Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Enn önnur fasistaheimsókn?

Enn önnur fasistaheimsókn?

Á föstudagskvöldinu 16. ágúst var rithöfundurinn og samfélagsrýnirinn Owen Jones að halda upp á afmælið sitt í hverfinu Islington í Lundúnum. Þegar hann fór með vinum sínum út af pöbb klukkan tvö á aðfaranótt laugardags kom hópur manna aðvífandi og réðist á þá. Jones var sá sem þeir ætluðu að berja en vinir hans voru líka lamdir fyrir að reyna að verja hann. Jones var hrint og hann fékk spörk í skrokkinn og höfuðið. Árásarmennirnir voru hægriöfgamenn sem kærðu sig ekki um pólitíska afstöðu hans.

Viðhorf Owens Jones eru sósíalísk. Hann hafnar ofbeldi og vill efnahagslegan jöfnuð og virkara lýðræði. Hann er aukinheldur ekkert hræddur við að útlendingar komi til landsins. Jafnvel hörundsdökkir útlendingar! Jafnvel múslimar!

Ef þú tókst ekki andköf við að lesa lýsinguna á pólitískum skoðunum þessa hálffertuga Mið-Englendings þá óska ég þér til hamingju: Þú ert sæmilega heilbrigður einstaklingur. Hið sama á því miður ekki við um alla samborgara þína. Sumir eru því miður ekkert endilega sannfærðir um ágæti jafnréttis, jöfnuðar eða lýðræðis. Vilja bara einhverja sterka pabbafígúru sem verndar þá fyrir ógnvekjandi umheimi með því að halda útlendingunum utan við landamærin og takmarka tjáningarfrelsi þeirra sem eru alltaf að rífa kjaft um sjálfsákvörðunarrétt, manngæsku og annað svoleiðis hippasjitt.

Þessir einstaklingar hafa alltaf verið til en við hrun nýfrjálshyggjunnar (sem hófst árið 2008 og er enn í gangi) myndaðist tómarúm sem margir þeirra hafa stigið inn í og þannig gert hinn almenna fasista kokhraustari og líklegri til að láta til skarar skríða. Salvini á Ítalíu, Orban í Ungverjalandi, Bolsonaro í Brasilíu og auðvitað Dónaldinn í Vesturheimi — þessir menn eiga það sameiginlegt að stilla sér upp sem óhagganlegum verndara þjóðar sinnar gegn alþjóðahyggju, frjálslyndi og siðmenningarlegri framþróun. Þeir gera átrúnaðargoð úr eigin persónu og upphefja gildi ofbeldis og drottnunar. Og þeir eiga sér allir aðdáendur á Íslandi.

Alda af hryðjuverkum hægriöfgamanna hefur skollið á Bandaríkjunum undanfarin ár, nú síðast í El Paso, og fordæmingar þarlendra stjórnvalda á þeim ódæðisverkum hafa verið hlandvolgar.

Hitler varð ekki einræðisherra á einum degi. Reiðilestrar á almannafæri áttu sér stað árum saman áður en nasistarnir náðu kjöri og brúnskyrtusveitir lömdu pólitíska andstæðinga á götum úti. Ógnunin byggðist upp smám saman og þeir sem halda að engar hliðstæður séu til staðar á Vesturlöndum nútímans hafa ekki fylgst með fundum Trumps, þar sem hann hvetur ítrekað til þess að lúskrað sé á mótmælendum. Alda af hryðjuverkum hægriöfgamanna hefur skollið á Bandaríkjunum undanfarin ár, nú síðast í El Paso, og fordæmingar þarlendra stjórnvalda á þeim ódæðisverkum hafa verið hlandvolgar.

Að kalla þessa stjórnmálamenn popúlista er örlítið misvísandi. Það að sækja sér atkvæði með því að segjast ætla að berjast fyrir vinsælum málefnum er ekki hugmyndafræði heldur aðferðafræðileg nálgun. Og gildi popúlisma fer algjörlega eftir því hversu uppbyggileg málefnin eru sem popúlistinn tileinkar sér. Ég hef lengi lagt það til að stjórnmálarýnar haldi sig við þá aldargömlu aðgreiningu að kalla baráttufólk fyrir raunverulegum þjóðfélagsumbótum (hvort sem manni hugnast þær eður ei) popúlista og nota orðið lýðskrumarar (e. demagogues) yfir rugludalla sem ganga þvert á siðmenningarnorm og æsa fólk upp til ofbeldis með samhengislausu nojublaðri. Bernie Sanders er popúlisti. Donald Trump er lýðskrumari.

Ég nota orðið kristlingur hér af ásettu ráði þar sem ég vil meina að afturhaldskurfur sem er þýlundaður gagnvart eignafólki og fjandsamlegur minnihlutahópum eigi ekki að fá að skreyta sig með fjöðrum trésmiðarins frá Galíleu ...

Og varaforsetinn hans?

Mike Pence er kristlingur frá Indiana. Ég nota orðið kristlingur hér af ásettu ráði þar sem ég vil meina að afturhaldskurfur sem er þýlundaður gagnvart eignafólki og fjandsamlegur minnihlutahópum eigi ekki að fá að skreyta sig með fjöðrum trésmiðarins frá Galíleu sem sagði að auðveldara væri fyrir úlfalda að ganga gegnum nálarauga en fyrir ríkan mann að öðlast hlutdeild í guðsríkinu og að allt sem við gerum hinum bjargarlausustu í samfélaginu höfum við gert Kristi sjálfum. Mike Pence er ekki kristinn maður heldur kristlingur; kvislingur sem segist vera kristinn.

Hann hefur aðallega beint skotum sínum að hinsegin fólki, beitt sér gegn því að það fái að giftast og staðið vörð um réttindi atvinnurekenda til að mismuna á grundvelli kynhneigðar. Þetta er svo órjúfanlegt persónu hans í stjórnmálum að Trump grínaðist eitt sinn með að Pence myndi helst vilja hengja alla homma. Þessi fyrrverandi fylkisstjóri Indiana kallar viðleitni sína til að útrýma samkynhneigð úr samfélaginu, ýmist með bænum til guðs eða mismununarlöggjöf, baráttu fyrir trúfrelsi.

Hann er þó ekki alfarið samkvæmur sjálfum sér í þessum efnum. Eins og margir kvislingar innan raða kristinna söfnuða var hann tilbúinn að gera málamiðlanir gagnvart boðum hins heilaga orðs, ekki til að styðja mannréttindi venjulegs fólks sem vill fá að giftast elskanda af sama kyni, heldur til að styðja framboð hraðlygins raðhórkarls sem ber nákvæmlega núll virðingu fyrir helgi hjónabandsins (sem kristlingum á að þykja svo vænt um). Til þess að vinna íhaldsstefnu sinni í samfélagsmálum brautargengi seldu margir lærisveinar frelsarans sál sína og studdu þennan appelsínurauða siðblindingja; endanleg sönnun þess að þeir trúðu aldrei á neitt heldur fannst bara skemmtilegt að lemja aðra í hausinn með Biblíunni.

Nýfrjálshyggjan býr til bandalög þvert á allar siðferðislínur af því að hún forgangsraðar gróðasækni framar öllu öðru. Þess vegna getur Guðlaugur Þór verið í „Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna“ með tyrkneska öfgatrúaða einræðisherranum Erdogan.

Guðlaugur Þór er í engu uppáhaldi hjá mér en honum til varnar held ég að það sé ekki vegna hommahaturs Pence sem hann vill fá hann í heimsókn. Nei, ég er á því að það sem blessaður utanríkisráðherra okkar kann að meta í fari fasista eins og Pence, Pompeio, og Boris Johnson er ekki samfélagsíhald heldur efnahagsíhald. Það sem ég get ímyndað mér að honum hugnist er færni þessara manna til að reka ólýðræðislega efnahagsstefnu í þágu eignastéttarinnar; nokkuð sem hægriöfgamenn eru alls ekki einir um. Nýfrjálshyggjan býr til bandalög þvert á allar siðferðislínur af því að hún forgangsraðar gróðasækni framar öllu öðru. Þess vegna getur Guðlaugur Þór verið í „Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna“ með tyrkneska öfgatrúaða einræðisherranum Erdogan. Og þess vegna mun hann fagna komu öfgatrúaða varaforsetans úr Vestri. Af því að kapítalisminn skiptir meira máli en mannréttindi.

Mike Pence mun saurga íslenska grund með fótum sínum þann 4. september næstkomandi. Ég hvet alla með sómakennd til að taka þátt í opinberum mótmælum gegn öllu því sem þessi maður stendur fyrir. Mogginn mun kalla þetta of hörð viðbrögð. En Mogginn lofsöng líka Mússólíní í gamla daga (sjá 8. ágúst árið 1933, bls. 2) og ritstjórnin þar á bæ ber nú til dags lof á menn eins og Duterte og Viktor Orban. Við Íslendingar erum því miður ekki allir jafn sammála um ágæti beinna aðgerða gegn fasisma. Hið sama á við um Englendinga og þess vegna grasserar þessi mannfjandsamlega hugmyndafræði þar og fólk eins og Owen Jones er lamið á götum úti. Við erum ekki komin á þann stað en ef við gerum ekkert mun þetta bara versna.

Og versna.

Og versna.

Við vitum hvar þetta endar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu