Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Það er fullkomnað - H&M

Það er fullkomnað - H&M

Það eru nokkur ártöl sem vert er að halda til haga í íslenskri sögu:

870 eða um það bil: Landnám.

930: Stofnun Alþingis.

1262: Íslendingar klúðra sjálfstæðinu – Gamli sáttmáli tekur gildi.

1380: Ísland lendir undir Dönum eftir lát Hákons VI Noregskonungs.

1550: Siðaskipti, kaþólskunni hent út á hafsauga.

1783: Móðuharðindi hefjast.

1845: Alþingi endurreist.

1854: Verslunarfrelsi innleitt.

1918: Fullveldi frá Dönum.

1944: Sjálfstæði lýst yfir frá Dönum.

1975: Bretar sigraðir í Þorskastríði um 200 mílna lögsögu.

1995: EES-samningurinn tekur gildi.

2008: Ísland fer næstum á hausinn í einu mesta bankahruni heimssögunnar.

2017: H&M kemur til Íslands.

Þetta síðasta er náttúrulega það merkilegasta, enda hefur það verið langþráður draumur margra (kvenna?) að fá þessa blessuðu búð hingað upp á sker. Spurningin er hinsvegar hvort glansinn sé nú ekki farinn af því að fara til útlanda?

Því margir, mjööög margir tóku maaarga rúnta í HM-búðum í viðkomulöndum sínum. Nú þarf þess ekki lengur  - eða hvað?

H&M-gengið tók dansandi á móti neyslusjúkum Íslendingum þegar hlið þessa ,,fatahimnaríkis“ voru opnuð, bæði í Kringlu og Smáralind. Og það hefur verið skjálfti á markaðnum í aðdraganda þessa risa, sem er með um 4500 búðir á heimsvísu og um 130.000 starfsmenn. En samkvæmt fjölmiðlum er keppinautarnir keikir og margir virðast bara hafa brett upp ermarnar, kannski að hætti víkinga. Nú er að duga eða drepast...eða hvað?

Það var hinsvegar svolítið minnisstætt viðtalið við ungu stúlkuna sem var stödd með móður sinni í H&M og fréttakonan spurði stúlkuna hvað hún ætlaði nú að kaupa sér í búðinni: ,,Veit það ekki, sennilega ekkert,“ sagði stúlkan og bætti við; ,,Mig vantar ekki neitt.“

Er ekki hér einmitt kjarni vandans kominn? Marga vantar einmitt ekki neitt.

Það sem þarf að gera er hinsvegar að skipta gæðunum með réttlátum hætti, þannig að þeir sem eiga ekki neitt, fái líka eitthvað. Það er nefnilega til þannig hópur á Íslandi árið 2017.

Árið sem H&M-draumurinn rættist. Og Ísland breyttist – kannski að eilífu?

Endar þá kannski bara Íslandssagan hér? Er það fullkomnað?

 (Ljósmynd: GHÁ)

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu