Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Skattarnir eru hinn "íslenski Talíbani"

Skattarnir eru hinn "íslenski Talíbani"

Ef eitthvað virkar í stjórnmálum þá er það hræðsla. Þetta veit Sjálfstæðisflokkurinn. Þetta vita líka þeir sem reka Morgunblaðið og þeir sem standa að Samtökum skattgreiðenda, sem auglýsa sig sem ,,grasrótarsamtök“ þeirra sem berjast fyrir lækkun skatta, betri ráðstöfun á almannafé, að rödd skattgreiðenda heyrist og að ,,endurvekja vitund almennings um að vöxtur hins opinbera er ekki óhjákvæmilegur", eins og segir á heimasíðu samtakanna.

Formaður þessara samtaka er Skafti Harðarson, sami Skafti sem á sínum tíma var einn af lykilmönnum í því að kæra kosningar til stjórnlagaþings og sem síðar voru ógilta af Hæstarétti. En það er önnur saga.

Nú fyrir þessar kosningar glumdu auglýsingar í fjölmiðlum frá þessum samtökum þar sem almenningur var varaður við skattahækkunum. Á síðum Morgunblaðsins var nánast daglegur áróður gegn skattahækkunum og á kjördag voru skattahækkanir á forsíðu blaðsins, sem og á innsíðum þess. Á youtube voru auglýsingar þar sem fólk var varað við skattahækkunum, þar sem Katrínu Jakobsdóttur var stillt upp eins og ,,vondu skattagrýlunni“ – sem aðeins hugsar um það eitt hvernig hún getur hækkað skatta á fólki. Sjálf sagði hún í kosningabaráttunni að hún hygðist ekki hækka skatta. En það skiptir engu máli hjá aðilum sem eru greinlega í heilögu stríði gegn sköttum.

Þær eru ýmsar ógninarnar sem þjóðir heimsins standa frammi fyrir. Sumar þjóðir standa andspænis hryðjuverkaógn á borð við Talíbana eða ,,íslamskt ríki.“ Einu sinni glímdu líka Evrópuþjóðir við samtök á borð við Baader Meinhof (Þýskaland), IRA (Írland) og ETA, aðskilnaðarsamtök Baska hrelldu Spánverja.

Á Íslandi eru það hinsvegar skattarnir sem virðast virka best til þess að hræða fólk upp úr skónum. ,,Skattmann“ er vondi kallinn! Hinn ,,íslenski talíbani“ virðist því vera einhver sem læðist í skjóli nætur og tekur peninga úr veskinu þínu.

Hvað er hræðilegra en að borga til samfélagsins – fyrir t.d. menntun, heilsugæslu og öldrunarþjónustu?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu