Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Smáblóm með titrandi tár

Stundum held ég að þjóðskáldið úr Þorskafirði hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann tróð smáblómi með titrandi tár inn í Lofsönginn. Fátt lýsir þjóðinni betur. Við erum óttalegur ræfill í stóra samhengi hlutanna. Stundum snotur en oftar heiftúðug og meingölluð.

Síðustu daga hefur a.m.k. í tvígang spilast obbolítil sena þar sem við afhjúpum smæð okkar og titrandi tilfinningahita. 

Byrjum á þeirri fyrri. 

Útvarpsmaður sem m.a. hefur sérhæft sig í því að hæðast að fólki sem hann er ósammála kemur í sjónvarpsþátt til að rífast við miðil. Prestur sem horfir á þáttinn upplifir sem verið sé að lumbra á miðlinum. Finnst það dónalegt. Upplifun sem alveg má skilja reyni maður að horfa á þáttinn án þess að „halda með“ öðrum hvorum. 

Annar prestur skrifar og hvetur fólk til að sniðganga Stöð 2 meðan útvarpsmaðurinn og kollegi hans ríða þar röftum.

Útvarpsmaðurinn kastar sér í grasið og grípur vælandi um hnéð (svo notuð sé fótboltalíking). Segist verða fyrir skoðanakúgun og að þetta sé verra en „arbeitsverbot“. Þetta sé greinilega tilraun til að stöðva gagnrýni hans á kirkjuna.

Þvílíkt væl. 

Höfum í huga að þetta er maðurinn sem stundar það að lúslesa internetið í leit að tilvitnunum eða athugasemdum til að hæðast að í löngum einræðum í útvarpsþættinum. Maðurinn sem búkkmarkar hluti og les svo upp með ankannalegum og grenjulegum rómi svo að hlustendur geri sér örugglega grein fyrir því hve asnalegt þetta allt er.

Og höfum annað í huga. Hver var kjarninn í því sem útvarpsmaðurinn var að segja við miðilinn? Jú, að hann væri ömurlegur og ætti að fá sér heiðarlega vinnu. Það þarf staðdeyfingu í hugsanalífið til að sjá ekki hve kjánalegt það er að fara að væla um „arbeitsverbot“ þegar maður er sjálfur búinn að gera sitt besta til að kippa fótunum undan atvinnu annarra.

Og hitt málið.

Einhverjir austurrískir gaurar mættu til landsins svo þeir gætu heimsótt vin sinn og hlustað á tónleika. Blaðamaður gerir frétt úr því að þeir taki ekki gagnrýnislaust undir mýtuna um að íslenskar konur væru þær fegurstu í heimi. Þvert á móti hafi þeir heyrt frá íslenskum vini að konurnar hér á landi væru orðnar feitar út af skyndibitaáti. 

Þetta þolir sjötta feitasta þjóð í heimi ekki að heyra. Það skal enginn komast upp með að sparka svona í heilögu kúna okkar. Af stað fer herferð þar sem konur senda mönnunum tveimur myndir af sér að gúffa í sig franskar eða pítsu og skilaboð um að þeir geti nú gleymt því að fá að ríða (eins og að það að fá að ríða íslenskum stelpum sé innifalið í heimsóknum þeirra sem koma til að hitta vini sína og hlusta á tónleika).

Við erum svoddan óttalegt þorp stundum. 

Hverskonar þjóð gerir baráttumál úr útlendingum sem segja rallhálfir (að því er virðist aðspurðir) að þeir hafi frétt að íslenskar konur væru að fitna?

Jú, smáþjóð. Smáblóm, titrandi af tilfinningaþrunga sem leitar stöðugt útrásar. 

Á meðan eru fjölmörg stórmál sem krefjast aðgerða og afstöðu. Það er verið að vinna að samkomulagi með undirsátum svínaserðisins í Bretlandi sem felur í sér stórkostleg spjöll á náttúru Íslands. Það er skipulega gengið til verks í því að reka úr landi jafnvel smábörn á flótta undan stríðsátökum. Það er verið að úthluta sameiginlegum gæðum til vildarvina valdamanna á stórkostlegum skala. 

Raunveruleg vandlæting og reiði nær þó ekki upp á yfirborðið. Vegna þess að við erum búin að sóa allri orkunni í smámuni.

Það er ekki nema von að þeir valdamestu í samfélaginu leggi töluvert á sig til að eiga og stjórna fjölmiðlum í landinu. Rétt notkun miðla gerir okkur öll að ginningarfíflum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu