Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Kappræður Stöðvar 2: Opið bréf til Andra, Guðna og Höllu

Kappræður Stöðvar 2: Opið bréf til Andra, Guðna og Höllu

Samkvæmt fréttum Stöðvar 2 þá munu 365 miðlar bjóða okkur upp á kappræður með lýðræðishalla næstkomandi fimmtudag. Fyrirkomulagið á kappræðunum mun byggja á því að aðeins þeir sem ná tilsettu lágmarki í skoðanakönnun sem fjölmiðlafyrirtækið stendur fyrir, munu fá að taka þátt.

Í ljósi þess að þetta mun vera hannað með þá hugsun að aðeins ákveðnir forsetaframbjóðendur fái að taka þátt í kappræðunum þá ákvað ég að senda þeim þremur sem líklegust eru til að etja kappi ásamt Davíð Oddsyni, opið bréf:

"Ágætu Andri, Guðni og Halla,

nú hafa 365 miðlar gefið út að það fjölmiðlafyrirtæki ætli sér að mismuna forsetaframbjóðendum enn eina ferðina í fjölmiðlaumfjöllun sinni.

Til upprifjunar þá var svo árið 2012 að Stöð 2 ætlaði sér að hafa svona amerískar kappræður þar sem eingöngu yrðu upp á sviði Ólafur Ragnar Grímsson og Þóra Árnadóttir en aðrir frambjóðendur áttu bara að éta það sem úti frysi. Þetta olli óánægju meðal bæði frambjóðenda og kjósenda en Stöð 2 gaf sig ekki fyrr en Þóra ákvað að standa með þeim frambjóðendum sem Stöð 2 hafði ákveðið að lítilsvirða. Þá bauð Stöð 2 öllum frambjóðendum en hagaði hlutum þannig að það áttu eingöngu tveir að vera á sviðinu í stafrófsferð sem svo merkilega vildi til að Ólafur Ragnar og Þóra hefðu þá staðið ein í kappræðum líkt og Stöð 2 ætlaði sér í upphafi. Þetta fór þannig að nær allir frambjóðendur yfirgáfu sviðið eftir lestur yfirlýsingar og sjónvarpsstjóri Stöðvar 2 hellti sér yfir þau fyrir að hafa eyðilagt „sjóvið“ sitt en hann baðst reyndar síðar afsökunar á hegðun sinni.

Nú á að fara að leika sama leik aftur undir því yfirskyni að þeir frambjóðendur sem ná ekki tilskyldu lágmarki í skoðanakönnun sem 365 miðlar standa sjálfir að, verði þeir einu sem fái að taka þátt í kappræðum. Hinir „óæskilegu“ frambjóðendur sem nái ekki lágmarkinu munu víst fá „tækifæri“ til smákynningar sem er einfaldlega alls ekki sambærilegt á við það að standa jafnfætis ykkur upp á sviði í beinni útsendingu þar sem hægt er að bregðast við orðum eða sýna kjósendum á sama tíma hvað í hverjum frambjóðenda býr. Þessir „óæskilegu“ frambjóðendur að mati Stöðvar 2 hefur víst heldur ekki verið boðið né verður örugglega ekki boðið til að taka þátt í umræðum ykkar þriggja og Davíðs Oddsonar í Eyjunni næstkomandi sunnudag heldur verða þau látin vera fyrir utan það sviðsljós.

Viðmið 365 miðla miðast við niðurstöðu skoðanakönnunar á þeirra eigin vegum án tillits til vikmarka og byggja á furðulegu viðmiði þ.e. 2,5% markinu sem er notað til að ákvarða hvort stjórnmálaflokkar fái greitt upp í kostnað þess að fara í framboð. Þetta er furðulegt viðmið, sérstaklega í ljósi þess að frambjóðendur fara fram sem einstaklingar en eru ekki stjórnmálaflokkar sem eru að kljást í kerfi þar sem misvægi atkvæða getur skilað fólki á þing sem hefur fengið færri atkvæði heldur en flokkur sem nær ekki manni inn í öðru kjördæmi.

Miðað við skoðanakannanir þá eruð þið líklegast til þess að vera þau þrjú sem ásamt Davíð Oddsyni eigið að etja kappi í amerískri kappræðramenningu sem 365 miðlar vilja koma hér á. Komandi kappræður eru fyrst og fremst fjölmiðlasirkus þar sem lýðræðishalli verður gagnvart þeim frambjóðendum sem 365 miðlar telja vera óæskilega þáttakendur í forsetakosningum nú sem og árið 2012 sem forsvarsmenn fjölmðlafyrirtækisins hefðu átt að læra af.

Mig langar því að skora á ykkur að láta ekki nota ykkur svona í kappræðusjóv þar sem verið er að mismuna frambjóðendum heldur að þið farið fram á það að aðrir frambjóðendur fái að vera jafnfætis ykkur og njóti þess jafnræðis sem fjölmiðlar eiga að sýna þegar kemur að kosningaumfjöllun. Ég skora líka á ykkur að mæta ekki í þessar kappræður Stöðvar 2 né í Eyjuna nema hinir 5 frambjóðendurnir fái líka að standa með ykkur. Ég höfða sérstaklega til þess að þið lítið til eigin baráttumála og orða um réttlæti, heiðarleika, jafnrétti og þess að allir eigi að hafa sömu tækifærin í okkar samfélagi þegar kemur t.d. að lýðræðinu. Ég skora því á ykkur að láta ekki nota ykkur í fjölmiðlasirkus 365 miðla sem mismunar fólki og grefur um leið undan lýðræðislegri umfjöllun með svona misbeitingu fjölmiðlavaldsins. Ég vonast því til þess að þið sýnið kröftuga andstöðu við þetta fyrirkomulag því það sýnir okkur kjósendum það einnig að þið berið virðingu fyrir lýðræðislega rétti mótframbjóðenda ykkar til að standa jafnfætis ykkur þegar kemur að tjáningu og kynningu í fjölmiðlum. Ég vonast til þess að þið sýnið lýðræðislegum rétti okkar kjósenda einnig þá virðingu að leggja ykkar á plóginn til að tryggja að við fáum að dæma alla frambjóðendur á sama tíma en ekki eingöngu þá sem 365 miðlar telja þóknanlegt að etja saman í sirkus Stöðvar 2.

Með einlægri von um að þið breytið rétt enda mun það hjálpa okkur kjósendum einnig til að kjósa rétt,

 Agnar Kristján Þorsteinsson"

Vonandi mun þetta tryggja að öll níu munu standa jafnfætis á sviði 365 miðla hvort sem það er næsta fimmtudag, í Eyjunni og komandi þáttum sama hvað okkur finnst hverju og einu um hvert þeirra sem frambjóðendur.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu