Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Kjósum friðarmenningu hverja stund

Það þarf engar málalengingar, lífið á að vera án hlekkja, landamæra, ánauðar, flokkunar, bása, án haturs. Enga útúrsnúninga þarf, enga útreikninga eða hártoganir, aðeins eitt viðmið:

Við erum öll manneskjur.

Friðarmenning felst ekki aðeins í því að vinna gegn stríði. Hún er margfalt meira, hún felst í því að efla ákveðin gildi og rækta ákveðnar tilfinningar. Hún felst í því að koma í veg fyrir aðskilnað, heift, heimsku, hatur og að draga úr líkum á félagslegu óréttlæti.

Ég hlustaði á Tawakkol Karman , Unni Krishnan Karunakara og Faten Mahdi Al-Hussaini flytja erindi í friðarráðstefnunni The Imagine Forum í Veröld – húsi Vigdísar, í boði Höfða friðarseturs sem Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands starfrækja. Það var áhrifaríkt og gefandi í alla staði.

Allt mál þeirra var kjarnyrt og laust við þvælu og útúrsnúninga. Þau hafa öll staðið frammi fyrir ógnunum og gert skýran greinarmun á réttu og röngu.

Áður og nú

Áður fyrr var leiðtogum treyst til að friðmælast við nágranna sína með því að hræða þá eða búa til eitthvað sem hét vopnahlé. En nú á tímum er það fólkið sjálft sem getur tekið völdin og skapað frið af eigin mætti, með berum höndum, án vopna. Þetta ervfólk sem þekkir drauma sína og vill láta þá rætast.

Upplýsinga- og fjölmiðlafrelsi er grunnur sem lýðræðið stendur á og enginn má taka það frá fólkinu. Takmörkun þess er ávísun á kúgun og ofbeldi. Enginn ætti að búast við að aðrir bjargi heiminum, við verðum sjálf að standa vörð um hann.
Það er mannúðin sem alltaf gildir.

Fólk er ekki skapað til að þjást

Það getur gengið á ýmsu slæmu en gleymum því aldrei að fólk er ekki skapað til að þjást. Stefnur og leiðtogar koma og fara, en valdið getur einnig verið hjá fólkinu sjálfu, það getur tekið það, ef nauðsyn krefur. Það er enginn vafi.

„Við erum ekki alveg viss um hvort að orð geti bjargað lífi, en vitum fyrir víst að þögn getur vissulega drepið,“ James Orbinski, 1999.

Fólk er ekki skilgreint út frá merð eða straumi eins og flóttamannastraumi. Fólk er fólk jafnvel þótt það búi við forheimsku stríðs og átaka sem einhverjir aðrir skapa. Enginn glatar mannréttindum sínum þótt hann týnist um stund í svokölluðum „straumi“ og enginn gefur þau eftir þótt hann tilheyri hópi um stund.

Hjálpsemi getur vissulega verið gölluð – sérstaklega ef hún snýst um síðbúin einkenni en ekki djúpar rætur. En friðarmenning felst í því að hlúa að veikustu þáttum samfélagsins og ráðast að rótum vandans sem oft er falinn í fátækt, óréttlæti, efnahagslegu misrétti, pólitík og félagslegum aðstæðum sem vekja hatur, deilur og ofbeldi. Friðarmenning er ekki vopnahlé eða ógnarjafnvægi. Hún er mennska.

Þakka ber Guðrúnu Hálfdánardóttur blaðamanni á mbl.is fyrir að skrifa ítarlega um erindi þeirra og Kristni Ingvarssyni ljósmyndara hjá Háskóla Íslands fyrir myndatökuna. Hér má finna greinar Guðrúnar:

Tawakkol Karman
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/10/10/ord_eru_sterkari_en_ofbeldi/

Faten Mahdi Al-Hussaini
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/10/10/af_hverju_er_hatrid_svona_mikid/

Unni Krishnan Karunakara
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/10/11/vid_erum_ad_tala_um_folk/

Ljósmynd með grein: Kristinn Ingvarsson

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu