Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Flækjusagan

Hvað furðufólk bjó í Indusdal?

Illugi Jökulsson furðar sig á hinni furðulegu menningu sem reis í Indusdal fyrir 5.000 árum. Þar voru hvorki prestar né hermenn né misrétti en samt var þar allt með friði og spekt í 2.000 ár. Svo leið menningin undir lok og gleymdist gjörsamlega.

Mohenjo daro Borgin fannst á kafi í sandi. Mynd:

Ég veit ekkert hvað hún hét. Ég veit ekki einu sinni hvernig nafnið hennar gæti hafa hljómað því ég hef ekki minnstu hugmynd um hvernig tungumál hún talaði eða úr hvaða hljóðum það var gert. Ég ætla því að nefna hana Sjanijana alveg út í loftið, nafnið var eiginlega valið af tölvunni minni, en hún gæti eins hafa heitið Huaqaqweqwa eða Sigríður. Eða eitthvað allt, allt annað. Ég veit heldur ekkert um hana eða ævi hennar, hún hefur verið kölluð „dansstúlkan frá Mehenjó Daró“ en hvort Sjanijana var í rauninni dansari, það veit ég ekki frekar en aðrir. Kannski var hún boxari, því gætu það ekki verið boxhanskar sem hún er með á höndunum og gætu hringirnir á handleggjunum ekki verið eins konar hlífar frekar en eintómt skraut?

Það eina sem við vitum með vissu er að hún var augsýnilega afar glæsileg, það skín af henni þótt liðin séu 4.500 ár síðan hún dó, hún bar höfuðið hátt, hún Sjanijana, já, stolt, jafnvel þóttafull. Andlitsdrættir hennar virðast í fljótu bragði afrískir en þurfa samt ekkert að vera það. Hún fannst að minnsta kosti í tæplega 5.000 kílómetra fjarlægð frá Afríkuströndum og á dögum Sjanijana fóru menn ekki í slíkar langferðir svo það er útilokað annað en hún hafi verið upprunnin þar sem hún fannst í rústunum í Mohenjó Daró.

Dansandi stúlkanLítil stytta úr fortíðinni frá Mohenjo Daro.

Hún er stytta, tíu og hálfur sentímetri á hæð. Ein af sárafáum mannsmyndum sem við eigum til að gera okkur grein fyrir einhverju dularfyllsta fyrirbæri sögunnar.

Hinni týndu menningu í Indusdal.

Upp úr miðri 19. öld réðu Bretar Indlandi. Þá var Indusdalurinn, sem nú tilheyrir Pakistan, hluti Indlands. Og í dalnum fóru Bretar að leggja járnbrautir. Á fáeinum stöðum fundust í grennd við járnbrautirnar haugar af múrsteinum grafnir í jörðu og höfðu bersýnilega tilheyrt einhverjum mannvirkjum. Múrsteinarnir þóttu heppileg undirstaða fyrir járnbrautarteina og á einum stað var heil borg, sem fannst á kafi í sandi, rifin sundur og sett undir teina. Annars staðar var minna hirt en einhvern veginn vöktu þessir múrsteinafundir enga sérstaka athygli þá. Það var nóg af tilkomumiklum rústum á Indlandi og þessar frekar einföldu múrsteinabyggingar virtust satt að segja ekki ýkja merkilegar. Allir þekktu þá orðið sögu Indlandsskagans. Þar höfðu búið afar frumstæðar þjóðir þangað til rúmlega 1000 fyrir Krist þegar Aríar svokallaðir komu ríðandi yfir fjöllin frá Afganistan og hreiðruðu um sig á skaganum, þeir byggðu borgir og ríki, hjuggu og brenndu skóga, börðust hver við annan með járnsverðum, héldu nautgripi og ræktuðu jörðina, og um árið 500 fyrir Krist var þar loksins risin menning sambærileg við það sem þá hafði þekkst í þúsundir ára í Mesópótamíu, Egiftalandi og nokkru seinna Kína og síðan Grikklandi og víðar. Þessar múrsteinahúgur voru ugglaust einhverjar leifar af fyrstu byggðum Aría, ekki kom annað til mála.

Og járnbrautir voru lagðar og svo rykféllu rústirnar enn í nokkra áratugi.

Það var ekki fyrr en árið 1921 sem leiðangur undir stjórn breska fornleifafræðingsins John Marshall hófst handa um skipulegar rannsóknir á einum þeirra staða þar sem múrsteinar höfðu fundist, þar heitir nú Harappa og staðurinn er mjög í grennd við uppþornaðan farveg þverár er eitt sinn féll í Indusfljótið. Og þar var á skömmum tíma grafin upp úr þurrum sandinum heil borg, fimmtán hektarar eða svo að flatarmáli, og þótt járnbrautarmenn hefðu fyrrum valdið þar miklu tjóni fór ekki milli mála að þarna voru vönduð múrsteinshús, tveggja, þriggja hæða, breiðar steinlagðar götur og menningarmerki hvarvetna. 

Fullkomnustu klósett fram á 19. öld

Og það sem vakti einna mesta athygli: Í borginni í sandinum við Harappa reyndist hafa verið eitthvert það vandaðasta holræsa- og vatnsveitukerfi sem Marshall og hinir indversku og bresku kollegar hans höfðu séð. Þar voru baðhús og í götunum voru vönduð holræsi og þá fyrst datt af fornleifafræðingunum andlitið þegar þeir uppgötvuðu vatnsklósett, fullkomnari en nokkuð það sem síðan hafði tíðkast á Indlandi, eða annars staðar í heiminum, ef út í það er farið. Það var eiginlega ekki fyrr en á 19. öld í Evrópu sem jafn flott klósett komu til sögunnar. Og enn í dag býr ekki nema brot af þjóðunum á Indlandsskaga við jafn góð klósett og menn gerðu í Harappa fyrir – ja, fyrir hvað mörgum árum?

Það var nefnilega lóðið.

Það rann um síðir upp fyrir Marshall og félögum að það sem kannski var merkilegast við fundinn í Harappa var ekki það sem þeir fundu – jafnvel ekki vatnsklósettin góðu – heldur hitt sem vantaði.

Hvar voru járnsverð Aríanna? Hvar voru ummerki um eldsdýrkun þeirra? Hvar voru nautahjarðir þeirra? Hvar voru líkneski eða tilvísanir til stórskornu guða frum-Aríanna: þrumuguðsins Indra, eldguðsins Agni, vatnsguðsins Varúna, og svo framvegis? Hvar voru merki um hina niðurnjörfuðu stéttaskiptingu Aríanna? Hvar voru bústaðir og hof hinnar þróttmiklu prestastéttar Aría, brahmanna? Og það sem mikilvægast var af öllu: Hvar voru hross Aríanna? Hvar voru stríðsvagnar þeirra, beislin, hnakkarnir, því Aríarnir voru jú rómaðir hestamenn? En það fannst ekki svo mikið sem leggur af gömlum jálk í Harappa.

Að lokum horfðust Marshall og félagar í augu við þá staðeynd sem orðin var augljós: Borgin í Harappa tilheyrði hvorki frum-Aríum né nokkurri annarri menningu sem þekkt var í Indusdalnum eða á Indlandi yfirleitt. Það sem meira var – þessi menning hafði greinilega þrifist þar í dalnum áður en Aríarnir komu ofan úr fjöllunum í norðvestri.

Löngu áður.

Ótrúlegir fundir í sandinum

Nú hófst uppgröftur í Indusdal fyrir alvöru. Sjö hundruð kílómetrum sunnar og vestar og við Indusfljótið sjálft fannst önnur stór borg og þar var Mohenjó Daró komin. Og í sandinum þar fannst skrautmunurinn fagri sem ég byrjaði á að fjalla um, litla styttan af stúlkunni Sjanijana hvort sem hún er dansari eða boxari eða bara eitthvað allt annað.

Og hvað sem hún hét í raun og veru.

Þegar menn voru búnir að grafa upp Harappa og Mohenjó Daró og tugi annarra staða af sama tagi sem komu í ljós þegar farið var að leita í alvöru, þá stóðu menn frammi fyrir því að meira en 2.000 árum áður en Aríar birtust í Indusdalnum, og upphófu þar siðmenningu að því er menn höfðu talið, þá hafði bersýnilega verið þar við lýði háþróuð borgamenning af einhverju því tagi sem enginn hafði haft minnstu hugmynd um áður. Í bæði Harappa og Mohenjó Daró höfðu búið 20.-40.000 manns sem þýðir að á mælikvarða fornaldar voru þær meðal hinna fjölmennustu í heimi. Tæknikunnátta Sjanijana og landa hennar hafði verið slík að þótt áður hefði verið talið að Indland hefði staðið menningarsvæðunum í Írak (Mesópótamíu) og Egiftalandi langt að baki, þá var nú komið á daginn að Indverjar höfðu staðið Írökum og Egiftum jafnfætis, eða jafnvel framar ef eitthvað var. Sjanijana hafði verið mótuð og brennd í leir mörg hundruð árum áður en píramídarnir miklu höfðu verið reistir í Egiftalandi.

Jahérna, sögðu menn. Þarna var þá einhver háþróaðasta menning heimsins í fornöld og enginn hafði hugmynd um fyrr en núna. Og þótt margt hafi verið grafið upp í Indusdal, þá blasa þó enn við óteljandi leyndardómar um þessar gleymdu horfnu borgir. 

Samfélag jöfnuðar án stéttaskiptingar 

Svo aðeins fáeinir séu nefndir: Hvaðan kom hún? Indusmenningin virðist hafa risið tiltölulega hratt um það bil 3.300 árum fyrir Krist – eða fyrir 5.300 árum – og tengsl við aðra hluta Indlands eru vandfundin. Hvaða fólk var þetta? Hin þóttafulla Sjanijana virkar afrísk í útliti, en karlmannshaus sem líka fannst í Mohenjó Daró virðist allt öðruvísi útlits. Hann á fátt sameiginlegt með Sjanijana – nema helst þóttasvipinn! Indusmenningin átti sér ritmál en því miður hefur ekki tekist að ráða það – svo gjörsamlega einstakt í sinni röð var það. Indusmenn virðast reyndar ekki hafa skrifað mjög mikið, áletranir sem varðveist hafa eru líklega helst innkaupalistar og innsiglisskírteini ýmiss konar, en auðvitað væri samt stórkostlegt ef tækist að ráða skriftina. En engar líkur eru á að það muni nokkru sinni takast, því þótt Indusmenningin hefði tengsl sjóleiðina við Mesópótamíu virðast tengslin ekki hafa verið svo náin að vænta megi þess að finnist áletranir bæði á Indusmálinu dularfulla og einhverri þekktri tungu Mesópótamíu.

Og hvers konar samfélag var þetta? Það er nú einn leyndardómurinn enn, og kannski sá allra mesti. Í stuttu máli hafa sem sagt ekki fundist í Indusdalnum nein merki um yfirstétt, ójöfnuð, trúarbrögð, her eða herstjóra. Þar er nánast ekkert vopna, múrar sem umlykja borgirnar hafa líklega verið reistir til að verjast vatnsflóðum en ekki óvinum og þótt um einhvers konar miðstjórn hafi greinilega verið að ræða (borgir og bæir eru til dæmis oft plönuð út frá sama skipulagi sem einhver hlýtur að hafa annast) þá finnast engin merki um valdbeitingu yfirvalda, eða að þau yfirvöld hafi hreykt sér hátt.

Menn fundu stór hús og héldu í fyrstu að þar væru komnar hallir konunga, en líklegar var þar um korngeymslur að ræða. Húsin í borgunum eru vissulega ekki alveg jafn stór og fín, en þó er ótrúlega lítill munur á stærð þeirra og fátækrahverfi hafa engin verið í Harappa eða Mohenjó Daró.

Og vatnsklósettin frægu voru í öllum húsum, hverju einu einasta.

Og prestar, ölturu, guðshús, hof, guðalíkneski, Biblíusögur – það finnast einfaldlega engin örugg merki um neitt af þessu í menningarríkinu í Indusdal. Með því að rýna fast í rykið og það sem jörðin hefur skilað upp á yfirborðið, þá hafa menn með erfiðismunum hróflað upp hugmyndum um að Indusmenn hafi trúað á einhvers konar typpastóran guð og brjóstgóða gyðju, en vel má vera að þær hugmyndir séu frekar til marks um hvað menn nútildags eigi bara erfitt með að ímynda sér að samfélag til forna hafi einfaldlega verið án trúarbragða.

Til marks um það er að karlmannshausinn í Mohenjó Daró var strax nefndur „prests-kóngurinn“ af því hann þótti valdsmannslegur að sjá, en í reynd er ekkert sem bendir til að í dalnum hafi verið prestar og hvað þá kóngar. 

Þurfti ekki á hækjum að halda?

En kannski stoltið eða þóttinn í svip „prests-kóngsins“ og hennar Sjanijana sé einmitt til marks um að þar hafi verið ánægt fólk sem treysti á sig sjálft en þurfti ekki á hækjum trúarbragða að halda.

Lokaleyndardómurinn um Indusmenninguna er svo þessi: Af hverju hvarf hún? Hún stóð í 2.000 ár og allan þann tíma virðist hafa ríkt kyrrð og friður í dalnum. Menningin reis fljótt, eins og ég sagði áðan, en síðan þróaðist hún engin ósköp, jú, svolítið efldist hún og breyttist, en ekki á neinum viðlíka hraða og nú telst eðlilegur. Og það eru engin merki um stríð eða átök – bara alls ekki! Hugsið ykkur – annars vegar nútímann með sínum mikla hraða og framþróun, stöðugum átökum, stríði, erjum og kífi. Hins vegar 2.000 ára lygna sögu þar sem allt er svona meira og minna eins, samfellan í sögunni algjör, allir tiltölulega jafnir og enginn með gikkshátt. Og allt það hátimbraða apparat sem menn hafa víðast smíðað kringum sig til að gæta eigna sinna, það virðist einfaldlega hvorki hafa verið fyrir hendi í Harappa né Mohenjó Daró.

Jahérna. Þetta er eiginlega ótrúlegt, Sjanijana!

En hvað gerðist svo? Á 200 árum – tveim eða þrem öldum áður en Aríarnir byrjuðu að streyma að – þá gufaði menningin upp. Fólkið hvarf úr borgunum miklu, þær tóku að grafast í sandinn og gleymast. Leifar borganna bera hvorki augljós merki náttúruhamfara né innrása eða innanlandsstríða né innanlandsófriðar. Á einum stað hafa fundist hauskúpur með brotin höfuð, sem sumir telja merki um að á síðasta skeiði hafi friðsemd Indusdals verið rofin, en þær hauskúpur eru aðeins 40 og miðað við að í Indusdal hefur þá búið milljón manns og kannski rúmlega það, þá hefur nú ekki heil menning fallið í valinn út af ekki meiri átökum en það.

Nei, það sem virðist hafa gengið af þessari blómlegu merkilegu menningu dauðri voru þurrkar. Eitthvað gerðist í náttúrunni. Monsúnvindarnir sem vökvuðu Indusdal frjósömu regni hurfu í áratugi, vatnsrennsli ofan úr Himalæja-fjöllum minnkaði líka, árnar hurfu eða urðu að sprænum og breyttu farvegi  sínum. Allt í einu spratt ekki stingandi strá í dalnum. 

Allir fluttu burt 

Og afkomendur hinnar stoltu Sjanijana virðast einfaldlega hafa haldið á brott frá bæjum sínum og borgum, sumir fluttust austur á bóginn í leit að jarðar gróðri og lögðust út í þéttum frumskógunum við Gangesfljót, aðrir bjuggu enn í dalnum en við miklu frumstæðari aðstæður en fyrrum, og þegar fór aftur að rigna og Aríarnir komu með eld og sverð og hest og prest, þá voru afkomendur Indusmanna búnir að gleyma borgunum háreistu, klósettunum sem hægt var að sturta niður úr, dansinum hennar Sjanijana, þeir voru búnir að gleyma hinni 2.000 ára sögu, friðsemdinni og jöfnuðinum.

Og þegar Aríarnir sögðu þeim að einkarétturinn væri heilagur – rétt í þann mund að þeir bjuggu þá og brenndu – og þetta væri allt saman guðs vilji, hlutu þeir þá ekki að trúa því?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Fékk nóg af hagræðingartali ráðherra: „Við erum hér alla daga að reyna gera okkar besta“

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins