Fréttir

Firrir sig ábyrgð á rannsókn sem hún stýrði

Ekki var farið í einu og öllu eftir lögum og reglum við rannsókn LÖKE-málsins samkvæmt niðurstöðu ríkissaksóknara ad hoc.

Annmarkar ekki refsiverðir Mál gegn Öldu Hrönn Jóhannsdóttur var fellt niður, en annmarkarnir á lögreglurannsókn LÖKE-málsins voru ekki taldir varða við almenn hegningarlög. Mynd: RÚV

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fyrrverandi aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og núverandi staðgengill lögreglustjórans á Suðurnesjum, gaf villandi mynd af þætti sínum í rannsókn LÖKE-málsins í viðtali sem birtist við hana í helgarblaði Fréttablaðsins þann 3. febrúar síðastliðinn. 

Alda steig til hliðar þegar settur héraðssaksóknari hóf rannsókn á störfum hennar í október 2016, en þá var henni gefið að sök að hafa misbeitt lögregluvaldi við rannsókn LÖKE-málsins. Nýlega var ákvörðun setts héraðssaksóknara um að fella málið niður staðfest af ríkissaksóknara ad hoc, Boga Nilssyni. Fram kemur í niðurstöðu Boga að ýmsir annmarkar hafi verið á rannsókn Öldu og málinu ekki verið beint í farveg til samræmis við ákvæði lögreglulaga og fyrirmæla ríkissaksóknara. Hins vegar hafi hnökrarnir ekki verið slíkir að þeir varði við 132. gr. almennra hegningarlaga um brot í starfi. 

Í viðtali Fréttablaðsins við Öldu rekur hún tildrög málsins og hvernig lögreglunni bárust gögnin sem lágu til grundvallar rannsókn LÖKE-málsins. „Ég fer því og sæki þau og fer með á Suðurnes. Þangað skila ég þeim. Í framhaldinu er haldinn fundur yfirmanna og ákveðið í samráði við ríkissaksóknara að greina málið frekar. Ég hafði engin afskipti af málinu á meðan það var í greiningu. Og sá reyndar aldrei gögnin þótt ég hefði komið þeim til skila,“ segir hún. 

Eins og fram kemur í niðurstöðum setts héraðssaksóknara, og staðfest er í niðurstöðu ríkissaksóknara ad hoc, var Alda Hrönn hins vegar stjórnandi umræddrar rannsóknar. „Af sögnum málsins verður ráðið að kærða var síðan, í umboði lögreglustjórans á Suðurnesjum, í fyrirsvari þeirra þátta sakamálarannsóknar á hendur kærendum þessa máls sem fram fór á vegum lögreglustjórans á Suðurnesjum bæði áður en ríkissaksóknari tók við stjórn rannsóknarinnar og eftir það,“ segir í niðurstöðu Boga Nilssonar. Í ákvörðun setts héraðssaksóknara kemur fram að Alda hafi lagt endanlegt mat á hvaða ályktanir mætti draga af rannsókn málsins og skrifað niðurstöðukafla í greinargerð embættisins sem send var ríkissaksóknara ásamt umræddum gögnum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Kölluð kellingartussa og negri

Viðtal

„Neita að eyða allri ævinni í að vinna fyrir einhvern steinkassa“

Fréttir

Slys hjá Arnarlaxi: Eldiskví með um 500 tonnum af laxi sökk í Tálknafirði

Viðtal

Keypti brúðarkjól og bað Guð um mann

Listi

Fimm réttir úr fortíð og nútíð

Fréttir

Helga Vala skoraði á Alþingi að aflétta leyndinni tafarlaust – Jón: „Dæmigerð popúlistauppákoma“

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Vilhjálmur fékk 3,4 milljónir endurgreiddar – Þingmenn hæðast að umræðunni

Fréttir

Stjórnun kynferðisbrotadeildar ábótavant – Sigríður skipti yfirmanni út fyrir stjórnanda með minni reynslu af rannsókn kynferðisbrota

Fréttir

Kölluð kellingartussa og negri

Pistill

Karlar að spara okkur pening

Fréttir

Ferðaþjónustubændur í máli við Íshesta

Fréttir

Borgarstjórinn vísaði Eyþóri Arnalds af fundi í Höfða