Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Þverrandi traust og virðing

Trump Bandaríkjaforseti flutti í gærkvöldi árvissa ræðu forsetans í þinginu. Ræða hans var í venjulegum öfugmælastíl. Hann sagði meðal annars að Bandaríkin njóti nú aftur virðingar („highly respected again“). Forseti fulltrúadeildar þingsins, Nancy Pelosi, kallaði ræðuna ósannindaávarp („manifesto of mistruths“) og reif hana í tætlur í augsýn þingheims og athugulla sjónvarpsvéla.

Stöldrum hér við þetta tiltekna atriði: að Bandaríkin njóti nú aftur virðingar. Sannleikurinn er sá að virðing Bandaríkjanna í augum umheimsins hefur þvert á móti hrapað í forsetatíð Trumps. Eitt helzta skoðanakönnunarfyrirtæki Bandaríkjanna, Pew Research Center, birti fyrir rösku ári niðurstöður könnunar á trausti til Trumps forseta í hópi 25 landa. Þar segjast 70% íbúanna vantreysta Trump. Til samanburðar segjast 62% vantreysta Pútín forseta Rússlands og 56% segjast vantreysta Xi Jinping forseta Kína. Mest er vantraustið í garð Trumps meðal gamalla bandamanna Bandaríkjanna í Evrópu.

Tökum Þýzkaland sem dæmi. Í forsetatíð Baracks Obama 2009-2016 sögðust 71% til 93% Þjóðverja bera traust til forsetans og 50% til 64% sögðust hafa mikið álit á Bandaríkjunum. Eftir að Trump tók við forsetaembættinu 2017 hrapaði traust Þjóðverja á forsetanum niður í 10% og álitið á Bandaríkjunum féll niður í 30%. Þannig er hægt að fara land úr landi (Frakkland, Japan, Kanada, Mexíkó, Spánn o.s.frv.), langflestir vantreysta Trump.

Þó eru þau lönd til þar sem álitið á forsetanum hefur aukizt, t.d. Pólland og Ungverjaland þar sem hálfgildingsfasistastjórnir eru nú við völd. Einu löndin í hópnum þar sem Trump forseti nýtur trausts meiri hluta aðspurðra eru Filippseyjar, Ísrael, Kenía og Nígería.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni