því vel og láta sér það nægja.

Hvað kostar athafnasemin, ekki okkur, heldur jörðina og öllu sem henni tilheyrir? Tími græðginnar ætti að vera liðinn. Óforbetranlegu eyðsluseggir og skemmdarvargar– víkið úr vegi! Megingildið sem manneskjan þarf að temja sér gagnvart jörðinni er án alls vafa: nægjusemi.

Trén eru dýrmætari en gull jarðar. Þau geyma koldíoxíð (CO2) og framleiða súrefni. Árið 2018 glataði jörðin 12 milljón hekturum af trjáþekju þar af 3.5 milljón hekturum af rótgrónum regnskógum. Þetta eru afar slæmar fréttir fyrir lífverur jarðar, því þetta er sem olía á eldinn fyrir enn hraðari hamfarahlýnum.

Þau sem hafa nóg, í jarðarinnar samhengi, skulu láta sér það nægja, aðrir þurfa að draga verulega úr allri neyslu og gera sáttmála við jörðina. Hver einstaklingur þarf að leggja sitt af mörkum, hvert samfélag, hver þjóð því það er langt í land og stuttur tími til stefnu. Einnig þarf að gera ríkar kröfur til annarra. Enginn veit hvort það er orðið of seint eða hvort enn er ráðrúm til björgunar.

Amazon regnskógarnir eru snilldarverk jarðar, ekki mannsins. Aðeins ef hann gæti látið þá vera í friði. Stefnum þangað og knýjum á um það. Maðurinn hefur þegar eitt helmingi allra skóga frá því hann byrjaði að höggva og brenna.

Skóglendi sem brennur og er breytt í kornakra fær ekki tækifæri til að blómstra á ný. Skógarnir þurfa tíma og rými til að vaxa og skapa skilyrði fyrir allt það líf sem þrífst í þeim. Hættum að brenna og gefum þeim tíma til að jafna sig.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu