Fréttir

Segir vont ef yfirlýstir miðjuflokkar geti ekki talað saman og leitað lausna

„Það er erfitt að horfa upp á femíníska kollega mína í Vinstri grænum gangast svo fúslega við möguleikanum á samstarfi við flokk sem beinlínis vinnur gegn hagsmunum kvenna,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, aðalsamningamaður Pírata í stjórnarmyndunarviðræðum.

Píratar kalla eftir því að Framsóknarflokkurinn og Viðreisn reyni að sættast og finna samstarfsfleti svo hægt sé að halda áfram stjórnarmyndunarviðræðum vinstri- og miðjuafla í íslenskum stjórnmálum. Í ljósi hneykslismála undanfarinna missera sé slíkt heillavænlegra en að hleypa Sjálfstæðisflokknum eða nýstofnuðum flokki Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar til valda.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, aðalsamningamaður Pírata í viðræðum um myndun ríkisstjórnar, segir í samtali við Stundina að sér þyki stórundarlegt að Framsóknarflokkurinn og Viðreisn, tveir yfirlýstir miðjuflokkar, skuli ekki setjast niður og leita lausna. „Leiðtogum þessara tveggja flokka hefur verið tíðrætt um ábyrg og stöðug stjórnmál á opinberum vettvangi en neita þó að axla þessa ábyrgð og finna samvinnufleti svo hægt sé að mynda ríkisstjórn án ráðherra sem tóku þótt í yfirhylmingunni sem sprengdi síðustu ríkisstjórn,“ segir hún. „Þess í stað kýs áhrifafólk í báðum flokkum að standa í einhverri pólitískri stöðutöku í fjölmiðlum án þess að taka nokkurt tillit til stærri hagsmuna. Dæmi um þetta eru staðhæfingar áhrifafólks í Viðreisn um að ESB málið sé skilyrði flokksins fyrir þátttöku í stjórnarmyndun. Þetta sögðu þau þótt augljóst sé að þetta er gjörsamlega óraunhæft skilyrði í því pólitíska landslagi sem myndast hefur eftir kosningar.“ 

Hún segir það vera formanni Viðreisnar til hróss að hafa dregið í land og rétt fram sáttarhönd með yfirlýsingu um að ESB yrði ekki skilyrði fyrir þátttöku Viðreisnar í ríkisstjórn. „En í stað þess að taka augljósu sáttarboði Þorgerðar Katrínar kýs varaformaður Framsóknarflokksins, Lilja Alfreðsdóttir, að væna Viðreisn um heilagt stríð í pólitískum tilgangi morguninn eftir. Þetta þykir mér hvorki bera merki um þroska né ábyrgð af hálfu flokka sem stöðugt segjast engan útiloka til samstarfs. Beri þeim ekki gæfa til að setja ágreiningsmál sín til hliðar og í það minnsta tala saman munu þau eiga sinn þátt í því að leiða flokkinn sem hylmdi yfir í uppreist æru málinu aftur í sömu stóla og þau hafa misst vegna leyndahyggju og sérhagsmuna.“

Greint hefur verið frá því í fréttum að óformlegar stjórnarmyndunarþreifingar hafi staðið yfir undanfarna daga milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks, þar sem litið er til samstarfs við Samfylkinguna eða Framsóknarflokkinn. Þórhildur Sunna hefur áhyggjur af þessu. „Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki gengist við því að hafa gert neitt rangt, hvorki í málunum er varða uppreist æru kynferðisbrotamanna né í öðrum málum þar sem er augljóst að farið var illa með vald og umboð almennings. Ég tel það hættulega braut að halda sig geta endurhæft Sjálfstæðisflokkinn þegar hann getur ekki gengist við einum einustu mistökum, hvað þá viðurkennt að nokkuð athugavert hafi átt sér stað í valdatíð hans. Endurhæfing er ekki möguleg þeim sem neita að líta í eigin barm,“ segir hún. „Eins finnst mér erfitt að horfa upp á femíníska kollega mína í Vinstri grænum gangast svo fúslega við möguleikanum á samstarfi við flokk sem beinlínis vinnur gegn hagsmunum kvenna í sínum eigin ranni, sem og gagnvart þolendum kynferðisofbeldis. Ég bind vonir við að þeim snúist hugur og víki af þessari braut í átt til frjálslyndari og jafnréttissinnaðri flokka.“

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Kölluð kellingartussa og negri

Viðtal

„Neita að eyða allri ævinni í að vinna fyrir einhvern steinkassa“

Fréttir

Slys hjá Arnarlaxi: Eldiskví með um 500 tonnum af laxi sökk í Tálknafirði

Viðtal

Keypti brúðarkjól og bað Guð um mann

Listi

Fimm réttir úr fortíð og nútíð

Fréttir

Helga Vala skoraði á Alþingi að aflétta leyndinni tafarlaust – Jón: „Dæmigerð popúlistauppákoma“

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Vilhjálmur fékk 3,4 milljónir endurgreiddar – Þingmenn hæðast að umræðunni

Fréttir

Stjórnun kynferðisbrotadeildar ábótavant – Sigríður skipti yfirmanni út fyrir stjórnanda með minni reynslu af rannsókn kynferðisbrota

Fréttir

Kölluð kellingartussa og negri

Pistill

Karlar að spara okkur pening

Fréttir

Ferðaþjónustubændur í máli við Íshesta

Fréttir

Borgarstjórinn vísaði Eyþóri Arnalds af fundi í Höfða