Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Siðferðiskennd hins íslenska viðskiptalífs

Siðferðiskennd hins íslenska viðskiptalífs

Það hafa komið upp fjölmörg mál tengd viðskiptalífinu á þessu kjörtímabili.

Við höfum fengið fregnir af kennitöluflakki, skattaundanskotum, kjarasamningsbrotum og lélegum aðbúnaði á vinnustöðum sem eru nánast hefðbundnar fréttir sem lesnar eru upp samhliða frétti af slætti á Suðurlandi.

Við höfum fengið fregnir af gríðarlegum skattsvikum ferðaþjónustuaðila, þrælahaldi, mansali og svindli á launafólki.

Við höfum fengið fregnir af ljótu framferði verktaka gagnvart réttindum launafólks, nágrönnum byggingarsvæða og íbúum sem eru svo óheppnir að verktakar og fasteignafélög reyna að bola þeim úr húsi.

Við höfum fengið fregnir af lögmönnum sem nota handrukkara og færa fyrirtæki yfir á dæmda glæpamenn og barnaníðinga svo einhverjir geti haldið „mannorði“ sínu með kennitöluflakki eða sloppið undan ábyrgð á eigin athöfnum.

Við höfum fengið fregnir af svívirðilegar arðgreiðslum tryggingafyrirtækjana meðan viðskiptavinum er tilkynnt að það þurfi að hækka gjöldin þeirra vegna taps.

Við höfum fengið fregnir af vægast sagt óhóflegum launahækkunum til stjórna og stjórnenda fyrirtækja sem kallaðar eru „leiðréttingar vegna Hrunsins“ meðan launafólk er sagt vera að heimta of há laun í landi þar sem laun ná ekki framfærsluviðmiðum.

Við höfum fengið fregnir af því að álrisar svindli á skattkerfinu með bókhaldsbrellum sem færi þeim milljarða út úr landi.

Við höfum fengið fregnir af því að útgerðir sem gráta út lækkun veiðigjalda greiða svo næst út himinháan arð á hverju ári eftir það langtumfram forsendur grátkórsins.

Við höfum fengið fregnir af því að útgerðin kippir kvóta á brott eða selur frá stöðum þannig að atvinna hverfur, húsnæðisverð hrynur og óvissa er um framtíð heilu samfélagana, nú síðast í Þorlákshöfn.

Við höfum fengið fregnir af sviminháum 2007-legum bónusum til „lykilstarfsmanna“ hjá þrotabúum fyrrum Straums Burðarás, Kaupþings o.fl. aðila tengdum fjármálageiranum.

Við höfum fengið fregnir af sölu Arion-banka á hlutabréfum í Símanum til „vildarviðskiptavina“. sölu Landsbankans á eignarhlut í Borgun fyrir spottprís og við höfum fengið fregnir af helgarútsölu á Reitum áður en nokkur vissi hvað var í gangi.

Við höfum fengið fregnir af stjórnmálamönnum sem tengjast bissness, fyrirtækjum og athafnamönnum sem notast við aflandsfélög til skattaundanskota, feluleikja með eignarhluti og aðra hefðbundna viðskiptahætti hins íslenska viðskiptalífs.

Og við höfum fengið fregnir um að þingmenn hafi talað um þetta, viðskiptalífið harmi þetta og að verkferlum verði breytt.

Eða með öðrum orðum.

Við erum bullsjittuð til friðs þar til næsta mál kemur upp.

Ekkert gerist þess á milli til að breyta þessu

Sérstaklega af hálfu þess aðila sem hefur öll tól og tæki til að grípa í taumanna með lagasetningum.

Svokallað alþingi.

Þar heldur fólk að sér höndum og gerir ekki neitt í málunum.

Ólíkt því þegar launafólk fer út í réttmæta kjarabaráttu.

Þá eru sett lög á skrílinn og hefðbundnir hægrimenn hella úr hlandkoppi viðskiptalífsins yfir þá sem dirfast að sækja sér kauphækkun.

Ef það kemur svo eitthvað upp sem stoppar stórburgeisana og stóriðjurisana í framkvæmdum þá rjúka þingmenn upp í óðagoti og t.d. byrja að tala um að það þurfi að breyta náttúruverndarlögum strax svo framkvæmdir geti haldið áfram.

Nú eða framkvæma lagabreytingar í hraði sem tryggðu að Kaupþingstoppar sluppu nánast daginn eftir út af Kvíabryggju.

En þegar kemur að fjölmörgum „stóru málunum“ sem nefnd voru hér að ofan þá situr alþingi rólegt og bíður af sér storminn.

Í von um að það dugi sem ábreiða að höfða til siðferðiskenndar hjá viðskiptalífinu sem má ekki setja neinar reglur um.

Það hefur nefnilega virkað svooooo vel hingað til að fá það til að sýna sómakennd og iðrast gjörða sinna þegar kemur að siðlausri græðgi.

Verst að þingmenn líta margir hverjir viljandi framhjá því að viðskiptalífið hefur ekki siðferðiskennd eða sómakennd.

Það er nefnilega ekki manneskja frekar en fyrirtæki.

Aðeins sálarlaus vél sem gengur fyrir græðgi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu