Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Enn um lífeyrismál

Forysta kennara er meðvirk. Í því felst að mikilvægar ákvarðanir eru teknar af hvöt til að leysa vanda annarra – jafnvel þótt það valdi sjúklegu og óþolandi ástandi.

Nýliðunarvandi í stétt grunnskólakennara er einn slíkur vandi. Hann stafar af því að starfsskilyrði og launakjör í grunnskólum eru með öllu óásættanleg. Ungt fólk, sem hefur val, vill ekki þessi störf. Gamalt fólk, sem eftirlaunanna vegna hefur ekki kost á öðru, er neytt til að sinna þessum störfum. Kerfið allt er löngu orðið ósjálfbært og mun hrynja. Þá eru margfeldisáhrifin þegar farin að koma fram. Fagnám kennara hér á landi liggur undir skemmdum. Það er hvorki hægt að tryggja nauðsynlegt umfang þess né gæði í fjársveltu háskólakerfi þegar stúdentana vantar – hvað þá ef það er yfirlýst stefna menntayfirvalda að refsa þeim í lánskjörum sem kjósa „óarðbært“ háskólanám.

Það er síðan nokkurnveginn búið að tortíma leikskólastétt með hroðalegum kjörum. Það er örlítill fjörkippur (þó ekki verulegur) hjá framhaldsskólakennurum vegna þess að stór sneið var skorin af námi nemenda m.a. til þess að réttlæta betri kjör kennaranna – a.m.k. um hríð. Kjaramál háskólakennara eru ömurleg.

Við kennarar höfum sjálfir ekkert með ráðningarmál nýrra kennara að gera. Í grunnskólunum eru það sveitarfélögin sem eru ábyrg. Þau nota aðferðir upp úr herkænskubók hertogans af Wellington (einnig þekkt sem herkænskubók Sigmundar Davíðs) sem felast í því að fylla könnu embættismanna innan sambands sveitarfélaga af allri ábyrgð á kjarasamningum. Það er yfirlýst stefna sveitarfélaga að kjörnir fulltrúar hljóti ævinlega skjól af sambandinu vegna þess að enginn kjörinn fulltrúi mun nokkru sinni líta öðruvísi út en illa ef skoðað er í kjölin hvaða ástand er í skólum sveitarfélaga. Með því að þjappa leiguliðum sambandsins utan um kjörna fulltrúa er reynt að tryggja að aldri náist lag.

Forysta kennara er meðvirk.

Á sama tíma og grunnskólakerfið er að molna í sundur þykjast sveitarfélögin vera leikstjórnendur í gerð nýs vinnumarkaðslíkans. Nú skal útrýma kjarabaráttu og koma upp sjálfvirku kerfi færibandalaunahækkana. Til þess að svo megi verða þurfa allar stéttir opinberra starfsmanna að samþykkja að þeirra sess sé réttur til að byrja með. Það geta kennarar ekki enda eru þeir hér á landi með mun lægri laun en kennarar hafa í öðrum löndum. 

En forysta kennara rembist við að hjálpa sveitarfélögunum að ná markmiði sínu. Kennarar hafa nú í tvígang hafnað kjarasamningi sem í bæði skiptin var tilraun til að gulltryggja að þeir færu ekki fram á meiri launahækkanir en aðrir fá. Að minnsta kosti ekki það mikið meiri en svo að aðrir yrðu þess áskynja. Skyndilega á það að vera á ábyrgð kennara að sætta sig við léleg laun til að viðhalda stöðugleika á vinnumarkaði.

Stöðugleiki á vinnumarkaði er ekki á ábyrgð kennara. Og allra síst er það eðlileg krafa að kennarar tryggi stöðugleika með því að halda áfram að naga þær veiku stoðir sem enn standa undir skólakerfi sem riðar til falls. Það er aðeins meðvirkni sem fær forystu kennara til að halda að það sé hennar hlutverk að halda áfram á sömu braut.

Ein ástæða þess að grunnskólakerfið er ekki að fullu hrunið er að kennarar eru opinberir starfsmenn og njóta þess vegna lífeyriskjara sem eru betri en gengur og gerist. Það var til dæmis mikilvægt í hruninu. Þá hefðu kennarar tapað hluta lífeyris síns ef ekki kæmi til ríkisábyrgð. Að vísu hefur ríkið mjög markvisst dregið það að standa við skuldbindingar sínar gagnvart lífeyrissjóði opinberra starfsmanna en lagaskyldan er óumdeild og augljós.

Nú hefur hin meðvirka forysta kennara ákveðið að það sé hennar vandamál að leysa hinn augljósa og bráða vanda lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna. Það er ekki hægt að reka sjálfbæran lífeyrissjóð í kerfi sem endurnýjar sig ekki. Þegar engir nýir kennarar fást til starfa og engin alvöru tilraun er gerð til að bæta úr því er augljóst að ekkert lífeyriskerfi getur gengið upp. Sérstaklega ekki í þróuðu samfélagi þar sem meðalævin er enn að lengjast.

Hið opinbera ber ábyrgð á lífeyriskjörum opinberra starfsmanna og það ber líka fulla ábyrgð á því að í kennslu er því ekki til að dreifa að yngri herðar axli byrðina. Þess vegna er eini kosturinn sá að hið opinbera endi á því að greiða lífeyri starfsmanna með skattfé.

En gleymum því ekki að forysta kennara er meðvirk.

Hún telur að það sé hennar verkefni að losa hið opinbera undan þeim kvöðum sem fylgja því að skapa ósjálfbærar starfstéttir opinberra starfsmanna.

Og hún telur að henni að bera að gera það með leynd og nota aðferðir sem tryggja að málin fari ekki hátt eða veki of mikið umtal eða óánægju.

Nú hefur forysta kennara skrifað undir plagg um breytt lífeyriskjör. Forystan fullyrðir að samkomulagið sé í samræmi við umboð sitt (það er ekki satt) og að með samkomulaginu hafi réttindi starfandi kennara verið að fullu tryggð (það er ekki satt heldur).

Í fyrradag birti ég pistil um umboð stjórnar KÍ. Það er algjörlega augljóst að því hefur ekki verið fylgt. Þar voru sett tvenn skilyrði fyrir breytingu á lífeyriskjörum: 1) að réttindi starfandi kennara væru að fullu tryggð og 2) að laun yrðu samtímis hækkuð til að jafna þann króníska launamun sem hingað til hefur tryggt að opinberir starfsmenn sitja skör neðar en annað fólk í launum.

Seinna skilyrðið fékkst ekki uppfyllt. Þvert á móti er ekkert því til fyrirstöðu að laun kennara haldi áfram að vera léleg. Það er meira að segja kveðið á um það í samkomulaginu að það sé eðlilegt að einhverjar stéttir fái áfram of lág laun. Og hvaða stéttir skyldu vera líklegastar til að verða undir í þeirri slagsmálakös? Ætli það sé ekki nokkuð skynsamlegur kostur að álykta að þeir sem hingað til hafa orðið undir séu líklegastir til að verða það áfram.

Raunin er reyndar sú að hvorugt skilyrðið er uppfyllt. Það er nefnilega ekki tryggt að öllu leyti að réttindi kennara haldi sér verði nýja kerfið að veruleika.

Fyrir nokkrum árum varð hér hrun. Hrunið varð sannarlega ekki af þeirri ástæðu að kennarar væru oflaunaðir þenslupúkar. En lífeyrissjóður þeirra fékk nokkrar skammir eftir hrunið fyrir að hafa látið teyma sig út í vondar fjárfestingar. Að minnsta kosti tapaðist töluvert fé sem enn jók vanda sjóðsins.

Til allrar hamingju fyrir okkur kennara er hið opinbera ábyrgt og þarf því að bæta okkur tapið. Það er gríðarlega mikilvægur réttur.

Nýja samkomulagið tryggir aðeins kjör okkar upp að því marki að hér verði aldrei annað hrun.

Lífeyrissjóðurinn fær tjakk undir sig frá hin opinbera til að bæta að mestu fyrir það hve aldurssamsetningin er skökk. En til að sjóðurinn hrynji ekki er gert ráð fyrir því að hann muni aldrei þurfa að standa af sér vind. 

Hefði hrunið orðið eftir 10 ár en ekki fyrir þessar breytingar hefði sjóðurinn orðið að skerða lífeyrisgreiðslur og/eða hækka iðgjöld. 

Verði hér annað hrun verður ekki hægt að standa við skuldbindingar sjóðsins gagnvart núverandi starfsmönnum. 

Forysta kennara er búin að semja um það að kennarar taki hér eftir á sig bæði ábyrgð og áhættu á því að efnahagsmál á Íslandi haldi sig réttu megin striksins. 

Fyrir einstakling eins og mig sem á eftir þrjátíu ár við störf er það ónotaleg tilhugsun. 

Það er ekki spurning að maður eins og ég sem á rétt á því að hið opinbera tryggi lífeyri minn er verr settur ef kerfinu er breytt þannig að ég njóti engra slíkra trygginga.

Þess vegna er það rangt að samkomulagið tryggi réttindi mín. Það gerir það aðeins svo lengi sem sjóðurinn lendir ekki í verulegum vandræðum við að standa við þau.

„Sjötta þing Kennarasambands Íslands haldið í Reykjavík dagana 1. - 4. apríl 2014 leggur áherslu á að skilyrði KÍ fyrir þátttöku í þessari vinnu sé að réttindi núverandi sjóðsfélaga í A- og B-deild LSR og sjóðsfélaga í sambærilegum deildum sjóða sveitarfélaganna verði ekki skert. Ennfremur áréttar þingið að komi til þess að sátt náist um nýtt kerfi sem byggir á framangreindum forsendum sé nauðsynlegt að mat verði lagt á launakjör starfsmanna milli markaða og þau jöfnuð samtímis breytingunni.“

Hér eru sett tvenn skilyrði fyrir þátttöku kennara í breytingu á lífeyriskjörum. Þau eru bæði svikin.

Ef forysta kennara væri ekki svona meðvirk hefði hún neitað að skrifa undir.  

Forysta kennara mun samt reyna að sannfæra kennara um að hún hafi staðið við bæði skilyrðin. Hún mun segja að jöfnun launa (samtímis breytingunni) sé falin í þessu:

„Til að ná þeim markmiðum að leiðrétta laun milli markaða skal settur á fót samráðshópur skipaður þremur fulltrúum heildarsamtaka opinberra starfsmanna og þremur fulltrúum launagreiðenda. Samráðshópurinn skal setja fram tillögur að áætlun um hvernig markmiðum um jöfnun launa skal náð með útfærslu í kjarasamningi á 6 - 10 árum. Hópurinn skal einnig fylgja eftir framkvæmdinni. Á grundvelli þeirra kjarasamninga munu ríki og sveitarfélög skuldbinda sig til að leggja til fjármuni svo sett markmið náist á tilsettum tíma. Er upp kemur óleysanlegur ágreiningur skal hann útkljáður í kjarasamningsviðræðum.“

Þetta er bara alls ekki það sama. Hefði samkomulagið núna falið í sér að svona hópur væri skipaður og að 6 - 10 árum liðnum væri gerð úttekt á því hvort jöfnuður launa hefði orðið að veruleika og þá yrði gert samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda – þá hefði mátt segja að þessu skilyrði hefði verið fullnægt. En sú framkvæmd er einfaldlega allt önnur.

Forysta kennara mun líka segja að réttindi sjóðsfélaga séu að fullu tryggð með þessu ákvæði:

„Komi í ljós að varúðarsjóðurinn geti ekki staðið við hlutverk sitt, þ.e. ef eign sjóðsins dugar ekki til að styðja þannig við Lífeyrisaukasjóð að komist verði hjá skerðingu á greiðslum úr honum, skuldbinda launagreiðendur sig til að...“

 Hvað heldur þú, lesandi góður, að komi næst? Hvað skuldbindur hið opinbera sig til að gera ef í ljós kemur að sjóðurinn á svo lítið fé að skerða þarf lífeyri gamla fólksins?

„...taka upp viðræður við heildarsamtök opinberra starfsmanna...“

Já, einmitt það?

Ef sjóðurinn á ekki fyrir lífeyri verður ekki lengur trygging fyrir því að fólk fái lífeyrinn sinn, í stað þess kemur loforð um viðræður.

Og í hverju felast þessar viðræður?

„...um hvernig við því [þeirri staðreynd að skerða þarf greiðslur] verði brugðist. Í þeim viðræðum skal lagt mat á hvort þær tryggingafræðilegu forsendur sem byggt er á við ákvörðun á framlagi í Lífeyrisaukasjóð, svo sem forsendur varðandi útreikning á lífslíkum, hafi leitt til vanmats á fjárþörf sjóðsins. Verði það niðurstaðan skal brugðist við þannig að markmið samkomulags þessa um jafn verðmæt réttindi sjóðsfélaga séu tryggð.“

Sem sagt. Ef sjóðurinn lendir í fjárskorti vegna þess að Kári Stefánsson finnur upp lækningu á krabbameini þá skuldbindur hið opinbera sig til að bæta við fjármunum. En ef sjóðurinn lendir í fjárskorti vegna kreppu eða vondra fjárfestinga (aftur) munu greiðslur til lífeyrisþega skerðast án trygginga.

Hvort skyldi nú vera líklegra?

Rök forystu sveitarfélaga fyrir því að samt hafi verið rétt að skrifa undir eru einföld. Ef gengið er á hana viðurkennir hún alveg að með breytingunni missum við trygginguna og að jöfnun launa sé alls ekki í höfn. En hún bendir einfaldlega á að opinberir starfsmenn sitji ekki við eðlilegt samningaborð. Stjórnmálamenn stjórni hinu opinbera – og stjórnmálamenn hafi lagasetningarvaldið. Þeir geti hvenær sem er breytt leikreglunum og gert alla samninga óþarft.

Þessi samningur er enda aðeins einn enn af mörgum sem í sögu kennarastéttarinnar hljóta að lenda í kafla sem ber heitið „Skipulagt undanhald“. Það er enda svo að öll kjarabarátta okkar síðustu árin hefur farið fram undir skugga hótana um valdbeitingu gegn okkur.

Og staðan hefur líklega aldrei verið verri. 

Raunar er staðan orðin svo dapurleg að eina fólkið sem maður heyrir reyna að réttlæta þá leiki sem tefldir hafa verið í stöðunni upp á síðkastið er fólk með það sem kalla mætti happaþrennuhugarfar. Það er fólk sem segir að maður verði að gera eitthvað og að sá sem gefi á sér höggstað sé auðvitað um leið að opna á knús. Skiptir þá engu þótt menn hafi verið barðir í hvert einasta skipti sem þeir hafa opnað faðminn hingað til.

Nú er sú staða komin upp að verulegur fjöldi kennara vill bara fá að klára ferilinn og komast í skjól áður en skipið sekkur endanlega. Þeir vilja ekkert vesen. Ætla bara að þrauka. Annar hópur vill engin átök af þeirri einföldu ástæðu að fjölmargir kennarar eru fátæklingar. Verkföll myndu setja mörg okkar endanlega á hausinn. 

Aðrir geta ekki beðið eftir átökum. Þeir eru tilbúnir að kippa botnneglunni úr dallinum og láta menntakerfið sökkva. 

Vandinn við það er að hið opinbera hefur sýnt að það er algjörlega dofið gagnvart eigin ábyrgð. Meira að segja sveltandi börn í skólum Reykjavíkur stöðvuðu borgaryfirvöld ekki í því að hamast með niðurskurðarhnífnum á skólunum. Þeir hefðu haldið áfram að skera þar til kerfið hefði verið dautt.

Ástæða þess að skólarnir í Reykjavík sluppu við náðarhöggið var ekki metnaður eða ábyrgðarkennd hins opinbera.

Ástæðan var skortur stjórnenda skólanna á meðvirkni.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni