Þessi færsla er meira en ársgömul.

Vináttan við náttúruna

Vináttan við náttúruna

Vinátta er hugtak sem spannar mikla vídd og dýpt. Á skala vináttu er ég, aðrir, samfélagið, náttúran og jörðin.

Mig langar til að lýsa vináttu við náttúruna, því það er mikilvægt vegna þess að þetta samband hefur raskast.

Vinátta er meira en tilfinning. Hún er kærleikur, hún er vitræn og siðræn. Hún er reynsla. Hún felur í sér margar dyggðir eins og heiðarleika, þakklæti, virðingu og fyrirgefningu.

Enginn getur þekkt sjálfan sig nema í gegnum náin kynni við aðra manneskju.

Orðið vinur er tengt latneska orðinu Venus sem merkir líka kærleika. Vinur er ekki aðeins félagi, heldur kær félagi. Vinur er spegill sem sýnir ekki aðeins útlit heldur innri mann, hver við erum í raun.

Við deilum tilfinningum okkar og hugsunum með vinum og treystum þeim fyrir innstu hugarefnum okkar.

Vinsemd er náttúruleg, enginn býst við óvild, barn býst ekki við óvild við fyrstu kynni, það býst við vinsemd og ást og það lærir síðan að mynda vináttubönd.

Manneskjan er góð að upplagi eins og Rousseau hélt fram, en eitthvað fór úrskeiðis með tímanum og firringin náði yfirhöndinni. En við missum ekki vonina heldur stefnum áfram að vináttu.

„Manneskjan er góð af náttúrunnar hendi,“ er falleg fullyrðing sem er ekki nógu hátt skrifuð því við blindumst af undantekningunum. Staðreyndin er þó sú að flestallt fólk lifir lífi án ofbeldis og ræktar garðinn sinn vel og fallega.

Vinátta felur í sér alúð, blíðleika, elsku, góðlyndi, hlýju, mildi en andstæða hennar er fjandskapur og einnig skeytingarleysi.

Ímyndum okkur heiminn án vinsemdar. Öllum væri sama um alla aðra. Mannlífið yrði án hlýju. Heimurinn yrði kaldur og vélrænn. Fólk myndi missa heilsuna og lífið styttast.

Skeytingarleysi og skortur á kærleika, virðingu og vinsemd gagnvart öðrum lífverum, gagnvart landslagi, stöðum, heimkynnum annarra, gagnvart náttúrunni allri er sennilega það sem veldur mestum skaða á jörðinni um þessar mundir.

Þessi skortur er fylltur með græðgi. En græðgin bíður ekki upp á neina framtíð – aðeins auðn og eyðileggingu.

Tengsl manneskju og náttúru verða að styrkjast á ný. Jörðin þarf nauðsynlega á virðingu, vinsemd og vináttu að halda til að jafna sig og dafna á ný með þeim lífverum sem hér eru.

Vinátta er gagnkvæm, það er ekki nóg að vera velviljuð, við verðum að sýna ástúð.

Vináttan lífgar samband manns og náttúru. Náttúran gefur og með því að þiggja gjöfina lærum við að elska hana og ef við gefum á móti lærir hún að umbera okkur.

Verkefnið er að rækta tengsl og vináttusamband við náttúruna og lífið á jörðinni. Verkefnið er að rækta sambandið við krafta náttúrunnar.

Ég hef skrifað um vináttu í bókunum mínum, Gæfuspor og Heillaspor. Þar er núvitundaræfing sem heitir hugarljós. Hún er svona, dragðu andann, hlustandi góður:

  • Taktu þér stöðu utandyra, úti í garði eða í sveitinni.
  • Teygðu út hendur, opnaðu faðminn og lokaðu augunum.
  • Dragðu andann reglulega og hlustaðu á hljóðin.
  • Dveldu í náttúrunni og finndu hvernig þú verður eitt með henni.

Reynsla sem á sér stað í víðerni náttúrunnar styrkir óbeint viljann til að skapa samfélag fólks sem ber virðingu fyrir náttúrunni. Við rennum saman við víðáttuna og verðum eitt með henni, hugur og líkami verða einasta eitt og fyllast aðdáun og væntumþykju. Í slíkri uppljómun finnum við fyrir hinu óræða og ósegjanlega.

Komandi kynslóð getur ekki öðlast þá friðsemd sem til þarf nema hafa tækifæri til að dvelja í óbyggðri náttúru og öðlast ótruflaða reynslu. Lífríkið og vistkerfið á skilið ótakmarkaða lotningu og vináttu mannverunnar.

Opnið hugann! Lokið augum og eyrum og nemið óminn.

Textinn var fluttur í þættinum Uppástand á Rás 1 þann 1. júlí 2022 og má hlýða á hér: Vinátta. Einnig níu aðrar hugleiðingar um vináttu.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni