Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Tíu mest lesnu viðtöl Stundarinnar árið 2018

Anna Gílap­hon Kjart­ans­dótt­ir seg­ir frá ólýs­an­legu of­beldi sem hún þurfti að sæta á heim­il­inu af hálfu föð­ur síns og stjúp­móð­ur, Sig­ur­björg Vign­is­dótt­ir seg­ir frá því hvernig hún lifði það af þeg­ar henni var rænt af aust­ur-evr­ópskri mafíu í Par­ís sem mis­þyrmdi henni og af­leið­ing­um þess, og Stein­unn Ýr Ein­ars­dótt­ir lýs­ir trú­ar­legu of­beldi inn­an Hvíta­sunnu­kirkj­unn­ar. Þetta eru mest lesnu við­töl Stund­ar­inn­ar ár­ið 2018.

Tíu mest lesnu viðtöl Stundarinnar árið 2018

1 „Ég lít ekki lengur á hann sem pabba minn“

Eftir Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur.

Anna Kjartansdóttir ólst upp hjá dæmdum barnaníðingi og ofbeldisfullri stjúpu, meðal annars á Höfn í Hornafirði. Faðir hennar sat í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hafa brotið gegn þriðju dóttur sinni þegar hún ákvað að stíga fram og segja frá misþyrmingum sem hún mátti þola á heimilinu, en stjúpa hennar hafði þegar verið dæmd fyrir ofbeldið sem hún beitti börnin. Engin heimild er í lögum til að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til að vernda börn í þessum aðstæðum.

„Það sést að mér leið ekki vel. Samt gerði fólk ekkert í því. Ég var alltaf með falskt bros, sem náði ekki til augnanna. Oft brosti ég vegna þess að ég var við það að bresta í grát.“

Viðtalið við Önnu var birt í janúar en síðar á árinu var faðir hennar dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn dætrum sínum. Haustið áður hafði eldri systir þeirra, Guðrún Kjartansdóttir, einnig stigið fram í viðtali við Stundina og var það mest lesna viðtal ársins 2017. Alls lásu 111.605 viðtalið við Önnu.

2 Rænt í París

Eftir Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur.

Þegar Sigurbjörg Vignisdóttir fékk starf sem au pair í Lúxemborg sá hún fyrir sér að nú væru ævintýrin rétt að hefjast. Hún sá þarna tækifæri til að standa á eigin fótum, ferðast og vera frjáls. Eftir um mánaðardvöl úti fór fjölskyldan til Frakklands, þar sem hún drakk í sig menninguna, naut lífsins og fegurðarinnar í París. Þar til allt breyttist í einni svipan og myrkrið lagðist yfir, þegar henni var rænt af austur-evrópskri mafíu, sem misþyrmdi henni og skildi eftir í sárum sínum.

„Mig langar að segja frá því hvernig lífið getur breyst á örskotsstundu, hvernig ein nótt getur breytt öllu,“ sagði Sigurbjörg. „Ég var átján ára áhyggjulaus unglingur úti að skemmta mér í miðborg Parísar, ástarborginni sem þekkt er fyrir fegurð sína og sjarma, þegar þetta gerðist. Hvernig atburðir geta átt sér stað sem þú hefðir aldrei getað ímyndað þér, trúað að væru svo erfiðir og mikil vinna að yfirstíga þá. Að þú getir varla trúað því að þú komist nokkurn tímann yfir þessar endalausar endurupplifanir, martraðir og svefnleysi.“

3 Beitt trúarlegu ofbeldi í tíu ár

Eftir Frey Rögnvaldsson.

Tvítug að aldri var Steinunn Ýr Einarsdóttir andlega niðurbrotin, með ógreinda áfallastreituröskun eftir kynferðisbrot og önnur áföll. Hún hafði deyft sig með áfengi en tekist að snúa við blaðinu, aðeins til þess að aðrir erfiðleikar tækju við, átröskun og alvarleg veikindi í fjölskyldu hennar. Steinunn var því andlega mjög veik fyrir þegar hún fann líkn innan Hvítasunnukirkjunnar. En þrátt fyrir að veran innan kirkjunnar hjálpaði Steinunni að rísa aftur upp þýddi hún annað, tíu ár af því sem Steinunn kallar trúarlegt ofbeldi.

„Það var verið að reyna að koma því inn hjá mér, og þeim sem voru innan safnaðarins, að konan ætti að vera undirgefin manni sínum, að vera undirgefin kona væri í samræmi við það sem Biblían boðar. Í sumum tilfellum er það hreinlega boðað að konan eigi ekki að hafna manni sínum um kynlíf, þau hafi gert samning sem inniber það. Það er alið á ótrúlega mikilli kvennakúgun þarna inni.“

4 Tóku ákvörðun sem enginn ætti að þurfa að taka

Eftir Kristínu Ýr Gunnarsdóttur.

Kolbrún Ýr Einarsdóttir og Sigurður Trausti Traustason þurftu að taka ákvörðun um að slökkt yrði á vélunum sem héldu lífi í Rökkva, syni þeirra. Þau lofuðu hvort öðru að halda áfram að lifa og finna hamingjuna aftur.

„Ég man að ég tók allt í einu eftir því að glugginn væri opinn og fylltist hræðslu að sálin hans myndi hverfa út um gluggann, en róaðist svo og fannst það allt í lagi að hann svifi bara út í sólina“

5 Fórnaði sjálfri sér fyrir tvíburana

Eftir Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur.

Þegar Þórdís Elva Þorvaldsdóttir missti vatnið á sautjándu viku töldu læknar útilokað að börnin myndu lifa næstu tvær vikur af, hvað þá alla meðgönguna. En þeir þekktu ekki baráttuanda Þórdísar Elvu. Þegar hún heyrði að eitt prósent líkur væru á að hægt væri að bjarga börnunum ákvað hún að leggja allt í sölurnar til að sigrast á hinu ómögulega, jafnvel þótt hún þyrfti að fórna eigin heilsu. Þar með upphófst þrekraun Þórdísar Elvu sem lá hreyfingarlaus fyrir í 77 daga og oft var lífi hennar ógnað. En ávöxturinn var ríkulegur, því í dag eiga þau hjónin tvíburana, Svan og Hlyn.

„Vonin er það síðasta sem yfirgefur mann og vonin er það sem þér ber skylda til að næra í aðstæðum þar sem þú ert að berjast fyrir lífi barns. Ekkert getur búið þig undir það að missa barn. Þú getur ekki varið þig fyrir þeim sársauka með því að gera þér engar vonir, en ef þú leyfir þér ekki að vona þá er þetta búið. Þannig að ég sagði við Víði að ég ætlaði að leyfa mér að dreyma.“

6 Ákvað að lifa í gleði þrátt fyrir barnsmissi og sorg

Eftir Svövu Jónsdóttur.

„Ég grét á hverjum degi í tvö ár. Ég átti rosalega erfitt,“ segir Svandís Sturludóttir sem varð móðir sextán ára gömul og missti sex vikna gamalt barnið. Fimm árum síðar lést annað barn daginn sem það fæddist. Alls hefur hún eignast fimm börn og á auk þess tvö stjúpbörn. „Ég tók ákvörðun um að takast á við sorgina og lagði áherslu á að sjá lífið hvað sem það kostaði; að halda áfram var það eina sem komst að.“ Fleiri áföll hafa dunið á en Svandís reynir að njóta lífsins og leggur áhersluna á gleðina sem það býður upp á.

7 „Af hverju á ég að beygja mig undir þá sem eru í gröfinni?“

Eftir Frey Rögnvaldsson.

Ragnar Aðalsteinsson gjörbreytti afstöðu sinni til stjórnmála þegar hann sá hvernig nöktu valdi var beitt gegn mótmælendum, en ferðaðist um heiminn og ílengdist á Spáni á tímum einræðisherrans Franco áður en hann lagði lögfræði fyrir sig. Hann er sjö barna faðir, faðir tveggja unglinga, sem berst fyrir félagslegu réttlæti og mannréttindum. Eftir 56 ára feril segir hann pólitík ráða för innan dómstólanna, Hæstiréttur hafi beygt sig fyrir löggjafarvaldinu og brugðist skyldu sinni. Því sé óumflýjanlegt að taka upp nýja stjórnarskrá, en meirihluti Alþingis hunsi vilja fólksins og gæti frekar hagsmuna hinna efnameiri, þeirra sem hafa völdin í þjóðfélaginu. 

8 Dauðinn er bara hinn endinn á fæðingunni

Eftir Frey Rögnvaldsson.

Ólöf Elfa Leifsdóttir óttast ekki dauðann eða þykir óþægilegt að tala um hann, jafnvel þótt hún viti að hann muni sækja hana heim fyrr en síðar. Hún ætlar sér að njóta lífsins og vera hamingjusöm þrátt fyrir erfiðan sjúkdóm. „Ég vil hafa eitthvað að lifa fyrir og sjá einhverja framtíð, kannski ekki mjög langa, svona ár í senn. Svo bara tekst ég á við hitt, ef og þegar það kemur upp. Óhjákvæmilega dey ég einhvern tíma en það gera það allir, lífshlaup fólks er bara mislangt.“

9 Nálgunarbannið ekki virði pappírsins sem það er ritað á

Eftir Hólmfríði Helgu Sigurðardóttur.

Fyrrverandi sambýlismaður Áslaugar Ragnhildardóttur var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir að ráðast á hana þar sem hún lá í rúminu sínu að kvöldi til og draga hana út á gólf á hárinu. Hann var látinn sæta nálgunarbanni en hefur engu að síður áreitt hana viðstöðulaust í þau tvö ár sem liðin eru frá skilnaði þeirra. „Hann eyðilagði allt sem hann gat þarna inni. Hann skemmdi rafmagnstæki, hellti málningu yfir allt, skar bút úr sófasettinu, braut og bramlaði.“

10 Rænt á unglingsárum og seld mansali

Eftir Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur.

Logan Smith var sextán ára þegar henni var rænt af kunningja sínum og seld mansali. Hún er nú búsett hér á landi með íslenskum eiginmanni sínum og segir sögu sína til að vekja fólk til vitundar um mismunandi birtingarmyndir mansals og mikilvægi þess að bregðast við. „Ég varð svo hrædd eftir þetta, jafnvel í návígi hans, að ég sagði honum að ég væri of óttaslegin til að vera þarna, ég ætlaði að fara og finna út úr þessu á eigin vegum. Þá hótaði hann mér því að lögreglan væri að leita að mér og sem strokubarn færi ég í fangelsi. Ég yrði að vera hjá honum og gera það sem hann segði.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár