Þessi færsla er meira en ársgömul.

Leppar

Mér er minnisstæður leynifundur sem var haldinn í Háskóla Íslands fyrir fáeinum árum í sambandi við stofnun Íslandsdeildar Transparency International.

Meðal fundargesta var einn æðsti embættismaður réttarkerfisins.

Þegar röðin kom að honum þar sem við sátum kannski fimmtán manns í kringum borð lýsti hann þeirri skoðun að spilling hefði aldrei verið minni á Íslandi en einmitt þá og væri ekki annað en hugarburður einhverra bloggara – og bandaði hendinni í áttina að einum viðstaddra.

Nú skilst mér að núverandi dómsmálaráðherra hafi nýverið lýst svipaðri skoðun á Alþingi.

Framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency lýsir ræðu ráðherrans svo að hann hafi gefið „til kynna að ... OECD væri raunar bara leppur fyrir Transparency International á Íslandi sem er ... leppur fyrir Þorvald Gylfason“.

Ég á sem sagt að hafa bæði Transparency og OECD í vasanum.

(Þegar menn fá svona meðmæli á æðstu stöðum stjórnsýslunnar getur þeim stundum í hégóma sínum dottið í hug að biðja um að fá þau skrifleg, en þess þarf ekki í þessu tilviki þar eð skrifleg staðfesting bíður birtingar í Alþingistíðindum.)

Af þessum ummælum dómsmálaráðherrans má ráða hversu óheppilegt það er að Ísland skuli ekki enn vera haft með í fjölþjóðlegum gagnasöfnum um lög og rétt og gangvirki réttarkerfisins.

Bandaríska lögmannafélagið hefur frá 2008 haldið úti samtökum til varnar lögum og rétti og jafnframt skínandi fróðlegu vefsetri, World Justice Project, þar sem löndum eru gefnar einkunnir fyrir réttarkerfi sín frá 2012 til þessa dags. Vonir standa til að gögnin verði unnin lengra aftur í tímann.

Markmið samtakanna er að dreifa upplýsingum um lög og rétt til að styrkja réttarríkið.

Ærin er þörfin þar eð lögum og rétti hefur hnignað á heimsvísu fimmta árið í röð eins og segir í nýjustu skýrslu samtakanna þar sem 140 löndum eru gefnar einkunnir.

Hlutlausir og sérfróðir matsmenn eru á hverju ári fengnir til að vega og meta átta þætti laga og réttar í æ fleiri löndum. Þeir eru:

  1. Aðhald að valdstjórninni, þ.m.t. skilvirkni eftirlitsstofnana
  2. Fjarvist spillingar
  3. Opin og gegnsæ stjórnsýsla
  4. Mannréttindi
  5. Öryggi borgaranna
  6. Framfylgd laga
  7. Framgangur réttvísinnar í einkamálum
  8. Framgangur réttvísinnar í sakamálum

Einkunnirnar fyrir hvern matsþátt eru síðan vegnar saman til að reikna út aðaleinkunnina eins og tíðkast í skólastarfi.

Aðferðin sem höfð er við matið er svipuð þeirri sem erlendar stofnanir nota til að meta til dæmis lýðræði og gefa löndum einkunnir fyrir lýðræði sem undangengin ár hefur einnig átt undir högg að sækja í æ fleiri löndum líkt og réttarríkið. Þetta tvennt hangir saman.

Danmörk, Noregur, Finnland og Svíþjóð skipa fjögur efstu sæti listans yfir réttarríkin. Listinn er býsna fróðlegur. Bandaríkin skipa 26. sæti listans, skör lægra en til dæmis Eistland, Lettland og Litháen.

Eitt af mörgu sem dregur sum lönd niður í mælingunum eru spilltir og dómgreindarlausir dómsmálaráðherrar og dilkarnir sem þeir draga á eftir sér.

Ég hef beðið bandaríska lögmannafélagið að bæta Íslandi í gagnabankann eins fljótt og hægt er og óskað eftir því að erlendir sérfræðingar verði hafðir með í ráðum.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Ásgeir Överby skrifaði
    "Nú skilst mér að núverandi dómsmálaráðherra hafi nýverið lýst svipaðri skoðun á Alþingi."
    Jón Gunnarsson er einn spilltasti ráðherrann. Notaði embættið til að útvega frambjóðanda sem kjósendur höfnuðu hálaunastarf. Hafði áður verið þingmaður án þess að koma neinu í verk. Því miður teljast svona gjörningar ekki til spillingar hér á skerinu.
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu