Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Sturla konungur IV (hliðarheimasaga, sögð í tilefni dagsins)

Anno Domini 1453: Sturla konungur tölti um höll sína á Bessastöðum hugsandi. Varð hugsað til feðra sinna, bæði fyrri konunga, eins frænda sinna af hinu konunglega Sturlungakyni.

Forfaðir hans Sturla I konungur, Sighvatsson, hafði vegið Gissur Þorvaldsson við Apavatn, látið eiga sig að ganga suður,  og með því tryggt sér alveldi á Íslandi. Sumarið 1238 sóru höfðingjar Sturlunga, Ásbirninga, Haukdæla og annarra ætta, Sturlu hollustueiða á Þingvöllum. Hann þorði reyndar ekki að taka sér konungsnafn, kirkjan vildi helst ekki að það væri nema einn konungur í hverju erkibiskupsdæmi (erkibiskup sat í Niðarósi í Noregi). Og hann vildi ekki styggja Hákon gamla, Noregskonung, heldur þóttist sverja honum hollustueiða en fór sínu fram, Hákoni til sárrar gremju.

Sturlu hafði ekki alltaf samið vel við Snorra frænda sinn Sturluson, en þegar sá  féll fram og játaði honum hollustu sína, fyrirgaf hann hinum aldraða höfðingja. Snorri gaf honum Bessastaði og urðu þeir smám saman konungssetur en hinn mikli sagnfræðingur sat í Reykholti og reit Danakonunga sögu, til viðbótar Heimskringlu, Noregs konunga sögu. Hann hóf einnig samningu Geirmundar sögu Heljarskinns en lést árið 1262, frá ókláruðu verki. Sama árið og Sturla lét krýna sig konung, þrátt fyrir hótanir Noregskonungs. Sá hótaði innrás en ekkert varð af henni enda langt til Íslands og allra veðra von á þeirri leið. Hvað Geirmundar sögu varðar þá lauk Sturla Þórðarson verkinu, um leið og hann skrifaði hina miklu Sturlu sögu Sighvatssonar. Hún var færð nýkrýndum konungi að gjöf á krýningarhátíðinni 1262.

Afkomandi hans, Sturla IV,   settist í hásæti sitt og beið ráðgjafa sinna, nú skyldi fundað. Þeir tíndust inn, einn af öðrum, lutu hátigninni, og settust svo við borðið. Aðalráðgjafinn, Ásbjörn Ásbjörnsson, vatt sér að efninu, eftir þennan venjulega formála um göfgi hans hátignar: „Yðar hátign, eins og þér vitið manna gerst, hafa ýmsir höfðingjar beðið yður um aðstoð við að hnekkja þorpum sem rísa við sjávarsíðuna. Þau ræni höfðingja vinnuafli. En ég ráðlegg yður að hafa bón þeirra að engu. Í fyrsta lagi verðið þér að sýna að þér séuð ekki þjónn höfðingja, í öðru lagi má gera bandalag við þorpsbúa gegn höfðingjum sem gætu ógnað veldi yðar. Í þriðja lagi má hafa allmikið skattfé af þorpunum, þar er mikið fiskað og verslað við erlenda kaupmenn. Þér ættuð að fara að sið erlendra konunga og gerast verndari þorpanna, gefa þeim stöðu sem kaupstaðir. Minnist þess að Noregskonungur stofnsetti Björgvinjarbæ, þér gætuð farið eins að, stuðlað að eflingu þorpanna svo þau verði raunverulegir bæir. Konungsvaldið mun eflast mjög fyrir vikið.“

Þessi tillaga var rædd um skeið og var umdeild. Að lokum reis konungur úr sæti og gaf merki um að nú skyldi hann taka ákvörðun í málinu:

„Tillaga Ásbjörns er mjög af hinu góðu, ég skipa svo fyrir að nú þegar skulu nokkur þorpanna fá kaupastaðarstöðu og verða lýst njóta verndar konungs. Sendir verða vopnaðir riddarar til þeirra til að verja þau   gegn yfirgangi höfðingja.“

Svo varð sem konungur bauð.

Fyrir vikið losnuðu Íslendingar við vistarbandsóþverrann, einokunarverslun og annan sóðaskap.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu