Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Að taka boltann sinn og fara heim

Að taka boltann sinn og fara heim

Í mínu ungdæmi var það almennur praxis þeirra sem fóru í fýlu út í jafnaldra sína í fótbolta að taka boltann sinn og fara heim. Þannig batt maður ekki bara enda á eigin þátttöku heldur skemmdi sjálfan leikinn. Þetta var aðeins erfiðara ef maður átti ekki boltann en þá gat maður alla vega skilið hópinn eftir með ójafnt í liðum eða stolið boltanum og hlaupið með hann heim (ef maður óttaðist ekki að vera eltur og laminn fyrir það).

Mér verður oft hugsað til þessa á fullorðinsárunum þegar afþreyingu lýstur saman við ágreining. Nærtækasta dæmið er kannski Júróvisjón-keppnin í ár þar sem mörg okkar vildu að Ríkisútvarpið hætti við þátttöku og dreifðum myllumerkinu #0stig. Þar fengum við fyrirsjáanleg mótrök:

a) Það breytir engu þótt ein fámenn þjóð dragi sig úr keppni.

b) Það á ekki að blanda saman svona viðburðum og stjórnmálum af því að engir stjórnmálamenn koma þarna fram.

c) Andstaðan gegn því að keppnin sé haldin í Ísrael byggir á gyðingahatri.

Nú er ástæðulaust að taka fyrir mótrök c af því að þau koma frá fólki sem kallar alla gagnrýni á opinbera stefnu Ísraelsríkis gyðingahatur og enginn þarf að taka það fólk alvarlega í þeirri umræðu. Rök a byggja á þeim misskilningi að sniðganga á menningarviðburði þurfi að byrja á fjölmennri þjóð. Þetta er eins og að segja að atrennan í þrístökki þurfi að hefjast á lengsta skrefinu. Það eru einmitt fámennar, herlausar þjóðir sem geta verið hvatar að jákvæðum breytingum með fordæmi sínu. Rök b eru kannski sterkust en halda ekki vatni þegar betur er að gáð.

Það er bara með því að stíga út úr meðvirkninni og benda á mannvonskuna sem við náum að breyta einhverju. Stundum þýðir það að vera fúll á móti og verkur í rassi þegar aðrir eru að reyna að skemmta sér.

Stríðsglæpir Ísraela gegn Palestínumönnum sumarið 2014 bárust heimsbyggðinni nánast í beinni útsendingu og flestir Íslendingar lýstu yfir andstöðu sinni. Ég lenti að vísu upp á kant við örfáa sem vildu bera blak af Ísrael af trúarlegum ástæðum en heilt yfir voru Íslendingar með það á hreinu að hér væri um grimmdarverk gegn varnarlausu fólki að ræða. Ísraelska leikkonan Gal Gadot var ekki sama sinnis. Í Ísrael er almenn herskylda og Gadot hafði ekki verið undanþegin henni frekar en aðrir og sendi því bænir og baráttukveðjur til „bræðra sinna og systra“ sem væru að „vernda landið“ hennar með innrásinni á Gaza. Þess vegna var kallað eftir því að kvikmyndaunnendur létu ræmuna Wonder Woman (2017) – þar sem Gadot lék aðalhlutverkið – fram hjá sér fara í mótmælaskyni.

Líta mætti svo á að Gal Gadot hafi verið skýrara dæmi um andstæðing en ísraelsku Júróvisjón-haldararnir fjórum árum síðar þar sem enginn í þeirra hópi lýsti yfir stuðningi við hernámið eða tilteknar árásaraðgerðar Ísraela í þeirri útsendingu. En hávær hneysklunarhrópin yfir því að Hatari skuli hafa svo mikið sem flaggað palestínsku fánalitunum í sjónvarpssalnum voru skýr skilaboð um að viðstaddir væru sammála um að láta eins og Palestínumenn væru ekki til. Eða væru alla vega ekki fólk.

Nei, Hatari breytti ekki heiminum. En það er bara með því að stíga út úr meðvirkninni og benda á mannvonskuna sem við náum að breyta einhverju. Stundum þýðir það að vera fúll á móti og verkur í rassi þegar aðrir eru að reyna að skemmta sér. Stundum þýðir það að vefa meðvitund um heimsviðburði að einhverju leyti inn í list sína. Og, eins og Illugi Jökulsson benti á um daginn, þá þýðir það stundum að taka ekki þátt í afþreyingarviðburðum með illgjörðarmönnum og velunnurum þeirra.

Tyrkneska landsliðið mætir okkur 14. nóvember.

Þá vill Illugi að við tökum boltann okkar og förum heim.

Gefum hreinlega leikinn af samviskuástæðum.

Nú sveima margir fingur yfir lyklaborðum og hyggjast benda mér á að ef Íslendingar vildu ekki spila fótbolta þar sem harðstjórn ríkir þá hefðu þeir ekki átt að taka þátt á HM í Rússlandi og ekki væri heldur hægt að spila við Englendinga eða Bandaríkjamenn eftir innrásina í Írak o.s.frv. og þetta myndi enda með því að við værum ekki að spila landsleiki við neinn nema Færeyjar og Grænland.

Þessi flóðgáttarrök eru ekkert rosalega vel ígrunduð en í fyrstu hugsaði ég sem svo að tyrknesku landsliðsmennirnir væru tæplega málsvarar tyrkneska hersins sem gerði innrás í Rojava héraðið í Sýrlandi í síðustu viku. En svo rann upp fyrir mér ljós. Þeir eru það víst! Það væri eitt ef þeir hefðu bara spilað fótbolta og skilið stjórnmálin eftir utan við völlinn, eins og Hatara-hópurinn var hvattur til að gera í Tel-Aviv (og meira að segja Pollapönk í Danmörku). En við sáum Tyrkina fagna mörkum sínum í síðustu tveimur leikjum með því að heilsa að hermannasið til stuðnings árásaraðgerðum Erdogans gegn fólki sem var engin hernaðarleg ógn gegn tyrknesku þjóðinni.

Þeir sem fagna fjöldamorðum og alþjóðlegum yfirgangi geta spilað fótbolta annars staðar.

Ef við værum í riðli með Bandaríkjamönnum 2003 í miðri Íraks-innrás eða Ísraelsmönnum 2014 í miðri Gaza-innrás (sem gerist auðvitað ekki vegna landfræðilegrar legu en setjum svo) og þeir fögnuðu mörkum sínum í leikjunum á undan með því að lýsa yfir táknrænum stuðningi við fjöldamorð herdeilda sinna í landi annars fólks þá myndu viðbrögð mín vera þau sömu:

Ég vil ekki að við spilum við svoleiðs pakk!

Þeir sem fagna fjöldamorðum og alþjóðlegum yfirgangi geta spilað fótbolta annars staðar.

Ég veit jafnframt að líkurnar á því að fá það í gegn að Knattspyrnusamband Íslands lýsi yfir að það vilji frekar gefa leikinn 14. nóvember heldur en að spila knattspyrnu við þá leikmenn sem gerðu þetta úti á vellinum eru ekki miklar. En ég mun engu að síður fylgjast með fréttunum.

Nú er mér ljóst að ekki hafi allir leikmenn tyrkneska landsliðsins tekið þátt í þessu, alla vega ekki í Frakkaleiknum, og að til eru fleiri tyrkneskir leikmenn sem kunna knattspyrnu og geta fyllt í skarðið án þess að lýsa yfir stuðningi við glæpi gegn mannkyninu. Það myndi ég samþykkja. En ef svo mikið sem einn af þessum samviskulausu tindátum Erdogans sýnir á sér andlitið í leiknum mun ég frekar horfa á málningu þorna með ryksugu í fullum gangi en að horfa á Ísland spila við þá.

Ég er farinn heim með boltann minn.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni