Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

„Mitt er mitt, við semjum um hitt“

Á fyrri tíð þegar hlutfall hæstu og lægstu launa var mun lægra en það er nú brutust átök um kaup og kjör eigi að síður út annað veifið á vinnumarkaði. Kveikjan að slíkum átökum var iðulega viðleitni verklýðsfélaga til að lyfta kjörum þeirra sem báru minnst úr býtum. Þegar það tókst fóru aðrir launþegar yfirleitt fram á hliðstæðar kjarabætur í kjölfarið til að viðhalda stöðugum launahlutföllum enda virtist ríkja sæmilega víðtæk sátt um þau hlutföll. Átökin leiddu því yfirleitt til kauphækkunar upp allan stigann og þá um leið til verðbólgu sem segja mátti að verklýðsfélög og launþegar innan vébanda þeirra bæru að sínu leyti talsverða ábyrgð á. Þessi skilningur átti sinn þátt í því að veikja verklýðsfélög í Bandaríkjunum, Bretlandi og víða á meginlandi Evrópu eftir 1980.

 

Og þá tók að sumu leyti verra við. Vinnuveitendur gengu á lagið. Þeir brugðust við minnkandi veldi verklýðsfélaga með því að breyta launahlutföllum sér í vil. Tölurnar tala skýru máli. Forstjóralaun í Bandaríkjunum voru á við laun 23ja starfsmanna á gólfi 1978 og 221 starfsmanns 2018. Sem sagt: Launamunurinn tífaldaðist. Allan þennan tíma, 40 ár, stóð kaupmáttur venjulegra tímalauna í stað. Aukins ójafnaðar sér nú stað m.a. í uppreisn kjósenda gegn gömlum stjórnmálaflokkum. Repúblikanaflokkurinn mátti sæta því sem í viðskiptum er kallað óvinveitt yfirtaka þegar Donald Trump náði kjöri 2016 sem forseti Bandaríkjanna. Eins gæti farið fyrir Demókrataflokknum ef Bernie Sanders, sem er nýgenginn til liðs við flokkinn, hlýtur útnefningu flokksmanna til forsetaframboðs á þessu ári. Svipað hefur þegar gerzt í báðum stærstu flokkum Bretlands og víðar.

 

Launamunurinn hefur aukizt minna víðast hvar í Evrópu. Tökum Ísland. Meðallaun forstjóra fyrirtækja sem eru skráð í Kauphöllinni námu 2017 um 17-földum lágmarkslaunum. Þetta er meiri launamunur en áður tíðkaðist. Forstjórarnir skammta sér þessi laun sjálfir í reynd enda sitja þeir margir í fyrirtækjastjórnum hver hjá öðrum. Þeir segja nú lítið sem ekkert svigrúm til kauphækkunar handa flestum launþegum. Sama á við um sveitarfélög og ríkið, umsvifamesta vinnuveitandann. Ríkisstjórnin notaði Kjararáð til að tryggja embættismönnum, ráðherrum og þingmönnum ríflega kauphækkun 2018 sem þau kölluðu „leiðréttingu“ – 45% handa þingmönnum! Laun þingmanna hækkuðu um 111% frá árinu 2011 til 2018, eða um 11% á ári að meðaltali. Á sama tíma hækkaði verð á neyzluvörum um 26% frá 2011 til 2018. Enn tala stjórnvöld og vinnuveitendur einum rómi um  „lítið sem ekkert svigrúm“ til launahækkunar. Það er of seint. Þau hrifsuðu til sín tertuna og ætlast til að aðrir sætti sig við mylsnuna.

 

Launþegar krefjast nú margir kjarabóta. Þeim misbýður mörgum hugsunarlaus sjálftaka forstjóra og stjórnmálamanna. Launþegar líta margir svo á að treysti vinnuveitendur sér ekki til að greiða þeim viðunandi laun eigi forstjórarnir að fá sér önnur ábyrgðarminni verk að vinna. En þá fer verðbólgan aftur á skrið, segja vinnuveitendur og ríkisstjórn einum rómi. Í ykkar boði, segja launþegar, ykkur var nær.

 

John Kennedy Bandaríkjaforseti sagði af öðru tilefni: „Það er ekki hægt að semja við menn sem segja: „Mitt er mitt, við semjum um hitt““. Guðmundur J. Guðmundsson, Gvendur jaki sem svo var kallaður, var sama sinnis og sagði: „Ef einhver hópur fer að vaða upp í hækkunum fyrir ofan almennt verkafólk, þá er þetta búið. Menn þurfa að átta sig á að það verður að byggjast á gagnkvæmu jafnræði á milli hópa. Það þýðir ekki að keyra áfram einhverja sérhópa upp yfir aðra. Þá er þetta hrunið og það hrynur yfir þá hina sömu.“

 

Forstjórar og stjórnmálamenn eiga upptökin að núverandi ókyrrð á vinnumarkaði ólíkt því sem áður var. Kalli ókyrrðin kollsteypu yfir okkur öll fer ekki á milli mála hvar ábyrgðin liggur.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni