Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Fáein orð um Shakespeare og þýðingar í tilefni af 400 ára ártíð hans

Í dag eru liðin fjögur hundruð ár frá því að skáldið William Shakespeare dó. Hann dó þann 23 apríl árið 1616, aðeins 52 ára að aldri. Þá hafði hann lengi verið fremsta leikskáld í Bretlandi. Hann var leikari líka. Leikflokkur Shakespeares lék reglulega fyrir Elísabetu drottningu og seinna fyrir Jakob I konung.

Það fór samt ekki svo hátt þegar Shakespeare dó. Hann fékk hinstu hvílu í heimabæ sínum. Þegar einn þekktasti leikarinn úr leikflokki hans dó nokkrum árum síðar, var gert meira mál úr því. Sá hafði líka leikið sjálfan Hamlet.[1]

Leikararnir í leikflokki Shakespeares höfðu reyndar margvísleg áhrif á leikritin sem hann samdi. Þannig telur leikhús- og bókmenntafólk að það geti þekkt áhrif ýmissa leikara úr flokki Shakespeares á persónusköpun Shakespeares. Margir telja jafnvel unnt að lesa úr tiltektum og tilsvörum sumra persóna í leikritunum hvaða leikarar hafi leikið þær í upphafi, þó að slíkar ágiskanir séu nú ekki áreiðanlegar.[2] 

Raunar virðist Shakespeare ekki hafa verið mjög hirðusamur um handrit leikrita sinna eða útgáfur þeirra. Nú á dögum eru að minnsta kosti fá skjöl til, svo vitað sé, sem Shakespeare skrifaði með hendi sinni.

Nokkrum árum eftir að Shakespeare dó tóku vinir hans úr leikflokkinum sig til og gáfu leikritin út í vandaðri útgáfu. Hún kom út árið 1623. Áður höfðu um það bil helmingur leikrita hans verið gefin út í ýmsum útgáfum. Þessi leikrit voru ýmist gefin út samkvæmt samkomulagi við leikflokk Shakespeares eða í sjóræningjaútgáfum, ef til vill eftir uppskriftum leikhúsgesta og handritum fyrir leikara.[3]

Enskan hefur þróast á þeim fjögur hundruð árum sem liðin eru frá því Shakespeare dó. Það reynist því mörgum, sem þó hafa ensku að móðurmáli, erfitt að skilja þessa texta við fyrstu heyrn eða lestur. Þrátt fyrir það lesa enskir og enskumælandi leikritin enn í sinni réttu mynd, eins og þau komu úr penna skáldsins.

Talið er að leikrit Shakespeares hafi verið þýdd á meira en hundrað tungumál.[4]

Öflugt þýðingarstarf er nauðsynlegt fyrir allar þjóðir, vilji þær ekki verða heimóttarskapnum að bráð. Það stafar meðal annars af því að góðar bókmenntir hafa verið samdar á fjölmörgum tungumálum víðs vegar um veröldina og ekki nema lítill hluti á hverju tungumáli fyrir sig. Þá kann fólk almennt ekki að tala vel og lesa mörg tungumál. Venjulegt fólk kann ekkert tungumál nándar nærri eins vel og móðurmálið sem það lærði í bernsku og hefur þjálfað allar götur síðan.

Þýðingar gera hvort tveggja í senn, að opna verk fyrir áheyrendum og lesendum og afmarka þann skilning sem þeir geta lagt í verkið. Þýðingar eru ekki það sama og frumtexti, heldur túlkun þýðandans á verkinu yfir á nýtt mál. Það má líkja þýðingum við upptöku af flutningi píanóleikara á tónverki sem hann hefur á nótum fyrir framan sig, eða ef til vill upptöku á verki sem hann lærði eftir eyranu. Nóturnar eða upphaflega upptakan væru þá frumtextinn. Píanóleikarinn leikur verkið jafnvel aftur og aftur og skeytir upptökum sínum saman í hljóðverinu. Svo má líkja þýðingum einfaldlega við lestur. Þýðingar eru þá lestur sem fer þannig fram að texti á útlendu máli er lesinn upp á því tungumáli sem heimamenn skilja.

Móðurmálið er ævinlega skiljanlegast af öllum tungumálum. Það er málið sem við lærum að segja fyrstu orðin á: mamma og pabbi. Og svo öll hin á eftir. Móðurmálið er málið sem við lærum þegar við kynnumst heiminum og sjálfum okkur um leið, þegar við lærum að brosa til mömmu, borða og seinna að ganga og standa á eigin fótum. Móðurmálið er mesta jarðtengingin, það er beinasta leiðin sem við eigum að veröldinni. Móðurmálið er ævinlega allt öðruvísi en útlend mál.

Við lærum flest einhver útlend mál þegar við komumst á unglingsárin. Við lærum þau misvel. En flest lærum við frekar illa þessi útlendu mál sem við fáum að læra í æsku. Auðvitað ná samt sumir góðum tökum á einu útlendu tungumáli og jafnvel fleirum.

Það er oftast ráðlegast fyrir fólk, sem ekki hefur ensku að móðurmáli og vill kynna sér verk Shakespeares, að lesa vandaðar þýðingar á verkunum. Raunar koma góðar þýðingar öllum að gagni. Þær hafa þann stóra kost, að við lestur þeirra getur fólk sleppt takinu af orðabókum. Ef seinleg orðabókarvinna þarf að fara fram við lestur hverrar blaðsíðu, getur lesturinn vart talist skemmtilestur. Þeir sem hafa mikinn áhuga á skáldskap Shakespeares leggja sig auðvitað eftir tungu hans. En góðar þýðingar gagnast ekki síst hinum áhugasömustu um þennan skáldskap.

Íslendingar hafa staðið sig mjög vel miðað við fólksfjölda í þýðingum á verkum Shakespeares. Helgi Hálfdanarson er helsti þýðandi leikrita Shakespeares. Hann þýddi öll leikrit hans á fallegt og skáldlegt mál sem rennur vel í lestri og er oftast auðskiljanlegt. Þýðingar hans eru líka nokkuð nákvæmar. Helgi varð ekki fyrstur til að þýða Shakespeare, það gerðu skáldin Matthías Jochumsson og Steingrímur Thorsteinsson.

Verkefni frumherja á þessu sviði er verulega ólíkt verkefnum þeirra sem á eftir koma. Það verður ævinlega miklu auðveldara en áður fyrir bókmenntafólk að þýða þessi leikrit, eftir að þeir Matthías, Steingrímur, Helgi og fleiri hafa fært okkur sínar þýðingar. Það er búið að ýta úr vör og marka stefnu, eins og Helgi kemst að orði um starf fyrirrennara sinna.[5]

Á undanförnum árum hafa sum leikrit Shakespeares verið flutt með upprunalegum framburði. David Crystal, enskur málfræðingur, rannsakaði enskan framburð á tímum Elísabetar drottningar með þeim árangri að nú er talið vitað hvernig enskan hljómaði þegar skáldið samdi ljóð sín og leikrit. Leikarar og málfræðingar hafa æft sig í þessu. Nokkur leikritanna hafa verið sett upp í leikhúsi Shakespeares, Globe leikhúsinu, með þessum upprunalega framburði.[6] Leikritið Rómeó og Júlía var fyrsta leikritið sem sett var svona upp. Það var gert í Globe leikhúsinu árið 2004.

Við æfingar, lestur og flutning leikritanna með hinum upprunalega framburði hefur komið ýmislegt óvænt í ljós. Þróun enskunnar hefur stundum aflagað rím í textanum. Hljómur er talsvert breyttur. Orðaleikir og tvíræðni hafa líka stundum farið forgörðum með þessum breytingum á hljómfalli enskunnar. Þegar leikritin eru flutt með upprunalegum framburði heyrist allt í einu upp á nýtt hið upphaflega rím og hljómfall. Við þetta afhjúpast önnur merking textans en sú sem blasir við nútímafólki þegar það hlustar á textann fluttan á leiksviði eða les hann og skilur í krafti framburðarins sem nú tíðkast.

Þessar rannsóknir á texta leikrita Shakespeares lýsa einni ástæðu til þess, að nauðsynlegt er að þýða góðar bókmenntir oftar en einu sinni á íslensku. Skilningur manna á bókmenntum getur nefnilega aukist þegar nýrrar þekkingar er aflað. Þetta sést vel á því að þegar málfræðingar tóku að rannsaka það í kringum árið 2000, hvernig Englendingar báru mál sitt fram í kringum árið 1600, varð nýju ljósi varpað á leikrit Shakespeares. Þó er vandséð hvaða leikrit hafa verið betur lesin og rannsökuð í sögunni en einmitt þessi verk.

Önnur ástæða fyrir því að nauðsynlegt er að þýða góðar bókmenntir aftur og aftur er sú, að nýir þýðendur geta lært af gömlum þýðingum. Þeir stefna auðvitað að því að þýðingin sem þeir semja sé aldrei verri en gamla þýðingin og helst alltaf betri. Gamla þýðingin verður viðmið ásamt frumtextanum. Þegar merkilegar bókmenntir eru þýddar aftur og aftur á aðra tungu má búast við að smám saman takist að búa til betri og betri þýðingar.

Þriðja ástæðan er sú að móðurmálið breytist í tímans rás. Þess vegna getur þýðing sem dugði vel árið 1916 til að kynna góðar bókmenntir fyrir ungu fólki verið heldur gamaldags til sömu nota hundrað árum síðar. Móðurmál Íslendinga er svolítið öðruvísi árið 2016 en 1916, þó að ekki sé munurinn jafn mikill og á ensku Englendinga árið 2016 og 1616.

*                                  *                                  *

Ríkarður II er merkilegt leikrit um stjórnmálasögu breta, sem kom líka svolítið við sögu í stjórnmálum landsins undir lok veldistíma Elísabetar drottningar. Leikritið fjallar um efni sem þá gat verið eldfimt. Í stuttri ræðu snemma í leikritinu kemur fram athyglisverð ræða um mikilvægi tungumálsins. En áður en við komum að þeirri ræðu er best að fjalla svolítið um leikritið sjálft.

Ríkarður II tók við konungstign barn að aldri árið 1377 en var neyddur til að láta krúnuna af hendi til frænda síns Henry Bolingbroke árið 1399, sem þar með varð Hinrik konungur IV. Nokkrum mánuðum eftir hinn nýji konungur tók við dó Ríkarður II í fangelsi.

Í leikriti Shakespeares, sem að miklu leyti byggir á staðreyndum, er vikið frá þekktum staðreyndum þegar dauðdaga Ríkarðs er lýst. Ýmislegt er á huldu um dauða hans, en sumir telja að hann hafi verið sveltur til bana. Í leikritinu verður þjónn Hinriks IV hins vegar til þess að drepa fangann Ríkarð í fangelsinu með lagvopni eftir að hafa fyrst reynt að eitra fyrir honum.

Örlög Ríkarðs II voru viðkvæmt mál á síðustu árum Elísabetar drottningar, sem fæddist árið 1533, var krýnd drottning árið 1558 og ríkti til dauðadags árið 1603. Því Elísabet eignaðist hvorki mann né börn og þar með engan erfingja. Þar líktist hún hinum barnlausa Ríkarði II. Á þessum tímum var stjórnarkreppa alvarlegt mál líkt og nú á dögum. Þegar óvissa var um hver tæki við veldissprotanum gátu landsmenn séð fyrir sér að slegist yrði um völdin með blóðugum hernaði innanlands. Ýmislegt annað í stjórnarfari Elísabetar á seinni veldisárum hennar kann einnig að hafa minnt á Ríkarð II. Elísabet mun hafa gert sér grein fyrir því að líkindi voru talin milli hennar og þessa ógæfusama fyrirrennara hennar.

Leikrit Shakespeares um Ríkarð II var gefið út árið 1597. Tildrög útgáfunnar virðast hafa verið eðlileg viðskipti leikflokks Shakespeares og útgefandans.[7] Þessi útgáfa var mjög góð, að öðru leyti en því að í henni var hinum eldfima kafla um það þegar Ríkarður II missti krúnu sína sleppt. [8] Þar var ritskoðun um að kenna.

Vitað er um uppfærslu á leikritinu í heimahúsi þingmanns í desember árið 1595. Þingmaðurinn bauð ráðherra Elísabetar drottningar, Sir Robert Cecil, að vera heiðursgestur á leiksýningunni. Í boðsbréfinu stóð að leikararnir myndu bíða með leik sinn þar til hann væri kominn um kvöldið og matur yrði til reiðu. Talið er líklegt að Shakespeare hafi leikið í þessari sýningu.[9]

Fáeinum árum síðar hugðist hópur manna gera uppreisn gegn drottningu. Þetta var árið 1601. Fremstur í flokki uppreisnarmanna var jarlinn af Essex, frændi drottningar og fyrrum eftirlæti hennar. Uppreisnarmennirnir fengu leikflokk Shakespeares til að halda sérstaka sýningu á leikritinu um Ríkarð II í leikhúsi sínu, til að blása þeim réttum anda í brjóst. Þá var flokkurinn löngu hættur að sýna þetta leikrit, sem hafði verið vinsælt á sínum tíma. Fékk flokkurinn 40 skildinga að launum fyrir ómakið.[10] Sýningin var haldin kvöldið fyrir hina fyrirhuguðu uppreisn. Shakespeare virðist ekki hafa leikið í sýningunni. Upp komst um tiltækið. Réttað var yfir jarlinum af Essex fyrir uppreisnartilraunina og hann dæmdur til dauða. Í hópi saksóknara var heimspekingurinn Francis Bacon.[11] Ekki var sakast við leikarana. Það sést af því að kvöldið áður en jarlinn, þessi frændi og fyrrum uppáhaldsmaður Elísabetar drottningar, var tekinn af lífi, var leikflokkur Shakespeares fenginn til að halda leiksýningu við hirðina.[12]

 *                              *                             *

Hinrik IV kemur við sögu strax í upphafi leikritsins um Ríkarð II. Hinrik IV var náfrændi Ríkarðs II. Í upphafi leikritsins á Hinrik, sem ekki er enn orðinn konungur, í deilum annan aðalsmann. Þeir vilja heyja einvígi til að útkljá deiluna. Ríkarður II leggst gegn því í upphafi, en aðalsmennirnir tveir hafa sitt í gegn, og einvígisdagur er ákveðinn. Þegar einvígisdagurinn er runninn upp og einvígið er um það bil að hefjast, lætur konungur blása í lúðra. Hann var þarna til að vera viðstaddur einvígið. Einvígismennirnir tveir eru kallaðir fyrir konung, sem segir þeim að hann geti ekki horft upp á þá ganga til svo lífshættulegs leiks sem einvígis. Hann biður þá því að sættast. Þeir vilja ekki gera það. Þá bannar konungur þeim að berjast og dæmir til útlegðar.

Frænda sinn Hinrik dæmdi hann til tíu ára útlegðar, en mildaði dóminn svo í sex ár. En mótherja hans dæmdi hann í ævilanga útlegð. Mótherjinn hét Thomas Mowbray á tungumáli sínu, en í þýðingu Helga Hálfdanarsonar fékk hann nafnið Tómas Moðbrjánn. Í leikriti Shakespeares mæltist Moðbrjáni svo við konung þegar hann heyrði hinn ævilanga útlegðardóm:

A heavy sentence, my most sovereign liege,

And all unlooked for from your highness' mouth.

A dearer merit, not so deep a maim

As to be cast forth in the common air,

Have I deserved at your highness' hands.

The language I have learnt these forty years,

My native English, now I must forgo,

And now my tongue's use is to me no more

Than an unstringed viol or a harp,

Or like a cunning instrument cased up –

Or, being open, put into his hands

That knows no touch to tune the harmony.

Within my mouth you have engaoled my tongue,

Doubly portcullised with my teeth and lips,

And dull unfeeling barren Ignorance

Is made my gaoler to attend on me.

I am to old to fawn upon a nurse,

Too far in years to be a pupil now.

What is thy sentence then but speechless death,

Which robs my tongue from breathing native breath?“

            (1.3.154 – 173)

 

Í hinum íslenska búningi Helga Hálfdanarsonar hljómar þessi ræða svo:  

„Þungur er dómur sá, minn hái herra,

sem óvænt gekk af Yðar Tignar munni.

Laun öllu betri en högg svo heljarþungt

sem hrakning útí veður allra vinda

verðskulda ég úr yðar konungshendi.

Tungan, sem fjórir tugir ára gerðu

mér tamasta, mitt móðurmál, skal glatast;

tunga mín er nú orðin mér jafn fánýt

og harpa strenglaus, eða göfug gígja

í læstu skríni falin, eða fengin

í hendur þeim, sem þekkir engin grip

er töfrað gætu úr strengjum stilltan hljóm;

þér teppið mína tungu í fangelsi

míns eigin munns, með tvenna grind af tönnum

og vörum, þar sem sljó og fávís flónska

sem fangavörður á að gæta mín.

Ég er of roskinn fyrir fóstru-gælur,

of gamall til að gerast lærisveinn;

og því er yðar dómur mállaus dauði,

dómsorð sem ræna tungu minnar auði.“[13]

*                               *                              *

Ríkarður II gerði þá Tómas Moðbrjánn og Hinrik frænda sinn útlæga árið 1398.

Í raunveruleikanum varð Tómas Moðbrjánn ekki fertugur eins og segir í þessari ræðu. Hann dó í Feneyjum ári eftir að hann var rekinn í útlegðina, árið 1399, og var þá þrjátíu og tveggja eða þrjátíu og þriggja ára gamall. Þá má geta þess að hinn raunverulegi Moðbrjánn kunni líklega fleiri tungumál en ensku. Hann fór sem fulltrúi konungs, sem sendisveinn eða sendiherra, í ferðalög til Frakklands og Þýskalands. Hann hefur því kunnað eitthvað fyrir sér í erlendum málum.[14] Af þessu má ráða að útlegðin hefur ekki verið eins hryllileg vegna kunnáttuleysis í tungumálum fyrir þennan unga mann og Shakespeare gefur til kynna. Ræða hans í leikritinu virðist því vera skálduð upp frá rótum.

Hinn einvígismaðurinn, Hinrik, þurfti á hinn bóginn ekki lengi að dúsa í útlegð. Hann var búinn að hrifsa til sín konungdóminn um það leyti sem andstæðingur hans dó í Feneyjum. Hann ríkti sem konungur frá 1399 til dánardags árið 1413. Um hann skrifaði Shakespeare tvö leikrit, og hið þriðja um son hans, Hinrik V.

 *                            *                           *

Þessi fjögur leikrit um Ríkarð II, Hinrik IV og son hans Hinrik V eru öll til í heildarútgáfu á þýðingum  Helga Hálfdanarsonar á leikritum Shakespeares. Því miður hafa þessar þýðingar nú um langt árabil verið ófáanlegar í bókabúðum. Gaman væri nú ef unnt væri að gefa þessar þýðingar aftur út á prenti í tilefni af 400 ára ártíð Shakespeares.

 
 
                                                                                                        _____________________________________
                                                                                                        Hveragerði, 23. apríl 2016


[1] Þessi frægi leikari hét Richard Burbage. Hann var frægasti leikarinn í leikflokki Shakespeares og lék helstu karlhlutverk í leikritum hans eins og Helgi Hálfdanarson lýsir í inngangi sínum að leikritasafni Shakespeares, Fáein orð um Shakespeare. William Shakespeare, Leikrit 1. Mál og menning, Almenna bókafélagið. Reykjavík 1982, bls. 13.

Richard Burbage dó árið 1619. Í nafnlausu erfiljóði um hann var þess m.a. getið að hann hefði leikið Hamlet og Lé konung. Sjá Stephen Greenblatt: How Shakespeare Lives Now. The New York Review. Vol. LXIII, No. 7, 21. apríl – 11 maí 2016, bls. 8.

[2] Helgi Hálfdanarson. Fáein orð um Shakespeare, William Shakespeare, Leikrit 1, Mál og menning, Almenna bókafélagið. Reykjavík 1982, bls. 17.

[3] Helgi Hálfdanarson. Fáein orð um Shakespeare, William Shakespeare, Leikrit 1, Mál og menning, Almenna bókafélagið 1982, bls. 17. Á vefnum má finna margar þessara útgáfna á vefsíðunni www.quartos.org . Fræðast má um fyrstu útgáfur Shakespeare leikritanna á  vefsíðunni http://www.shakespeare-online.com/biography/shakespeareinprint.html .

[4] Stephen Greenblatt: How Shakespeare Lives Now. The New York Review. Vol. LXIII, No. 7, 21. apríl – 11 maí 2016, bls. 10.

[5] Helgi Hálfdanarson. Fáein orð um Shakespeare, William Shakespeare, Leikrit 1, Mál og menning, Almenna bókafélagið 1982, bls. 21.

[6] David Crystal er málfræðingurinn sem þekktastur er fyrir þetta verk. Hann hefur samið orðabók um framburð frá tímum Shakespeares, The Oxford Dictionary of Original Shakespearean Pronunciation, sem er væntanleg í sumar frá Oxford University Press. Hlusta má á David Crystal fara með texta Shakespeares á youtube. Sé leitað að slíkum upptökum er rétt að slá inn leitarorðið "original pronounciation" eða "original pronounciation of Shakespeare" og þá ættu ýmsar upptökur að koma í ljós.

[7] Sjá inngang ritstjóra. William Shakespeare. Richard II. The New Shakespeare. Ritstjóri J. Dover Wilson. Cambridge University Press 1961. bls. vii – viii.

[8] Sjá William Shakespeare, King Richard II. Ritstjóri Charles E. Forker. The Arden Shakespeare, third series, Methuen Drama, London, 2002. Inngangur ritstjóra, bls. 165 og Longer notes, bls. 515 – 517.

[9] Fyrsti þekkti flutningurinn á verkinu mun hafa verið þann 9. desember 1595. Sjá inngang J. D. Wilsons í William Shakespeare. Richard II. The New Shakespeare. Edited by J. Dover Wilson. Cambridge University Press 1961. bls. viii – ix.

[10] Sjá William Shakespeare, King Richard II. Ritstjóri Charles E. Forker. The Arden Shakespeare, third series, Methuen Drama, London, 2002. Inngangur ritstjóra, bls. 10.

[11] Sjá Brittannica Online. "Robert Devereux, 2nd earl of Essex." Encyclopaedia Britannica. Britannica Academic. Encyclopædia Britannica Inc., 2016. Web. 23 Apr. 2016. <http://academic.eb.com/EBchecked/topic/193212/Robert-Devereux-2nd-earl-of-Essex>.

[12] Sjá inngang J. D. Wilsons í William Shakespeare. Richard II. The New Shakespeare. Edited by J. Dover Wilson. Cambridge University Press 1961. bls. xxxii.

[13] Ríkarður II. William Shakespeare. 1.3.154 – 1.3.173. Þýðing Helga Hálfdanarsonar. Leikrit 1, Mál og menning, Almenna bókafélagið 1982, bls. 54.

[14] Sjá William Shakespeare, King Richard II. Ritstjóri Charles E. Forker. The Arden Shakespeare, third series, Methuen Drama, London, 2002. Neðanmálsgrein á bls. 220.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu