Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Lúkasjenkó þaulsetinn á valdastólnum

Lúkasjenkó þaulsetinn á valdastólnum

Þess hefur verið minnst að undanförnu að 30 ár eru liðin frá falli Berlínarmúrsins, eða hins ,,and-fasíska-veggs“ sem Austur-þýsk yfirvöld hófu að reisa í miðjum ágústmánuði árið 1961. Þar með reis ein helsta táknmynd kúgunar í Evrópu eftir seinna stríð.

Tveimur árum síðar, á jóladag 1991 var svo fáni Sovétríkjanna dreginn niður í virkinu í Moskvu (Kreml) og þar með leystist annað helsta heimsveldi heims upp í frumeindir sínar.

Þar með urðu öll fimmtán lýðveldi fyrrum Sovétríkjanna frjáls ríki. En eitt er það ríki þar sem ,,gamla sovétið“ lifir enn og vel; ófrelsið, kúgunin, einræðið og mannréttindabrotin dafna þar. Landið er Hvíta-Rússland, með um 9,5 milljónir íbúa.

Yfirmaður á samyrkjubúi

Þar hefur fyrrum yfirmanni samyrkjubús tekist að halda heilli þjóð í helgreipum undanfarna áratugi og ekki sem stefnir í annað en að svo verði raunin áfram. Um er að ræða Alexander Lúkasnjénkó, síðasta einræðisherra Evrópu.

Hvíta-Rússland liggur á milli Úkraínu, Póllands og Eystrsaltstríkjanna þriggja, sem ásamt Póllandi gengu í Evrópusambandið árið 2004. Þá eru öll þessi ríki, nema Úkraína, í NATO, en Úkraína hefur frá 2014 átt í stríði við Rússland í austurhluta landsins, þar sem aðskilnaðarsinnar ráða í raun stórum svæðum, því sem kallast Donbas.

Í austrinu er svo Rússland, stóri ,,bangsinn“ en Hvíta-Rússland, Rússland og fleiri fyrrum ríki Sovétríkjanna hafa með sér efnahagssamstarf sem kallast  ,,Samband sjálfstæðra ríkja“ (CIS). Á milli Rússlands og Hvíta-Rússlands hefur verið mikil efnahagssamvinna frá falli Sovétríkjanna og hafa Rússar keypt stóran hluta af útflutningi nágranna síns. Samkæmt hvít-rússneskum tölum eru nánast ekkert atvinnuleysi í landinu, rétt eins og var í gamla Sovétinu. Þær verður að sjálfsögðu að taka með miklum fyrirvara.

KGB lifir

Í Hvíta-Rússlandi lifir gamla ,,ríkisörygginefndin“ enn góðu lífi, en orðið er gróf þýðing á skammstöfuninni KGB, sem á sínum ,,velmektarárum“ var ein alræmdasta öryggis og leyniþjónusta heims. Starfsmenn hennar í Sovétríkjunum handtóku og fangelsuðu lýðræðissinna, mannréttindafrömuði og aðra stjórnarandstæðinga. Í dag gera starfsmenn hennar í Hvíta-Rússlandi slíkt hið saman.

Hvíta-Rússland er eina ríkið í Evrópu sem framkvæmir dauðarefsingar og nokkrar slíkar hafa farið fram á síðustu árum. Bæði í skýrslum frá Amnesty International og Human Rights Watch kemur fram að stjórnvöld (KGB, OMON-sveitir Innanríkisráðueytisins) berja niður allar tilraunir til friðsamlegra mótmæla, unnið er kerfisbundið að því að takmarka tjáningarfrelsi, frelsi fjölmiðla (um 100 blaðamenn handteknir árin 2017/18) og starfsemi frjálsra félagasamtaka eru settar miklar skorður. Nánast engir frjálsir fjölmiðlar starfa með eðlilegum hætti í landinu og einokar ríkisvaldið fjölmiðlamarkaðinn.

Valdalaust þing

Þetta eru þær helstu aðferðir sem Lúkasjénkó beitir til að halda völdum. Fyrir skömmu voru haldnar ,,kosningar“ í landinu og niðurstaðan úr þeim varð að enginn fulltrúi stjórnarandstöðunnar náði kosningu til þings, enda hafði nánast öllum verið gert ókleift að bjóða sig fram. Þeim tveimur sem náðu kosningu í kosningunum 2016 var bannað að bjóða sig fram. Þingið, sem hefur 174 fulltrúa, er almennt talið næsta valdalítið, valdið er hjá Lúkasjénkó, sem er því umkringdur eintómum jábræðrum.  ,,Það er allt ákveðið fyrirfram og það er ómögulegt að ná fram breytingum í gegnum kosningar, yfirvöld ákveða allt saman“ sagði Nikolai Statkevich, einn helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar í samtali við Reuters-fréttastofuna. Þrátt fyrir allt þetta hafa samskipti Hvíta-Rússlands og frjálsra ríkja í vestri heldur verið að batna, sem hljómar undarlega.

Allar kosningar frá árinu 1995 í landinu hafa fengið falleinkunn frá erlendum eftirlitsstofnunum. Í nýrri bráðabirgðaskýrslu frá Öryggis og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) kemur fram að kosningarnar nú í nóvember stóðust engan veginn þær kröfur sem gerðar eru til frjálsra og lýðræðislegra kosninga.

Getur setið til dauðadags

Lúkasjénkó hefur heitið því að bjóða sig aftur fram til forseta á næsta ári og mun hann þá væntanlega framlengja þaulsetu sína á valdastóli um fimm ár. Hann er fæddur árið 1954 og var aðeins fertugur þegar hann var kosinn fyrst til forseta Hvíta-Rússlands árið 1994, þegar embættið var stofnað í kjölfar upplausnar Sovétríkjanna.

Stjórnaskrá landsins var breytt árið 2012 þannig að Lúkasjénkó getur verið forseti fram til dauðadags. Þetta er nokkuð sem helstu alræðis og einræðisseggir heims hafa gert á undanförnum árum, til að tryggja sér enn meiri völd.

Lúkasjénkó er 65 ára í dag og allt útlit er fyrir að þessi síðasti einræðisherra Evrópu sé alls ekkert á förum úr valdastóli sínum, þar sem hann situr í skjóli kúgunar og mannréttindabrota.

Höfundur er MA í stjórnmálum A-Evrópu frá Uppsalaháskólanum í Svíþjóð.

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu