Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Kæri Xi Jing Ping - getur þú reddað þessu?

Kæri Xi Jing Ping - getur þú reddað þessu?

Kæri Xi Jing Ping.

 

Íslenskur landbúnaður er í djúpum skít, sérstaklega þeir sem eru að rækta rollur.

Veit ekki hvort þú veist það en allt frá því að við (Norðmennirnir) komum hingað til Íslands á níundu öld hafa rollur vafrað um landið.

Við höfum þetta þannig að þeim er s.s. sleppt lausum og síðan á haustin smölum við þeim saman, drepum ákveðinn hluta þeirra og setjum restina á hús.

Okkur finnst lambakjötið okkar það besta í heimi, en það er líka alveg ógeðslega dýrt.

Á hverju ári setjum við um 12-15milljarða af skattfé í landbúnaðarkerfið, sem gerir kerfið eitt dýrasta landbúnaðarkerfi heims. Okkur er alveg sama um það, því það er mikilvægara að hafa rollur ráfandi í hverjum dal en nokkuð annað.

Nú er hinsvegar svo komið að sauðfjárbúskapur á Íslandi er á vonarvöl og eru nokkrar ástæður fyrir því; þessi skrambans króna er t.d. allt of sterk. Svo vilja neytendur miklu frekar kjúlla en lamb og það bara skil ég ekki.

Einnig langar mig að nefna það að við hér á Íslandi höfum ekki haft neina byggðastefnu sem heitið getur og við bændur vorum líka alfarið á móti mögulegri aðild að ESB, en þar hefðum við fengið aðgang að ítarlegum byggðaáætlunum ESB. Við vildum það ekki, eða kannski var það pínu þannig að forystan sagði okkur að vilja það ekki.

Okkur var líka sagt að ESB myndi rústa landbúnaðinum, en mér sýnist hinsvegar bara að við séum að gera það sjálf. Og séum bara nokkuð góð í því.

En málið er þetta: Ég var að spá í hvort þið Kínverjar væruð til í að kaupa af okkur bara allt lambakjötið og bjarga okkur þannig fyrir horn ? Þið og Össur gerðuð jú fríverslunarsamning á sínum tíma. Við kaupum alveg helling af dóti sem þið gerið, í gegnum Alibaba.com og allt. Mér er líka nokk sama hvað þið gerið við kjötið.Við verðum bara að losna við þetta kjötfjall! Þið gætuð kannski gefið smá áfram til Grikklands, þeir elska lambakjöt, er það ekki? Grilla það, smá feta-ostur, plús ólívur og málið er dautt!

Þessi sauðfjárrækt hérna er bara vandamál. Flestir sauðfjárbændur lifa ekki af því að rækta rollur og laun þeirra eru ömurleg, enda flestir sauðfjárbændur í tveimur vinnum. Ef ég hefði ekki aðra vinnu, þá veit ég ekki hvað ég myndi gera. En mig langar ekki að hætta með rollurnar mínar, mér þykir svo vænt um þær – en þetta er mjög erfitt. Römm er sú taug! Svo væri kannski líka miklu betra að vera með stærra bú og að sauðfjárbændur væru miklu færri, en það er eins og megi ekki ræða það. Að það verði að vera rollur í hverjum einasta dal á þessu landi!

Kæri Ping. Það væri frábært ef þú gætir hjálpað okkur og við erum alveg til í að hjálpa til við að kenna öllum í Kína að grilla lambakjöt eða gera kjöt í karrí. Það er frábært með hrísgrjónum.

Kær kveða, Jón á Hóli, sauðfjárbóndi á sultarmörkum.

(Mynd: Skjáskot frá Bændablaðinu, þar sem sauðkindin horfir fram í óvissuna)

Ps. Til að fyrirbyggja misskilning þá er "Jón á Hóli" skáldskapur höfundar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu