Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Hver er þetta í sætinu við hliðina á Ellen?

Hver er þetta í sætinu við hliðina á Ellen?

Á fundi í Safnahúsinu fyrir nokkru sá ég Ögmund Jónasson taka hjartanlega í spaðann á Birni Bjarnasyni. Gott ef það var ekki meira að segja eins og eitt karlaknús í ofanálag. Ég veit að engum þykir þetta stórtíðindi en þetta stakk mig aðeins. Þegar ég öðlaðist pólitíska meðvitund á lokaárum tuttugustu aldarinnar bar Ögmundur enn vissan hetjuljóma á vinstri vængnum. Hann var svo þingmanna háværastur gegn innrásinni í Írak og Björn Bjarnason var ... 

tja ...

Hann var ekki sama sinnis.

Mér hefur oft verið tjáð að ég taki pólitík of persónulega. En þegar ég var rétt rúmlega tvítugur fannst mér það spurning um grundvallarsiðferði að leggja ekki stuðning sinn (eða þjóðar sinnar, að henni forspurðri) við óverjanlegar ofbeldisaðgerðir og ég hefði ekki tekið í höndina á einum einasta meðlimi stjórnmálaflokksins sem setti nafn Íslands á lista hinna viljugu. Þessa afstöðu getur þingmaður kannski ekki leyft sér þar sem honum ber skylda til að gera allt sem í sínu valdi stendur til að bæta hag kjósenda sinna, þar á meðal að halda opnum samskiptalínum við pólitíska andstæðinga; meira að segja þá sem gerðu okkur formlega samsek í alþjóðaglæpum bandaríska heimsveldisins.

Mér varð hugsað til þessa þegar Ellen DeGeneres komst í hann krappan fyrr í október fyrir að taka myndbandssjálfu af sér og manninum í næsta sæti uppi í stúku á ruðningsleik. Sá maður var nefnilega enginn annar en sjálfur upphafsmaður áðurnefndrar innrásar, George W. Bush. Téður Bush var meira að segja maðurinn sem reyndi að fá sem flest fylki til að setja bann við giftingum samkynhneigðra á kjörseðilinn í kosningunum 2004, til að ræsa heittrúaða andstæðinga samkynhneigðar á kjörstað.

Spurningin vaknar: Hvað átti Ellen að gera? 

Auðvitað getur þessi spurning orðið að argumentum ad absurdum hjá þeim sem sjá ekkert athugavert við hátterni Ellenar í þessum aðstæðum. Eitthvað í ætt við: „Hva, á hún sem sagt bara að hrækja á manninn þegar hún sest við hliðina á honum?“ Þetta er oft sama fólkið sem lætur eins og slagorðið „Útrýmum hinum ríku“ feli í sér fallaxir eða gasklefa þrátt fyrir að það sé morgunljóst að verið er að leggja til auðlegðar- og hátekjuskatt, lýðræðisvæðingu efnahagsins og fleira í þeim dúr.

Nei, Ellen átti ekki að hrækja á Bush. Og það hefði ekki verið nein synd gegn goðum og mönnum að taka í höndina á honum fyrir kurteisissakir, þó svo að ég hefði sjálfur látið það eiga sig. En Ellen gekk aðeins lengra en Ögmundur að tvennu leyti: Í fyrsta lagi ber Bush þyngri sök í Írakssamhenginu en áðurnefndur Björn, verandi maðurinn sem gaf sjálfa fyrirskipunina um að ráðist skyldi á írösku þjóðina á meðan Björn var bara einn þeirra sem klappaði fyrir ódæðisverkunum úr fjarska. Í öðru lagi var Ellen ekki bara kurteis við Bush á almannafæri heldur tók af því myndband og sletti því yfir netheima eins og hann væri trommarinn í Slayer en ekki það sem hann er í raun og veru:

Stríðsglæpamaður.

Það er himinn og haf á milli algjörrar útskúfunar og fullkominnar meðtekningar.

Saksóknarinn Vincent T. Bugliosi segir frá því í bók sem hann skrifaði um lífsreynslu sína sem saksóknari í málinu gegn Manson-fjölskyldunni, Helter Skelter, að hann hafi oft haft lúmskt gaman af því að spjalla við forsprakka hópsins, sjálfan Charles Manson. Oft ræddi hann reyndar við hann í því augnamiði að spila á mikilmennskubrjálæði hins smávaxna ofbeldismanns og fá hann til að samþykkja að bera vitni og tala af sér í vitnastúkunni. En þar sem persónutöfrar Mansons voru hans helsta vopn kemur ekkert á óvart að samræður við hann hafi verið áhugaverðar. Bugliosi hefði þó aldrei rifið brosandi í spaðann á Manson fyrir framan myndavélar fjölmiðla.

Það er himinn og haf á milli algjörrar útskúfunar og fullkominnar meðtekningar.

Í landi Kanans þar sem skuggarnir hvíla voru viðbrögð sumra við myndbandi Ellenar fyrirsjáanleg. Talað var um þetta sem fallegt dæmi um það að ólíkt fólk með ólíkar skoðanir geti átt góðar stundir saman sem manneskjur og mótbárum þeirra sem bentu á þá svívirðu sem W. kom í kring í forsetatíð sinni var svarað með gömlu, uppþornuðu mykjunni um það hversu mikilvægt væri að fyrirgefa - að enginn sé fullkominn og á endanum þurfi maður að geta skilið fortíðina eftir í fortíðinni og haldið áfram með lífið. Bush hefur hins vegar aldrei séð að sér og er, eftir því sem ég kemst næst, enn þeirrar skoðunar að samkynhneigt fólk eigi ekki að fá að giftast og að innrásin í Írak hafi verið gæfuspor í sögu Bandaríkjanna.

Við erum einfaldlega orðin svo vön því að horfa upp á meðlimi eignastéttarinnar ræða saman í sjónvarpinu um stjórnmál að við gleymum því að þetta er ekki bíómynd.

Nei, ég er ekki þeirrar skoðunar að Ellen vilji endilega moka yfir þessar staðreyndir eða gera einhvern dýrling úr þessum gamla Texas-búa, sem greiddi með heimsku sinni götuna fyrir enn heimskari núverandi íbúa Hvíta hússins. Ég held hún sé bara að mestu ópólitísk og skynji ekki alvarleika pólitískra ákvarðana vegna þeirrar forréttindastöðu sem hún hefur. Einhverjir af áhorfendum hennar hafa væntanlega yfirgefið hana en ég held að þátturinn hennar sé ekki í neinni hættu, rétt eins og Michelle Obama fékk að komast upp með að knúsa Bush og tala um hann sem félaga sinn við ýmsar athafnir. 

Við erum einfaldlega orðin svo vön því að horfa upp á meðlimi eignastéttarinnar ræða saman í sjónvarpinu um stjórnmál að við gleymum því að þetta er ekki bíómynd. Að þegar karpað er um opinbera stefnu eru það ekki líf íbúa Gondor eða flóran á Pandóru sem liggja við heldur raunveruleg líf raunverulegs fólks sem býr í raunverulegum húsum sem verða sprengd og í raunverulegum vistkerfum sem munu hrynja.

Nú er nefnilega maður við stjórnvölinn í Bandaríkjunum sem allt viti borið fólk — pólitískt jafnt sem ópólitískt — lítur réttilega á sem ógn við heimsfriðinn og sjálfa afkomu mannkynsins. En ef sú sýndarveruleikatilhneiging sem fékk Ellen til að taka kumpánavídeó af sér með Bush breytist ekki þá munu sjónvarpsstjörnurnar umfaðma Trump á sama hátt eftir tíu ár. Rasistatalið, kvenfyrirlitningin, umhverfissinnuleysið og blóðsúthellingarnar — allt saman fyrirgefið án minnstu iðrunar af hans hálfu og Hollywood rótar í heygulu hárlíkinu á hundgömlum hausnum á honum í beinni útsendingu.

Á meðan plánetan brennur.

Í samanburði við slíkan viðbjóð verður að viðurkennast að knúsið í Safnahúsinu er ansi sakleysislegt.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu