Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Blekkingin um haustkosningar

Blekkingin um haustkosningar

Hin „nýja“ ríkisstjórn Sigmundar Davíðs og Bjarna Ben hefur boðað að stefnt verði að kosningum í haust.

Takið eftir, stefnt að.

Orðalagið skiptir máli nefnilega.

Þetta útspil stjórnarinnar er nefnilega biðleikur fyrir stjórnarflokkana í von um að þetta dugi til að fá frið til að sleikja rjómann af með vinum og vandamönnum, viðhalda völdum og vopna sig að nýju.

Útspilið er svo skilyrt við það að ríkisstjórnin fái öllum sínum málum framgengt líkt og mátti skilja á Bjarna Ben sem vildi ekki nefna dagsetningu.

Kjarninn segir svo að kosningar séu hugsanlegar í október eða nóvember þegar farið er að vetra.

En maður er eiginelga fullviss um að þessar kosningar verða ekki.

Fyrir því eru nokkrar ástæður.

Fyrir það fyrsta þá erum við að tala um fólk sem hefur orðið margvíst að óheilindum, lygum og svikum. Maður bendir þá sérstaklega á þá forkólfa Sigmund og Bjarna sem hafa báðir verið ítrekað staðnir að slíkum óheiðarleika að það er stórfurðulegt að nokkur maður trúi orði sem þeir segja.

Í annan stað þá hefur þetta fólk allt svikið hið stóra kosningaloforð um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna ESB-mála sem það gaf fyrir kosningar og sýndi að það vill helst ekki hleypa kjósendum að kjörkössum.

Í þriðja stað þá hefur allt þetta fólk sýnt fyrirlitningu á lýðræðinu með því að vanvirða og neita að fara eftir niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá heldur reynt hvað það er til að eyðileggja og koma í veg fyrir lýðræðisumbætur sem hin nýja stjórnarskrá inniheldur.

Í fjórða stað þá þurfa fjárlög að vera tilbúin í september samkvæmt því sem Margrét Tryggvadóttir, fyrrum þingmaður segir, og þarf lagabreytingu til ef þau verða lög fram síðar. Slík lagabreyting verður aldrei gerð af núverandi stjórnvöldum sem munu gera hvað sem er til að leggja steina í götu nýrrar stjórnar í hefndarskyni fyrir að hafa „rænt völdunum“. Þetta mun því þýða að núverandi stjórn mun móta fjárlögin og þá stefnu sem lögð verður fram í henni og ef kosningar færu t.d. fram í október/nóvember þá er nokkuð ljóst að ný stjórn sæti upp með margar áherslur, niðurskurði og annað slíkt í fjárlögum núverandi stjórnar. Slík fjárlög yrðu líka notuð sem tylliástæða fyrir því að fresta kosningum þar sem „ríkisstjórnin þarf að fylgja fjármálum sínum eftir“.

Í fimmta lagi þá var Bjarni Ben að leggja upp afsökun fyrir því að slá af haustkosningar með því að skilyrða þær við framgang „mikilvægra mála“ ríkisstjórnarinnar sem er varla hægt að segja að enginn annar geti ekki framkvæmt eða útfært. Gjaldeyrishaftalosun er tilbúin sem áætlun, húsnæðisfrumvörp Eyglóar nást ekki i gegn vegna andstöðu Sjálfstæðisflokksins við að bæta húsnæðisstöðu verr setts fólks í þjóðfélaginu(hliðarafleiðing af því gæti reyndar orðið uppsögn kjarasamninga) og það liggur hreinlega ekkert á mörgum málum enda hefur ríkisstjórnin lagt fram fá mál á þessu þingi og dregið lappirnar í öðrum. Svo efast ég um að mörgum hugnist frumvarpið sem hækkar kostnað þeirra sem þurfa að leita til læknis.

Af þessum sökum líst manni þannig á að orð leppstjórnar Bjarna Ben og Sigmundar Davíðs um ótímasettar kosningar i haust(helst sumarkosningar vegna fjárlaga), séu ekkert annað en blekkingaleikur og tilraun til að friða fólk í von um að geta haldið völdunum fram á næsta vor. Það er því betra að rjúfa þing og boða til kosninga sem fyrst heldur en að treysta orðu svikulla, óheiðarlegra lygara sem bera enga virðingu fyrir lýðræði, sannleika og almenningi.

Auk þess myndi kosningar á næstunni eða í sumar hafa ákveðinn kost.

Það er nefnilega enn í gildi ákvæði um að breyta stjórnarskrá án þess að það þurfi að rjúfa þing.

Slíkt gæti ný lýðræðissinnuð ríkisstjórn nýtt til að koma á nýrri stjórnarskrá með samfélagsumbótum, tryggðu eignarhaldi þjóðarinnar á auðlindum o.fl. sem almenningur hefur kallað eftir  og það án þess að hafa stutt þing.

Þetta vita Simmi, Bjarni og bakhjarlar þeirra.

Og óttast.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu