Pistill

Var Sigmundur Davíð beittur órétti?

Fyrrverandi forsætisráðherra okkar færir fram alvarlegar ásakanir. Hefur samfélagið okkar brotið alvarlega gegn honum, eins og hann segir?

Sigmundur á þingi í vor Í maí hafði hann ekki mætt í neina atkvæðagreiðslu á árinu og mætti aðeins á fimm fundi af 19 í utanríkismálanefnd. Mynd: Pressphotos

Í þroskuðu lýðræðisríki er óumflýjanlegt að taka harðar áskanir fyrrverandi forsætisráðherra landsins alvarlega. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur undanfarið reglulega stigið fram með ásakanir í garð fjölda aðila um misgjörðir sem snúa að meintum brotum á honum. Nú síðast í gær líkti hann Ríkisútvarpinu við stofnun í Austur-Þýskalandi, sem átti væntanlega að vera tilvísun í austur-þýsku leyniþjónustuna eða ríkisöryggisráðuneytið Stasi, þekktustu stofnun landsins. Sjálfum sér líkti hann við Jósef K, í Réttarhöldunum eftir rithöfundinn Franz Kafka, sem var tekinn af lífi fyrir ásakanir sem hann skildi ekki sjálfur og fékk engin svör um.  

„Svo verður líka að taka tillit til þess að Ríkisútvarpið, „fjölmiðill í almannaþágu“ má auðvitað ekki leyfa fólki að fá þá flugu í höfuðið að stofnuninni geti skjátlast, ekki frekar en stofnanir þýska alþýðulýðveldisins forðum „stofnanir í almannaþágu“ gátu leyft sér að umbera slíkar grillur,“ skrifaði Sigmundur í gær. „Það er því bara af praktískum ástæðum sem teknar hafa verið upp sömu vinnureglur og stuðst var við þar eystra: „Ef staðreyndirnar falla ekki að skoðun stofnunarinnar eru staðreyndirnar rangar“. Af því leiðir svo óhjákvæmilega að þeir sem eru sakaðir um eitthvað teljast þar með sjálfkrafa sekir.“ 

Rétt er að benda á að ásakanir og umkvartanir Sigmundar eru reglulega birtar samhengis- og gagnrýnislaust á Eyjunni.is, sem er ritstýrt af vini Sigmundar - fyrst hann talar svona mikið um óvild fjömiðla. 

Brot Sigmundar

Ein af grunnástæðunum fyrir því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson telur að brotið hafi verið gegn sér þegar fjallað var um leynt eignarhald hans á skattaskjólsfélagi sem átti kröfur á þrotabú íslensku bankana - málefni hverra hann tók ákvarðanir um sem kjörinn fulltrúi - er að hann hafi ekki brotið nein lög. 

Það er algeng vörn íslenskra stjórnmálamanna og annarra athafnamanna að þeir hafi engin lög brotið og því sé umræða um tilteknar aðgerðir þeirra ósanngjörn eða aðför. Vörninni fylgir gjarnan sú bakvörn að aðförinni sé stýrt af tilteknum óvinveittum aðilum sem hafi tiltekna hagsmuni. Í tilfelli Sigmundar hefur hann ýjað að því að vogunarsjóðir eða hrægammar standi að baki aðför að honum. Óljósara er hvers vegna hópur innan Ríkisútvarpsins eigi að hafa hag af árásum í hans garð, en hugsanlega getur hann sjálfur, vegna heimssýnar sinnar, ekki greint aðrar orsakir fyrir umfjöllun um hann en óvild gegn persónu hans.

Til að greina ástæður umfjallana um hann þarf fyrst að skoða forsöguna og grindina undir viðmiðin sem eru til staðar, sem útskýrir síðan kannski sjónarhól Sigmundar Davíðs á umræðu um hann. 

Vildi ekki staðfesta siðareglur

Frá því að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs var sett saman árið 2013 var fljótlega farið að krefja hann um staðfestingu á siðareglum ráðherra. Siðareglur eru annars konar en lög. En þær eru vissulega skráðar reglur, og þar með formleg viðmið.  

Ein grein siðareglnanna snýr sérstaklega að tilviki eins og Sigmundar, sem átti hlut í aflandsfélagi með kröfu á þrotabú bankanna upp á hálfan milljarð, seldi eiginkonu sinni það á einn dollara og leyndi því: „Ráðherra forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar og gætir þess að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf sín. Takist honum ekki að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra af þessu tagi skal hann upplýsa um þá.“ Í siðareglunum eru lagðar sérstakar skyldur á herðar forsætisráðherrans að upplýsa um hagsmunatengsl ráðherra. „Forsætisráðherra getur í samráði við ríkisstjórn ákveðið að kalla með skipulögðum hætti eftir frekari upplýsingum um hagsmunatengsl ráðherra sem birtar yrðu almenningi.“ 

Sigmundur virðist sérstaklega hafa þverskallast gegn því að samþykkja siðareglurnar. Í það minnsta þurfti umboðsmaður Alþingis að ýta á hann að samþykkja sérstaklega siðareglur fyrir ráðherra. Á endanum voru siðareglur samþykktar þegar Sigurður Ingi Jóhannsson varð forsætisráðherra, eftir að Sigmundur þurfti að hætta vegna augljóss brots á siðareglum. 

Brot Sigmundar

Það eitt og sér að nota skattaskjól er siðferðislega ámælisvert, ekki síst hjá stjórnmálamanni. 

Gjörningarnir í kringum viðskipti Sigmundar voru vægast sagt undarlegir, til dæmis sýndarviðskipti hans við eiginkonu sína. Í versta falli var eðlilegt að Sigmundur væri spurður sérstaklega um þetta, og hvers vegna hann hefði leynt þessum hagsmunum. 

Sigmundur hefur látið eins og hann hafi verið ásakaður um allt annað en gagnrýnin snýr raunverulega að. Viðbrögðin við broti Sigmundar hafa ekki verið að hann hafi brotið lögin. Hér er munurinn:

Viðurlög gegn skattsvikum: Beittur sektum eða dæmdur í fangelsi.

Viðurlög gegn brotum á siðareglum og brotum gegn viðmiðum almennings: Þarf að svara spurningum og hættir sem forsætisráðherra.

Viðurlögin við broti Sigmundar var þannig Sigmundur var einfaldlega spurður út í skattaskjólsfélagið sem hann átti, í viðtali sem tekið var vegna umfjallana sem fullt tilefni var fyrir.

Hópurinn á móti Sigmundi

Sigmundur vísar til þess að hópur innan RÚV sé andsnúinn honum. Fólkið sem hann talar um er meðal færustu fjölmiðlamanna Íslands sem hafa fengið margar og reglulegar tilnefningar til verðlauna. Sænski fréttaskýringaþátturinn, Uppdrag Granskning, sem tók þátt í umfjöllun um Panamaskjölin, hlaut nýverið tilnefningu til Emmy-verðaluna fyrir umfjöllun sína um skjölin. Pulitzer verðlaunin voru einnig veitt vegna umfjöllunarinnar. Jóhannes Kr. Kristjánsson blaðaður vann Blaðamannaverðlaun Íslands fyrir sinn hlut í umfjöllun um málið.

Af þessu að dæma var umfjöllunin hvorki tilefnislaus né var hún ófagleg. 

Eflaust var umfjöllunin hins vegar ekki alfullkomin, frekar en flest annað í heiminum, og án vafa hefði brot Sigmundar getað verið mun verra. Hann hefði geta stundað stórfelld skattsvik og beitt sér í stöðu forsætisráðherra til aða hámarka auð sinn og eiginkonu sinnar. En við gerum ekki kröfu um að brot séu annað hvort verulega alvarleg eða engin.

Undirliggjandi orsakir hegðunar Sigmundar

Helsta ástæðan fyrir umkvörtunum og alvarlegum ásökunum Sigmundar virðist vera öll önnur. Það getur verið einfalt og einfeldningslegt að stimpla fólk eftir hvötum. En þegar farið er yfir ótrúlegar og endurteknar ásakanir Sigmundar á hendur ýmsum aðilum, og viðbrögð hans í gegnum tíðina við gagnrýni, er augljóst að mynstur er í heimsmynd hans.

Í áherslum hans, viðbrögðum og hugmyndafræði má greina að hann sér atburði og þróun ytri mála fyrst og fremst hverfast um persónu hans sjálfs.

Þannig skipta reglur ekki máli, eða það að hann brjóti þær, heldur skiptir mikilvægi hans sjálfs mestu máli. Flokkur hans skiptir ekki mestu máli, heldur að hann sé við völd í flokknum. Þannig rýkur hann út úr salnum, þegar hann tapar formannskjöri, skilur ekki hvernig tapið tengist brotum hans og viðbögðum, tengir það við samsæri og óljósan óvildarhóp sinn og lands síns, og stofnar síðan eigið félag í stað þess að sinna flokknum sem hann er hluti af. Þannig hættir hann að mæta í vinnuna sína, sem hann var kjörinn til, þegar hann hefur misst hlutverk sitt sem oddviti.

Og eftirlitsstofnanir, eins og fjölmiðlar, eru að hans mati hættulegar, þar sem þær standa í vegi fyrir völdum hans yfir öðrum, þótt þær ræki hlutverk sitt vel samkvæmt flestum viðmiðum.

Sigmundur ofar öllu

Sigmundur virðist af hegðun hans og orðræðu að dæma vera einn af þessum stjórnmálamönnum sem lítur á sjálfan sig ofar öðru. Það er ekki gott upplegg fyrir farsælan leiðtoga, þótt athyglissækin afsprengi þess kunni að afla honum athygli. Og nú þegar hann er að hefja stjórnmálabaráttu á grundvelli þess að „kerfið“ ráði of miklu, stjórnmálmenn eins og hann of litlu, og að heimurinn sé fullur af óvinum hans sem vinni gegn almannahag, er mikilvægt að horfa til þess að sjálfhverfir stjórnmálamenn hneigjast til þess að lama gagnrýni og aðhald til þess að halda sjálfum sér á þeim stalli sem þeim þykir nauðsynlegt, ofar öðrum og þeim reglum sem aðrir fylgja.

Það er ekki góður eiginleiki fyrir einhvern sem afhenda á ábyrgð að viðkomandi sé tilbúinn að valda tjóni á öllu í kringum sig vegna sjálfs sín og ætlaðs eigin mikilvægis, eins og Sigmundur gerir þegar hann grefur undan RÚV og gerir lítið úr gildi siðareglna, reynir að rýmka heimildir stjórnmálamanna til að brjóta þær.

Sigmundur bar ábyrgð, stöðu sinnar vegna, og braut reglur sem settar eru fyrir almannaheill - og sem honum var treyst til að framfylgja. Viðurlögin voru að hann var spurður og gagnrýndur og svo sviptur stöðunni sem forsætisráðherra Íslands vegna brotsins og viðbragða sinna við því. Enginn á þá kröfu að vera forsætisráðherra. Og enginn er ómissandi í þeirri stöðu, en sá sem lítur þannig á sig er hættulegur í henni.

Sá sem sýnir þau viðhorf sem Sigmundur hefur gert til sjálfs sín og til gagnrýni, er afar óæskilegur leiðtogi. Rétt eins og með aðra sem höndla eitthvað illa ættu völd hans líklega að vera í öfugu hlutfalli við ásókn hans í þau.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Hagnaður ISS dróst saman en hluthafar fengu 760 milljóna arð

Fréttir

Bróðir Hauks handtekinn fyrir að flagga tyrkneska fánanum á Stjórnarráðshúsinu

Fréttir

Launþegahreyfingin ekki með fulltrúa í nefndum um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfis

Fréttir

Sósíalistar vilja afnema greiðslur slökkviliðsins til borgarstjóra

Blogg

Víkingarnir

Blogg

Píp Trumps um viðskipahalla og fleira

Mest lesið í vikunni

Pistill

Hjúkrunarfræðingur: „Landspítalinn er í frjálsu falli“

Fréttir

Arður greiddur úr einkareknu meðferðarheimili barna sem vinnur fyrir sveitarfélögin

Fréttir

Sparkað úr hestamannahópi vegna gagnrýni á félagsleg undirboð

Fréttir

Umboðsmaður spyr hvort ráðuneytið ætli að „grípa til einhverra viðbragða gagnvart sýslumanni“

Fréttir

Bankastjóri Landsbankans þiggur boðsferð á heimsmeistaramótið í Rússlandi

Pistill

Krakkafréttir - hin raunverulega ógn mannkyns?